Þjóðarspegill

Er á morgun (föstudag) í HÍ, mörg forvitnileg erindi. Ætli sé ekki best að koma sér í rúmið á skikkanlegum tíma og mæta. Ætla m.a. að hlusta á Þórdísi Þórðardóttur lektor í KHÍ ræða um góðu gæjana sem alltaf vinna. („… góðu karlarnir eru klárari, þeir vinna alltaf“  Samræður leikskólabarna um barnaefni) . Og kannski ef ég nenni, þá blogga ég um eitthvað sem mér finnst áhugavert af því sem ég hlusta á. Ég hef ekki komið í HÍ síðan nýja háskólatorgið var vígt, verður gaman að sjá hvernig það kemur út.

Góð áform - nei nei, ekki megrun 

Ég var nú eiginlega búin að ákveða að bjóða öllum börnunum í fjölskyldunni hingað á morgun. En ákvað svo að fresta því fram í næstu viku. Þetta getur orðið dálaglegur hópur ef allir mæta, slagar hátt í eina leikskóladeild og megnið piltar. Ætla að gerast jólaleg með börnunum og draga fram trölladeig, liti, byggingarefni og fleira skemmtilegt. Svo vilja væntanlega einhver skreppa með Lilló inn í "hljóðverið" (lesist tölvu og tónlistarrými) og taka upp jólalög. Í fyrra tók hann upp þverflautuleik með einni 13ára sem gaf diskinn síðan í jólagjöf. Held að tímarnir hennar hér hafi orðið hátt í tíu og enn fleiri hjá Lilló við að hljóðblanda. Ég ætti náttúrulega að biðja hana leyfis og skella einu lagi hér inn. Krökkunum í fjölskyldunni finnst ekki leiðinlegt að vinna lög og diska með Lilló. Eina er að við erum kannski ekki nógu dugleg að bjóða þeim í heimsókn. 

Mörg barnanna í fjölskyldunni eru að læra á hljóðfæri og sum í kór, kannski ég ætti að bjóða þeim að mæta með hljóðfærin. Ætti að verða ágætisblanda af strengja og blásturshljóðfærum.  

Sturlusaga 

Já og svo koma Sturla áðan með foreldrunum sem voru bæði hálflasinn, en hann bara brosti. Lilló segir að hann hafi hlegið framan í sig. Reyndar er oft hægt að róa hann ef hann er að væla með því að ná við hann augnkontakti.  Trausti segir að hann vilji baða sig í athygli og krefjist hennar. Hann heldur líka kontaktinum oft ótrúlega lengi áður en hann snýr sér undan og hlær. Við eigum líka ævagamla spiladós sem við keyptum einu sinni í Ameríku. Sturla er mjög áhugasamur um hana, leitar með höfðinu eftir hvaðan hljóðið kemur og skríkir svo. Mömmu hans er þó meira umhugað um liðleika og styrk. Ætlar að gera hann að litlum fimleikadreng, fimleikastúlkan sjálf. 


Viðtal við séra Sigfinn

Hlustaði á Sigfinn Þorleifsson sjúkrahúsprest á rás 1 áðan, hægt er að hlusta á þáttinn á vefnum. Hann var þar að ræða bók sem hann var að gefa út. Hlakka til að lesa hana. Af því sem mér heyrðist byggist hún á mannvirðingu, umburðarlyndi og kímni. Sigfinnur er einn þeirra presta sem oft settist hjá mér á sínum tíma. Prestur sem er svo mikil manneskja. Það er bæði gott að hlæja og gráta með honum. Hann jarðsetti bæði afa minn og ömmu enda alin upp á Eskifirði og leikbróðir móðurbræðra minna. Ömmu fannst ekki annar prestur koma til greina. Eftir andlát Sturlu hélt hann utan um minningarstund með unglingunum vinum hans og fjölskyldum. Seinast hittumst við í jarðaför í haust. Hún var falleg. 

Sigfinnur er einn þeirra presta sem gerir það að verkum að hófsamt fólk er enn í þjóðkirkjunni.  


Þegar kirkjan bað mig að tala

Fyrir nokkrum árum var ég beðin um að halda erindi í Akureyrarkirkju um, væntingar til hlutverks kirkjunnar í íslenskum leikskólum. Það var séra Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup á Hólum sem hafði samband við mig. Ég varð mjög hissa og spurði hvort hann væri viss um að hann vildi heyra mínar skoðanir. Hvort hann teldi mig réttu manneskjuna til að mæta. Skoðanir mínar á tengslum kirkju og leikskóla hafa nefnilega aldrei verið neitt leyndarmál og ég oft orðað þær í hópi leikskólakennara. Jón taldi kirkjuna alveg geta hlustað.

Ég hef síðan verið Jóni þakklát tækifærið, vegna þess að það gaf mér færi að festa á blað mínar eigin hugleiðingar um tengsl leikskóla við kirkjuna. Fram að þeim tíma hafði ég forðast eins og heitan eldinn að setja hugleiðingar mínar fram opinberlega.

Erindið var fyrir alþjóðlega prestaráðstefnu. Þó svo að ég hafi flutt það á ensku var það samið á íslensku. Hér að neðan má finna skrá sem inniheldur fyrsta hluta af erindinu, hugleiðingar mínar. Annars fjallaði það um könnun sem ég gerði í leikskólum landsins.  Þar fékk ég líka þessa sögu.

Börn eru klár 

Þetta er í litlum leikskóla í litlu þorpi. Það er að nálgast Páska. Leikskólakennari er í samverustund að fræða börnin um hvers vegna við höldum Páskana hátíðlega. Börnin horfa stórum augum og hlusta af athygli. Leikskólakennarinn segir þeim af Jesú og Síðustu kvöldmáltíðinni og hvernig Jesú baðar fætur lærisveinanna. Hún segir þeim hvernig vondir menn hafi komið og tekið Jesú næsta dag og þeir hafi neglt hann á krossinn þar sem hann deyr. En þremur dögum seinna á Páskunum hafi fólkið uppgvöggvað að Jesú var ekki dáinn, hann var upprisinn. Fjögurra ára stúlka hlustar af athygli, augun opin, undrun í svipnum. Eftir leikskóla fer hún í heimsókn til ömmu og segir henni söguna sem leikskólakennarinn sagði um Jesú. Þegar hún er búin bætir hún við: „en ég veit ekki hvort ég ætti að trúa henni“.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skýrsla um rannsókn mína um trúarlíf í leikskólum

Í nokkru ár hef ég verið að dunda við að skoða aðkomu kirkjunnar að leikskólum landsins. Um tíma var ég meira að segja alvarlega að velta fyrir mér að gera það að doktorsverkefni mínu. En ákvað svo að annað efni væri bæði áhugaverðara og skemmtilegra til að hugsa um og dvelja með í mörg ár. Kannski má samt segja að efnið sé að hluta skylt, viðfangsefnið sem heillar mig meira er nefnilega lýðræði í leikskólastarfi.

Til þess að skoða trúaruppeldið fékk ég styrk, bæði frá Kristnihátíðarsjóði og frá Rannsóknarsjóði leikskóla Reykjavíkurborgar. Aðallega hef ég nýtt mér rannsóknir mínar í fyrirlestra fyrir leikskólakennara hérlendis og fyrir ráðstefnur erlendis. Sumt af því hefur komið út erlendis og annað ekki. Á árinu er væntanlegur kafli eftir mig um efnið í afmælisriti Háskólans á Akureyri. Ég skal líka fúslega játa að af einhverjum ástæðum hefur mér enn ekki tekst að skrifa grein um efnið sem fallið hefur innlendum ritrýnum í geð. Nú nenni ég ekki lengur að eltast við það og verð líka að gangast við að vera nokk sama. 

En þeir sem hafa áhuga á að fá bókarkaflann sendan geta fengið sett sig í samband við mig og fengið lokadrögin. En öðrum bendi ég á áfangaskýrsluna hér að neðan.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Aðventuhugvekja

Ég var skírð rúmlega tveggja ára, þá gafst ferð austur og prestur með rétt stjórnmálaviðhorf til verksins. Hann sagði mig fyrsta barnið sem þakkaði honum fyrir skírn. Á sunnudagsmorgnum fórum við í sunnudagaskóla í kirkjunni. Ég man að mér fannst skemmtilegast að fá biblíumyndir, myndir úr dæmisögunum. Kannski að það hafi orðið til þess seinna að þegar ég varð læs, fannst mér gamla testamentið skemmtilegra en það nýja. Las það eins og hverja aðra sögubók. Mér fannst líka Grettissaga Ásmundssonar skemmtileg, sögur fullar af ofbeldi virðast hafa höfðað til mín.  Reyndar tengi ég áhuga minn á Grettissögu frekar við að vera alin upp í Skagafirði. Á sunnudagseftirmiðdögum fórum við líka stundum í sunnudagaskóla hjá Daníel Glad. Man reyndar ekki mikið eftir því. Nema að við keyptum alltaf Barnablaðið. Eftir að við fluttum suður koma Daníel stundum og ég man að pabbi keypti af honum bækur. 

En ég man líka hvenær ég hætti að vilja fara í sunnudagaskólann, þannig var að afmælisvikuna fékk maður stóra biblíumynd, flest börn biðu eftir henni allt árið. Þessari einu stóru. Ég á afmæli að sumri og þegar ég spurði um stóra biblíumynd fékk ég hana ekki, var sagt að ég ætti ekki afmæli, það var nefnilega ekki vandmál kirkjunnar að sum börn áttu afmæli þegar enginn sunnudagskóli var. Ég var um sjö - átta ára, eftir þetta vildi ég aldrei fara í sunnudagskólann. Man heldur ekki til þess að hafa sagt neitt við foreldrana. Hætti bara að mæta.

Ég var um tíma trúað barn. Var alltaf að keppa við guð, til þess að hann gæti sannað fyrir mér tilveru sína. Ef ég gæti hlaupið milli tveggja ljósastaura áður en næsti bíll kæmi væri til guð. Okkur voru ekki sérstaklega kenndar bænir heima en stundum fórum við samt með þær, þegar við fórum austur var lögð áhersla á kvöldbænir enda amma trúuð kona. Stundum fórum við með þessar bænir. Við lágum svo alveg grafkyrr og sögðum ekki orð. Ég held að þetta hafi verið partur af bænakennslunni að þegar við vorum búin að fara með áttum við að vera hljóð, annars þurfum við að fara með alla þuluna upp á nýtt. Ég man ekki hvenær við hættum alveg kvöldbænum, held kannski það hafi verið þegar við fengum herbergi tvö og tvö saman. Áður vorum við fimm saman í herbergi systkinin.

Næstu viðskipti mín við kirkjuna tengdust fermingu. Ég var lengi að gera upp við mig hvort ég ætti að fermast. Ræddi þetta m.a. annars við foreldra mína sem sögðu mér að þetta væri svo gott tækifæri til að halda fjölskyldum saman, væri hluti af menningu okkar og því að búa til ritúöl innan fjölskyldna. Þetta hefði minnst með það að gera hvort ég væri trúuð eða ekki. Ég ákvað að fermast. Á þeim tíma var fermingarfræðsla á skólatíma. Reyndar fannst mér kristnifræðikennarinn minn Ingólfur Jónsson frá Prestbakka miklu betri til verksins fallinn en fermingarfræðslupresturinn séra Ólafur Skúlason. Ólafur vildi auðvitað að við sæktum messur, við vorum kannski ekki eins upptekin af því. Hann lofaði bekknum með bestu messusóknina pylsupartýi að vori. Ég man ekki til þess að neinn bekkur hafi fengið þau verðlaun.

Í fermingunni minni fékk ég óstöðvandi hláturkast, mér varð litið á vinkonu mína liggjandi fram á gráturnar og hún leit á mig. Við bældum hláturinn niðri. Held að enginn kirkjugestur hafi séð hvað var að gerast. Þarna lærði ég að stundum bregst fólk við stressi á undarlegan hátt.

Það sem er mér þó minnisstæðast úr fermingunni minni var ræða prestsins. Hann lagði nefnilega út frá endurgjaldi. Þannig var málum vaxið að í sókninni hafði maður verið dæmdur til fangelsisvistar. Kona mannsins leitaði til prestsins um aðstoð, sem hann veitti með gleði.  En nú er maðurinn laus úr fangelsi, sagði séra Ólafur, og hann hefur enn ekki komið í kirkjuna og þakkað guði fyrir að það var til fólk sem aðstoðaði fjölskylduna hans.  Þetta áttum við að láta okkur að kenningu verða, að þakka þeim sem þakka bæri í framtíðinni. Kannski ætti ég að þakka fermingarprestinum mínum fyrir að opna augu mín fyrir hræsni. Sennilega átti ræðan þátt í að móta viðhorf mín til kirkjunnar, en ekki kristninnar.

Ég hlustaði á Jón Magnússon ræða áðan um að við leituðum til presta (eða að þeir biðu fram þjónustu sína) þegar bjátaði á, þegar við værum sjúk eða þegar við sætum, í fangelsum. Ég hef líka af þessu reynslu. Prestar sjúkrahússins komu og sátu oft hjá mér þegar ég sat yfir syni mínum. En þeir reyndu aldrei að ræða trú við mig, reyndu aldrei að ræða um upprisu eða annað sem tengist kristni. Við ræddum um allt mögulegt, þeir hafa mikla reynslu af því að umgangast dauðann. Þeirra hlutverk er sálgæsla án tillits til trúarbragða. Þessir prestar reyndust okkur vel, fyrir það erum við þakklát. Þeir reyndust líka því unga fólki sem í kringum okkur var vel. Ég man til dæmis vel eftir stund sem þeir leiddu nokkrum dögum eftir hrapið, þeir gerðu það vel og báðu fólk að biðja/hugsa til þess sem það trúði á. Til þess sem skipti það máli. Ég man líka tæpu ári eftir andlátið, fórum við hjónin með litla gjöf á gjörgæsluna, á leiðinni upp, hittum við einn þessara presta. Við ræddum töluvert við hann. Hann sagði á þeirri stundu setningu sem ég hef síðan deilt með öðrum í sömu sporum. Hann sagði mér að fyrsta árið væri erfiðast, en strax og það væri liðin ár og dagur, væri ég ekki jafnupptekin af því að hugsa; fyrir ári vorum við að gera þetta, eða að þá leið mér svona. Svo skrýtið sem það hljómar það reyndist þetta rétt. Það er bull að tíminn lækni öll sár. Það nær sér enginn eftir að hafa misst barnið sitt en við getum lært að lifa með því. Á stundum eins og í dag þegar fréttir berast af andláti barns eftir hörmulegan atburð, rífur það í sárin mín. Ég hugsa til fjölskyldunnar en líka til allra þeirra sem standa vaktina á gjörgæsludeildinni. Hugur minn er hjá þeim.   

 


Játningar mínar og fordómar

 

kirkja

Akureyrarkirkja

Ég er að hugsa um að játa á mig mikla fordóma og í leiðinni skella fram einum gildisdómi (sem ekki er hægt að sakfella mig fyrir).  Eftir að hafa hlustað á fólk í fréttum tala um kristna siðgæðið eins og það sé heimsins einasta siðgæði alla vega réttasta siðgæðið og fara í huganum yfir umræðuna sem var um 10 litla negrastráka, og það að einhverjir vogi sér að telja bókina meiðandi, hvað þá að hún ýti undir rasískar tilhneigingar, þá held ég að þetta sé sama fólkið upp til hópa. Fólkið sem hópaðist í bókabúðir til að kaupa þessa dæmalaust fallegu og saklausu barnabók til að lesa með börnum sínum og barnabörnum um jólin. Fólkið sem segir; "ég fór með bænir og það hefur nú ekki skaðað mig" og sem segir "þetta er nú bók sem var lesin fyrir mig og ég er ekki fordómafullur".

Ég veit ekki hvað þetta er í þjóðarsálinni en ég játa að hvað sem það er þá pirrar það mig. Ég játa á mig mikla fordóma. Ég játa lítið umburðarlyndi.     

Svo hugsa ég ef þetta væri sjónvarpsfréttir frá miðausturlöndum og umræðan væri um Kóraninn, þá myndi sami hópur fordæma slíka ofsatrú og jafnvel kalla hana öfgatrú. En hjá okkur heitir það menning og það að varðveita menningararfinn. Er allur arfur þess virði að halda í hann? 

 Ps. Ég er í þjóðkirkjunni.

ps.ps. Á laugardegi, held ekki að fólk upp til hópa hafi borið skaða af bænum eða bókinni, finnst þetta hinsvegar vera rökleysa í umræðu. En því miður þetta eru rök sem ég heyri gjarnan til stuðnings meðal annars sunnudagaskólastarfi inn í leikskólum.

 


Námskeið, frelsaðar bækur og Sturlubarn

Námskeiðið okkar á Kaffi Reykjavík gekk ljómandi vel. Salurinn hentaði vel fyrir það sem við vorum að pæla og mokkarjómaostakakan sem eldhúsið gerði var dýrleg. Mæting hefði nú mátt vera betri en því meira fengum við sem þó vorum á staðnum út úr því sem við vorum að gera. Flestir fóru glaðir á braut og vildu meira. Heyrði marga segja eitthvað á þessa leið; "þetta væri frábært fyrir minn vinnustað", "flott að fá svona þjálfun fyrir allt starfsfólkið í leikskólanum". Sjálf sat ég þegar fór að halla undir lok námskeiðsins og horfði á einn leikskólakennarann,  ég vissi hvað rann í gegn um huga hennar. Ég fór að skellihlæja upp úr einsmanns hljóði og sagði "ég veit hvað þú ert að hugsa" "þú ert að  hugsa þetta ætla ég að gera í samverustund á morgun." "Já", sagði hún "það var einmitt það sem ég var að hugsa."  "Oh hvað ég vildi vera fluga á vegg hjá ykkur á morgun" sagði ég. Bíð efir að heyra meira í þeim seinna, hvort þær nýta sér það sem við vorum að gera. 

Prestar 

Las annars ágætt blogg eftir "betri" helminginn, hann segir að ég hafi svarað honum í belg og biðu, sjálfsagt meira en rétt, enda mér pínu annt um málið.

Vindur og frelsaðar bækur 

Ég er annars að hlusta á vindinn þjóta, sjaldan að við heyrum svona vel í honum hjá okkur. Minnti mig á þegar við yngri systur lágum sitt í hvoru rúminu heima, undir súð og hlustuðum. Þegar best var að kúra undir sæng með góða bók. Held reyndar að það sama eigi við núna. Ég var fyrir norðan í vikunni og fékk lánaða frelsaða bók. Frelsuð bók er bók sem einhver er búin að lesa og leggur svo á borð á ganginum fyrir aðra að taka og lesa. Stundum liggja þær bara, þessi hefur aftur verið frelsuð og árituð frelsuð þann 12 nóvember. Þegar ég er búin með hana legg ég hana einhverstaðar og einhver annar fær tækifæri til að frelsa hana. Á Akureyri var annars orðið jólalegt og ég kom heim í hátíðarskapi.

Ljósaborð og Sturlubarn 

Í dag kom einn neminn til mín, hún er að skrifa diplómuritgerð og vantaði smá samtal. Mætti með 7 ára syni sínum. Sá heillaðist af ljósaborðinu, dundaði sér við það í rúman klukkutíma á meðan við röbbuðum. Held að það heilli fólk frá eins árs til áttræðs.

Trausti, Íris og Sturla komu í gærkvöldi, Sturla grenjaði eins og ljón, ég tók að mér að hugga hann svo þau gætu horft á Tottenhamleikinn (sem vel að merkja vann þó útlitið hafi verið slæmt um tíma).

Við Sturla löbbuðum fram í stofu og ég kveikti á ljósaborðinu, hann horfði stórum augum á og huggaðist. Ég söng nú reyndar líka ofan í hálsmálið hans, Þú ert yndið mitt yngsta og besta. Sama og ég söng yfir og fyrir frænda hans, alveg til loka. Og það var nú bara notalegt og gott. Sturla þrífst annars vel og er hið besta barn.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband