13.1.2008 | 22:50
Er ekki rotuð - bara bisí
Ég fékk upphringingu í dag, viðkomandi vinkona var bara að tékka á hvort ég væri ekki lífs, hafði ekki talað við mig í viku og ekkert séð á blogginu. Ég er lifandi og við góða heilsu. Á morgun hefst hins vegar kennsla og hana þarf að undirbúa. Sit hér nú og útbý glærur. Í fyrra ákvað ég að sleppa glærunum og flytja fyrirlestrana. Nemarnir voru eins og vængbrotnir fuglar og alls ekki þakklátir kvalara sínum. Þrátt fyrir að ég talaði fyrirlestrana inn á hljóðglærur var það ekki nóg. Fátt virðist koma í stað fyrir vel massaðar power point glærur.
Bókin sem ég byrja að kenna heitir því skemmtilega nafni Doing Foucalt in early chidhood studies og er eftir ástralska fræðikonu Glendu MacNaughton, í inngangi bókarinnar stendur að markmið hennar sé að:
byggja upp þekkingu í leikskólafræðum sem styður að daglegt lif með börnum í leikskólum sé byggt á siðfræði og lýðræði. Henni er ætlað að hjálpa nemum að bera kennsl á pólitíska ferla, þar sem einni tegund þekkingar í leikskólafræðum er raðað í forgang umfram aðra.
Sem dæmi þá var Piaget lengi vel alsráðandi sem fulltrúi hinar réttu kenningar, önnur kenning sem átti upp á pallborð stjórnvalda í hinum vestræna heimi var kenning Bolwby um geðtengsl. koðað er hvernig hún var nýtt til að stýra konum af vinnumarkaði og inn á heimilin. Hérlendis var kenningin kölluð móðurafrækslukenningin. Í bókinni er hvatt til ígrundunar um hver velur, hvaða þekking er nýtt og framleidd. Fyrir hverja og hver hagnist helst.
Annars er það helst af mér að frétta að í gær var ég með mínum skólasystrum úr framhaldsnámi í stjórnun. Hittumst við með mökum í árlegu áramótaboði. Ræddum um dagskrá ársins sem er auðvitað tilbúin fyrir utan smáatriði eins og hvert á að halda í júní með mökum. Lagt var til að í ár færum við í útilegu út í guðsgræna náttúruna en samt nálægt golfvelli. Kom í ljós að ýmsir í hópnum eiga "skuldahala" (nýyrði sem ég lærði í gær), öðru nafni tjaldvagn eða fellihýsi. Sumir eiga líka appelsínugul Belgjagerðartjöld. Aðrir eins og undirrituð lagði til að tjaldað væri nálægt bústöðum sem leigðir væru út til þeirra sem ekki eru veikir fyrir tjaldlífi.
Við fengum annars tapas rétti að snæða og sátum við borðhaldið í marga klukkutíma og skemmtum okkur vel.
Flokkur: Menntun og skóli | Facebook
Athugasemdir
Innlitskvitt til að óska þér og samtökunum SARE (Samtök Áhugafólks um starf í anda Reggio Emilia) til hamingju með styrkinn. Frábær stuðningur við mjög svo áhugaverðan félagsskap.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 14:49
Sömuleiðis hamingjuóskir til SARE ... en ertu nokkuð orðin glær af glærunum?
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 19.1.2008 kl. 17:02
Til hamingju með styrkinn Sjáumst hressar á laugardaginn.
Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 12:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.