Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Fagnaðarfundur leikskólakennara

Í ár eru 60 ár frá því að fyrstu leikskólakennararnir luku námi hérlendis, 20 ár frá því að við stofnuðum okkar eigið stéttarfélag (Ég tók þátt í því), 12 ár frá því að námið fór á háskólastig, og í ár voru sett ný lög bæði um leikskólann og menntun leikskólakennara, nú er gert ráð fyrir að allir leikskólakennara ljúki meistaragráðu. Í tilefni alls þessa og meira til stendur Félag leikskólakennara og RannUng fyrir ráðstefnum um starf leikskólakennara á morgun 1. desember. Fyrirlesarar eru allir starfsmenn og/eða doktorsnemar við Menntavísindadeild Háskóla Íslands.  

Í tilefni þessa skrifaði Ingibjörg Kristleifsdóttir greinarkorn, Ingibjörg sendi mér það og fékk ég góðfúslegt leyfi hennar til að birta þaðhér.

„Það besta er ekki börnunum of gott“

Þetta sagði Steingrímur Arason árið 1940 og vildi að þetta yrðu einkunnarorð Reykjavíkur því brýnt var  að bjarga börnunum í yfirstandandi,  kreppu, atvinnuleysi og heilsuleysi.  Steingrímur var frumkvöðull í  því að stofna leikskóla á Íslandi og leit á það sem  „lífsnauðsyn að öðlast frelsið og máttinn og svala reynsluþorstanum á slíkum stað en ekki á götunni“ eins og stóð í  Barnadagsblaðinu  árið 1937.

Núna er hlutverk leikskólans óumdeilanlegt. Hann er  þjónusta við foreldra og  vinnumarkaðinn, skjól þar sem gott atlæti og öryggi er tryggt og ekki síst lærdómssamfélag þar sem umhverfi og skipulag miðast við að allir þegnar þess  geti öðlast uppbyggilega reynslu. Góður leikskóli hefur þroskandi áhrif á einstaklinga, fjölskyldulíf, vinnustaði og samfélagið allt í nútíð og framtíð. Í víðustu mynd er byggður grunnur að lýðræði strax í leikskólanum þar sem hver einstaklingur er gerandi og hefur áhrif  á  eigið líf í samfélagi við aðra. Það  er lagaleg skylda leikskólans að búa börnum þroskavænlegt umhverfi þar sem þau fá notið bernsku sinnar  og  til þess að uppfylla þetta hafa leikskólakennarar unnið að  því að aðeins það besta sé í boði fyrir börn.

„Að marka spor  er yfirskrift á ráðstefnu sem Félag leikskólakennara og RannUng halda 1.desember. .  Við fögnum því að starfsheitið leikskólakennari hefur fengið lögverndun. Við fögnum því að kennaramenntun verður  efld sem þýðir það að rannsóknir munu  stóraukast.  Við fögnum því að 60 ár eru liðin frá því að fyrstu leikskólakennararnir útskrifuðust og  félagið okkar í núverandi mynd  er 20 ára. Um leið þökkum við  fortíðinni,  frumkvöðlunum  okkar sem komu  leikskólanum  þangað sem hann  er  í dag.  Í dag 1.desember, skoðum við hvar við stöndum og hvernig við getum tekið fleiri framfaraspor.

Fjórir af fimm fyrirlesurum ráðstefnunnar eru leikskólakennarar í doktorsnámi. Það hefði nú þótt saga til næsta bæjar fyrir 62   árum,  þegar hnussað var yfir því hvort þessar stelpur þyrftu nú að vera að mennta sig í uppeldi . Viðfangsefni þeirra í doktorsnámi  er m.a. hlutverk og fagmennska kennarans. Dæmi um spurningar sem fyrirlesarar varpa fram er :: „Hvað þarf langt nám  til að verða góður leikskólakennari ?  Er fagmennska leikskólakennara stöðug eða stöðugt að breytast ?

RannUng,  rannsóknarstofa í menntunarfræðum ungra barna , var stofnuð 15. maí 2007.  Á þessum stutta tíma hefur miklu verið áorkað í rannsóknum, fyrirlestrum, ráðstefnuhaldi og útgáfu á fræðiritum. RannUng er metnaðarfull stofnun sem gefur fyrirheit umspennandi framtíð .

Það var ein af hugsjónum Selmu Dóru Þorsteinsdóttur fyrrverandi formanns stéttafélags leikskólakennara að efla rannsóknir og þróunarstarf í leikskólum. Þegar Selma Dóra lést langt um aldur fram  árið 1993 var Rannsóknarsjóður leikskóla stofnaður  í minningu hennar. Nú hefur verið ákveðið að færa RannUng  að gjöf þennan sjóð þar sem framganga RannUng gefur tilefni til þess að ætla að þar verði tilgangi sjóðsins best þjónað.

Tímarnir breytast og mennirnir með en hugsjón Steingríms Arasonar er enn í fullu gildi:

En hvert er þá stórmálið stærsta ?

   Að styðja og bjarga hinu smæsta

                                                           Manngullið nema, móta, skýra.

   Í manndómsátt hverri hönd að stýra.

 

Njótum dagsins

 

Ingibjörg Kristleifsdóttir varaformaður Félags leikskólakennara


Eftirlaunafrumvarpið og sérgreiðslur til formanna stjórnarandstöðunnar

Nú á að "laga" eftirlaunafrumvarpið, vonandi fer í leiðinni út álagið fyrir formenn stjórnarandstöðunnar. Sú greiðsla var að mörgum talin vera mútufé á sínum tíma. Hafi verið gulrótin sem Össur og Steingrímur gleyptu við. Ef formenn flokka þurfa að fá greitt fyrir það að vera formenn þá eiga viðkomandi flokkar að sjálfsögðu að standa undir því.  

 


Til lukku Austurbæjarskólabörn

Til hamingju krakkar í Austurbæjarskóla, þetta er flott hjá ykkur. Sannarlega frábært framtak sem vert er að veita athygli. Sannarlega frétt sem á heima á forsíðu.

Það er margt spennandi að gerast í skólum borgarinnar og já landsins alls, á öllum skólastigum. Þar gerast daglega atburðir sem ætti að halda á lofti, atburðir og pælingar sem sem ættu að rata á forsíður og í fréttatíma. Sem ættu að fá athygli ekki sem skreytiefni sem hægt er að brosa fallega að, heldur vegna eigin gildis. Vegna þess að þetta eru fréttir um fólk á öllum aldri sem er að vinna merkileg störf.  


mbl.is Austurbæjarskóli vann Skrekk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar hann aldrei að þagna "karlskrattinn"?

Er Geir Hilmari lengur stætt á að halda hlífðarskildi yfir vini sínum í seðlabankanum? Maðurinn heldur að hann sé enn í pólitík og hegðar sér samkvæmt því. Áttar maðurinn sig ekki á því að með því hvernig hann sjálfur hefur hegðað sér hefur hann skaðað þessa þjóð, eins og þeir sem hann nú ásakar.  

Annars minnir þetta um margt á þá ágætu sögu, Úlfur, úlfur, og flestir vita hvers vegna ekki var hlustað á vesalings drenginn loksins þegar úlfurinn sýndi sig. 

Hef líka verið að hugsa um mál Baldurs ráðuneytisstjóra. Það skiptir ekki lengur máli hvort hann vissi eitthvað eða ekki. Á hans hvítflippa hefur ekki bara fallið kusk, heldur risastór skítaklessa og manninum ber sóma síns vegna að segja upp. Hvernig sem fer má hann vera nokkuð viss um að fá uppsagnarbréf um leið og næsti ráðherra fær lyklavöld í fjármálaráðuneytinu. Það vill enginn pólitíkus með sjálfsvitund hafa slíkan farangur í lestinni.     


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vont að vera formaður án prédikunarstóls

"no", sagði maður mér vel kunnugur um daginn þegar það fréttist að Bjarni Harðar væri búinn að segja af sér þingmennsku, "noo, þá verður Jón Sigurðsson aftur formaður".  Guðni búinn að missa baklandið, og Valgerður of umdeild, getur ekki þvegið af sér sín störf. Það reyndist rétt hjá karli að Guðni réð ekki við að missa Bjarna af þingi, en hinsvegar held ég að með bráðri brottför sinni hafi hann skapað Valgerði aðstæður sem duga henni jafnvel til formennsku. Það er ekki líklegt að kallað verði í Jón sem er utan þings, nema ef kosningar verða boðaðar mjög bráðlega. Það er nefnilega vont og sennilega allt að því vonlaust að vera formaður án predikunarstóls.  En hvað veit ég, gamlir þulir hafa oft rétt fyrir sér og þessi hefur haft það sem hobby í áratugi að rýna í pólitík

Þegar einar dyr lokast ...

Nýlega var vinkonu minni, sérfræðingi í leikskólamálum sagt upp starfi sem leikskólarágjafi hjá borginni. Vinkona mín er reyndar með mikla reynslu í breytingastjórnun, meistaraprófsverkefnið hennar fjallaði um börn og áföll, en hún var ein þeirra sem fór vestur á Flateyri strax í kjölfar snjóflóðsins til að koma leikskólanum þar aftur af stað. Vinkona mín byggði upp leikskólakennaranám við Háskólann á Akureyri en ákvað að láta af því starfi m.a. til að gerast leikskólaráðgjafi hjá Reykjavíkurborg. Hún hefur líka verið leikskólastjóri, verkefnastjóri í breytingarferli og fengist við ótal önnur störf innan leikskólans og utan.

Eitt af því sem Reykjarvíkurlistinn gerði var að færa ýmsa þjónustu nær borgurunum m.a. með því að færa ýmis störf út í þjónustumiðstöðvar. Eitt það fyrsta sem núverandi leikskólaráð ákvað, var að snúa þeirri ákvörðun. Þau lentu hinsvegar í smávandræðum, stöðugildum leikskólaráðgjafa hafði fjölgað út í hverfum. Einungis 4 af 6 ráðgjafar fengu því störf hjá leikskólasviði. Vinkonu minni sem er reyndar líka fyrrum formaður stéttarfélags leikskólakennara var reyndar boðið að hafa umsjón með dagmæðrum, það var talið sambærileg starf við að vera faglegur ráðgjafi við leikskólastarf. Vinkona mín sem er afar metnaðarfull fyrir hönd leikskólans taldi svo ekki vera og þar fyrir utan fáránlegt að nota hennar yfirgripsmiklu sérfræðiþekkingu á þennan hátt. Hún afþakkaði því boðið pent og ákvað að láta reyna á þá lífskoðun sína að þegar einar dyr lokast, opnist aðrar.

Nýlega var auglýst útboð í rekstur nýs leikskóla í Kópavogi. Vinkona mín ákvað að sækja um. Hún ákvað að þar væri tækifæri til að byggja upp, til að láta reyna á þá aðferðafræði sem hún trúir á. En meðal þess sem hún hefur lagt stund á er nám í leikskólaráðgjöf og starfsmannaþróun í Stokkhólmi. Hún sá að þarna hefði hún tækifæri til að koma hugmyndum sínum í verk og vinna á stað þar sem fjölbreytt reynsla hennar kemur að góðum notum. Á fimmtudag samþykkti Bæjarráð Kópavogs að hún væri einmitt manneskjan sem þeir vildu að sæi um rekstur nýja leikskólans. Þar skaut hún aftur fyrir sig, Ariel ehf, Skólum ehf og Hjalla ehf sem öll sóttu um sama skóla.  

Ég óska vinkonu minni, Guðrúnu Öldu Harðardóttur til hamingju með verkefnið og hlakka til að fylgjast með skólastarfinu á komandi árum. Leikskólastarf sem er rekið undir kjörorðunum, frumkvöðlar en ekki fylgjendur.


Sundsagan af Seltjarnarnesi saga græðgisvæðingar

Ég hef fylgst með fréttaflutningi DV af árekstrinum í sundlauginni á Seltjarnarnesi. Þetta eru svona ekki fréttir sem eiga sennilega að hjálpa okkur til að hugsa um eitthvað annað en endalausa kreppu og efnahagsmál. En í hnotskurn er samt sundsagan saga uppgangstíma og græðgisvæðingar samfélagsins.

Deilan gekk út á að tveir menn með tvennskonar venjur mættu í laugina. Annar er vanur að synda í O svo margir geti synt í sömu braut, heimamaðurinn er vanur þeirri venju að sá sem mætir fyrstur í brautina á hana þangað til að hann hefur lokið sínu sundi. Annar er vanur að tekið sé tillit til fjöldans og að margir geti notið gæðanna, hinn að sitja að sínu og aldeilis ekki deila því með öðrum.

Mér sýnist í hnotskurn þetta vera lýsing á íslensku samfélagi síðustu ár. Að hugsa um eigin rass og hlaða sem mest undir hann hefur verið einkunnarorð dagsins, stutt dyggilega af stjórnvöldum í formi eftirlitsleysis og slakra reglugerða. Svo má náttúrulega hugsa til þess að við erum að tala um sveitarfélag sem lengstum hefur verið eitt helsta virki frjálshyggjunnar á Íslandi, Seltjarnarnes. Þar hefur frjálshyggjuhugsunin kannski líka náði inn í sundlaug bæjarins.   


Af hverju ekki að fara í Bónus ef krónan er ómöguleg?

Ungur vinur minn er búinn að vera að velta fyrir sér hvers vegna allir séu svona vondir út í krónuna. Allir að tala um að hún sé handónýt og ómöguleg og tala bara svo illa um hana sagði hann. Hann spurði mömmu sína hvers vegna fólkið færi ekki bara í Bónus ef það er svona óánægt með Krónuna. 

Í þessari litlu sögu kristallast e.t.v. hvað börn eru að hugsa um umræðuna. Fæst þekkja þau gjaldmiðilinn okkar undir krónuheitinu, þau fá nefnilega fimmtíukall, hundrað kall og jafnvel þúsundkall. Krónuna heyra þau flest nefnda í tengslum við tiltekna verslun.


Von fæðist

Ég vildi gjarnan vera í Chicago á þessari stundu, vera niðri í bæ þar og vera þátttakandi í því ævintýri sem þar á sér stað. Það var stórkostlegt að fá tækifæri til að taka þátt í kosningarfundi Obama í Colorado, finna á eigin skinni stemminguna. Með mér var fólk sem sagist ekki hafa upplifað slíka stemmingu frá því að Kennedy var í framboði, sama fólk sagðist líka vera með í maganum og hafa áhyggjur af öfgafólki.  

Einn ágætur einkaleikskólastjóri og góð vinkona mín sagði mér að eldri fólk væri í stórum stíl að færast frá McCain það vissi hvaða orku og úthald það hefði sjálft og hvernig orkan fer dvínandi með hverju ári (hún er sjálf fædd 1943) og Palin skelfdi þetta fólk. Svo hló hún á sinn einstak a hátt og  sagðist hafa sagt sínu starfsfólki að ef það kysi ekki Obama þá fengi það ekki launahækkun næstu 10 árin. Held reyndar að hún hafi ekkert mikið þurft að agitera.

Til hamingju heimur til hamingju Ameríka.


mbl.is Eftirvænting í Chicago
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband