Nefrennsli, hósti og slen

Ég er lasin, með kvef og hósta, við deilum þeirri reynslu saman við Sturla þessa daga. Finn voða mikið til með honum, getur ekki hóstað en gerir það samt og er alveg búin að missa röddina. Það koma engin hljóð, bara tár og skeifa. Af gömlum sið er hann í ullarbol með silkiklút um hálsinn og í ullarhosum. Og við segjum "ææ og óó, litla skinnið".

 

mynd_stWH5c

Lasið lítið skinn

 


Mynd dagsins

vetur í reykjavík
Reykjavík að vetri
Þar sem ég veit ekki um hversu mikið ég nenni að blogga til jóla ákvað ég að setja a.m.k. eina mynd á sólahring inn á bloggið.

Stekkjastaur kom fyrstur, stinnur eins og tré

Ef vilji er fyrir hendi má kenna leikskólakennurum um að hafa komið upp hjá þjóðinni pólitískum rétttrúnaði um jólasveinana. Árni Björnsson, hins vegar þakkar okkur "fóstrum" fyrir að hafa komið skikk á jólasveinamálin í stórskemmtilegri frétt Þóru á RUV í kvöld.

Það var fyrir um 20 árum að við "fóstrur" í leikskólum landsins ákváðum að auglýsa grimmt fyrripart desember hvenær fyrsti pörupilturinn kæmi til byggða, þar með hvenær hægt væri að setja skó í glugga. Við vorum svo heppnar að foreldrar ákváðu að trúa okkur og leyfa ekki skó í glugga fyrr en að kveldi 11. desember.  Auðvitað "hlýddu" ekki allir foreldrar strax, en það tók ekkert mörg ár að "aga" þá. Í mínum skóla settum við upp vísur Jóhannesar úr Kötlum í fataherbergjum og í fréttabréf, allt til að upplýsa foreldra um hina einu réttu sönnu óumbreytanlegu röð.  Nú vita öll börn á Íslandi hvað þeir heita sveinarnir og hver hin pólitísk rétta röð þeirra er.

Mér finnst skemmtilegt að fara með jólasveinavísurnar með börnum, halda takti og hrynjanda byggja upp spennu, fer bráðum að æfa mig með Sturlu. En enn skemmtilegri finnst mér

Grýla hét tröllkerling leið og ljót, með ferlega hönd og haltan fót, í hömrunum bjó hún og horfði yfir sveit, var stundum mögur og stundum feit, á börnunum valt það hvort Grýla átti gott, ...

Ég ætla að trúa ykkur fyrir leyndarmáli, ég held að börnunum hafi líka þótt hún Grýla spennandi. Önnur kerling sem börnum fannst skemmtileg, var hún:

Steinka stál, [sem] seldi sína sál, fyrir skyrskál, seldi augun bæði, fyrir leðurskæði, seldi sig hálfa, fyrir átján kálfa seldi sig alla fyrir tólf ... (botnið)

og hér kemur enn eitt uppáhaldið:

Kom ég þar að kveldi, sem kerling sat að eldi, hýsti hún fyrir mig hestinn minn, og hét að ljá mér bátinn sinn, því langt er á milli landanna, liggur á milli strandanna, Ægir karl með ygglda brá, og úfið skegg á vöngum, ... 

Ætli ég falli nokkuð alveg að staðalmyndinni af fóstrunni, kann ekki á gítar, held ekki lagi, hef aldrei verið í kór, átti aldrei Álafossúlpu (átti samt trampara). En einu sinni kunni ég hins vegar helling af þulum svo kannski var mér viðbjargandi í starfi eftir allt.   

Ég stal einni mynd af  moggavefnum af formóðurinni sjálfri við eldamennsku. Sýnist það sem er í pottinum vera ósköp saklaust. Alla vega engin mannabein sýnileg.

 

Grýla eldar
 

 


Þegar leikþörfin grípur mig

Tek ég upp dótakassann minn og ... 

100_5962 100_5961

100_5964100_5966

100_5976

 

 


Áhrif húsnæðis og mönnunar á leikskólastarf

Veturinn 1993-94 lagði ég fyrir íslenska leikskólakennara spurningarlista um ýmislegt sem snéri að starfi þeirra. Hér til hliðar undir tenglar er skýrsla um rannsóknina fyrir þá sem áhuga hafa á að kynna sér efni hennar. Af einhverjum ástæðum tók ég þessa skýrslu fram og fór að fletta í henni. Það er margt forvitnilegt þar að finna, kannski sérstaklega vegna þess hversu langur tími er liðinn og þess sem hefur gerst í millitíðinni í leikskólanum. Ég held að það væri afar forvitnilegt að spyrja sumra spurninga aftur og bera saman við tölurnar frá 93-94.     

