Minning

sturla þór eldriÉg er móðir sem eins og því miður allt of margar aðrar mæður hef misst barn. Fyrir um áratug missti ég son minn í slysi, hann var þá 17 ára. Stundum er ég svo spurð hvort ég eigi börn. Já ég á einn son svara ég. Svo kemur kannski að því í samræðum að ég deili reynslu, tala um barnauppeldi, meðgöngur, brjóstagjafir og svo framvegis og þá tala ég alltaf í fleirtölu. Ræði um æsku sonar míns sem ég missti á sama hátt og hins sem er hér enn. Þá upplifi ég spurningarsvip. Ég sé í kollinum á fólki að það hugsar „sagðist hún ekki bara eiga enn son?“.    

En hversvegna segist ég ekki eiga tvö börn aðspurð. Kannski af því að næsta spurning er svo oft og hvað eru þau að gera? Kannski af því að hann er ekki hér lengur. Alla vega er þetta alltaf að þvælast fyrir mér. En hvort sem sonur minn er lífs eða liðinn er hann umfram allt og verður alltaf sonur minn. Drengurinn okkar sem kvaddi of snemma. Í dag 10. maí hefði hann orðið 29 ára. Stundum dreymir mig hann, en í draumum mínum er hann oftast barn. Seinast dreymdi mig hann í pollagalla með óræðan svip og ég slökkti á klukkunni og leyfði mér að dreyma oggulítið lengur. Það er nefnilega erfitt að vakna og vita að hann er ekki hér.

Um daginn hlustaði ég á gamla konu sem sagðist ekki vera plöguð af eftirsjá í lífinu enda gert það sem hún vildi. Kannski má segja það sama um mig ég hef haft tækifæri til að gera það sem ég hef viljað. En ég er samt plöguð af eftirsjá. Mín eftirsjá er að hafa ekki fengið að upplifa fullorðinslíf Sturlu yngri sonar míns. Upplifa hvernig maður hann hefði orðið, hvaða tækifæri og verkefni hann hefði fengist við í sínu fullorðinslífi. Sigra hans og ósigra, gleði og sorgir. Það er mín mesta eftirsjá.

Á afmælisdaginn hans hugsa ég meira til hans en alla aðra daga. Minning hans lifir með okkur hinum. Í dag gáfum við nafna hans fótboltatreyju sem Sturla átti. Hann fór stoltur í henni heim og ég horfði stolt á.  Að lokum: „Elsku Sturla mömmustrákur til hamingju með daginn þinn“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Falleg minning

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.5.2012 kl. 02:45

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka þér fyrir að deila þessu Kristín,  fallegt og einlægt.

Jóhanna Magnúsdóttir, 10.5.2012 kl. 11:23

3 Smámynd: Ragnheiður

Sæl

Ég sé að þú deilir með mér þessum sömu pælingum, ég veit oft ekki hvað ég á að segjast eiga mörg börn.

Þetta er hugljúf minning - takk fyrir að deila þessu.

það er eins hjá mér, það er kominn lítill nafni

Ragnheiður , 10.5.2012 kl. 11:27

4 identicon

1999:

“Best í sjónvarpi er Trufluð tilvera (South Park), Seinfeld, Fóstbræður og Vinir (Friends),” segir Sturla Þór Friðriksson, nemandi í hinum umtalaða Hagaskóla, 15 ára, um sjónvarpsáhorf sitt. Hann gerir hins vegar ekki mikið úr áhorfi hjá sér og segir skemmtilegra að vera úti með vinahópnum.

 “Í South Park er svartur húmor sem hittir í mark. Seinfeld er góður en í þættinum slær Kramer hann samt út. Húmorinn í Fóstbræðrum er af fáranlegu tegundinni, sem minnir á kvikmyndir eins og Naked Gun. Vinirnir eru einfaldlega vel gerð fyndni og persónurnar sumar skemmtilega vitlausar. Síðan fylgist ég gjarnan með helstu fótboltaleikjunum... Ég þoli hins vegar ekki dánarfregnir og tilkynningar og fæ gæsahúð ef ég heyri slíkt óvart. Ég hlusta mjög lítið á fréttir í útvarpi og sjónvarpi, nema reyndar undanfarið vegna frétta af skoteldasprengingum í skólanum mínum Hagaskóla. Eða Agaskóla eins og hann er núna kallaður " (Sturla hlær).

Vinir, grín, fótbolti, tónlist... og slökkva á dánarfregnum...

Lilló (IP-tala skráð) 10.5.2012 kl. 12:08

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Mogginn ætti að vera kominn með "like" á athugasemdir, - en ég set "like" á þessi mikilvægu skilaboð Sturlu. -

Jóhanna Magnúsdóttir, 10.5.2012 kl. 13:09

6 identicon

Þakka þér kærlega fyrir þetta blogg. Ég tala líka alltaf um dætur mínar þrjár þó ég hafi misst þær á mism. aldursskeiði. Eina sem ´g gat ekki alið upp frá 1. árs aldri, miðdóttur sem lést þriggja og hálfs árs og sú yngsta sem lifði í fjóra tíma. Allt eru þetta dætur mínar þó þær séu ekki lengur í sýnilegar í lífi mínu.

Sendi þér mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ólöf de Bont (IP-tala skráð) 10.5.2012 kl. 13:30

7 identicon

Æi já. Það er alltaf dáldið erfitt þetta augnablik þegar fjöldi barna kemur upp í samtali. Ég er voðacgóð í að beina samtalinu annað...takk fyrir greinina.

Vigdis Stefansdóttir (IP-tala skráð) 10.5.2012 kl. 14:00

8 identicon

Þetta er falleg grein:-) Ég veit um konu sem segir: 'Ég eignaðist tvo stráka. Annar er hjá guði, hinn er spriklandi í Árbænum'. M.ö.o. að segja strax frá þeim sem farin(n) er og beina jafnframt athyglinni að hinum sem er á lífi, og verða jafnvel fyrri til að segja hvað hann hafi fyrir stafni o.s.frv. Oftast nær þarf syrgjandinn að hjálpa viðmælandanum, sérstaklega hafi hann ekki reynt sambærilega sorg.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir (IP-tala skráð) 10.5.2012 kl. 14:21

9 identicon

Falleg grein Kristín sem vekur upp ljúfsárar minningar um þennan frábæra dreng. Bestu kveðjur til ykkar allra

Gunnar Hrafnsson (IP-tala skráð) 10.5.2012 kl. 19:25

10 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk öll fyrir að hlýhug og fallegar hugsanir. Hver hefði trúað því að færsla um sorgir og gleði næðu að fanga athygli svo margra. Við erum búin að eiga góðan afmælisdag með fjölskyldunni.

Kristín Dýrfjörð, 10.5.2012 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband