Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
30.6.2007 | 12:34
Afmælisdagar
Nú er runninn upp afmælisdagur yngri systur minnar og sú eldri sem átti afmæli fyrir rúmri viku fær daginn lánaðan til veisluhalda. Hún og eiginmaðurinn náðu þeim merka áfanga á þessu ári að verða fimmtug. Mitt afmæli er á milli systranna. Strákarnir eru svo allir í sitthvorum mánuðinum, haust og vetrarbörn.
Þegar við vorum litlar fékk elsta systirin að halda sitt afmæli en við yngri systurnar héldum upp á okkar saman. Við eigum það enn til. Seinast þegar við gerðum það, skipulögðum við ratleiki með ýmsum þrautum um leikheima okkar, Meltunguland, Blesugróf og upp með hólmanum í Elliðarádal. Við vorum ekki alveg jafnheppnar með veður og nú, en eigum dýrmætar og skemmtilegar minningar. Ég er t.d. enn að hlæja að keppnisskapi sumra fullorðinna sem urðu næstum sárir yfir að tapa í þrautinni um hver smíðaði flottasta bátinn til að sigla niður Elliðaárnar.
Litla systir heldur upp á daginn með því að fara í gönguferð á fjöll með hóp af unglingum sem eru á Norrænu vinarbæjarmóti í Þorlákshöfn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2007 | 12:56
Hvernig hræðslan við að verða nashyrningur hefur mótað sjálfsmynd mína
Þegar ég var barn las ég leikritið Nashyrningurinn: leikrit í þremur þáttum og fjórum myndum eftir Rúmenann Eugene Ionesco. Gefið út hér á landi árið sem ég fæddist í þyðingu Jóns Óskars.
Af þeim bókum sem ég sporðrenndi á þessum árum eins og krakkar í dag sporðrenna blandi í poka stendur Nashyrningurinn upp úr. Og sennilega það rit sem hefur mótað viðhorf mín til lífsins meira en margt annað. Ég ákvað þá að ég ætlaði aldrei að vera Nashyrningur og missa mennsku mína, ætlaði aldrei að fylgja flautu rottutemjarans.
Ég man að ég ræddi leikritið við foreldra mína, umræður sem snérust að uppgangi nasisma, fasisma og á þeim tíma kommúnisma. Hvernig fólk hætti að hugsa og taka sjálfstæðar ákvarðanir hvernig söngur nashyrninganna seiddi það til sína, og hvernig það lét undan söngnum og fannst eftirsóknarvert að vera í þeim hópi, hvernig það smá saman breyttist næstum allt í nashyrninga, sem hugsuðu, töluðu og höguðu sér eins og nashyrningar.
Um daginn hlustaði ég á fyrirlesarar halda því fram að kapítalistar hafi frá upphafi látið Marx stýra gerðum sínum, á þann veg að þeir eru alltaf að mæta því sem hann spáði létu á þann hátt Marx um að skilgreina sig. Svona eins og hræðsla mín við að verða nashyrningur hefur mótað mig.
Lífstíll | Breytt 30.6.2007 kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.6.2007 | 15:51
Í þöggun felst ógn við lýðræði
Að óhreinka stefnur/strauna í leikskólamálum eða taka opinberlega afstöðu til þeirra - í mínum huga er þetta tvennt mjög ólíkt - en stundum er eins og fólki finnst það vera það sama. og í leiðinni verður það tabú. Það er ekki að óhreinka stefnu eða starf að hafa á því skoðun, heldur er það lýðræðisleg nauðsyn. Hvernig það er gert er hins vegar annað mál. Trúin á að maður hafi höndlað sannleika er hættulegust af öllu. Ég vona sannarlega að mér takist það aldrei.
Nýlega skrifaði ég grein í slóvenskt rit þar sem ég bar saman Reggio og DAP (Starf sem hæfir aldri og þroska í leikskólum), ég bar þetta saman við hugmyndir John Dewey um lýðræði og ég bar þetta saman við hugmyndir tveggja samtímafræðimanna, þeirra Mörtu Nussmaum og David Helds um forsendur lýðræðis. Ég skoðaði svo líka stefnu sem kallast Step by Step og er afar áhrifamikil í löndum austan járntjaldsins fyrrverandi.
Að sjálfsögðu komst ég að ákveðinni niðurstöðu, um það snúast fræðin meðal annars. Það er nefnilega hættulegast öllu lýðræði að hafa enga skoðun eða að þora ekki að ræða skoðanir sínar af misskilinni tillitsemi. Þögnin er bæði áhrifamikil og hættuleg. Það er hægt að kúga til þagnar.
Það er ekki að óhreinka skoðun/stefnu að bera grundvallarþætti hennar saman við hugmyndir um jafnrétti og lýðræði.
Það er ekki að óhreinka stefnu eða starf að setja ýmsa varnagla eða spyrja spurninga við það hvernig og hversvegna fólk er að gera það sem það gerir. Að biðja um rök og ástæður, að biða um umræðu. Það er ekki árás, það er lýðræði. Jafnvel þó einhverjum kunni ekki að líka við það. Ef eitthvað er þá er það okkar ábyrgð samkvæmt siðarreglum - en líka að gera það faglega og að geta sjálfur svarað faglega fyrir sitt starf og starfsaðferðir.
Fyrir nokkrum árum þegar tölvur með börnum voru að byrja inn í leikskólum þá valdi einn leikskóli að fara þá leið að fá fyrirtæki í samstarf við sig, Tölvum var raðað hlið við hlið inn í lokað gluggalaust herbergi og svo fengu börnin stundarskrá og á henni var xx mínútur í tölvustund x mörgum sinnum í viku. Í tölvustundinni var börnunum kennt að sitja á höndum sér þangað til kom að þeim og þau látin fylgja eftir einhverju prógrammi - máttu ekki reyna sig áfram. Algjörlega í andstöðu við það sem hefði talið vera aðall þessa leikskóla.
Þetta verkefni var kynnt á vegum leikskólakennarafélagsins og ég mætti á þá kynningu á þessum fundi spurði ég ýmissa spurninga um grundvallaratriði varðandi uppeldisfræðina sem að baki lá og gagnrýndi þetta fyrirkomulag. Þær sögðu mér eftir á, að þær hefði verið mér afar reiðar, fundist ég óþarfa berorð í spurningum mínum - en þær hefðu samt farið að hugsa. Sami leikskóli kynnti svo sama verkefni á ráðstefnu erlendis fáum mánuðum seinna. Þar voru þær teknar í nefið. Þær tóku þá ákvörðun að endurskoða hvernig þær unnu með tölvurnar og hafa eftir því sem ég best veit verið afar framarlega og pedagógískar í tölvumálum síðan.
Nýlega bloggaði ég smávegis um leikskólabyggingar http://roggur.blog.is/blog/kristindyr/entry/248474/ þar sem ég m.a. fjallaði um þau skilaboð sem rýmið sendir - í þessu bloggi hélt ég mig við Reggio og Waldorf að hluta en minnist aðeins á annað starf án þess að nefna nokkur nöfn. En í sjálfu sér er ég með því að gera öllum öðrum leikskólum á Íslandi óleik, selja þau undir hatt þeirrar hugmyndafræði.
Af blogginu:
Þar er ljóst að sú hugmynd að verkefni barna á veggjum séu subbuskapur sem þurfi að afsóða reglulega, á ekki við. Þar er ekki gefin út þau skilaboð að myndir á vegg séu tímasóun starfsfólks eða ofáreiti fyrir hegðunartrufluð börn eins og til er í fjölda íslenskra leikskóla. Viðhorf sem er mér gjörsamlega óskiljanlegt. Ég held að þvert á móti að með slíkum skilaboðum sé verið að senda allt önnur skilaboð til barna
(ps. Þetta er tekið úr námskrá viðkomandi hugmyndafræði - Myndir = tímasóun (afþurrkun) + áreiti fyrir hegðanartrufluð börn)
Þar sem ég er gjarnan kennd við starf í anda Reggio Emilia er best að tala fram að í mínum huga er það heldur ekki yfir gagnrýni hafið .Ég geri til dæmis grein fyrir gagnrýni sem fræðikonur hafa sett fram um Reggio í greininni sem ég sagði frá sem ég deili með þeim - ég segi líka frá mínum eigin áhyggjum um hættur sem ég tel Reggio geta staðið frammi fyrir. Í Stokkhólmi varð mér næstum um og ó í einum leikskólanum sem ég heimsótti. Ég spurði líka erfiðra spurninga þar, hvort mér fannst svörin sem ég fékk fullnægjandi er annað mál, en ég fékk svör.
Hingað til hef ég komið mér hjá að ræða opinberlega þá leikskólahugmyndafræði sem mér persónulega stendur stuggur af. Með því er ég að skjóta mér undan faglegri ábyrgð gagnvart börnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.6.2007 kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
28.6.2007 | 00:32
Ljóðræn Eyja
Las þetta "ljóð" á Eyjunni áðan - minntist andartaks námskeiðs sem ég fór á upp í HÍ fyrir nokkrum árum, ætlað doktorsnemum til að læra að skoða og skirfa um gögnin sín á annan hátt - þetta hefði getað verið dæmi um það.
HVAÐ gerðist milli 22:57 til 23:43
Hvítur svanur með svartan háls
Langar þig að ferðast um vesturland í sumar?
Klæddi mig í nýju gönguskóna mína og lagðist upp í sófa.
Utanríkisráðuneytið tekur fangaflug til skoðunar
--- 0000---
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2007 | 20:16
Nytsamir sakleysingjar
Lendingar ákveðinna flugvéla hér á landi teknar til nánari skoðunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.6.2007 | 13:08
Einn upphafsmaður R-listasamstarfsins
Hjartanlega til hamingju.
Hrannar er drengur góður, hann er einn þeirra sem eiga heiðurinn að upphafi R-listans. Staða aðstoðarmanns er pólitísk, og þar gildir miklu að hafa pólitískt nef - ég treysti því að það hafi Hrannar.
Hrannar Björn aðstoðarmaður Jóhönnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.6.2007 | 01:23
Svikin í tryggðum
Það er pínu skrítið hvernig allt getur lagst á eitt til að ergja mann. Ég hef einhverstaðar sagst vera aðdáandi ýmissa tækja sem ég tel sjálfri mér trú um að séu alveg nauðsynleg. Þegar synir mínir voru á unglingsárum tókst þeim oftar en ekki að fá mig til að sjá not fyrir óskiljanlegustu tæki.
Held ég hafi þetta frá Þorfinnu föðurömmu minni sem var alveg ótrúlega tækjavædd, eignaðist meira að segja ferðagrammafón upp úr 1960, en á honum hlustuðum við á Gullna hliðið í sumarbústaðnum í Fljótunum á dimmum ágústkvöldum í berjaferðum. Mér er sagt að á árunum um stríð hafi hún átt flottari myndavél en ljósmyndarinn í bænum. Og þegar við vorum unglingar sendi hún okkur rafknúið andlitsgufubað - til að hreinsa út bólur.
En aftur að mér, TÆKIN sem ég þarfnast mest og dái, ákváðu að gefast upp á mér í vetur eru TVEIR harðir diskar búnir að krassa hjá mér, lyklaborðið í tölvunni sem ég er með ákvað að vera með einverja dikti og virka bara þegar því hentar og stundum hentar því ekki að virka inn í miðjum setningum og stundum hentar að virka ekki mörgum sinnum á dag. Fékk reyndar að vita seinna að þetta er þekkt vandamál í þessari týpu. Allavega ég fór fram á að atvinnurekandinn skaffaði mér nýjan grip skapvonska mín við tölvuna og leiðindi við að þurfa að setjast niður við hana voru farin að setja alvarlegt mark á vinnu mína.
Leið og beið þangað til nokkrum mánuðum seinna, ég fæ bréf frá tölvudeildinni okkar mín nýja langþráða er komin. Við fyrsta tækifæri fer ég að ná í gripinn hamingjusamari en orð fá líst. Sá fram á frjóa daga með tækinu, andlegt samband sem ég vissi að yrði jafnvel gefandi og ánægjulegt. Vissi líka sem er, ég þarf að sitja við í sumar.
Eitt af því fyrsta sem ég þurfti að gera á þennan nýja grip var að klippa saman kynningarmyndband um kúrs hjá mér til að sýna á fundi sem ég var á leið á í Svíþjóð. Þó svo að vinnustaðurinn leggi mér til tölvu er hún ekki að flottustu gerð hún var nefnilega ekki með fire wire tengi ég þurfti því að kaupa mér sérstakt kort og setja í pci rásina , sem ég og geri, plús viðeigandi hugbúnað sem tekur við HD myndböndum og hægt er að klippa þau í nema þá slekkur gripurinn á sér búmm drepst. Reyni aftur, búmm dauð.
Ég fer með hana til þjónustuaðilans og í ljós kemur að móðurborðið er ónýtt og það þarf að panta nýtt frá útlöndum. Af einstakri þolinmæði læt ég mig hafa það að bíða í tvær vikur og hringi svo nei það er ekki komið, kemur ekki strax ég sá tveggja vikna vinnuferð mína gufa upp. Bar mig illa og fékk biluðu tölvuna með mér, mátti bara ekki tengja hana við fire wire, allt í góðu.
Á leiðinni heim, í fríhöfninni ákvað ég að skoða flakkara, minnug hruns tveggja harðra diska nú í vetur. Fjárfesti í einum 400 GB, ekki málið kem heim og ætla nú að koma öllu mínu í öruggt skjól áður en ég fer með veiku tölvuna aftur til þjónustuaðilans. NEMA flakkarinn virkar ekki. Í dag fór ég svo í ELKÓ. Eftir að hafa skoðað hann, gáfu drengirnir þar út þá yfirlýsingu að hann væri dauður. Fæ nýjan a.s.a.p. og tölvan er líka frá mér. Er á mínum gamla jálki sem ég sem betur fer var ekki búin að skila inn.
Á ég að taka þetta sem skilaboð?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.6.2007 | 21:56
gaman saman - verum vakandi
Góð þáttaka í fjöldagöngum gegn slysum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.6.2007 | 14:38
Ekki nóg að greina - verður að vera hægt að fylgja eftir
Ég fagna þessu frábæra framtaki sem er í takt við kosningarloforð Samfylkingarinnar. En samtímis hef ég ögn áhyggjur, það er nefnilega ekki til fjármunir eða mannskapur út í leikskólum og grunnskólum til þess að mæta auknum greiningum með aukinni sérkennslu. Fjölmargir leikskólar á höfuðborgarsvæðinu hafa undanfarin ár barist í bökkum við að halda út venjubundu starfi vegna manneklu. Ég bíð því spennt eftir að næsta loforð verði efnt af jafnmikilli reisn, það er að laga laun þeirra stétta sem vinna að umönnunar og kennslustörfum. Þegar það mál er í höfn - skal ég brosa allan hringinn og hoppa hæð mín í loft upp.
Það er nefnilega þessi endalausu mannskipti sem eru að fara með starf í flestum leikskólum. Sem koma í veg fyrir þróun starfsins og starfshátta. Einn leikskólastjóri sagði mér eitt sinn að hún kallaði þá sem kæmu svona inn í leikskóla og stoppuðu stutt við, nútíma farandverkamenn - þar er það ekki stál og hnífur heldur, kústur og pensill sem syngja þyrfti um.
Teymi stofnuð til að vinna á biðlistum eftir greiningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.6.2007 | 13:37
Hraðafíkn = manndómsyfirlýsing
Kannski að umferðaráð og tryggingarfélögin ættu að fara að huga að því að taka upp nýjar aðferðir líka. Hvort hraðafíknin er einhver manndómsyfirlýsing veit ég ekki. Eða það að gefa það í skin virki á unga ökuþóra sem leggja sjálfa sig og umhverfið í hættu. En ég er næstum að verða þeirrar skoðunar að tilgangurinn helgi meðalið. HEld annars að við þurfum að læra að slaka á þjóðin. Læra að njóta augnabliksins en ekki vera alltaf að flýta okkur að næsta augnabliki, næstu spyrnu, næsta...
Hvet svo alla til að ganga með starfsfólki spítalanna í dag.
Forvarnarauglýsing fyrir neðan belti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)