15.8.2011 | 22:24
Pólitíkusar fela sig í pilsföldum embættismanna
Stundum velti ég fyrir mér hver það er sem stjórnar í alvörunni. Það er ekki alltaf augljóst. Ég hef t.d. komist að því að fólk í ráðuneytum virðist vera afar valdamikið, miklu valdameira en margur pólitíkusinn. Og ef það kýs að misnota aðstöðu sína þá er til lítils að ybba gogg fyrir þá sem fyrir verða. Ég í barnaskap mínum hélt einhvernvegin að svoleiðis Ísland myndi hverfa eftir hrunið. Ástæða þess að ég skrifa þetta núna er að ég ákvað að skoða hver sæti í samninganefnd sveitarfélaganna við leikskólakennara. Þegar ég gúgglaði (leitaði í bókinni sem á að hafa öll svörin), þá fann ég þetta.
Stjórn sambandsins skipar fimm manna kjaramálanefnd, sem er stjórn og kjarasviði til ráðgjafar í vinnumarkaðsmálum, kjarasamningagerð og við undirbúning kjarastefnu og samningsmarkmiða Sambands íslenskra sveitarfélaga. Kjaramálanefndin er skipuð tveim stjórnarmönnum og þrem sérfræðingum sveitarfélaganna í kjara- og starfsmannamálum. Auk þess sitja sérfræðingar kjarasviðs fundi nefndarinnar. Sviðsstjóri kjarasviðs stjórnar fundum nefndarinnar.
Þetta merkir á mannamáli að þeir sem öllu ráða eru embættismenn og skrifstofufólk. Pólitíkusar virðast hafa náð að þvo hendur sínar af því að bera ábyrgð á samningum og samningsmarkmiðum. Ef valdamiklir pólitíkusar eru spurðir um samningana, yppa þeir öxlum og segja, þetta er á valdi Kjarasviðs, þeir sjá um þetta. Og þetta kjarasvið virkar svolítið eins og einskinsmannsland, menntað einveldi sem er samansett af starfsfólki sambandsins og sérfræðingum sveitarfélaganna. HVAR eru þeir sem eiga að bera PÓLITÍSKA ÁBYRGÐ? Hvar eru þeirra völd og þeirra nöfn?
Hörður félagi minn birti á sínu bloggi myndir af því fólki sem er í stjórn sambandsins, hann benti réttilega á að verkfall er afar persónulegt, það er persónulegt fyrir þá sem eru tilbúnir að leggja niður störf og vera án tekna í langan tíma til að berjast fyrir tilveru sinni, það er persónulegt fyrir foreldra og börn sem ekki fá að mæta í leikskólann sinn, það er persónulegt fyrir atvinnurekendur sem verða að redda málum og redda á næstunni og síðast en ekki síst ætti það að vera persónulegt fyrir pólitíkusa. En sennilega er of langt í næstu kosningar til að það sé raunin og á meðan þeir hafa fína pilsfalda embættismanna til að fela sig í.
Ég tel það vera skyldu þeirra sem fara með völd í umboði okkar kjósenda að gera sitt besta til að semja við leikskólakennara. Hættið að fela ykkur á bak við exelskjöl embættismannanna og sjáið til þess að það verði samið. Það þarf pólitískan vilja og nú er tækifæri til að sýna að þið hafið hann.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.8.2011 | 12:41
Verkfall undirbúið
Verkfalll virðist vera óumflýjanlegt. Félag leikskólakennara hefur verið að senda út leiðbeinandi verklýsingar til leikskólastjóra um hvernig beri að haga störfum í leikskólum á meðan á verkfalli stendur.
Staðan er þannig að enn eru leikskólar sem ekki hafa leikskólakennara á öllum deildum (og lítil hætta á að það breytist í nánustu framtíð ef ekki verið samið). Á slíkum deildum mega vera börn, en hinsvegar er ljóst að leikskólastjórar hljóta að lenda í vandræðum vegna þess að ef þetta starfsfólk á t.d. börn í leikskólum þar sem verkfall gerist verkfallsbrjótar ef það mætir með sín eigin. Því verða þessir foreldrar væntanlega einhverjir að vera heima. Þannig er ekki sjálfgefið að þeir foreldrar sem eru með börnin sín á opnum deildum geti treyst á leikskólastarfið frekar en aðrir.
Leikskólakennarar róa nú lífróður fyrir starfinu sínu. Það er raunveruleg hætta sem steðjar að stéttinni ef leiðrétting á samningum næst ekki. Hætta sem felur í sér flótta í önnur störf og til annarra landa. Eins og staðan er í dag er hlutfall leikskólakennara víðast alltof lágt og ef það lækkar enn veldur það auknu og hættulega álagi á stéttina.
Í flestum leikskólum landsins er verið að vinna frábært starf, þar sem kennarar leiða nám barna í gegn um leik og daglegar athafnir.
Sá fleiri blogg hér að neðan um verkfallið.
Verðum að beita þessu vopni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.8.2011 | 14:16
Bros borga ekki reikninga
Hluti af því sem stundum er nefnt krísustjórnun er að draga upp mögulegar myndir þess sem getur gerst. Í þetta sinn ætla ég að leika mér aðeins með mögulegar afleiðingar þess ef kjarasamningur við leikskólakennara verður slæmur.
Eins og staðan er í dag er ljóst að leikskólinn hefur farið illa út úr hruninu. Mikið hefur dregið saman í öllum fjárveitingum, fé til afleysinga (veikinda starfsfólks) hefur verið skorið niður, símenntun sett á klaka, fé til að kaupa efnivið eins og leikföng, litir (allt efni til skapandi starfs) spil og þessháttar hefur verið skorið við nögl. Fé til matarinnkaupa staðið í stað á meðan allt hækkar. Tæki eru ekki endurnýjuð, húsum illa viðhaldið og svo mætti lengi telja. Leikskólar sameinaðir. Næstum allt sem ekki er samningsbundið hefur verið skorið í burt. Samt er leikskólanum ætlað að sinna starfi sínu eins og ekkert hafi gerst, sinna metnaðarfullu uppeldisstarfi, gera nýjar skólanámskrár, vera framsæknir, fylgjast með nýungum og svo framvegis. En er það raunhæft? Hvaða viðurkenningu fá leikskólakennarar fyrir starfi sínu og mikilvægi þess?
Leikskólakennarar fá stundum klapp frá foreldrum og falleg bros, en klapp og bros borga ekki sífellt hærri kostnað við það að halda heimili og borga af reikningum. Bros borga ekki hækkandi leikskólagjöld eða afborgun af lánum. Bros duga þá skammt.
Afleiðingin er að fjöldi leikskólakennara hefur litið í austurátt þar sem þeirra bíða betur borguð störf og lægri kostnaður við að lifa. Á Norðurlöndum eru íslenskir leikskólakennarar eftirsóttir. Á litlu svæði í kring um Osló búa minnst 30 leikskólakennarar og í þann hóp bætist nokkuð reglulega.
Hluti af vandamáli leikskólans hefur verið skortur á leikskólakennurum. Krafan hefur verið að mennta fleiri leikskólakennara. En nú er það svo að við nýliðunin er í minnsta lagi. Hreinlega vegna þess mikla fjölda sem flytur úr landi árlega.
Ef ekki verða gerðir ásættanlegir samningar við leikskólakennara nú er ég hrædd um að straumurinn í austurveg eigi eftir að vera enn stríðari. Við erum þegar eins og hriplegt kerald. Afleiðingin í íslenskum leikskólum, minni metnaður og fagmennska. Meiri starfsmannavandamál, fleira fólk sem stoppar stutt við (það svo innan leikskólans að leikskólakennarar er sú stétt sem minnst hreyfir sig og stöðugleiki ríkir).
Þetta er óskemmtileg mynd sem hræðir.
10.8.2011 | 12:43
Verkfall leikskólakennara
Það eru margir sem hafa og munu á næstu dögum og vikum skrifa um mikilvægi leikskólans og þess starfs sem þar fer fram. Hversvegna það skiptir samfélagið máli að leikskólar séu til. Um það ætla ég ekki að skrifa nú. Ég ætla að fjalla um hvers vegna leikskólakennarar telja sig eiga inni hjá sínum viðsemjendum eitt stykki samning.
Leikskólakennarar hafa verið öflugir í kjarabaráttu, lengi. Með mikilli fylgni við eigin málstað hafði þeim tekist að ná því markmiði að standa launalega jafnfætis viðmiðunarstéttinni, grunnskólakennurum. Báðar kennarastéttirnar eru saman í stéttarfélagi og fátt sem réttlætir mun á launum og öðrum kjörum. Haustið 2008 höfðu grunnskólakennarar lokið sinni samningsgerð og fengið umsamda hækkanir. Leikskólakennarar voru hinsvegar með lausa samninga. Eins og alþjóð veit. voru þá um haustið allir samningar frystir (stöðugleikasáttmálinn). Nú þegar samningar eru aftur á borðinu eru leikskólakennarar því í raun samning á eftir viðmiðunarstétt sinni. Krafa leikskólakennara er að standa þeim aftur jafnfætis. Það má í raun segja að vegna þess að ekki var búið að semja haustið 2008 hafi leikskólakennarar sparað sveitarfélögum umfram það sem lagt var á ýmsar aðrar stéttir. Þá er ekki sá gríðarlegi niðurskurður sem verið hefur innan leikskólans meðtalinn.
Leikskólakennarar þurfa á stuðningi samfélagsins að halda næstu daga og vikur. Þeir þurfa skilning og samstöðu um að kröfur þeirra séu réttlátar og sanngjarnar.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2011 | 00:45
Bruno Munari og sköpunin í leikskólanum
Ítalski listamaðurinn Bruno Munari (1907 -1998) taldist til annarar kynslóðar framtíðarlistamanna á meðal samtíðarmanna, aðrir sáu í honum sterk tengsl við hugmyndafræði Súrrealista. Hann var gjarnan kallaður Enfante terriblesinnar kynslóðar. Sá óþægi sem ekki fellur að rammanum, sá sem með list sinni að skilgreinir sig að hluta utan rammans. Hjá honum voru mörk listgreina að ýmsu leyti ósýnilegri en hjá flestum samtímamönnum. Fjöldi tilrauna hans í listum fanga athygli nútímafólks og sum samsömun við reynslu okkar og sýn á veruleikann. Munari beitti nýrri þekkingu og tækni óspart í verkum sínum. Rannsóknareðli listarinnar var honum hugleikið. Hann leitaðist við að skapa listaverk sem voru í gagnvirku sambandi við umhverfið, verkið hefðu áhrif á umhverfið en umhverfið samtímist áhrif á verkið. Munari eins og Calder leitaði til óróa en hafnaði alfarið að hans óróar væru í ætt við óróa Calders. Undirliggjandi lögmál og efnistök væru gjörólík.
Rannsóknir Munaris snéru m.a. að möguleikum ljóss og ljósfræði. Samspil ljós, lita og hreyfingar er algengt viðfangsefni í verkum hans. Pensill hans, ljósið, tæknin og samspilið þar á milli. Það er skrýtið að upplifa sum verka hans frá því um í kringum 1950 og sjá þar pælingar ýmissa nútímalistamanna. Verk t.d. Egils Sæbjörnssonar eiga að margt sammerkt með hugmyndaheimi Munari, sjálf minnist ég sýningar hans í Gallerý I8 fyrir nokkrum árum. Á heimasíðu sem tileinkuð er list Munari er Ólafur Elíasson talinn sá nútímalistamaður sem stendur honum næst í pælingum um eðli lita og ljóss. Rannsóknir Munari á pólariseruðiu ljósi minna frekar á tilraunir í eðlisfræðitíma en myndlist. En slíkt verk sýndi hann einmitt á Feneyjartvíæringnum 1966. Þegar farið er fram hjá glerhjúp Hörpunnar minnir hann á ljósatilraunir Munaris á Feneyjartvíræringnum 1966. Leikur ljóss og lita byggist á sömu lögmálum.
Munari voru börn og list fyrir börn hugleikinn. Hann hannaði m.a. bókverk sem höfðuðu sterklega til barna. En líka ýmsa nytjamuni. Þess má geta að hann fékk verðlaun LEGO 1986 fyrir framlag sitt til að styrkja hugmyndina um skapandi þætti bernskunnar.
Veturinn 1975-76 sótti ég unglinganámskeið í myndlist í MHÍ, þar kenndi á þeim tíma Jón Reykdal. Meðal verka sem hann bauð okkur að gera var hvert okkar fékk ramma úr slidesmyndavél. Við áttum síðan að safna úr umhverfinu efni/hlutum sem við vildum stækka upp á vegg og mála.
Í dag sjáum við slík verk sem byggja á skammtafræði. Ef farið er á Vísindavef HÍ er t.d. reiknað með að ummál strandlengju Íslands sé um 1500 kílómetrar. En samtímis er gerð grein fyrir að það sé aldeilis ónákvæmt og byggi á því að mæla á tiltekinn hátt. Ef t.d. farið væri með málbandið inn í hverja vík um hvern stein og klett má reikna með að talan væri töluvert mikið hærri. Svona eins og þegar jólasería er tekin saman sikk sakk áður en henni er pakkað. Ummál hennar virkar töluvert minna þannig en þegar búið er að taka hana í sundur. Á sömu hugmyndafræði voru verkefni Jóns með okkur krökkunum byggð. Að við skynjuðum stórleika og hins smáa. Sandverk Lóanna hér að neðan byggir á sömu hugsun, að hið smáa geti verið ógnarstórt.
Í leikskólanum Aðalþingi er greinileg hugmyndafræðileg tenging við list og hugmyndir Munari. Í ljósaveri leikskólans er leikið með möguleika ljóssins og litanna á margvíslegan hátt. Að skapa með ljósi, að breyta rými með ljósi er hluti af því sem þar er gert. Stundum í umhverfi sem hvetur til rannsókna á tengslum ljós og hluta. Hér að neðan gefur að líta dæmi. Margir foreldrar kannast við skuggaleikshúsið.
Börn rannsaka ljós á mismunandi veru, stundum verður til sjálfsprottinn leikur í tengslum við teiknarann snjalla, sólargeislann. Ef börn umgangast ljós og skugga af opnum hug, eru þau líklegri til að taka eftir tækifærum náttúrunnar í daglegum önnum.
Að lokum Munari bar mikla virðingu fyrir börnum sem endurspeglaðist í list hans. HAnn trúði því að hver manneskja bæri í sér hæfileika til að útbúa rými og hluti sem kölluðust á við fagurfræðina, ef hún hefði aðgang að tækni og leiðbeiningu. Dæmin hér að ofan eru vonandi vísbending um að það sé réttmæt ályktun. (KD 13. maí 2011)
Greinin hér að ofan birtist líka og var samin bæði fyrir þetta blogg og heimasíðu þess leikskóla sem ég þekki best þessa daga, leikskólann Aðalþing í Kópavogi.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 02:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2011 | 22:58
Keðjuverkan
Á meðal þekktustu nútímalistamanna er svissneska tvíeykið Peter Fischli og David Weiss. Eitt frægasta verk þeirra hefur verið nefnt á íslensku; Rás hlutanna (Der Lauf der Dinge), en í því setja þeir upp risastórt verk sem byggist á orsakasamhengi, hvernig eitt atvik rekur annað, hvernig keðjuverkan virkar í raun og alls óskyldir hlutir eru tengdir órofaböndum þegar að er gáð. Í stjórnun er stundum rætt um fiðrildaáhrif, hugtakið er rakið til að hægt sé að reikna sig fram til möguleika þess að að það dugi að fiðrildi blaki vængjum í Kína til að stormur verði á Atlantshafi.
Fiðrildaáhrifin eða kaos kenningin hjálpar stjórnendum að skilja að þegar einn hluti heildar er snertur hefur hann áhrif á alla heildina. Listaverk eins og verk þeirra Fischli og Weiss gegna sama hlutverki, þau hjálpa okkur að sjá og skilja stóru myndina á skapandi og listrænan hátt. Annar frægur listamaður sem nýtir sér hreyfingu og keðjuverkan er Bandaríkjamaðurinn Alexander Calder sem í kring um 1930 skapaði úr vír, smáhluta sirkusinn, Calder Le Cirque, sem er talinn hafa leitt hann inn á brautir sem flest stærri verk hans byggja á, en þar má finna verk úr málm og óróar í sinni víðustu mynd.
Undafarnar vikur hefur sköpun barnanna á Hrafnaþingi (það eru elstu börnin í leikskólanum Aðalþingi) snúist um kúlurennibrautir. Þar eru börnin í raun að fást við sömu vandamál og sömu lögmál og þeir Fischili og Weiss, þau eru að skilja og skynja hvernig keðjuverkan á sér stað. Hvað það þarf í raun lítið að fara úrskeiðis til að öll myndin skekkist og hvað ákvarðanir þurfa að vera bæði skapandi og nákvæmar. Mikilvægur þáttur í sköpunarferlinu er að sjá að sama hlutinn er hægt að nota á mismunandi vegu og að verkin þurfa ekki að vera varanleg. Á Hrafnaþingi er engin braut uppi lengur en nauðsyn er, ekki starfsfólksins vegna, með nauðsyn er vísað til þess tíma sem börnin þurfa til að skilji hana. Þegar brautin hættir að vera áskorun, hættir að fela í sér "gildrur" er hún tekin saman og önnur flóknari byggð. Börnin eru því sífellt að byggja ofan á fyrri þekkingu og þróa sköpun sína. Þetta var augljóst þegar börnin úr 1. bekk í Vatnsendaskóla komu í heimsókn, þau sáu kúlurennibraut og ætluðu að byggja eins. En þar sem þau hafa ekki þróað þekkingu sína í gegn um ótal tilraunir, gerðu þau grundvallar "mistök" sem börnin á Hrafnaþingi gera ekki lengur. Sem þau hafa unnið sig frá.
Nú eru börnin á Hrafnaþingi í útrás og hafa þegar farið á Rjúpnaþing til að byggja brautir með börnunum þar. Næstu daga munum við klippa saman myndband um þróunina á Rjúpnaþingi en þangað til er e.t.v. áhugavert að skoða og pæla í barnanna á Hrafnaþingi á meðan.
(Byggt á pistli sem ég skrifaði á heimasíðu Aðalþings.)
Myndbönd sem sýna hluta þróunar í sköpun og pælingum barnanna.
nokkrum dögum seinna er þetta myndband gert
og nýjasta myndbandið í röðinni um það segir:
Stutt myndbönd sem þetta eru mikilvæg tæki fyrir starfsfólk leikskóla til að pæla í hvernig börn læra. Til að átta sig á samhengi aðgerða og athafna. Í myndbandinu sést t.d. barn stemma af braut og loka enda hennar til að tryggja að kúlan renni ekki út, jafnframt verður að gæta þess að halli sé ekki of mikill svo kúlan fari ekki of hratt. Ef kúlan fer of hratt getur hún rutt hindrunum úr braut og kúlan nær ekki að fara þá leið sem henni er ætlað.
Verkinu er líka ætlað vera gluggi inn í starf leikskóla og vinnu og pælingu barna þar.
Menntun og skóli | Breytt 6.3.2011 kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2011 | 14:39
Allt miðar að bestu lausn, sagði prófessor Altunga
VG hafnar sameiningaráformum í borginni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |