6.2.2009 | 01:42
"Plís" Katrín Jakobsdóttir viltu skoða þetta
Tiltektir, eru ordrur dagsins. Í mörg ár hef ég og fleiri leikskólakennarar velt fyrir okkur hvers vegna það ráðuneyti sem fer með málefni leikskólans hefur ekki starfandi sérfræðing á því svið, leikskólakennara. En það fer að nálgast áratuginn síðan að síðasti og lengst af eini leikskólakennarinn lét af störfum þar. Ég veit að Félag leikskólakennara hefur margoft í gegn um árin, í ráðherratíð núverandi og fyrrverandi ráðherra spurst fyrir um það sama. Það hlýtur að teljast slæm stjórnsýsla að í fagráðuneyti sé ekki ein einasta manneskja sem hefur yfirgripsmikla þekkingu á málefninu.
Á annars glæsilegu Menntaþingi síðasta menntamálaráherra í september s.l. sagði fulltrúi leikskólans frá því að henni hefði verið boðið að tala deginum áður. Á auglýstri dagskrár var ekki að finna fulltrúa leikskólans og það var ekki fyrr en leikskólakennarar gerðu athugasemd að þessu var kippt í liðin. Dæmigert klúður vegna þess að ekki er leikskólamanneskja í ráðuneytinu. Það þætti sjálfsagt merkilegt ef ekki starfaði einn einasti sérfræðingur á sviði lögfræði í dómsmálaráðuneytinu.
Ég velti líka fyrir mér hversu margir starfsmenn ráðuneyta eru í óauglýstum stöðum sem byrjuðu kannski með tímabundnum ráðningum. Mér þætti vert að nýr menntamálaráðherra (sem aðrir ráðherrar) létu kanna hversu oft hefur verið farið á svig við lög um að auglýsa störf opinberra starfsmanna og þeir ráðnir í verkefnastjóra og tímabundnar sérfræðingsstöður sem hafa svo ekkert verið sérlega tímabundnar. Slíkt fyrirkomulag byggir undir tortryggni og ber með sér spillingu. Ég er ekki að halda því fram að allt það fólk sem hefur verið ráðið á slíkum forsendum sé óhæft. En það hefur yfir sér dökkt ský sem þarf að sópa frá. Það er hluti af siðbót hins nýja Íslands.
Í dag er Dagur leikskólans og margir leikskólar gera sér og öðrum dagamun í tilefni þess. En dagurinn er líka afmælisdagur stéttarfélags leikskólakennara sem var fyrst stofnað þennan dag 1950. Þegar leikskólakennarar gerðu í fyrsta sinn kröfur um kjarasamning árið 1950 mættu þær nokkuð sérstökum viðhorfum hjá viðsemjendum sínum
"Það væri makalaus ósvífni af þessari nýju stétt að gera kröfur um kaup og kjör ... Við fengum að heyra það að það góða fólk sem barist hafði fyrir stofnun Uppeldisskóla Sumargjafar hefði aldrei trúað því að námsmeyjar ættu eftir að haga sér svona ósvífið. Í blómstruðum kjólum." (Davíð Ólafsson 2000: 24)
Stundum finnst mér eins og við séum enn að berjast við sambærileg viðhorf. Það eru aðrir sem eiga að hafa faglegt vit fyrir okkur, störfum okkar og starfsaðstæðum. Í afmælisgjöf til leikskólakennara og sem gjöf til barna þessa lands, viltu, plís, skoða þessi mál Katrín.
Úr bloggfærslu minni í september
"Umkvörtunarefni mitt við ráðuneyti menntamála
Annars er það mitt helsta umkvörtunarefni við ráðuneyti menntamála sem hefur faglegt eftirlit með starfi leikskóla og ber á því ábyrgð að þar hefur ekki starfað leikskólakennari síðan Svandís Skúladóttir fór á eftirlaun á síðustu öld. Mér finnst það alveg ótrúleg móðgun við leikskólakennara að þar hafa menn ekki talið þörf á að nýta sér þekkingu þeirra að staðaldri. Það er ekki nóg að kalla til fólk í starfshópa inn á milli. Ég veit að stéttarfélag leikskólakennara hefur í gegn um tíðin gert við þetta athugasemdir en fyrir tómum eyrum. Kannski var undirbúningur ráðuneytisins fyrir málstofuna um leikskólann lýsandi dæmi um viðhorf ráðuneytisins gagnvart leikskólanum eða einmitt afleiðing þess að þar starfar enginn leikskólakennari. "
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:11 | Facebook
Athugasemdir
Er þá nokkuð annað en að senda ráðherra erindi um málið.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.2.2009 kl. 06:45
Sæl Kristín og til hamingju með dag leikskólans.
Ég er viss um að Katrín Jakobsdóttir tekur þessari hugmynd vel, hún hefur heldur betur látið hendur standa fram úr ermum þá fáu daga sem hún hefur verið ráðherra.
Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 6.2.2009 kl. 08:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.