18.8.2008 | 20:02
Hvað gerði sviðsstjórinn?
Ég er ekki í Sjálfstæðisflokknum og ég starfa ekki hjá borginni. En sem fyrrum borgarstarfsmaður og áhugamanneskja um leikskólamál reyni ég að fylgjast vel með því sem þar gerist. Leikskólar Reykjavíkur gegna ákveðnu forystuhlutverki gangvart landinu öllu. Þegar fréttir komu í kvöld þess eðlis (á rúv og visir.is) að formanni leikskólaráðs hafi mislíkað leiðsögn sviðsstjóra leikskólasviðs og í framhaldið ætlað að reka hann, hef ég tilhneigingu til að trúa borgarstjóra að ákveðnu marki. Ég er ekki viss um að formaðurinn hafi verið kominn svo langt að gera alvöru úr að reka sviðsstjórann. Ég vona eiginlega að þar hafi borgarstjóri verið að ýkja. Ég veit líka sem er að hefði formaðurinn látið verða af uppsögn hefði hann uppskorið ekki bara mikla, heldur gríðarlega ónægju leikskólastjóra borgarinnar en sviðsstjórinn er afar vel liðinn og þykir taka á málum af sanngirni. Þess vegna trúi ég ekki að formaðurinn hafi ætlað sér að reka viðkomandi, hann hefur ekki hætt á að fá leikskólastjórana algjörlega á móti sér.
En hvað getur hafa reitt formanninn svo sem gefið er í skin? Í vor bloggaði ég einmitt um það sem ég taldi vera handvömm þáverandi meirihluta, þ.e. að bjóða tilteknu fyrirtæki rekstur leikskóla borgarinnar án útboðs og verða svo að klóra í bakkann með einhverri einkennilegustu útboðsauglýsingu sem sést hefur. Þar sem þeim sem áhuga höfðu var bent á að skoða heimasíðu þess fyrirtækis sem síðar fékk skólana (og hafði einmitt verið beðið um að reka þá). Líklegt má telja að þetta sé eitt þeirra mála sem Ólafur er að vísa í. Sviðsstjórinn hefur væntanlega sinnt sínu starfi og bent formanninum á að hann gæti ekki einhendis ákveðið að ganga til samninga við tiltekið fyrirtæki um rekstur nýrra leikskóla á vegum borgarinnar án þess að útboð færi fram áður. En kannski lágu allt aðrar ástæður að baki þessu missætti, ástæður sem við fáum aldrei að vita um.
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.