Gjaldfrjáls - gott, nemendur - slæmt

Undanfarið hef ég haft töluvert fyrir stafni og lítið séð til fjölmiðla. Missti m.a. af umræðu á alþingisrásinni um leikskólalögin. En ríkið er mér vinsamlegt, það tekur upp allar ræður og birtir þær samdægurs á vefnum. Því sit ég nú hér og hlustam, les og blogga. Af því sem ég hef heyrt þá styð ég það sjónarmið sem kemur fram í máli Kolbrúnar Halldórsdóttir að leikskólinn eigi að vera fjölskyldum "gjaldfrjáls". Ég tel það í raunar vera sanngirniskröfu og ef það skapar einkaskólum vandræði verð ég að viðurkenna að þar fórna ég meiri hagsmunum fyrir minni.

Hinsvegar verð ég hafna hugtakanotkun Kolbrúnar en í breytingartillögum hennar velur hún að fjalla um rétt nemenda en ekki barna. Ég er ein þeirra sem vil alls ekki taka upp þetta hugtak grunnskólans (nemendur). Ég tel að með því sé hætta á að verið sé að skapa ákveðna faglega fjarlægð milli barna og þeirra sem með þeim starfa. Fjarlægð sem ég tel óæskilega. Það má vera að efnislega sé ég samþykku ýmsu sem kemur fram í breytingartillögu Kolbrúnar en þessa hugtakanotkun get ég ómögulega fellt mig við.


Er það í boði? - Um gæði þess að ofskipuleggja

Tek undir með Jesper Juul sem hefur haft mikil áhrif á danska leikskólakennara lengi vel. Sjálf hef ég haldið því fram að í leikskólum hafi ofskipulag víða tekið yfirhöndina. Það er verið að koma svo miklu fyrir í dagskipulaginu að á endanum er allur tími barnanna skipulagður á einhvern hátt. Tími til að láta sér leiðast er dýrmætur tími sem betur er varið í eitthvað annað, eða er það ekki? En varðandi leiðindin þá held ég að þetta tengist því heilkenni sem ég lýsti fyrir nokkrum vikum og fjallaði um krullubörn.

Fyrir mörgum árum var ég að kenna á námskeiði fyrir starfsfólk gæsluvalla, það sagði að stundum fengi það börn til sín á sumrin þegar leikskólar lokuðu. Svo fóru þau að taka eftir að börnin stóðu aðgerðarlaus og biðu. Hverju eruð þið að bíða eftir? spurðu þau. "Við vitum ekki hvað er í boði" svöruðu börnin. Þegar svo er komið að allt skilgreiningarvald er komið til starfsfólksins verða börnin eins og upptrekt leikföng. Þau eru trekt upp til að taka þátt í þessu eða hinu. Allt frumkvæði og sköpun er út um gluggann. Skólar sem leggja áherslu á mikla stýringu og ytri aga eru líklegir til að ýta undir þessa tilfinningu.

Sjálf hef ég skrifað tvær greinar á íslensku, annarsvegar Netlu um lýðræði og hinsvegar í Athöfn fagblað okkar leikskólakennara sem nú er hætt að koma út, sú nefndist: Hver hefur skilgreiningarvaldið í leikskólanum? (eða eitthvað í þá áttina)

Svo að lokum ætla ég að rifja upp samtal sem ég átti við mér nokkrum áratugum eldri leikskólakennara sem sagði að það væri öllum börnum hollt að leiðast og það að læra að láta sér leiðast væri markmið í sjálfu sér. Mikilvæg lexía. Já og aðrir hafa bent á eitthvað sem heitir orðabók tilfinninganna og "swap" kynslóð. Að leiðast er nauðsynlegt til að byggja upp slíka orðabók og vinna gegn swappinu. (swappa - endalaust að skipta á milli stöðva á fjarstýringunni).


mbl.is Börnum hollt að leiðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég játa á mig eina af dauðasyndunum - afbrýðisemi

Síðust vikur hef ég verið svolítið abbó, í Þingholtsstræti eru nefnilega nokkrir garðar öðrum görðum flottari og í einum þeirra þar eru kirsuberjatré í blóma. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum að á Íslandi ættu eftir að snjóa bleikum og hvítum blómum kirsuberjatrésins. Ekki ég.

Í mínum huga tengist blómadrífa kirsuberjatrjánna minni fyrstu útlandaferð þegar ég var 15 og fór ein til Köpen að vinna sumarlangt sem pige i huset paa kost og logi. Minningin þegar keyrt var frá Kastrup til Hellerup var einmitt í gegn um kirsuberjatrjágögn. Síðan hef ég verið veik.

Síðastliðin vor hef ég gert mér ferð að skoða tréð dásamlega í Þingholtsstræti (reyndar er sá garður allur með fallegri görðum bæjarins og hreint augnayndi allt árið). Ég finn hvað ég verð glöð bara að horfa á tréð.

Í kvöld hringdi Snorri á efstu hæðinni frá Hveragerði, Lilló svaraði. "Má ég tala við Kristínu" spurði hann og þegar ég mætti í símann sagði hann "Kristín, kirsuberjatrén eru ótrúlega falleg á ég ekki að kaupa eitt í garðinn? Við getum haft það fyrstu árin á pallinum." "Júbb" sagði ég og nú eigum við eitt svoleiðis á pallinum. Tréð kom "heim" með hauspoka, svo það rati aldrei aftur á gróðastöðina og festi rætur hjá ykkur segir Snorri að þau á gróðastöðinni hafi sagt. En elsku Lilló sem sér samviskulega um að slá blettinn með okkar gömlu hnífasláttuvél skyldi ekkert í af hverju Snorri gat ekki rætt þetta við hann. Ég skyldu það.

Nú get ég hætt að vera abbó í bili.

 


Leikskólakennarar með meistarapróf - menntamálanefnd búin að skila af sér

Frábært að lesa nefndarálit menntamálanefndar um menntun kennarastéttanna. Þar er tekið undir það sjónarmið að menntunarkröfur til kennarastéttirnar verði að vera þær sömu. Ýmsar raddir voru farnar að berast um að menntun leikskólakennara yrði tekin út, en sem betur fer stendur nefndin við bakið á ráðherra. Með þessari ákvörðun skipar Ísland sér á fremsta bekk varðandi menntun leikskólakennara og sýnir með því í verki viðhorf til barna.

Álítur nefndin því að möguleiki á flæði kennara milli aðliggjandi skólastiga, sbr. 24. gr. frumvarpsins, sé mikilvæg nýjung í skólastarfi. Það gefi meðal annars færi á því að í yngstu bekkjum grunnskóla geti komið inn sjónarmið leikskólakennara í kennsluháttum. Telur nefndin að grundvöllur fyrir þessu flæði kennara milli skólastiga sé sá að kröfur til kennaramenntunar verði þær sömu á mismunandi skólastigum. Leggur nefndin því ekki til breytingar á 3. gr. frumvarpsins.

 

Hér má lesa allt álitið


Sól og blíða norðan heiða

Sit hér sveitt við yfirferð verkefna, úti er sól og blíða, sannarlega komið vor hér á Akureyri (alla vega í bili). Ég var pínu sorry þegar ég fór að heiman í morgun´. Í haust setti ég niður vel á annað hundrað túlípana í garðinn okkar. Þeir voru við það að blómstra í gærkvöldi og ég farin. Ég sem var búin að hlakka svo til að sjá þá í fullum blóma.  Setti líka niður eina rauða skrautlúpínu í gær, fékk afleggjara hjá mömmu. Nú vil ég fá hjartarblóm og ... En veit ekki hvort það er rúm fyrir allar þessar plöntur í garðinum hjá okkur. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að vilja hafa hann svolítið "villtan". 

Ég vil líka að eitt taki við af öðru í garðinum, að það sé eitthvað í blóma allt sumarið og fram á haust. Útlaginn hefur hingað til blómstrað síðast en eins og annað hefur blómgunartími hans færst fram um 2-3 vikur. Nú er hófsóleyin að verða búin - hún var hér áður fyrr að blómstra í kring um 17 júní.

Annars er fundur hér í kvöld á vegum Samfylkingarinnar, hann er á KEA og ég er að velta fyrir mér að skreppa. Heyra hvað formaður vor hefur fram að færa. Svona fyrst ég svindlaði á laugardaginn og ákvað að hlusta á heimspekinga frekar en pólitíkusa.


Að hlusta eða elta - samverkafólk eða strengjabrúður

Er munur á að hlusta á börn eða elta hugmyndir barna? Áður en ég kem að því vil ég fá að deila með lítilli frásögn með lesandanum, sumir geta meira að segja speglað sig í henni. Vorið 2008 hlustaði ég á kynningu á þróunarverkefni í leikskóla. Verkefnið var hluti af samstarfsverkefni margra leikskóla til nokkurra ára og því tengt rannsóknarverkefni. Frá upphafi var ljóst að hver skóli mótaði verkefnið eftir eigin þörfum og barnahópsins. Meðal annars til að tryggja fjölbreytileika og eignarhald viðkomandi á verkinu, á náminu og þeim námstækifærum sem þar sköpuðust. Í þessum tiltekna leikskóla sem ég ætla að nefna Ljósaland, gerðist það hinsvegar að börnin "tóku" völdin.

Við sem þekkjum til sögunnar um Uppreisnina á barnaheimilinu, kom ekkert annað í hug þegar við hlustuðum á leikskólakennara lýsa því sem gerðist. Leikskólarnir höfðu sameiginlega ákveðið að vinna að verkefni þar sem kanna átti eiginleika og möguleika vatns. Það sem gerðist á Ljósalandi er að í upphafi höfðu börnin áhuga á verkinu og unnu kappsamlega og af áhuga að því. Á einhverjum tímapunkti í ferlinu virðast leikskólakennararnir hafa misst sjónar á markmiðinu og látið stjórn verkefnisins alfarið í hendur barnanna.

Börnin voru á þeim tíma afar upptekin af tölvuleikjum og teiknimyndum í sjónvarpi. Til að nýta áhuga barnanna settu leikskólakennararnir fram hugmynd við börnin að búa til spil sem tengdist vatninu. Vinnan fór á fullt og úr varð merkilegt spil sem hægt væri að nýta til að greina áhrif dægurmenningar á leik og hugmyndir barna, en vatnið, það varð að algjöru aukaatriði. Eða eins og einn þeirra leikskólakennara sem hlustaði á kynninguna sagði, „börnin af gæsku sinni gagnvart leikskólakennurunum ákváðu að leyfa vatninu að fljóta með í smá hlutverki“. Þetta var sem fyrr segir áhugavert spil sem birti vel hugarheim barnanna, en hafði ekkert með upphafleg markmið að gera, það tengdist ekkert því þróunarverkefni sem þessir leikskólakennarar höfðu skuldbundið sig til þátttöku. Í sjálfu sér framúrskarandi verkefni en verkefni sem hefði átt að vera hliðarverkefni en ekki verkefnið.

En hvað átti sér stað? Það er ljóst að á Ljósalandi höfðu börnin ekki áhuga á vatninu og það sem meira er, það virðist sem kennararnir hafi ekki haft burði, vilja eða þekkingu til að fylgja verkinu eftir. Þeir virðast ekki hafa haft burði til að byggja upp eða opna fyrir áhuga barnanna á viðfangsefninu. Kennararnir voru mjög uppteknir af því að hlusta á börnin, en hlustun þeirra virðist aðallega hafa fólgist í því að fylgja börnum eftir og verða þjónar þeirra frekar en samverkafólk. Einhver gæti spurt; en er þetta ekki í anda þess að hlusta á börn og fylgja hugmyndum þeirra eftir? Voru þessir leikskólakennarar ekki einmitt að standa sig?

Ég velti fyrir mér hugmyndum Dewey um það sem hann velur að kalla menntandi reynslu. Hann taldi ekki alla reynslu nauðsynlega þroskandi eða menntandi. Hann varaði við fánýtum athöfnum sem virðast hafa það sem markmið að hafa ofan af fyrir og skemmta börnum á kostnað raunverulegrar þátttöku og áhuga þeirra. Þetta sjónarmið má finna bæði í einu af höfuðritum hans Reynsla og menntun ((Experience and Education, 1938) og í Skóli og samfélag (School and society, 1943) en þar gagnrýndi hann m.a. Kindergareten-hreyfinguna.[1]Gagnrýni hans beindist að því að verið væri að leggja fyrir börn verkefni og ætlast til að þau tækju þátt í athöfnum sem ekki fullnægðu því meginmarkmiði að efla hugsun og þroska barna. Ef horft er til dæmisins hér að framan er hægt að velta fyrir sér hvort að með því að elta hugmyndir barna sé í raun verið að byggja upp nauðsynlega reynslu og stuðla að því að börn þroski hugsun sína. Eða flokkast dæmið að hluta undir það sem Dewey kallaði fánýtar athafnir? Dewey var annt um aga, ekki ytri aga heldur þann aga sem fylgir því að vinna vel og sökkva sér djúpt í verk sín. En til að tryggja slíkan aga veðrur kennari líka að kunna þá list að bæði leiða og vera leiddur.

Í rannsókn sem ég gerði á meðal íslenskra leikskólakennara spurði ég hvernig þeir færu að því að fá börn til að gera eitthvað sem þau hefðu lítinn eða engan áhuga á. Einn leikskólakennari svaraði: 

... ef það er eitthvað sem við viljum að þau endilega geri ... þá bara gerir maður það spennandi. Það er ekki neitt sem við gerum hérna inni sem er ekki spennandi að gera. ... þetta verður bara allt spennandi og við gerum okkur svo spenntar fyrir því líka. Maður getur ekki tekið eitthvað upp sem maður er ekki spenntur fyrir og þegar að við erum orðnar spenntar fyrir því og smitum þennan spenning yfir til barnanna að þá er þetta ekkert mál.

Einhvernvegin náðu leikskólakennararnir á Ljósalandi ekki að gera verkefnið spennandi, hvorki fyrir sjálfa sig eða börnin. Ég held að hluti af vandamálinu hafi verið að þeir voru of uppteknir af því að hlusta á börnin. Of uppteknir að því að fylgja áhuga barnanna eftir. Kennararnir urðu í raun þjónar barnanna og hugmynda þeirra, en ekki samverkafólk. Og á því er mikill munur. Það styður ekki við lýðræði að börn upplifi sig í hlutverki brúðustjórnandans og starfsfólkið sem strengjabrúður. Það styður ekki við lýðræði, að leikskólastarfinu sé hagað á þann hátt að sópa öllum hindrunum úr vegi barna. Svo vitnað sé til Moss hér að framan verða leikskólakennara að búa yfir og getað beitt þekkingu á lýðræði til að ákveða starfshætti. Það þarf fagmennsku og þekkingu til að skoða hvaða starfsaðferðir samræmast lýðræðislegum aðferðum og það þarf stundum hugrekki til fylgja þeim. Á tímum skyndilausna í leikskólauppeldi, lausna sem byggja á skilvirkni og árangri, sem oft byggja á ytri stjórn og ytri aga getur þurft sterk bein til að standa með hugmyndum sínum og sannfæringu.

Rinaldi (2006) orðaði þetta svo að í leikskólanum stjórnaði starfsfólkið börnunum, en börnin líka starfsfólkinu, og þau þurfa þess, vegna þess að þannig læra börn um stjórn, þau þurfa að læra að taka vald af valdi, hún segir að vandmál leikskólanna sé ekki að börnin stjórni heldur að starfsfólkið hafi mun meira vald en börnin og hvernig það nýtir vald sitt. Það má spyrja hvort að leikskólakennararnir á Ljósalandi hafi ekki í raun brugðist þeirri ábyrgð sem þeim var falin? Að með því að beita valdi sínu á þann hátt sem þeir gerðu hafi þeir sýnt tiltekið ábyrgðarleysi. Sé enn litið til Dewey þá er hlutverk kennarans aðallega tvíþætt:  Annarsvegar á hann að leiða barnið í gegnum flóknar götur lífsins og skapa því tækifæri til að læra á sinn eigin náttúrulega hátt, það er með því að takast á við að leysa mismunandi viðfangsefni. En kennaranum ber líka að hjálpa barninu að takast á við það sem er að gerast í daglegu lífi þeirra og sem hjálpar þeim á að takast á við það sem framtíði ber í skauti sér, framtíð sem engin getur séð fyrir. Þetta gerir hann varla með því að setja ábyrgðina á framkvæmd starfsins í hendur barnanna. Ég tel að það sem gerðist á Ljósalandi sýni ekki faglegan styrk, heldur þvert á móti, Í því verkefni hafi birst ákveðin hræðsla við að fylgja eigin markmiðum.  

___________________

Textinn hér að ofan er hluti af fyrirlestri mínum: Hvert barn er sinn eigin kór, sem ég flutti á ráðstefnu í Borgarleikhúsinu þann 18. apríl 2008.

 

[1]Hreyfing kennd við hugmyndafræði Fröbels um leikskóla


Aðall góðs leikskólastarfs

Það nú einu sinni svo að aðall "góðs" leikskólastarfs felst í möguleikum hvers og eins að þróa starf sitt og aðferðir. Að hafa möguleika til að vera þátttakandi í þróun hugmynda og aðferða.

Aðall "góðs" leikskólastarfs er að þar er sífellt þróun í gangi, þar fylgist fólk með nýungum og rannsóknum. Ekki endilega til að éta þær upp heldur til að pæla í. Máta við sig og sína hugmyndafræði, vera í gagnvirku sambandi við leikskólafræðin. Til þess þarf að vera tími og vilji til þess að ástunda gagnrýna ígrundun.

Það er hætt við að í leikskólum þar sem ekki gefst svigrúm til ígrundunar og gagnrýni verði lítil þróun. Í slíkum leikskólum hver svo sem hin formlega stefna er verður hún að lokum eins og steinfóstur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband