Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012
10.5.2012 | 01:21
Minning
Ég er móðir sem eins og því miður allt of margar aðrar mæður hef misst barn. Fyrir um áratug missti ég son minn í slysi, hann var þá 17 ára. Stundum er ég svo spurð hvort ég eigi börn. Já ég á einn son svara ég. Svo kemur kannski að því í samræðum að ég deili reynslu, tala um barnauppeldi, meðgöngur, brjóstagjafir og svo framvegis og þá tala ég alltaf í fleirtölu. Ræði um æsku sonar míns sem ég missti á sama hátt og hins sem er hér enn. Þá upplifi ég spurningarsvip. Ég sé í kollinum á fólki að það hugsar sagðist hún ekki bara eiga enn son?.
En hversvegna segist ég ekki eiga tvö börn aðspurð. Kannski af því að næsta spurning er svo oft og hvað eru þau að gera? Kannski af því að hann er ekki hér lengur. Alla vega er þetta alltaf að þvælast fyrir mér. En hvort sem sonur minn er lífs eða liðinn er hann umfram allt og verður alltaf sonur minn. Drengurinn okkar sem kvaddi of snemma. Í dag 10. maí hefði hann orðið 29 ára. Stundum dreymir mig hann, en í draumum mínum er hann oftast barn. Seinast dreymdi mig hann í pollagalla með óræðan svip og ég slökkti á klukkunni og leyfði mér að dreyma oggulítið lengur. Það er nefnilega erfitt að vakna og vita að hann er ekki hér.
Um daginn hlustaði ég á gamla konu sem sagðist ekki vera plöguð af eftirsjá í lífinu enda gert það sem hún vildi. Kannski má segja það sama um mig ég hef haft tækifæri til að gera það sem ég hef viljað. En ég er samt plöguð af eftirsjá. Mín eftirsjá er að hafa ekki fengið að upplifa fullorðinslíf Sturlu yngri sonar míns. Upplifa hvernig maður hann hefði orðið, hvaða tækifæri og verkefni hann hefði fengist við í sínu fullorðinslífi. Sigra hans og ósigra, gleði og sorgir. Það er mín mesta eftirsjá.
Á afmælisdaginn hans hugsa ég meira til hans en alla aðra daga. Minning hans lifir með okkur hinum. Í dag gáfum við nafna hans fótboltatreyju sem Sturla átti. Hann fór stoltur í henni heim og ég horfði stolt á. Að lokum: Elsku Sturla mömmustrákur til hamingju með daginn þinn.