Einhverfudagurinn er dagurinn hans Spencers Þórs

Það er dagur einhverfra í dag. Í okkar fjölskyldu er ungur maður með einhverfu, hann elskar útiveru og hreyfingu, en líka tölvur og Disneymyndir. Hann hefur frábært jafnvægi og er góður á línuskautum og skíðum, en líka að synda. Hann hleypur eins og vindurinn, og við móð og másandi á eftir honum. Hann getur nefnilega "gufað" upp ef samferðafólkið er ekki vakandi. Hann elskar að heimsækja Space Needel og situr þá löngum stundum á sama stað, horfir í gegn um sömu rimlana á báta sigla fyrir utan borgina. Pabbi hans á mótorhjól og að sitja aftan á og þeysast umhverfis Puget sound er eitt það skemmtilegasta sem hann veit. Þegar hann var yngri undi hann löngum stundum við að spila eigin tónlist á hljómborð.

Hann er löngu vaxinn okkur upp yfir höfuð og þegar við hittumst kreistir hann okkur fast. Hann er kominn með skeggbrodda og pabbi hans hjálpar honum að raka þá í sturtunni. Hann er kreðsinn á mat og vill alls ekki borða allt. Hann er sólginn í harðfisk.

Vikulega hittum við hann á skype og þá vill að að við Lilló sitjum bæði fyrir framan tölvuna, ef ég er ekki komin, þá heyrist með hans sérstöku rödd og áherslum, KriStin, KrisStin. Í skype segjum við honum að við elskum hann og hann sýnir okkur myndirnar sem hann er að teikna. Hann á orð en fyrir okkur virka þau oftast samhengislaus. En ekki alltaf og hann endar alltaf samtölin við okkur með þvi að segja að hann elski okkur.

Stundum þylur hann upp romsur og hann kann heilar bíómyndir utan að. Nýlega var hann að gera alla vitlausa með því að þylja upp eintómar talnarunur. Svo fann pabbi hans út að hann var búinn að umsnúa stafrófinu. Hann var að stafa heilar setningar. Hann er læs og skrifandi og hann er reiknishaus.

Pabbi hans sagði kennurunum frá að Spencer væri í raun að tjá sig með tölunum. Hann er í bekk með fleiri krökkum með einhverfu, dag einn var hann að bora í nefið. Kennarinn skrifaði upp á töflu með tölustöfum, Spencer hættu að bora í nefið. Og uppskar skæran hlátur.

Spencer Þór hefur auðgað líf okkar síðustu 16 ár og við elskum hann skilyrðislaust.


Mikil eftirspurn - lítið framboð. Fælum þessa fáu frá

því miður mátti búast við því að leikskólakennarar segðu upp hjá borginni. Það er erfitt og kannski alveg ástæðuslaust að láta bjóða sér upp á  aðferðafræði borgarinnar. Satt best að segja er ég mest hissa yfir að fleiri hafi ekki gert það sama. Það vill svo til að það er mun meiri eftirspurn eftir leikskólakennurum en framboð, það á líka við um næstu bæjarfélög. Þeir leikskólakennarar sem ákveða að senda inn uppsagnarbréf hafa því úr nógu að velja.

Ég græt hins vegar fyrir hönd barnanna í borginni. Þeirra missir verður mestur. Það er vont að sjá á eftir því fagfólki sem hefur leitt starfið (gegnum súrt og sætt, en aðallega súrt). Það er vont að sjá á eftir fagþekkingu og reynslu, það er vont að sjá á eftir stöðuleika (leikskólakennarar eru nefnilega minna líklegir til að skipta um starf og eða vera veikir).

Borg sem ætlar að kenna sig við fjölskyldugildi verður að huga að þeim sem eiga að standa undir þeim gildum með henni. Leikskólakennarar eru án efa í þeim hópi.


mbl.is Leikskólakennarar segja upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áskoranir og ævintýr - útinám barn í þéttbýli

Ráðstefna um útinám barna og náttúrlega leikvelli verður haldin í húsnæði menntavísindasviðs HÍ frá 31. maí til 2. júní. Á ráðstefnunni munu fjöldi innlendra og erlendra sérfræðinga um útinám og leikvelli halda erindi og vera með vinnustofur. Heimasíða um  m.a. fyrirlesara og dagskrá hefur verið sett upp.

Aðalhvatamaður að ráðstefnunni er George Hollanders sem hefur verið óþreytandi að halda málefninu á lofti og sett sig í samband við fólk um alla Evrópu. Ráðstefnan er einstakt tækifæri fyrir alla sem áhuga hafa á velferð barna og okkar allra til framtiðar að hittast og deila reynslu.

Ég hvet alla til að kynna sér heimasíðuna og huga að því að taka dagana frá.   

https://utinam.hi.is/


Hliðarsjálfið

Ég hef haldið úti þessari bloggsíðu frá því snemma árs 2007, stundum hef ég verið virk og stundum minna virk í skrifum mínum. Hér hef ég deilt ýmsu úr mínu persónulega lífi, skoðunum mínum á mönnum og málefnum. Hér er ég oftast verulega pólitísk. Hinsvegar hef ég lengi átt mér þann draum að búa mér til síðu þar sem ég geymi "bara" leikskólatengt efni á. Ég ákvað að láta slag standa og útbjó mér hliðarblogg við þessa síðu. Á nýju síðunni ælta ég að setja ýmislegt efni, frá mér og öðrum sem MÉR finnst áhugavert og vil koma á framfæri við fleiri.

Nýja bloggsíðan er auðvitað enn á brauðfótum en ég vona að mér gefist tími i sumar til að fylla betur út í hana. Ég vona auðvitað að hún eigi eftir að gagnast leikskólafólki og kannski áhugasömum foreldrum. Hef til dæmis hugsað mér að einn flokkurinn þar fjalli um samstarf foreldra og leikskóla.

Fyrir áhugasama þá er slóðin á nýju síðuna sem heitir Leikskólalaupur http://leikskolabanki.blog.is/blog/leikskolabanki/


Að tengja saman

Fyrir margt löngu var ég spurð hvernig ég skilgreindi sjálfa mig. Ég sagðist vera tengill, það er manneskja sem væri flínk í að tengja saman fólk við fólk og fólk við hugmyndir. Ég fékk stuttan tíma til að hugsa mig um og þetta var það skásta sem ég ég kom upp með. Reyndar er ég á því að þetta sé í sjáflu sér nokkuð rétt. Í vikunni ákvað ég að nýta mér samskiptamiðilinn fésbók og búa til svona tengla síðu. Ég ákvað að búa til síðu sem tengir leikskólaáhugafólk við hugmyndir út í hinum stóra heimi og í okkar litla heimi.

Ég held að ég sé ekkert sérstaklega að ýkja þegar ég segist vera einn helsti sérfræðingur landsins um leikskólamál. Eftir að hafa verið virk innan leikskólaheimsins í næstum 35 ár hefur safnast upp hjá mér reynsla sem ég er vel aflögufær af en svo er ég svo heppin að vera endalaust forvitin og því heldur áfram að safnast í reynsluhólfið. Yfirleitt á ég nokkuð gott með að ræða við alla sem verður auðvitað til þess að ég fæ margt að vita. Vissulega hef ég líka sterkar skoðanir og ekki alltaf að allir séu sammála mér enda þarf fólk ekkert að vera það. En þrátt fyrir að vera ekki alltaf í alfaraleið með skoðanir hefur  mér nú tekist ágætleg að lynda við flesta leikskólakennara. Kannski af því að það er hægt að fá mig til að skipta um skoðun. En kannski aðallega vegna þess að við eigum flestir sameiginlegt áhugamál sem við getum sameinast um, nefnilega heill og framtíð leikskólans og leikskólabarna og það er ekki svo lítið.

En svo ég snúi mér aftur að fésbókarsíðunni. Á henni er ætlunin að safna áhugaverðum myndböndum, heimasíðum og greinum. Hugmyndin er að búa til flokk (status) og undir honum sem ummæli slóðir inn á ýmsar síður. Þegar eru komnir flokkar um útinám, náttúruleg leiksvæði, rannsóknir, einhverfu, sjálfbærni, sköpun, náttúrfræði, læsi, leik barna, karlmenn í leikskólum og fleira og fleira. Nú þegar eru yfir 450 skráðir á síðuna. Hún er opin öllum og vona ég að hún nýtist sem flestum.

Hér er slóðin Leikur og leikskólastarf og hvaðeina


sjá það mögulega í því ómögulega

Menning er vaxtarbroddur þjóðar og þjóð sem hefur ekki efni á menningu hefur ekki efni á að vera til. Samfélagið speglast í listunum. Þar er bæði fegurð og ljótleiki er túlkaður. Þar er það "sagt" sem hinir ýmsu rýnendur í þjóðfélagið þora ekki að segja eða bara koma ekki auga á. 

Listin leitast við að sjá öðruvísi tengingar, nýjar tengingar, tengja á milli ólíkra sviða mannlífsins og líka við hin ýmsu svið fræðanna. Hún hjápar okkur að hugsa, vera til, hún er bæði tilgangur og leið. Það er hennar að sjá til þess að við ræktum mennskuna í okkur. Hún gerir okkur mögulegt að sjá það mögulega í því ómögulega. Við þurfum sköpunarkraft til að þróa samfélagið, til að sjá ný tækifæri, til að átta okkur á hvernig vð getum best búið saman hér á jörð.

Ef við kremjum knúp sköpunarkraftsins er okkur sem þjóð hætta búin. Þess vegna þurfum við á listunum að halda og þess vegna eigum við að vera með hin ýmsu listamannalaun og veita þau stolt og glöð. Listin er þegar upp er staðið það sem skilur okkur frá sauðkindinni.  


mbl.is 467 milljónir til listamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÓFAGLÆRÐUR leikskólakennari óskast?

Hvaða rugl er þetta endalaust í fjölmiðlum um faglærða leikskólakennara. Eru til öðruvísi? Eru til ófaglærðir læknar, lögfræðingar, prestar eða leikskólakennarar? Blaðamönnum er auðvitað vorkunn að því leitinu til að í þeirra stétt er það frekar undantekning en regla að blaðamenn séu faglærðir. En þrátt fyrir að það sé þeirra vandmál þurfa þeir ekki endalaust að klína því á aðrar stéttir, sérstaklega okkur leikskólakennara.

Neysluhléið er allt annað mál, mér finnst borgin taka vitlausan pól í hæðina í því máli eins og ýmsum öðrum sem snúa að leikskólanum. Stundum finnst mér þeim meira að segja vera uppsigað við leikskólann, ég veit að það er auðvitað ímyndunarveiki, ja alla vega vona ég það.  


mbl.is Sömdu ekki um afnám neysluhlés
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband