Þjóðfundur 2009 - fimm dagar

thjodfundur_logo_undirtitill_270x120 Það er farið að styttast í Þjóðfundinn. Mér finnst næstum eins og ég sé að telja niður í jólin en samt eitthvað miklu meira. Ég trúi nefnilega að þjóðfundurinn sé svo merkilegt fyrirbæri að í framtíðinni eigi hann eftir að rata í sögubækur. Dagsetningin eigi eftir að stimplast inn hjá þjóðinni, fjórtándi nóvember 2009. Á miðjum frostavetri 1918, þann 1. desember fékk þjóðin fullveldi. Spánska veikin nýbúin að fara eins og eldur um sinu og hafði lagt fjölda fólks af velli. Fólk var í sárum en það gaf sér tíma til að mæta fyrir framan stjórnaráðið til að verða vitni að þessari merku stund. Okkar vetur er fallegur og frosthörkur hafa ekki náð tökum á þjóðinni eða þjóðarsálinni þrátt fyrir allt. Þjóðfundurinn er hluti af því vori sem við eigum í vændum. 

Á þjóðfundi

Á Þjóðfundi gefast tækifæri til að ræða um þau gildi sem við leggjum til grundvallar í lífinu hvert og eitt. Og við fáum tækifæri til að heyra um þau gildi sem aðrir leggja áherslu á sínu lífi. Við fáum líka tækifæri til að ræða þessi gildi og komast að einhverri niðurstöðu það hvaða gildi skipta okkur máli sameiginlega.  En það er ekki allt, við fáum líka tækifæri til að varpa fram hugmyndum okkar að þeim stoðum sem við veljum að samfélag okkar byggi á. Hverskonar samfélag við viljum vera þátttakendur í. Hvers konar atvinnulíf viljum við sjá blómstra, hvers konar menntakerfi eða heilbrigðiskerfi, hvað með sjálfbærni og umhverfismál. Hvernig samfélagi viljum við skila til barna okkar og hvernig samfélagi viljum við eldast í, já eða foreldrar okkar og afar og ömmur.  Við fáum tækifæri til að ræða þetta allt á fundinum. Við fáum tækifæri til að velja á milli þeirra hugmynda sem okkur þykja markverðastar. En samtímis vita að það verður haldið utan um allar hugmyndir.

Það er nefnilega þannig að allar hugmyndir sem koma fram á fundinum verða færðar til bókar og þær opnaðar öllum  sem vilja til að skoða (vefsíða) það verður til gríðarlegur gagnabanki á fundinum, gagnabanki sem á eftir að vera fræðimönnum viðfangsefni næstu árin og kannski hundrað árin. Það verður merkilegt að skoða eftir 10 ár hvað var Íslendingum efst í huga ár eftir hrun. Hver var þeirra framtíðarsýn og hversu nálægt henni verður samfélagið þá.

Mér finnst líka mikilvægt að segja frá því að stefnt er að því að vinna úr öllum niðurstöðum á fundinum, þannig að þegar fundi lýkur liggur fyrir vilji þversniðs þjóðarinnar. En það er ekki allt því að í heilt ár á eftir veður hugmyndum fundarins fylgt eftir með fundum og verkefnum.

Það er kjarkmikið fólk sem lagði af stað með hugmynd, vegna þess að það veit sem er að allt sem þarf er hugmynd og vilji. Þessu fólki sem hefur lagt nótt við nýtan dag til að vinna að framgangi Þjóðfundarins og trúaða á verkefnið vil ég færa mínar bestu þakkir. Takk fyrir að hafa vilja, trú og þor. 

 

 Þjóðfundur 2009 vefsíða
mbl.is Þjóðfundurinn vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband