8.10.2012 | 22:01
Leikskóli á útsölu
Þegar verið er að ræða leikskólamál heyrist gjarnan hvað hann sér dýr fyrir samfélagið. Að sveitarfélög hafi bara ekki kost á að gera betur en þau gera. Í leikskólum hefur hins vegar borið við að fólk sé orðið þreytt á sínum vinnuaðstæðum t.d. í nýjum tölum frá RannUng þar sem m.a. streita á meðal leikskólakennara var rannsökuð. Við vitum að allir þurftu að herða ólar eftir hrun líka þeir sem höfðu ekkert hagnast á góðærinu og voru bara með nokkuð herta ól. En meira þurfti til.
Alvarleg staða í Reykjavík
Í Reykjavík var farið út í hraðar sameiningar leikskóla og dregið úr t.d. afleysingum. Leikskólakennarastéttin fékk að heyra hvað hún hefði það gott og nú ætti að taka á. Stöður sem styrktu leikskólann faglega og gáfu oft reyndum og vel menntuðum leikskólakennurum færi á að þróa sig á sínu sérsviði (verkefnastjórastöður) voru lagðar af, þær voru bruðl. Neysluhléið í Reykjavík var að mestu tekið af leikskólakennurum. Víða hefur verið erfitt að komast í undirbúning á dagvinnutíma. Framlag til yfirvinnu hefur minnkað, í borginni ríkti um tíma yfirvinnu- og ráðningarbann. Leikskólakennarar njóta ekki lengur forgangs með börn sín í leikskóla, það merkir að þeir eru lengur heima í foreldraorlofi og eða þeir færa sig til sveitarfélaga þar sem forgangur ríkir, eins og í Kópavog. Staða aðstoðarleikskólastjóra hefur breyst og víða að þeim saumað, þeim hefur fækkað og dregið úr starfi þeirra utan deilda. Allir í leikskólanum hafa hlaupið hraðar, sumir vegna þess að þeir trúðu því að leikskólinn væri svona dýr og mikil áþján fyrir skattgreiðendur. Að hann væri lúxsus.
Dýr leikskóli
Allt hefur þetta verið gert til að spara vegna þess að leikskólinn er svo dýr fyrir samfélagið. En hvað kemur í ljós. Í nýjum tölum frá borginni kemur í ljós að leikskólinn er á ÚTSÖLU. Að hver klukkutími í grunnskóla er um 60% dýrari en klukkustund í leikskóla. Að hvert leikskólabarn kostar 824 kr. á klukkutímann en hvert grunnskólabarn 1335 kr. á klukkutímann. Það kemur í ljós að með 6- 15 ára börnum eru fleiri stöðugildi en fyrir börn í leikskóla þar sem börn eru frá 18 mánaða til 5 ára. (Hér ætla ég ekki að fara í klassískan samanburð á fermetrum fyrir börn í leikskólum og grunnskólum sem eru leikskólanum mjög í óhag). Stundum þegar rætt er um mismuna á dreifingu á fjármagni milli leikskóla er borið við jafnræðisreglu, hvað með jafnræði á milli barna á mismunandi aldursskeiðum?
Þjónustustofnun
Foreldrar kvarta stundum undan því að leikskólinn sé ekki nógu mikil þjónustustofnun samt eru starfsdagar þar eru 235 en í grunnskólanum 180, leikskólinn er opinn 11.1 mánuði en grunnskólinn 5,76 mánuði. Hvert barn er 1996 tíma í leikskóla á ári en 998 tíma í grunnskóla. Til að skila fullri vinnuskyldu þarf hver launamaður að skila 1800 vinnuskyldustundum og lágmarks orlof er 196 vinnuskyldustundir. 100% vinna og sumarorlof er sambærilegt meðalviðveru BARNS Á ÁRI Í LEIKSKÓLUM. Svo er kvartað undan skilningsleysi leikskólans við foreldra og atvinnulíf. Það er ljóst að leikskólakennarar hafa ekki nema brot af undirbúning grunnskólakennara, til að undirbúa nærri tvöþúsund klukkutíma fyrir börn. Starfsaðstæður þeirra til að sinna þessum undirbúningi er líka mun lakari fyrir utan almennt starfsumhverfi.
Ef ég væri leikskólakennari í Reykjavík væri ég öskuill. Nú fer í hönd fjárhagsáætlanagerð, vonandi sjá pólitíkusar að þeir hafa höggið of lengi og of fast í sama knérum. Leikskólinn er ekki ÚTSÖLUVARA.
Að lokum hér er ekki ætlunin að gera lítið úr grunnskólanum aðeins að benda á samanburðinn og hversu óhagstæður hann er leikskólanum. Og þó svo hér sé fjallað um borgina eru tölur sennilega sambærilegar fyrir önnur sveitarfélög.
Erindi og glærur Kristínar Egilsdóttur fjármálastjóra mennta- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Svona bjartsýnismoli - þrátt fyrir þessar aðstæður hitti ég dag eftir dag leikskólakennara sem elska starfið sitt sem gætu ekki hugsað sér að gera neitt annað sem eru skuldbundnir börnunum og faginu.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.9.2012 | 23:05
Úlfar í sauðagærum - um menntun leikskólakennara
Leikskólakennarar börðust í áratugi fyrir að menntun þeirra stæði jafnfætis menntun annarra kennarastétta. Árið 1996 náðist það en þá var stofnuð braut fyrir leikskólakennara við Háskólann á Akureyri. Strax varð mikil aðsókn að náminu þar. Árin upp úr aldamótum fór HA í átak með mörgum sveitarfélögum sem gerðu sitt til að hvetja fólk í nám, m.a. fékk það launað leyfi til að sækja lotur á Akureyri og tíma á fjarendum (námið var byggt upp sem fjarnám í hóp). þá sýndu sveitarfélögin metnað og framsýni fyrir hönd leikskóla og barna.
Lenging
Með nýjum lögum um kennaranám og löggildingu starfsheitis leikskólakennara var allt kennaranám lengt í fimm ára meistaranám. Með lengingu á menntun kennara stóð aldrei annað til en að öll kennaramenntun væri samferða. Sveitarfélögin gerðu athugasemd í þinginu við að lenging ætti við leikskólakennara (sorglegt að horfa upp á það metnaðarleysi), menntamálanefnd ákvað að hlusta ekki á þær mótbárur. Nefndin ákvað að vera framsýn og stórhuga. En hvað er það sem í raun truflar sveitarfélögin, hvað er það sem þau ekki segja?
Úlfahjörð í sauðagærum
Sveitarfélögin hafa af því áhyggjur að þegar fólk fer að útskrifast með leyfisbréf eftir fimm ára nám þá á það rétt á 6 launaflokkum ofan á grunnlaun (9% hærri laun en það hefur eftir 3ja ára námið), sveitarfélögin hafa af því áhyggjur að sú hækkun komi til með að ná til allra þeirra sem hafa leyfisbréf þ.e. til allra leikskólakennara. Það er þess vegna sem þeim er í mun að vinna gegn fimm ára náminu og það núna strax. Því miður. Hins vegar bera þeir ekki fyrir sig peningarökum heldur gerast úlfar í sauðagæru og benda á fækkun nema og áhyggjur af stéttinni. Ég held að sveitarfélögin geti alveg andað rólega. Það tekur kannski nokkur ár að rétta úr námskútnum en við réttum úr honum.
Námið réttir úr sér
Það er ljóst að nám sem hefur farið í gegn um jafn miklar breytingar og kennaranámið, að fólk er aðeins að gefa því svigrúm og sjá hvernig það þróast. Ég trúi því staðfastlega að ef okkur sem erum innan háskólanna og þeim sem eru úti í leikskólum tekst að sýna fram á hversu spennandi og margþætt þetta nám er þá fáum við nemana aftur og það í stórum stíl. Það er upp á okkur í samvinnu við stéttina að auglýsa og sýna fram á bæði hvað námið er vítt og gefandi en líka hvað starfið er í raun stórkostlegt. Það er líka menntamálaráðuneytisins að styðja við leikskólanámið í gegn um þennan umbrotatíma, gefa því svigrúm.
Að lokum um launin
Margir velta fyrir sér hver séu laun leikskólakennara fyrir og eftir meistaranám. Samkvæmt því sem mér sýnist þá eru deildarstjórar með meistaragráðu 34 ára og yngri samkvæmt síðustu launatöflu (sept. 2012) með 362.284 frá 35 - 40 ára er hann með 372.435 og 382.893 ef hann er orðinn fertugur. Ofan á þessa tölu á eftir að bæta launaflokkum vegna símenntunar við en þeir geta mest orðið 6 (9%).
Að lokum í morgun var ég í útvarpinu RÁS 1 að ræða meðal annars menntamál leikskólakennara og starfið í leikskólanum. Læt fylgja með hlekk á þáttinn, Okkar á milli.
http://www.ruv.is/sarpurinn/okkar-a-milli/25092012-0
Bloggið er auðvitað byggt á mínum eigin ályktunum um hvað vakir fyrir fulltrúum sveitarfélaga þegar þeir ráðast af hörku gegn menntun leikskólakennara.
Menntun og skóli | Breytt 26.9.2012 kl. 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.9.2012 | 14:22
Er leikskólinn frábær?
Við aðstæður sem flokkast undir skerðingu á öryggi barna á auðvitað að loka deildum, en leikskólastjórar eru ragir við það og óttast óvægna umfjöllun í fjölmiðlum og að leikskólinn fái á sig slæmt orð. Slæmt orðspor leikskóla er nefnilega oft erfitt að snúa við og breyta þegar það á annað borð er komið á. Þessu verður t.d. ekki breytt nema með samstilltu átaki leikskólastjóra.
Ég er afar stolt yfir því að hafa valið mér að verða leikskólakennari. Á meðal leikskólakennara er öflug baráttusveit fyrir málefnum leikskólans og ég hef verið í baráttuliðinu lengi. Barist fyrir tilveru og viðurkenningu fyrir bæði leikskólann og fyrir nám leikskólakennara. Ég hef líka tekið þátt í kjarabaráttunni. Þegar ég var ung var ég bjartsýn og taldi skilning og viðurkenningu handan við næsta horn. Ég er ekki alveg jafn bjartsýn núna, ég er nefnilega slegin niður aftur og aftur. En auðvitað stend ég jafnhraðann upp og held áfram. Það skal alveg viðurkennt að það er þreytandi að vera alltaf að berjast.
Ég er þeirrar skoðunar að til að geta breytt verðum við að kortleggja og viðurkenna vandann. Ef við horfumst ekki í augu við hann þá breytist ekkert og við höldum áfram að hjakka í sama hjólfarinu og vandinn fær frið til að vaxa enn nú meira. Verða torfæra.
Hlutverk leikskólans fyrir börnin eða atvinnulífið?
Það má spyrja hvert sé hlutverk leikskólans í samfélaginu? Leikskólakennarar börðust fyrir lengingu leikskóladags barna þeim fannst mörgum erfitt að sjá börn tætt á milli margra staða yfir daginn. Fyrir þeim var leikskólinn vissulega menntmál en málið snérist jafnframt um félagslegt réttlæti til handa börnum. Fyrir aðra sérstaklega utan leikskólans snerist heilsdagsleikskóli um að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði, að tryggja atvinnulífinu greiðan aðgang að stöðugu vinnuafli. Hér í borginni var stóra skrefið tekið með R-listanum sem þorði að setja málefni fjölskyldna í forgang. Lyfta grettistaki. En það er stundum svo með okkur Íslendinga að við erum annað hvort í ökkla eða eyra. Við vorum í ökkla en höstuðum okkur í eyra. Og á hverra kostnað skyldi það hafa verið?
Á örfáum árum breyttist leikskólinn frá því að vera takmörkuð gæði fárra til að vera almenn gæði allra. Frá því að vera hálfdagstilboð fyrir gift fólk til þess langa leikskóladags sem er veruleiki margra barna.
Klemma leikskólakennara
Ég ætla að segja ykkur að við leikskólakennarar höfum iðulega verið í klemmu. Okkur finnst flestum leikskólinn vera góður og nauðsynlegur fyrir öll börn. ( Það er ekkert leyndarmál að okkur finnst hann flestum vera það allrabesta fyrir ung börn utan veggja heimilisins), það er líka þess vegna sem við áttum og eigum mörg erfitt með að segja við foreldra: það er gott að hafa barnið í leikskóla en ekki endilega megnið af vökutíma þess. Mörg höfum við nefnilega viðurkennt að lengd leikskóladagsins var komin út yfir það sem gæti talist börnum hollt. En til að stíga til baka þarf samstillt átak í samfélaginu, það þarf að viðurkenna að fjölskyldur ungra barna hafi sérstöðu, líka á vinnumarkaði. Leikskólinn er bæði menntamál og hluti af þvi að tryggja félagslegt réttlæti til handa börnum.
Nálarpúði sem allir mega stinga í
Ég held að það hvernig leikskólinn hefur verið bitbein hinna ýmsu hópa hafi í reynd veikt stöðu hans. það hefur orðið til að við leikskólakennarar höfum svo lengi verið að berjast fyrir málefnum hans á allt of mörgum stöðum samtímis. Leikskólinn, hann á að vera þjónusta, hann á að vera félagslegt úrræði, á að vera menntastofnun. Hann á að vera stuðningur við atvinnuþátttöku kvenna, vera baráttutæki í jafnréttisbaráttu kvenna. Hann á að styðja við atvinnulífið og fyrir marga á hann fyrst og fremst að styðja við og halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Leikskólinn hann er að mörgu leyti eins og nálarpúði samtímans, allir hafa skoðun og allir mega stinga sínum nálum og leikskólinn hann á bara að taka við. (Hér ræddi ég aðeins um hvernig atvinnulífið fer reglulega á haus yfir skipulagsdögum leikskóla, hvernig það nær að snúa umræðunni sér í hag).
Þöggun Leikskólinn er svo frábær að við þurfum ekkert að ræða hann
Orka leikskólakennara hefur farið í að skýra fyrir ólíkum hópum að; jú við viðurkennum hlutverk leikskólans í samfélaginu og við áttum okkur á að hann er ekki eyland, en, en, en. Við höfum líka barist fyrir að verja starfið og halda gæðum þess og helst viljum við auka þau. Gera leikskólann okkar eins góðan og hann getur mögulega orðið. Og við höfum alla burði til þess. Uppskeran út á við er að almennt virðist fólk telja að allt sé með svo miklum ágætum í leikskólanum. Um það vitna rannsóknir á ánægju foreldra með leikskólann. Afleiðingin er að margir þar á meðal stjórnmálafólk telur að það þurfi kannski ekki að eyða mikilli orku í að ræða hann og hann er settur út á jaðarinn og þar gleymist hann. Sjálf er ég farin að upplifa þessa eilífu umræðu um að allt sé svo gott í leikskólanum sem leið til að þagga umræðuna um leikskólann og þann alvarlega vanda sem hann stendur frammi fyrir. Því eins stolt og ég er yfir leikskólunum okkar er ég líka áhyggjufull.
Vinnuaðstaða í leikskólum
Í umræðu um leikskólann er oft talað um vinnuaðstöðu starfsfólks. Sumir halda að það snúist um fjölda barna af því að leikskólakennarar vilji hafa svo fá börn. En málið er flóknara en það. Vitið þið að hestum er ætlað meira pláss en börnum í leikskóla. Vitið þið að það er sett lágmarksrými fyrir búfé en enginn lágmarksfermetrafjöldi er settur fyrir leikrými barna í núverandi reglugerð. Einu sinni var viðmiðið þó 3 fermetrar. Vitið þið að þið sem vinnið á skrifstofum ykkur er ætlaður lágmarksfermetrafjöldi í vinnurými?
Í reglum um húsnæði vinnustaða segir: Sömuleiðis skal tekið tillit til þess rýmis sem vélar, húsgögn og efni taka. Séu skilyrði sérlega góð getur Vinnueftirlitið veitt leyfi til að nota starfsrými sem er minna en 12 m á hvern starfsmann. Loftrýmið má þó aldrei vera minna en 8 m. Minnsta stærð vinnuherbergis, sem unnið er í að staðaldri meginhluta vinnudags, skal vera 7 m. Vitið þið að í útreikningum um fermetrafjölda í leikskólum eru bara börnin reiknuð inn í fermetrana ekki starfsfólkið. Þannig að í leikskóla þar sem dvelja segjum 100 börn og heildarfermetrafjöldi er 6,5 á barn er ekki búið að reikna inn húsgögn og tæki eða STARFSFÓLK ekki heldur í þess þrjá fermetra sem hverju barni er ætlað í leikrými. Vitið að í grunnskólum mega börn ekki borða heita matinn í kennslustofum á borðunum sínum af heilbrigðisástæðum en í leikskólum er börnum ætlað að leika sér, lita og leira á sömu borðum. Getið þið ímyndað ykkur loftgæðin rétt eftir mat. Mér finnst líka vont að segja að borgin hefur þegar samþykkt fermetrafjölda undir gömlu viðmiðunum í heildarrými í nýjum leikskóla (að vísu ekki rekin af borginni en með samþykki hennar). Reglugerð sem átti að vinna með leikskólanum er nú tæki til að skerða vinnuaðstæður barna og starfsfólks.
Þegar leikskólakennarar tala um vinnuskilyrði eru þeir líka að tala um þessar staðreyndir.
Öryggismörk leikskóla
Einn leikskólakennari sagði við mig, Kristín, ef það dettur barn í kastalanum, ef það er grjót á vitlausum stað í garðinum hjá mér verða allir vitlausir og rætt um skort á öryggi og farið fram á úrbætur í einum grænum. En ef það vantar helming af starfsfólki dag eftirdag, þó stór hluti starfsfólks skilji varla íslensku, þó varla séu leikskólakennarar í stjórnunarstöðum, þá talar enginn um skort á öryggi barna. Er þetta ekki skrýtin forgangsröðun? Við aðstæður sem flokkast undir skerðingu á öryggi barna á auðvitað að loka deildum, en leikskólastjórar eru ragir við það og óttast óvægna umfjöllun í fjölmiðlum og að leikskólinn fái á sig slæmt orð. Slæmt orðspor leikskóla er nefnilega oft erfitt að snúa við og breyta þegar það á annað borð er komið á. Þessu verður t.d. ekki breytt nema með samstilltu átaki leikskólastjóra.
Eru leikskólakennarar deyjandi stétt?
Ég heyri stundum (og tek líka þátt í þannig umræðu sjálf og hef áhyggjur) að stétt leikskólakennara sé deyjandi stétt. Sumir kenna lengingu námsins í fimm ár um. Það má vera að það spili eitthvað inn í þó mér finnist það ólíklegt ég tel að vinnuskilyrði og viðhorf samfélagsins til leikskólans og þeirra sem þar starfa aðal áhyggjuefnið. Í nýlegri rannsókn Örnu Jónsdóttur mátti skilja að stjórnmálafólk taldi mikilvægara að í leikskólanum starfaði gott fólk (nóta bene góðar konur, mömmur og ömmur) frekar en fagfólk. Að menntun þeirra sem þar væru væri ekki stóra málið, aðallega að það væri gott fólk. Einn leikskólastjóri hvíslaði að mér ég á sem sagt frekar að biðja um persónuleikapróf en prófskyrteini.
Fimm ára námið er það tímaskekkja?
Ég tel raunar að ef nám leikskólakennara verður stytt, en annað kennaranám látið halda sér þá gangi það að leikskólakennarastéttinni dauðri. Með því er gefið í skin að það sé minna merkilegt að vinna með yngri börnum en eldri. Það þurfi minni menntun til að vinna með börnum á mótunarárum þeirra en þegar þau eru orðnir þroskaðir einstaklingar. Leikskólakennarar hafa barist of lengi við að vera settir til jafns öðrum kennarastéttum til að það komi til greina að setja leikskólakennara skrefi aftar öðrum kennurum. Ég er ekki að útiloka umræður um breytingu á kennaranámi og að námið geti þróast í ýmsar áttir, en við verðum að ganga í takt.
Frábært starf í leikskólum
Ég hef ekki dregið neitt sérlega jákvæða mynd upp, það væri falskt að minni hálfu að koma hér og segja ykkur bara frá því góða starfi sem verið er að vinna og já það er verið að vinna gott starf. Vegna þess að ef fólk fer ekki í alvöru að skoða aðstæður í leikskólum landsins þá er ég hrædd um að þetta frábæra starf sem víðast er, það víki. Mig langar að segja ykkur frá því að ég hef alla vikuna verið að kenna hópi verðandi leikskólakennara. Þar sem ég hef meðal annars fjallað um mikilvægi starfsins, gleðina og ástríðuna sem fylgir að vera leikskólakennari. Hef verið að fjalla um að hver kennari er mikilvægasta kennslutæki sem hann hefur völ á. Fjallað um hvílíkir snillingar börn eru.
Leikskólinn staður tækifæra og möguleika
Að lokum leikskólinn er ekki fyrst og fremst mikilvægur fyrir samfélagið svo hjól atvinnulífsins nái að snúast , hann er fyrst og fremst mikilvægur fyrir börnin sem þar eru hverju sinni. Leikskólinn á að vera staður það sem börn fá tækifæri. Hann á að vera staður þar sem börn takast við áskoranir þar sem þau leika og læra í samfélagi við önnur börn og fullorðna. Hann á að vera sá staður þar sem börn læra um lýðræði í lýðræði. Staður þar sem allir eiga að eiga hlutdeild. Þar sem hlustað er á sjónarmið, það sem allir finna að þeir tilheyra. Og öll þess hlutverk hafa flestir leikskólar leitast við að uppfylla. Líka þegar þegar blásið hefur á móti. Til að geta þetta þarf leikskólinn á öllu sínu fólki að halda. Hann þarf á því að halda að fólkið þar geti einbeitt sér að því mikilvægasta starfinu með börnunum. Hann þarf líka á bandamönnum úr heimi stjórnmálanna að halda.
(Svo ræddi ég eitthvað um að umbylting og þróun kerfa ætti sér stað innan frá en að þeir rammar sem stjónmálamenn skapa þeir hafi áhrif og séu raun forsenda þess að slík þróun eða bylting geti átt sér stað).
Uppistaða erindi sem flutt var á hugmyndaþingi Samfylkingarinnar í Reykjavík 22 september 2012 má líka finna á www.laupur.is .
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2012 | 13:58
Barnafólk
Jafnvel ráðherrar eiga rétt á að fara í foreldraorlof. Þeir eiga líka að eiga siðferðilegan rétt til að félagar þeirra sinni störfum þeirra á meðan og að þeir geti tekið við störfum sínum að loknu orlofi. Oddný vissi vel að hverju hún gekk, hún sinnti starfi sínu af stakri prýði eins og hennar er von og vísa. Ég veit að margir töldu að Guðbjartur og Katrín ættu að hafa stólaskipti. Held hinsvegar að nokkuð djúp pólitík liggi að baki þessari skipan.
Ekki full sátt um ráðherraskiptin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.5.2012 | 01:21
Minning
Ég er móðir sem eins og því miður allt of margar aðrar mæður hef misst barn. Fyrir um áratug missti ég son minn í slysi, hann var þá 17 ára. Stundum er ég svo spurð hvort ég eigi börn. Já ég á einn son svara ég. Svo kemur kannski að því í samræðum að ég deili reynslu, tala um barnauppeldi, meðgöngur, brjóstagjafir og svo framvegis og þá tala ég alltaf í fleirtölu. Ræði um æsku sonar míns sem ég missti á sama hátt og hins sem er hér enn. Þá upplifi ég spurningarsvip. Ég sé í kollinum á fólki að það hugsar sagðist hún ekki bara eiga enn son?.
En hversvegna segist ég ekki eiga tvö börn aðspurð. Kannski af því að næsta spurning er svo oft og hvað eru þau að gera? Kannski af því að hann er ekki hér lengur. Alla vega er þetta alltaf að þvælast fyrir mér. En hvort sem sonur minn er lífs eða liðinn er hann umfram allt og verður alltaf sonur minn. Drengurinn okkar sem kvaddi of snemma. Í dag 10. maí hefði hann orðið 29 ára. Stundum dreymir mig hann, en í draumum mínum er hann oftast barn. Seinast dreymdi mig hann í pollagalla með óræðan svip og ég slökkti á klukkunni og leyfði mér að dreyma oggulítið lengur. Það er nefnilega erfitt að vakna og vita að hann er ekki hér.
Um daginn hlustaði ég á gamla konu sem sagðist ekki vera plöguð af eftirsjá í lífinu enda gert það sem hún vildi. Kannski má segja það sama um mig ég hef haft tækifæri til að gera það sem ég hef viljað. En ég er samt plöguð af eftirsjá. Mín eftirsjá er að hafa ekki fengið að upplifa fullorðinslíf Sturlu yngri sonar míns. Upplifa hvernig maður hann hefði orðið, hvaða tækifæri og verkefni hann hefði fengist við í sínu fullorðinslífi. Sigra hans og ósigra, gleði og sorgir. Það er mín mesta eftirsjá.
Á afmælisdaginn hans hugsa ég meira til hans en alla aðra daga. Minning hans lifir með okkur hinum. Í dag gáfum við nafna hans fótboltatreyju sem Sturla átti. Hann fór stoltur í henni heim og ég horfði stolt á. Að lokum: Elsku Sturla mömmustrákur til hamingju með daginn þinn.
17.4.2012 | 12:26
Slíta naflastrenginn
Eftir mikla umhugsun ákvað ég að setja upp mína eigin heimasíðu, halda blogginu fyrir hina pólitísku hlið á sjálfri mér en síðunni fyrir það sem snýr beint að leikskólastarfi. Hér á blogginu ætla ég t.d. að hafa skoðun á sameiningarmálum leikskóla, pólitískum ákvörðunum um fækkun fermetra, um stjórnmál í sinni víðustu mynd, forsetakosningar ef sá gállinn er á mér og hvaðeina.
Á vefnum eiga að birtast greinastubbar um allt mörgulegt sem snýr að leikskólastarfi, hugmyndafræðilega sem hagnýtt. Með tíð og tíma vona ég að vefurinn vaxi og verði öflugur hugmyndabanki. Mest af því sem þar er að finna núna hef ég skrifað en vonast til þess í framtíðinni að aðrir ljái mér hugsun og skrif.
Vefurinn minn fékk heitð Laupur. Laupur er auðvitað tilvísun í hrafnshreiður en fyrir mig er tenginginn líka í að fyrir löngu þegar við Guðrún Alda (mín helsta samverkakona) vorum að velta fyrir okkur íslensku heiti á efnisveitur fyrir leikskóla kom hún með orðið Laupur. Við völdum það ekki, vegna þess að laupur er e.t.v. meira safn en veita og eðli efnisveitu er að vera miðstöð og að vera farvegur en ekki endapunktur. Hinsvegar hefur laupurinn fylgt okkur og þegar ég var að ákveða nafn á vefinn, ákvað ég að nýta þessa gömlu hugmynd.
Þeir sem hafa áhuga geta litið á vefinn hann má finna á www.laupur.is
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2012 | 23:14
Óskirnar búa í hjartanu
Nýlega heyrði ég samræðu tveggja barna, hann fjögurra og hálfsárs og hún tveimur árum eldri. Yngra barnið fór að ræða um óskirnar sínar. Þær byggju í hjartanu sagði það, og þegar hjartað hvílir sig á nóttunni og sefur þá hvíla óskirnar sig og sofa líka. Og þegar maður deyr þá er maður ekki lengur til og þá eru óskirnar heldur ekki til. Eldra barnið hlustaði með athygli á og sagði svo "já og svo lætur guð óskirnar rætast". Yngra barnið horfði stóreygt á það eldra og spurði svo "hvað er guð?"
Vel að merkja yngra barnið er vel verseraður í englum og himnaríki, en guð hefur einhvernvegin alveg farið fram hjá.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)