7.1.2008 | 02:58
Rota jólin
Tæmum glös og gleðjum lund
þó gusti um norðurpólinn.
Það er vani að vaka stund
við að rota jólin.
þó gusti um norðurpólinn.
Það er vani að vaka stund
við að rota jólin.
(Stefán Stefánsson frá Móskógum á Bökkum)
Þessi vísa er eftir Skagfirðing nokkurn sem lýsir þar þeim sið að rota jólin á Þrettándanum. Það gerum við líka í minni fjölskyldu. Aðallega held ég nú að við höfum haldið í siðinn vegna þess að þá á mamma afmæli. Þegar við mættum í Skeifuna í dag var hún búin að útbúa veisluborð úr öllum afgöngum jólanna og meiru til. Við mættum öll til að gleðjast með henni og kýla vömbina svona áður en lagt verður í átak ársins. Bræður mínir mættu að venju með rakettur og blys. Held að stærstu kökurnar sem þeir sprengdu hafi verið á stærð við þvottavélar. Börn á ýmsum aldri skemmtu sér við að skjóta upp en við hin létum nægja að horfa út um stofugluggann.
Við rifjuðum líka upp úr æsku okkar Þrettándagleði á Króknum, þegar Álfadrottning og Álfakóngur komu í hestakerru á Þrettándabrennu á Flæðunum. Þegar fólk safnaðist þar saman og söng Stóð ég út í tunglsljósi og fleiri lög.
Já við rotuðum jólin með glæsibrag þó ekki hafi verið vakað lengur að skagfirskum sið - enda fylgir víst þeim sið að fá sér oggulítið í tána og á morgun er vinnudagur.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 03:02 | Facebook
Athugasemdir
Líklega má segja að mín aðferð til að rota jólin hafi verið að fara um heimilið eins og stormsveipur á sunnudaginn (sjálfan þrettándann) til að fjarlægja allt jólaskraut á sem stystum tíma (skyldi bara jólatréð eftir). Veit ekki betri útrás eftir þetta langa matar- og svefnsukkstímabil - úff: Öll fötin mín eru farin að mótmæla þessum jólum.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 21:13
Sæl frænka, og gleðilegt ár ég rotaði jólin frekar rólega , tók niður jólaskraut og moppaði, en hafðu það gott og skilaðu kveðju til stórfjölskyldunnar kv.Biddý siglófrænka
Brynhildur Baldursdóttir (IP-tala skráð) 17.1.2008 kl. 13:05
Takk frænka fyrir innlitið, skal skila siglfirskri kveðju til skeifuliða.
Kristín Dýrfjörð, 23.1.2008 kl. 01:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.