11.4.2008 | 10:34
Að syngja með Sturlubarni
Undanfarið hefur amma leikskólakennari verið að rifja upp einföld barnalög sem höfða til 6 mánaða Sturlubarnsins til að syngja með honum. Síðustu mánuði hafa þau sungið "Ég heyri þrumur" með heimatilbúinni hreyfiútfærslu sem höfðar til 4-6 mánaða, eftirvæntingin eftir síðustu setningunni, "Ég er gegnblautur", þegar amma grípur um upphandleggi Sturlubarnsins og hristir (lauslega auðvitað), er óviðjafnanleg. Nú er Sturlubarnið farinn að sitja og því ákvað amman að bæta inn "Við skulum róa sjóinn á". Fyrst á réttunni svo á röngunni, er líka mjög vinsælt. Þó að Sturlubarnið sé enn ekki farið að syngja orðin með ömmu, þá syngur hann með líkamanum og með andlitinu. Þess vegna finnst ömmunni mikilvægt að syngja lög með hreyfingum.
Í gær sátum við á eldhúsgólfinu, andspænis hvort öðru og amman hélt um báðar hendur á Sturlubarni. Svo var togað og ýtt og sungið "við skulum róa sjóinn á, sækja okkur ýsu. En ef hann krummi kemur þá, að sækja hana Dísu." og þegar amman segir, Dísu, kippir hún Sturlubarni í fangið og hann hlær.
Annars er Sturlubarn á þeim aldri að allt sem glitrar heillar. Hann er til dæmis afar upptekinn af hnapp á peysunni hennar ömmu. Amma hefur keypt handa honum tvö leikföng frá því að hann fæddist, fyrst keypti hún óróa yfir vögguna og svo spegil sem hægt er að festa við rúmið eða leika með á gólfinu en Sturlubarnið er heillaður af speglum. Hann er líka svo heppinn að amma á slatta af þeim úr plexígleri. Spegla sem ekki brotna og lítil maður má leika með. Sumir speglarnir hennar ömmu er á hjörum og þá setur hún upp í kringum Sturlubarnið, þannig getur hann fylgst með umhverfinu. Nú er amma að fara til útlanda og sagði foreldrum að ef hún rækist á gyllt leikefni handa Sturlubarni þá mundi það rata ofan í tösku.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Það er gott að amman hefst fljótt handa við tónlistaruppeldi ungs drengs. En ég bíð spennt eftir að amman syngi "Frost er úti fuglinn minn".
Systa
Bergljót B Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 13:23
Heyrðu frú mín góð, ég sem ætlaði einmitt að nota þá tilvísun í erindinu mínu á föstudag. heheheh
Kristín Dýrfjörð, 12.4.2008 kl. 14:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.