Námskeið, frelsaðar bækur og Sturlubarn

Námskeiðið okkar á Kaffi Reykjavík gekk ljómandi vel. Salurinn hentaði vel fyrir það sem við vorum að pæla og mokkarjómaostakakan sem eldhúsið gerði var dýrleg. Mæting hefði nú mátt vera betri en því meira fengum við sem þó vorum á staðnum út úr því sem við vorum að gera. Flestir fóru glaðir á braut og vildu meira. Heyrði marga segja eitthvað á þessa leið; "þetta væri frábært fyrir minn vinnustað", "flott að fá svona þjálfun fyrir allt starfsfólkið í leikskólanum". Sjálf sat ég þegar fór að halla undir lok námskeiðsins og horfði á einn leikskólakennarann,  ég vissi hvað rann í gegn um huga hennar. Ég fór að skellihlæja upp úr einsmanns hljóði og sagði "ég veit hvað þú ert að hugsa" "þú ert að  hugsa þetta ætla ég að gera í samverustund á morgun." "Já", sagði hún "það var einmitt það sem ég var að hugsa."  "Oh hvað ég vildi vera fluga á vegg hjá ykkur á morgun" sagði ég. Bíð efir að heyra meira í þeim seinna, hvort þær nýta sér það sem við vorum að gera. 

Prestar 

Las annars ágætt blogg eftir "betri" helminginn, hann segir að ég hafi svarað honum í belg og biðu, sjálfsagt meira en rétt, enda mér pínu annt um málið.

Vindur og frelsaðar bækur 

Ég er annars að hlusta á vindinn þjóta, sjaldan að við heyrum svona vel í honum hjá okkur. Minnti mig á þegar við yngri systur lágum sitt í hvoru rúminu heima, undir súð og hlustuðum. Þegar best var að kúra undir sæng með góða bók. Held reyndar að það sama eigi við núna. Ég var fyrir norðan í vikunni og fékk lánaða frelsaða bók. Frelsuð bók er bók sem einhver er búin að lesa og leggur svo á borð á ganginum fyrir aðra að taka og lesa. Stundum liggja þær bara, þessi hefur aftur verið frelsuð og árituð frelsuð þann 12 nóvember. Þegar ég er búin með hana legg ég hana einhverstaðar og einhver annar fær tækifæri til að frelsa hana. Á Akureyri var annars orðið jólalegt og ég kom heim í hátíðarskapi.

Ljósaborð og Sturlubarn 

Í dag kom einn neminn til mín, hún er að skrifa diplómuritgerð og vantaði smá samtal. Mætti með 7 ára syni sínum. Sá heillaðist af ljósaborðinu, dundaði sér við það í rúman klukkutíma á meðan við röbbuðum. Held að það heilli fólk frá eins árs til áttræðs.

Trausti, Íris og Sturla komu í gærkvöldi, Sturla grenjaði eins og ljón, ég tók að mér að hugga hann svo þau gætu horft á Tottenhamleikinn (sem vel að merkja vann þó útlitið hafi verið slæmt um tíma).

Við Sturla löbbuðum fram í stofu og ég kveikti á ljósaborðinu, hann horfði stórum augum á og huggaðist. Ég söng nú reyndar líka ofan í hálsmálið hans, Þú ert yndið mitt yngsta og besta. Sama og ég söng yfir og fyrir frænda hans, alveg til loka. Og það var nú bara notalegt og gott. Sturla þrífst annars vel og er hið besta barn.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband