8.2.2009 | 01:57
Maðurinn sem veitti ríkisstjórninni náðarhöggið
Sturla Böðvarsson hefur ákveðið að láta af störfum á Alþingi. Honum hugnaðist ekki að vera ofurliði borinn í kosningu, sérstaklega vegna þess að hann vann störf sín svo vel. En auðvitað er undirliggjandi það viðhorf að sjálfstæðismenn eigi stól forseta. Hann hefur verið "feitt brauð" handa stjórnmálamönnum sem allir vissu að væru búnir með sitt pólitíska líf.
Kannski stóð Sturla sig vel sem forseti um það má sjálfsagt deila en hann gerði það ekki undir því álagi sem var í þinginu eftir jólafríið. Þá sýndi hann mikla vanhæfni í að lesa í aðstæður.
Vissulega bar Sturla ekki einn ábyrgð á klúðrinu í þinginu daginn sem það hóf störf eftir jólafrí, (frí sem var ansi langt í ljósi ástandsins), en hann bar á því mesta ábyrgð, hann var jú forseti þingsins. Það var þessi fína málaskrá hans sem fyllti mælinn og gerði það að verkum að þúsundir venjulegra borgara streymdu niður á Austurvöll með búsáhöldin, gjörsamlega misboðið. Dómgreindarskorturinn í alþingishúsinu var algjör, vanmáttur ríkisstjórnarinnar og ráðleysi opinberuðust þjóðinni sem aldrei fyrr. Á sinn hátt má segja að Sturla hafi veitt ríkisstjórninni náðarhöggið. Ég er viss um að margir landsmenn telja sig standa í þakkarskuld við hann vegna þess.
Persónulega tel ég að Sturla hefðu átt að hætta afskipti af pólitík, axla ráðherraábyrgð, eftir hvert klúðrið á fætur öðru við rannsókn á flugslysinu í Skerjafirði, aðdraganda þess og eftirmálum. Þar sem sambærileg vandamál og við stöndum frammi fyrir í dag við rannsókn á bankamálinu komu kannski berlegast í ljós. Vanhæfni sem m.a. orsakast af smæð samfélagins, af miklum og sterkum vina- og ættartengslum.
ES. Paranoja sjálfstæðismanna gagnvart Ólafi Ragnari er orðin sambærileg paranoju Jóns Ásgeirs gagnvart Davíð, bæði jafn vandræðalegt að verða vitni að.
Sturla og Herdís hætta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:58 | Facebook
Athugasemdir
Heyr, heyr. Ég er sammála þér um Sturlu.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.2.2009 kl. 02:10
Þér til upplýsingar Kristín: Það er ekki forseti Alþingis einn og sér sem ákveður dagskrá þingsins. Það er forsætisnefnd sem í eiga sæti formenn þingflokka, forsetar alþingis auk skrifstofustjóra þingsins. Enginn þeirra gerði neina athugasemd við uppsetta dagskrá (sem reyndar var ákveðin í desember) á fundi nefndarinnar áður en þingið var sett 20. jan.
Dómgreindarskorturinn var þess vegna ekki bara Sturlu, heldur einnig Ögmundi, Lúðvík, Jóni, Jóni og Arnbjörgu að kenna.
Ég er hins vegar sammála þér að þessi dagskrá var gjörsamlega úr takt við þann veruleika sem úti fyrir blasti og það hef ég gagnrýnt harkalega.
Sveinn Ingi Lýðsson, 8.2.2009 kl. 02:29
Kannski veittir þú ekki athygli orðunum "vissulega bar Sturla ekki einn ábyrgð" sem var tilvísun til nefndarinnar. En forseti ber ábyrgðina á framkvæmdinni og það að kalla ekki saman nefndina til að endurskoða dagskrána, ber ekki vott um mikið pólitískt læsi.
Kristín Dýrfjörð, 8.2.2009 kl. 03:03
Sturla hefur aldrei gengið í takti. Hann átti að segja af sér eftir Skerjafjarðarslysið. Þess í stað afhenti hann leyfishafanum sem átti vélina sjúkraflug!!!
Maðurinn er gjörsamlega vanhæfur til að koma að stjórnun, það er engin eftirsjá af honum. Farið hefur fé betra.
Kolbrún (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 03:41
Nú er bara að setja fingur í kross fyrir alla þá sem ekki geta beygt hnén fyrir aldurs og gigtar sakir.
Biðja hljóðlátrar bænar til himins, til allra góðra vætta að Davíð Oddsson þverskallist sem lengst í seðlabankanum, svo að landslýður hafi eitthvað til að plokka í og sjái sýna gömlu landsfeður í nýju ljósi. Þá meina ég líka Ingibjörgu Sólrúnu og Geir Haarde, sem áttu virkilega erfitt að stíga úr sínum stólum.
Síðan skulum við líka fylgja grannt eftir þeim sem eftir koma, þeir þurfa kannski hjálpar við svo þeir feti ekki í sömu fótsporin.
J.þ.A (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 07:53
Fyrir nokkrum áratugum var ég í Bandalagi Jafnaðarmanna. Sótti hádegisfundi hjá Vilmundi Gylfasyni, geysilega mætum manni sem því miður dó langt fyrir aldur fram. Ég man eftir því að hann sagði það berum orðum að valdamesti maður þingsins væri þingforseti . M.a. vegna þess að hann réði því hvenær mál væru tekin upp, í hvaða röð. Honum væri í lofa lagið að sjá til þess að þingsályktunartillögur kæmu ekkiupp á borðið til umræðu. Kannski er þetta ekki svona núna, vonandi er búið að bæta úr þessu.
Kannski hefur Sturla aldrei beitt neinu bolabragði í forsetastól, gott fyrir hann.
J.þ.A (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 08:06
Já, vertu eins athugul um að næstu þingforsetar fari að þínum viðhorfum um það sem þeim ber að gera.
Ekki gleyma að gagnrýna, þó þér líki við þá persónu eða flokkinn sem hún tilheyrir.
Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 08:23
Fundur forsætisnefndar haldinn fyrr þennan sama dag fannst ekkert athugavert við dagskrána.
Svo einfalt er það nú.
Sveinn Ingi Lýðsson, 8.2.2009 kl. 09:13
Sveinn Ingi; Flokkarnir leitast við að koma sínum málum á dagskrá. Þeir berjast ekki endilega gegn því að mál andstæðinganna, sem sömu andstæðingar leggja höfuðáherslu á, komist EKKI á dagskrá.
Hvaða flokkur ætli hafi lagt höfuðáherslu á að þingmálið um að koma brennivíninu í búðirnar yrði sett á dagskrá? Eru hinir flokkarnir þá "samsekir" af því þeir stöðvuðu ekki mál sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði áherslu á?
Þótt það sé forsætisnefnd sem ákvað dagskrána í sameiningu þá var það bara einn flokkur sem VILDI málið á dagskrá. Brennivínsmálið fór ekki á dagskrá AÐ ÓSK neinna annarra.
Friðrik Þór Guðmundsson, 8.2.2009 kl. 12:48
Takk öll fyrir innlitið, varðandi næstu þingforseta vona ég sannarlega að þeir verði pólitískt læsir, hvar sem þeir eru í flokki.
Ég geri líka kröfur til míns flokks, hef þegar gefið út þá yfirlýsingu að ef ekki verður prófkjör ætla ég ekki að kjósa hann. Ég vil sjá að valið verði með lýðræðislegum hætti á lista. Ég vil mikla endurnýjun. Ég vænti þess líka að minn flokkur ástundi ekki ráðningar án auglýsinga. Að hann ráði ekki fólk í sérverkefni sem dagi uppi í ráðuneytum og stofnunum. Gagnsæi verði í alvörunni hugtak sem verði haft að leiðarljósi í opinberri stjórnsýslu.
Kristín Dýrfjörð, 8.2.2009 kl. 16:16
Vissulega voru nokkrir um að skjóta sig í fótinn í þinginu.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 8.2.2009 kl. 23:53
Hérna er dagskrá 69. fundar 136 löggjafarþings. Dagskráin uppsett og ákveðin af forsætisnefnd. Hér sést glöggt hversu þessi hluti þingheims er úr takt og á skjön við allt sem var að gerast í þjóðfélaginu. Málið snerist fráleitt ekki bara um brennivínsfrumvarpið.
Framhald þingfundar (um fundarstjórn) B475 mál, SJS.
Var einhver að tala um að Neró hefði spilað á fiðlu meðan Róm brann?
Sveinn Ingi Lýðsson, 9.2.2009 kl. 09:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.