Ein af þeim spurningum sem ég lagði fyrir, er hvort unnið sé samkvæmt einhverri ákveðinni hugmyndafræði í leikskólum. Þegar svörin um hvað leikskólakennarar töldu hafa mest áhrif á gæði var greind niður eftir hvernig hugmyndafræði er í leikskólunum, kemur í ljós að svo til enginn munur er á milli hópa. Þ.e.a.s. viðhorf leikskólakennara til þess sem þeim finnst hafa mest áhrif á gæði, markast ekki af því hvernig hugmyndafræði er í leikskólanum þar sem þeir starfa.  Undantekningu er þó að finna, leikskólakennarar sem starfa í leikskólum þar sem til er skrifleg lýsing á hugmyndafræði, telja barnafjölda á starfsmann ekki hafa eins mikil áhrif á gæði starfsins og leikskólakennarar þar sem persónuleg hugmyndafræði er. Í spurningalistanum skilgreindi ég hugmyndafræði eins og áður hefur komið fram

[1]
 

Svörin greindust niður á eftirfarandi hátt.

 

Tafla 7. Áhrif barnafjölda á starfsemi leikskóla[2]

 meðalgildi
1 Persónuleg hugmyndafræði 2,291
2. Munnleg lýsing á hugmyndafræði2,176
3. Uppeldisáætlun2,063
4. Skrifleg lýsing á hugmyndafræði1,260

Hér er áberandi að þar sem skrifleg lýsing ræður ríkjum telja leikskólakennarar fjölda barna á hvern starfsmann hafa minnst áhrif á gæði. (Tafla 7). Eru til einhverjar haldbærar skýringar um hvernig getur staðið á þessu? Eru leikskólakennarar í leikskólum þar sem til er skrifleg hugmyndafræði öruggari í því sem þeir eru að gera? Er starfið þar betur skipulagt þannig að þeir finna minna fyrir fjölda barna? Þetta er forvitnilegt að skoða betur. Þó svo að marktækur munur sé á milli þessara hópa hvað varðar áhrif barnafjölda á gæði starfseminnar raðast sá þáttur lágt þegar á heildina er litið. Ég velti því fyrir mér hvernig geti staðið á því. Félag íslenskra leikskólakennara hefur verið í fararbroddi í umræðu um fjölda barna á deildum og fjölda barna per starfsmann. Á þeim tíma sem spurningarnar voru sendar út átti sér stað mikil umræða um Leikskólaverkefni Dagvistar barna, þróunarverkefni í Kópavogi, ábataskiptasamning við Reykjavíkurborg og hagræðingu. Er hægt að draga þá ályktun að sú umræða hafi haft þessi áhrif?

Þegar ég spurði um þætti sem hömluðu gæðum í starfi nefndi einungis 14, 6% að of mörg börn á starfsmann gerðu það og 17% nefna húsnæðismál. Árið 1995 er  sett reglugerð sem jók barnafjölda og minkaði húsnæði. Þessi mæling er því gerð rétt fyrir þær breytingar og því kannski enn merkilegra að sjá svör dagsins í dag. Mín tilgáta er að bæði mundu skora mikið hærra í dag. Þegar ég spurði síðan beint um áhrif húsnæðis á starfið segja 12% það hafa mikil áhrif, 53% töluverð áhrif, og  rúm 34% lítil eða engin áhrif. Mér finnast þetta merkilegar tölur.

 

Ég spurði um hvernig áhrif húsnæðið hefði og fékk eftirfarandi svör. Spurningin var opin og ég ákvað flokkana eftir á. 

Tafla 19. Hvaða áhrif telur þú húsnæði hafa á starf leikskóla?

Gott húsnæði auðveldar - lélegt dregur úr23,1%
Áhrif á hópaskiptingu20,8%
Letur/pirrar18,5%
Almenn áhrif17,3%
Setur starfseminni skorður/ramma13,3%
Áhrif á líðan barna/þurfa pláss og næði 7,5%
Áhrif á þemavinnu 4,0%
Gild svör 173
 


[1] *           Persónulega hugmyndafræði sem hver leikskólakennari mótar fyrir sig.

  *            Munnlega lýsing á hugmyndafræði sem er sameiginleg í leikskólanum og byggir á hugmyndum leikskólakennara um hvernig einstaklinga þær vilja sjá í framtíðinni

  *            Skriflega lýsing á hugmyndafræði

 

[2] Í úrvinnslunni var síðan hverju svari gefið ákveðið gildi 0 ef enginn valdi það og 4 ef það var talið hafa mest áhrif. Frá þessu var síðan reiknað. Lægsta mögulega gildi er 0 og það hæsta 4.


Gamlir hilluvinir

Sumar bækur dvelja stundum upp í hillu í langan tíma, svo dreg ég þær fram og hugsa "já þetta er nú áhugavert". Í gær dró ég þrjá gamla hilluvini fram. Einn þeirra lít ég nú reglulega í, sá vinur minn fjallar um lýðræðislega menningu, lætur ekki mikið yfir sér er réttar 60 síður, en fær mig alltaf til að hugsa.

Ástæða þess að ég dró hann fram í þetta sinn er að systir mín er að skrifa ritgerð og ég mundi að í þessari bók er frábær tilvitnun í Sören Kirkegaard sem mér fannst hún endilega þurfa að lesa. Hún varð reyndar alveg sammála mér og gott ef hún ekki nýtti sér hana.

Bókin byrjar reynda á að lýsa því hvernig við sem vinnum með pedagógík verðum að hugsa um hana. Hvernig við getum aldrei látið aðra um að malla hana ofan í okkur. Jú kannski einhver megi malla, en við verðum að melta og gera að næringu fyrir okkur. Það getur enginn gert fyrir okkur. Það krefst hugsunar og gagnrýni. Það krefst skuldbindingar. Annars er þar fantagóður kafli sem fjallar um ritgerð Geroge Orwells um reynslu hans af heimavistarskóla og hvernig hægt er að ala upp í börnum hræðslu og skömm. Skömmin var svo djúp að þegar skólameistarinn lamdi hann svo fast með keyrinu að skaftið á því brotnaði, öskraði hann á drenginn, "sjáðu hvað þú hefur gert?" Og drengurinn tók skömmina og ábyrgðina til sín.

Næsta bók sem ég dró fram fjallaði um sögu uppeldisfræðinnar – eitt af mínum uppáhaldsfögum. Þar er m.a. lýst hvernig sunnudagskólahreyfingin varð til. Fyrst í Bretlandi til að gefa börnum sem þræluðu í námum kost á lágmarks menntun (sem reyndar fljótlega breyttist í kristinfræðslu einvörðungu) og svo hvernig sunnudagskólahreyfingin færðist til Norðurlanda. Eitt af því gert er að umfjöllunarefni er hvernig stóð á því að Danir tóku aftur upp fermingar. En það gerðu þeir upp til að tryggja lágmarksþekkingu á kristindómnum. Þetta var árið 1736 en þá höfðu fermingar verið  aflagðar í 200 ár eða frá því um siðaskipti 1536. Ástæða þess að þeir tóku upp fermingar var m.a. vegna þess að kristindómsfræðslan hafði þótt svo leiðinleg að fólk kom sér hjá henni. Prestum var því falið að kenna Litla kverið eða Katekismus og prófa í því fyrir fermingar.  

Afi minn sagði mér reyndar að honum hafi verið gert að læra þá bók utanað og væri algjörlega bólusettur gangvart henni. Held að lærdómurinn hafi ekki gengið jafn hratt og til stóð og því aðferðirnar til að tryggja að drengurinn lærði stundum full harkalegar. En það er önnur saga. Reyndar er líka í bókinni áhugaverður kafli um hvernig áróðri var lætt í gegn um jafn sakleysisleg fög og stærðfræði í þriðja ríkinu.  

Dæmi 95

Það kostar 6 milljónir ríkismörk að byggja geðveikraspítala, Hvað er hægt að byggja mörg einbýlishús sem kosta 15.000  þess í stað? 

Og dæmin voru fleiri og ef eitthvað enn meira hrollvekjandi.   

Þriðji vinurinn sem fékk að koma af hillunni, fjallar um Remote control childhood. Eða Æsku fjarstýringanna. Þar er verið að fást við sjónvarpsmenningu okkar. Meðal þess sem þar er ráðlagt er að horft með börnum á þætti, og ræða þá við þau. Þeir eru jafnvel svo góðir að gefa upp hvernig foreldrar geta gert þetta. 

 Dæmi: Talið um viðbrögð ykkar bæði jákvæð og neikvæð – um það sem hvort ykkar sér.  

Hvað fannst þér um þáttinn/leikinn (tölvu)? Mér fannst alveg frábært þegar __________ gerðist, hvað fannst þér um það?   

Mér líkaði ekki þegar að ____________ ég vildi óska að þeir þyrftu ekki alltaf að meiða hvert annað. Hvað fannst þér?  

 

Svona heldur þetta áfram og þarna eru punktar til að hjálpa foreldrum að ræða um  mun á fantasíu og raunveruleika. Um það að bera saman reynslu barnanna af því sem þau sjá í sjónvarpinu við það sem er að gerast í þeirra eigin lífi. Ræða um ofbeldi og illkvittni, og til að ræða við börn um staðalmyndir.    Og svo auðvitað margt fleira.

Leikskólakennaranám - á grunn og framhaldsstigi

Innritun í nám

sem hefst á vormisseri 2008

Fjórir af nemendum HAInnritun í nám sem hefst á vormisseri 2008 stendur yfir. Umsóknarfrestur er til 2. janúar 2008 og kennsla hefst skv. almanaki 10. janúar. Í boði eru bæði námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi.


Meðal þess er: 

  • Grunnskólakennaranám (staðar- og fjarnám)
  • Leikskólakennaranám (staðar- og fjarnám)

Framhaldsnám:

  • Diplómu- og meistaranám í menntunarfræði

Hægt er að skoða nánari upplýsingar með því að fara á www.unak.is. Vakin er athygli á að upplýsingar um öll námskeið er að finna í náms- og kennsluskrá. Skráningargjald fyrir vormisseri er 22.500 kr.

Umsóknareyðublöð

Fjarnám er í boði á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við Námsflokka Hafnarfjarðar - Miðstöð símenntunar, fleiri staðir koma til greina ef næg þátttaka fæst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband