8.12.2008 | 01:33
Karlinn undir klöppunum, situr á svörtuloftunum
Ég hef ekki bloggað að ráði undanfarið, engar sérstakar ástæður fyrir því. Það er ekki eins og málefni hafi skort. Samfélagsmál stór og smá. Frammistaða flokksins míns sem ég er ekkert sérlega sæl með hefði t.d. verið verðugt umfjöllunarefni. Flokks sem ég hef enn ekki yfirgefið, það er þessi genitíski kratismi í mér sem virðist þola mikið. Ég er þeirrar skoðunar að kosið verði fyrir lok kjörtímabils. Ég held að hjá því verði ekki komist. Ég var ein þeirra sem fannst að það ætti að gefa ríkisstjórninni svigrúm til starfa, hinsvegar er í mér beygur um hvernig hún hefur nýtt þetta svigrúm. Ég eins og 90% þjóðarinnar skil ekki hvað er verið að halda í kallinn á Svörtuloftum. Þennan sem situr undir klöppunum og klórar sér með löppunum. Hann er fyrir löngu búinn að bregðast trúnaði atvinnurekenda sinna, þjóðarinnar. Á öðrum vinnustöðum væri manninum sagt að taka sinn pynginn. Kannski er þetta framtaksleysi til að takast á við manninn á Svörtuloftum það sem vekur hjá manni ugg. Ef heil ríkisstjórn getur ekki losað sig við mann sem er löngu búinn að brjóta jafn illilega af sér í starfi og hann, hvers er hún þá umkomin? Þess vegna er klapparkarlinn í sjálfu sér ekki vandamálið, heldur er það hvernig málin snúast um hann, birtingarmynd vanmáttar ríkisstjórnarinnar. Því miður.
Annars hef ég verið að sinna fjölskyldunni, mínu Sturlubarni sem vill samt helst sjá afa sinn og mig í neyð. Eftir miklar tilfæringar hér á heimilinu er það loks að komast í lag. Jerry karlinn Garcia kominn á sinn stað og Sturla fær að heilsa honum. Jerrý er allsber engill með hökutopp og bassa sem hangir hér í ganginum og Sturla minn átti og hékk í herberginu hans. Sturlubarnið hefur mikla ást á Jerrý og þarf að skoða hann nokkrum sinnum í hvert sinn hann kemur.
En Sturlubarnið er að taka mikil þroskastökk, gera sér betur grein fyrir sjálfum sér. Hefur ákveðnar skoðanir á ýmsu og kann að láta þær í ljós án orða. T.d. vill hann ekki að við borðum fyrir framan sjónvarpið, dregur okkur að borðstofuborðinu eða að stólum við eyjuna og bankar ákveðið. Mér finnst þetta reyndar fyrirmyndaviðhorf hjá honum og styð hann í þessu. Góð gildi þar, sem foreldrarnir hafa haldið að honum.
Að lokum þá er hún Guðrún Alda vinkona mín búin að opna heimasíðu fyrir leikskólann sem hún er að fara að opna eftir áramót, veit að hún var að auglýsa um helgina og ég er mjög spennt að sjá hverning henni gengur að ráða. Held að nú sé möguleiki til að byggja upp skemmtilega og fjölbreytta starfsmannahópa í leikskólum landsins.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:58 | Facebook
Athugasemdir
Yngsta barnabarnið mitt og mamma hans hafa verið hjá mér í 8 daga og verða hér framyfir áramót. Hann verður 2 og hálfsárs 28 des. Hann er svo duglegur að tala, og segir flest sem þarf til þess að tjá sig. Núna er aðalmálið að segja nei, og endurtaka það sem hann var beðinn að gera. Nei ekki fara að sofa, nei ekki borða, nei ekki leika Svo vill hann ganga frá diskum og drasli á sinn stað, hver matardiskur og glas fer í vaskinn og draslið í ruslið.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.12.2008 kl. 02:53
Svo er nýjasta tíska hjá honum að segja " nei vill ekki"
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.12.2008 kl. 02:54
Nú þurfum við bara að kalla til Síðskegg Skellirass á Karlinn undir Klöppunum
Bergljót B Guðmundsdóttir, 8.12.2008 kl. 05:45
Hvað hefur Davíð Oddsson brotið af sér í starfi?
Heimir Lárusson Fjeldsted, 8.12.2008 kl. 12:14
Ég tel ræðu hans um daginn t.d. vera brot í starfi - þar vitnar hann i gögn og segir frá opinberlega. Gögn sem hann svo tveimur vikum seinna á fundi viðskiptanefndar, ber við bankaleynd um. Ef ekki brot þá gengdarlaus dómgreindarskortur. Sem er auðvitað brottrekstrarsök í hans starfi. Og svo ég beri fyrir mig setningu sem ég lærði í gamla daga þegar ég var yfirmaður, þá er ljóst að vinnusambandið gengur ekki upp. Með því er átt við að viðkomandi á sér e.t.v. von annarstaðar en það er fullreynt á þessum vinnustað.
Kristín Dýrfjörð, 8.12.2008 kl. 12:24
Síðskegg skellirass, það er ekki sá sem kordur sínar sló?
Kristín Dýrfjörð, 8.12.2008 kl. 12:24
Jóna Kolbrún, þegar ég las þessa dásamlegu setningu "nei ég vil ekki", þá hélt ég fyrst að þú værir að ræða um hann karlinn á svörtuloftum**).
En drengurinn er náttúrlega á þessum margfræga nei aldri. Það er afar valdamikið orð sem hann er að ná að skilja og ná tökum á.
Kristín Dýrfjörð, 8.12.2008 kl. 12:28
Þessi meintu brot í starfi Davíðs Oddssonar eru einungis tilfinningar þínar. Skoðanir hans fara ekki saman við þínar og það getur vart talist brot í starfi.
Þið Samfylkingarfólk þurfið að fara að snúa ykkur að raunverulegum vandamálum í þjóðfélaginu og bróðfótunum sem vissir ráðherrar ykkar standa á og hætta að einelta Davíð Oddsson, þá mun ykkur farnast betur.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 8.12.2008 kl. 13:00
þetta er dálítið fyndið, ég var einmitt að segja að ég vil að málin snúist um annað en bankastjórann. Og mér finnst sárgrætilegt hvernig það er eins og að stinga nál í mænu vissra sjálfstæðismanna að minnast á bankastjórann sérstaklega ef það er vottur af gagnrýnistón. Er það prívat skoðun að maður sem er í emmbætti bankastjóra megi ekki segja hvað sem er hvenær sem er um málefni bankans og þjóðarinnar? Væntanlega var hann sammála mér um að hann hefði ekki leyfi til þess í sumar annars hefði hann væntanlega látið mig og þig vita.
En það er rétt hjá við Samfylkingarfólk verðum að líta heim og skoða okkar fólk og þess gjörðir eða ekki gjörðir. Og þér að segja þá er nú mikið rætt um pólitík í minni stórfjölskyldu, mest um Samfylkinguna og hennar mál, minnst um aðra flokka.
Kristín Dýrfjörð, 8.12.2008 kl. 15:16
"Ef heil ríkisstjórn getur ekki losað sig við mann sem er löngu búinn að brjóta jafn illilega af sér í starfi og hann, hvers er hún þá umkomin? "
Stór orð sem erfitt er að standa við, ekki satt?
:-) kveðja,
Heimir Lárusson Fjeldsted, 8.12.2008 kl. 17:18
Davíð hefur sagt að hann hafi verið að vara við yfirvofandi hættu á rekstrarafhroði bankanna.
Geir kannast ekki við aðvaranir. Geir man kanski betur það sem Seðlabankinn sendi frá sér á prenti.
Þetta hafði bankinn að segja 26. apríl í skýrslu undir nafninu Fjármálastöðugleiki:
„Í Fjármálaastöðugleika fyrir ári var niðurstaða greiningar Seðlabanka Íslands sú að fjármálakerfið væri í meginatriðum traust. Sú niðurstaða er óbreytt.
Ársreikningar íslenskra fjármálafyrirtækja fyrir árið 2007, sérstaklega þriggja stærstu bankanna, sýna enn sem fyrr að þeir eru þróttmiklir.
Eiginfjárstaða, arðsemi og lausafjárstaða þeirra er viðunandið Álagspróf Fjármálaeftirlitsins (FME) og Seðlabankans staðfesta þetta. Rekstraruppgjör bankanna fyrir fyrsta fjórðung þessa árs er í samræmi við það mat. Vegna umframeignar í erlendum gjaldeyri urðu þeir ekki fyrir tapi af völdum lækkunar á gengi íslensku krónunnar heldur þvert á móti. Bankarnir voru á margan hátt vel búnir undir að mæta lausafjárþrengingum og efnahagslegum áhrifum þeirra á starfssvæðum sínum.
Að nokkru má rekja það til viðbragða þeirra við andstreyminu sem þeir mættu á fyrri hluta árs 2006 en sá vandi var ekki alþjóðlegur. Nú takast þeir á við lækkun eignaverðs, hækkun fjármagnskostnaðar og takmarkaðan aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum.
Almennt hefur gengið vel að auka innlán og í lok árs 2007 voru meira en tveir þriðju hlutar innlána þriggja stærstu bankanna frá erlendum aðilum. Á heildina litið er niðurstaða Seðlabankans enn sú að fjármálakerfið sé í meginatriðum traust. Íslenska bankakerfið uppfyllir kröfur sem gerðar eru til þess og stenst álagspróf sem Fjármálaeftirlitið og
Seðlabankinn hafa gert.“
Þú spyrð Heimir hvað DO hafi gert af sér. Er ekki nóg að benda á að hann er rúinn trausti. Og maður í hans stöðu á ekki að vera í pólitík.
Hjálmtýr V Heiðdal, 8.12.2008 kl. 23:30
Þegar stór og stæðilegur stjórnmálaflokkur sem Samfylkingin er beitir sér af alefli á Alþingi í fjölmiðlum og á öllum þeim mannamótum og persónulegum samtölum innanlands og utan gegn einum manni, er ekki erfitt eftir margra vikna einelti að segja hinn einelta rúinn trausti. Er það stórmannlegt Hjálmtýr?
Heimir Lárusson Fjeldsted, 9.12.2008 kl. 10:59
Heimir.
Í Almennum hegningarlögum (1940 nr. 19 12. febrúar) stendur:
X. kafli. Landráð.
91. gr. Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum.
Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem falsar, ónýtir eða kemur undan skjali eða öðrum munum, sem heill ríkisins eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin.
Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.
Hafi verknaður sá, sem í 1. og 2. mgr. hér á undan getur, verið framinn af gáleysi, skal refsað með …1) fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.
Hörður Svavars (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 21:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.