3.4.2008 | 00:24
Leikskólabörn sem kunna að smíða, gera rafmagnstilraunir og leikskólakennari (ég) sem er eilítið utan við sig
Ég skrapp í heimsókn í leikskólann Iðavöll á Akureyri í morgun. Hitti þar fyrir börn og starfsfólk. Settist með hóp 4 ára barna og rabbaði dáldla stund. Börnin voru að búa til kassa utan um fígúru sem þau gerðu um daginn, eitt stelpuskott hafði ekki gert fígúru en gerði kassa. Á þann hluta blaðsins sem klipptur var í burtu hafði hún teiknað fugl. Eftir nokkra umræðu um hvort kassar gætu ekki verið hreiður eða búr, ákvað hún að klippa út fuglinn og setja hann í kassann sem hún ákvað að væri hreiður. Þetta er fullorðinn fugl en ekki ungi sagði hún mér og hann getur þess vegna sjálfur flogið úr hreiðrinu þegar hann vill. Af þessari umræðu dettur út úr mér; Fuglinn segir bí, bí, bí. Bí, bí segir Stína. Og börnin kláruðu; Kveldúlfur er kominn í, kerlinguna mína. Við ræddum svo um kvöldúlfa og hvernig þeir geta komist í börn. Og hvað eru Kveldúlfar eiginlega og hvernig er hægt að losna við þá? Mjög fróðlegar umræður.
Ég skoðaði líka smíðagripi sem börnin á Iðavelli hafa verið að gera með Georg Hollander, fyrst ákveða börnin hvað það er sem þau vilja smíða í samvinnu við starfsfólkið og svo gera þau vinnuteikningu af gripunum sínum og smíða þá. Þau eru orðin fær í að nota sagir og bora og ímyndunaraflið. Ég sá broddgelti í ýmsum myndum og Spiderman og kónguló og prinsessur á bleikum skóm, allt hlutir sem börnin smíðuðu sjálf. Núna eru starfsfólkið, börnin og Georg að hanna stórt útlistaverk sem á að eiga heima fram í Eyjafjarðarsveit.
Svo skoðaði ég tilraunaborðið hans Arnars, við fórum yfir nokkrar tilraunir og ræddum um frekari útfærslur á sumum þeirra. Arnar hefur safnað innan úr tölvum og hinum ýmsum rafmagnstækjum efni sem er síðan notað í vinnu með börnunum. Þetta er sérstak áhugamál okkar Arnars, ég lærði eina nýja tilraun, sem felst í að búa til einfaldan mótor úr rafhlöðu, skrúfu, segulstáli og vír. Í vor þegar ég verð í langri lotu fyrir norðan hef ég áhuga á að við reynum að smíða segullestarbraut. Sérstaklega þar sem nú er auðvelt að fá nógu sterka segla. Síðast þegar ég reyndi við lestina voru seglarnir mínir ekki nógur sterkir.
Svo hringdi síminn á Iðavelli, spurt um mig, þá átti ég víst að vera byrjuð að kenna. Ég hafði einhverveginn bitið mig í að kennsla hæfist ekki fyrr en tveimur tímum seinna. Af einskærri tilviljun hafði einn samkennari minn heyrt mig minnast á það deginum áður að ég ætlaði í heimsókn á Iðavöll. Á leiðinni út af leikskólanum flýtti ég mér svo mikið að ég fór í kápuna mína úthverfa, einni fjögurra ára fannst það frekar fyndið og spurði mig hvað ég héti. Ég náði að snúa kápunni við (hugsaði samt hvort ég ætti ekki bara að skella mér í henni úthverfri, skipti það í raun einhverju máli). Ég dreif mig upp í skóla, þar sem fólk var farið að óttast um að eitthvað hefði komið fyrir mig. (Ég var ekki með gemsann, hafði auðvitað gleymt honum hjá vinkonu minni kvöldið áður). En allt gekk vel og ég kenndi og mætti á flugvöllinn í tíma.
Suðurflugið var fínt utan nokkurrar ókyrrðar í Hvalfirðinum og yfir Faxaflóanum. Ég hugsaði og svo er fólk að kvarta þegar komið er niður Eyjafjörð.
PS. Svo er SARE (Reggio samtökin) búin að opna fyrir skráningu á okkar frábæru ráðstefnu sem verður í vor. Ráðstefnu sem byggir að miklu leyti á vinnusmiðjum. Hvet sem flesta til að kynna sér hana.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt 4.4.2008 kl. 09:16 | Facebook
Athugasemdir
Flott grein. Ég þarf að vísa í þetta í Skóla-Akri. Má ég nota þetta? gb
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 21:03
Sjálfsagt mál, kv
Kristín Dýrfjörð, 4.4.2008 kl. 09:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.