6.6.2007 | 12:26
Skráning skiptir máli
Frábært að sjá þessa frétt. Fór og skoðaði þá dönsku. Vildi vita hverskonar skráningar þeir væru að ræða um. Þar er rætt um að gera skráningu á uppeldisstarfinu. Ég hef sem betur fer ekki orðið vör við að hérlendis sé neikvæð umræða um þennan þátt starfs leikskólakennara. Þvert á móti tel ég að leikskólinn sé faglega mikils metinn í samfélaginu.
Við Háskólann á Akureyri og í KHÍ er kennd uppeldisfræðileg skráning (Pedagogic Documentation). Rannsóknir hafa sýnt að þróun leikskólastarfs liggur að miklu í þessari tegund skráninga. Hún styrkir leikskólakennara, hún sýnir þeim hvernig börn nema og hvar styrkur þeirra liggur. Ég hef í tveimur bloggum hér að neðan fjallað um slíkar skráningar.
Listir og eðlisfræði í leikskólum - uppeldisfræðileg skráning notuð sem tæki til að lýsa því sem þar gerðist og svo blogaði ég um skráningar sem þróunartæki.
Jafnframt er gaman að geta þess að leikskólinn Fagrabrekka í Kópavogi sem starfar í anda Reggio Emilia fékk styrk úr þróunarsjóði leikskóla til að vinna úr skráningarverkefni sem náði yfir heilt ár. Verkefni um fjögurra ára börn sem hönnuðu og saumuðu kjól frá grunni, (og það sem er svo dásamlegt við skráningarnar er að á myndunum sést vel að þetta er verk barnanna). Annar leikskóli sem hefur verið að skrá starfið sitt er leikskólinn Sæborg í Reykjavík en um starfið þar var gerð heimildarmynd í fyrra.
![]() |
Pappírsvinnan ekki til einskis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.6.2007 | 17:22
Strokað yfir einstaklinginn
Fyrir nokkru hlustaði ég á fyrirlestur félagsfræðings sem sagði frá ferðalagi sínu til Pakistans. Hann sagðist hafa ferðast þar með rútu um héruð. Einn áningarstaðurinn var við akur þar sem konur unnu í litskrúðugum saríum. Fólkið sem var með honum varð mjög uppnumið og ræddi um hvað þetta væri mikið óskapalega falleg sjón. Félagsfræðingurinn sagði þá, "já en tókuð þið eftir mönnunum í þorpinu sem við vorum að fara í gegn um?" "Já, já" sagði fólkið. Tókuð þið eftir hvernig þeir voru klæddir? Spurði hann. "Já, já" sagði fólkið "í einlitum kakífötum". "Einmitt" sagði félagsfræðingurinn, "þannig geta þeir betur fylgst með fólkinu á ökrunum sem er gert áberandi í litskrúðugu fötunum sínum á meðan þeir eru klæddir felulitum."
Báðir hópar voru þannig í einkennisbúning, sem þjónuðu ákveðnum en samtímis földum tilgangi. Alveg eins og ég held að það þjóni földum tilgangi að klæða börn í leikskólabúninga. Og í guðanna bænum forðið mér frá rökum um einfaldara líf fyrir foreldra og minna einelti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.5.2007 | 19:49
Listir og eðlisfræði í leikskóla
Síðustu tvær vikur hafa verið ótrúlega skemmtilegar og gefandi. Ég var að ljúka kennslu á sumarönn leikskólakennaranema við Háskólann á Akureyri. Ég er svo heppin að fá að kenna og hafa umsjón með námskeiði sem er tengin á milli nokkurra greina. Í námskeiðinu kenna, börn og starfsfólk leikskóla, starfandi fjöllistakona á Akureyri og prófessor í eðlisfræði við HA. Námskeiðið er hugsað til að tengja saman skapandi starf og raunvísindi. Sérstaklega leggjum við áherslu á stærðfræði og eðlisfræði, og útfærum verkefni þeim tengd í gegn um skapandi starf. Tengjum saman í leik listgreinar og raungreinar.
Það sem alltaf gleður mig jafnmikið og styrkir trú mína á getu barna eru þær AHA upplifanir sem ég verð vitni að, sú gleði sem ég sé og skynja hjá börnunum. Sú ótrúlega einbeiting sem á sér stað og það að þarna taka allir þátt á eigin forsendum.
Ég var svo heppin að ná mynd af einu svona AHA andartaki reyndar mitt eigið AHA. Þannig var að nokkur börn á Iðavelli höfðu verið að spá í flotkraft og verið með ýmislegt úr sínu nánasta umhverfi til að skoða hvað flýtur og sekkur þau höfðu líka verið að spá í hvernig ýmis efni taka misjafnlega hratt í sig lit (rauðan í þessu tilfelli)eða taka engan lit. Eftir að hafa skoðað þetta í góða stund og sett fram ýmsar tilgátur athuguðu þau hvort þær stæðust. Komust t.d. að því að sykurmolar ekki bara sökkva heldur leystast líka upp. Á eftir færðu þau sig svo yfir á myndvarpa og skoðuðu sömu hluti þar. Ég spyr hvernig standi á því að pastaslaufan á myndvarpanum er ekki bleik á veggnum. Mín hugmynd var að leiða þau í umræður um hluti sem hleypa ljósi í gegn um sig og eðli skugga. Nema stúlka á fimmta ári tekur þá pastaslaufuna af myndvarpanum gengur yfir að veggnum og segir sjáðu núna er hún bleik. Í framhaldi fóru börnin að vinna með það sem var á veggnum samtímis því sem var á myndvarpanum.
Annað svona dæmi tengist heimsókn barna af Lundarseli í listgreinastofu Háskólans á Akureyri sl. föstudag. Ein af þeim vinnustöðvum sem við settum upp var myrkrarými til að skoða með vasaljósi. Inn í rýmið höfðum við fest ýmislegt sem gaf frá sér mismunandi endurvarp þegar ljósgeisli lenti á því og nokkrar handbrúður. Fyrir framan þetta litla rými var önnur vinnustöð sem tengdist rafmagni. Það leið ekki langur tími þangað til börnin uppgötuðu og fóru að búa til sína "eigin ljósgjafa" úr gömlum jólaseríum og fara með inn til að skoða. Svo heyrðist æi nú datt þetta í sundur og þá þurfti að koma fram og tengja upp á nýtt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.5.2007 kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2007 | 17:23
Viðunandi vinnuaðstæður!
Ég hjó sérstaklega eftir í gær þegar fjallað var um fréttir af Kárahnjúkum frá Portúgal að talsmaður Impregilo á Íslandi sagði aðstæður þar vera viðunandi- hann sagði ekki góðar, ekki frábærar, ekki alveg til fyrirmyndar, nei hann sagði viðunandi.
Hvað er viðunandi? Á 6 áratugnum þóttu aðstæður á Breiðavík vera viðunandi, það þykir viðunandi að svona og svona margir eru á biðlistum, það þykir viðunandi að 80% séu t.d. almennt ánægðir með tiltekna þjónustu. Viðunandi merkir í mínum huga eitthvað sem er ekki nógu gott en hægt að lifa við - er það þær kröfur sem Impregilo gerir fyrir hönd síns fólks, getur Landsvirkjun fyrir hönd íslensku þjóðarinnar fallist á að vinnuaðstæður séu bara viðunandi?
21.5.2007 | 18:06
Dagur á Iðavelli
Eitt þeirra verkefna sem mikla athygli vakti var "gjósandi eldfjall". "og svo sprakk það, alla leið upp í loft upp í ljósið" sagði Ingi og hló og hló. En valdi svo að færa sig á öruggari stað áður en græna eldgosið hófst aftur. Særún vildi vera viðstödd tilraunir með eðlisþyngd og skráði allt nákvæmlega hjá sér í litla bók. Fyrir aftan hana sat háskólanemi og skráði líka nákvæmlega .
Særún náði í fjarstýringu og beindi henni að mér og setti mig í gang. Ég sagði í gegn um op á pappakassa hvað væri helst í fréttum. Það sem var helst í fréttum þennan dag á Iðavelli var heimsókn leikskólakennaranema frá háskólanum á Akureyri.
"Hvort er þyngra hestur eða lamb?" spurði annað barn og lét þau svo vega salt. Hvort skyldi hafa verið þyngra? Hvað gerist ef ég set rauðan lit saman við gulan? Spurði Anna. "Sjáðu, sjáðu það er hægt að breyta nagla í segul" heyrðist einhverstaðar.
Svona förum við að því að styrkja rannsóknareðli barna sagði Arna Valsdóttir vin- og samstarfskona mín einu sinni og sannarlega hefur hún rétt fyrir sér. Takk fyrir börn og starfsfólk á Iðavelli. Þið eruð alltaf yndisleg.
Á morgun á ég annan jafn skemmtilegan dag fyrir höndum - ég get vart beðið.
20.5.2007 | 21:59
Magga Pála flott í Kastljósinu
Það verður ekki af Möggu Pálu skafið hún starfar af ástríðu. Horfði á Kastljósið áðan og verð að viðurkenna að mér finnst persónan Magga Pála alltaf jafn áhugaverð og skemmtileg. Hvað svo sem mér finnst annars um hugmyndafræði hennar.
Ég sagði við Lilló áðan að það væri nú fyndið hvað við ættum þrátt fyrir allt margt sameiginlegt miðað við það hugmyndafræðilega gap sem á milli okkar er. Stundum notum við meira að segja sömu rökin og jafnvel svipaðar myndlíkingar en komust að mjög svo ólíkum niðurstöðum. Eitthvað var það sem hún sagði sem Lilló fattaði ekki alveg en ég sagði, "æi allir leikskólakennarar vita hvað hún er að tala um". Þrátt fyrir allan hugmyndafræðilegan mismun slær leikskólahjartað sterkt og skilur slátt annars slíks hjarta.
Lýsingar hennar á fyrstu dögum í starfi í leikskóla voru eins og talaðar úr mínu hjarta - lýsing hennar á þeirri gjöf sem það er sálinni að sjá barn gleðjast - sjá barn þroskast kölluðu fram sömu tilfinningar hjá mér og sennilega allmörgum leikskólakennurum. Og við brosum hringinn.
Ég veit að ef Magga Pála hugsar einhvertíma til mín (sem ég á nú ekkert sérstaklega von á) þá vonar hún sennilega að ég taki sönsum og sjái gildi hjallastefnunnar sem verður seint. Á sama hátt vona ég að hún sjái þá galla sem ég sé á henni, sem líka gerist seint. Sennilegast er að höldum áfram að vera sammála um að vera ósammála.
15.5.2007 | 19:59
Af ávöxtunum skulum vér þekkja þá
Fyndin forsjárhyggja hjá hinu nýja leikskólaráði í Reykjavík. Búið að birta lista með fallegum litmyndum af æskilegum berjum og ávöxtum sem leyfast í leikskólaparadís. Sérstaklega þegar börnin kveðja hana.
Þar má borða, bláber og kíví, jarðaber og appelsínur. Ekkert traust til leikskólastjóra - ekki treystandi til að ákveða hvað má borða í veislum barnanna.
ps. Það má líka borða frostpinna og kanilsnúða.
Er þetta ekki dæmalaus og í leiðinni pínlegur texti:
Minnt skal á að skammtastærðir eru ekki síður mikilvægar en það sem er á boðstólum og er mjög mikilvægt að skammta hæfilega t.d. þegar boðið er upp á súkkulaðiköku.
Ef fleiri en ein tegund veitinga er á boðstólum er æskilegast að þar á meðal séu ávallt ávextir, ber eða grænmeti. Ef ávextir og grænmeti eru skorin í hæfilega munnbita eru meiri líkur á að börnin borði vel af þeim.
... ekki er mælt gegn því að afmælisbörnin fái þá verðskulduðu athygli sem fylgir hverjum afmælisdegi. Væri til dæmis hægt að bjóða upp á ávexti á sjálfan afmælisdaginn og fylgir þeim venjum sem tíðkast á afmælisdögum s.s. að hafa kórónu, fána o.d.frv.á sjálfan afmælisdaginn og svo kæmi "afmæliskakan" einu sinni í mánuði
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)