Undur og stórmerki

Í nokkra mánuði er Lilló búinn að reyna að fá ýmsa pípara til að líta á ókláraða baðherbergið í kjallaranum. "Já, já" segja þeir allir, "kem og lít á þetta fljótlega". Og svo ekki söguna meir. Í dag sit ég í sakleysi mínu úti á palli (fólk er svo einstaklega vinsamlegt að trufla mig töluvert frá skrifum og ég gríp hverja heimsókn fegins hendi). þarna sit ég þegar síminn minn (hann hringir afar frekjulegri hringingu, svona svo mér finnst ég hafa gert eitthvað af mér hringingu), byrjar að hringja. Ég svara náttúrulega í grænum hvelli og er það þá ekki pípari sem ætlar að líta við í fyrramálið. Skoða verkið. Ef ég væri með lýs, dyttu þær allar dauðar úr hausnum á mér að undrun einni saman. Svo fór ég að hugsa að nú sé kannski tími fyrir okkur smáfuglana með litlu verkin. Nú förum við að komast á verkefnalista iðnaðarmanna.

Annars er húsið okkar þannig að við klárum það sennilega alveg aldrei, alla vega ekki áður en elliheimilisdvölin tekur við.  Núna sýnist okkur t.d. rennurnar sem við létum skipta út fyrir 15 árum vera að gefa sig. Þannig er þetta eilífur hringur, svona eins og hjá fólkinu sem starfar við að mála Golden Gate brúna alla ævi.

Já og Lilló skrapp í vatnaveiði og veiddi ekkert, ég fór ekki með er búin að sitja heima við og gera tilraun til að vera fræðileg í skrifum.

Grillaði svo mat handa syninum sem leit við með piltinn unga, Matseðill á grilli:

Maríneruð kjúklingabringa, (sem ég borða alls ekki)

kartöflusneiðar maríneraðar í olíu, balsamik-ediki og grófu salti stráð yfir fyrir grillun,

grillaðar paprikur, skinnið grillað alveg svart, þær lagðar í lög af olíu, balsamik og sítrónu (eftir grillun, svarta húðin pilluð af),

Heimagert grill-flatbrauð (án gers en með oggu kumíni)

og taziki gert úr hrærðu KEA skyri, ólívuolíu, oggu salti, miklum hvítlauk og heilli agúrku.

Eiginmaðurinn fékk svo afganginn þegar hann kom seint um síðir úr veiðiferðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta hefur verið ljúffeng máltíð eins og ætíð hjá þér.

Bergljót B. Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 13:46

2 Smámynd: Bergljót Hreinsdóttir

Uhmmm...hljómar OFURgirnilega....þessi matseðill...

Bergljót Hreinsdóttir, 11.7.2008 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband