Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011
15.8.2011 | 12:41
Verkfall undirbúið
Verkfalll virðist vera óumflýjanlegt. Félag leikskólakennara hefur verið að senda út leiðbeinandi verklýsingar til leikskólastjóra um hvernig beri að haga störfum í leikskólum á meðan á verkfalli stendur.
Staðan er þannig að enn eru leikskólar sem ekki hafa leikskólakennara á öllum deildum (og lítil hætta á að það breytist í nánustu framtíð ef ekki verið samið). Á slíkum deildum mega vera börn, en hinsvegar er ljóst að leikskólastjórar hljóta að lenda í vandræðum vegna þess að ef þetta starfsfólk á t.d. börn í leikskólum þar sem verkfall gerist verkfallsbrjótar ef það mætir með sín eigin. Því verða þessir foreldrar væntanlega einhverjir að vera heima. Þannig er ekki sjálfgefið að þeir foreldrar sem eru með börnin sín á opnum deildum geti treyst á leikskólastarfið frekar en aðrir.
Leikskólakennarar róa nú lífróður fyrir starfinu sínu. Það er raunveruleg hætta sem steðjar að stéttinni ef leiðrétting á samningum næst ekki. Hætta sem felur í sér flótta í önnur störf og til annarra landa. Eins og staðan er í dag er hlutfall leikskólakennara víðast alltof lágt og ef það lækkar enn veldur það auknu og hættulega álagi á stéttina.
Í flestum leikskólum landsins er verið að vinna frábært starf, þar sem kennarar leiða nám barna í gegn um leik og daglegar athafnir.
Sá fleiri blogg hér að neðan um verkfallið.
Verðum að beita þessu vopni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.8.2011 | 14:16
Bros borga ekki reikninga
Hluti af því sem stundum er nefnt krísustjórnun er að draga upp mögulegar myndir þess sem getur gerst. Í þetta sinn ætla ég að leika mér aðeins með mögulegar afleiðingar þess ef kjarasamningur við leikskólakennara verður slæmur.
Eins og staðan er í dag er ljóst að leikskólinn hefur farið illa út úr hruninu. Mikið hefur dregið saman í öllum fjárveitingum, fé til afleysinga (veikinda starfsfólks) hefur verið skorið niður, símenntun sett á klaka, fé til að kaupa efnivið eins og leikföng, litir (allt efni til skapandi starfs) spil og þessháttar hefur verið skorið við nögl. Fé til matarinnkaupa staðið í stað á meðan allt hækkar. Tæki eru ekki endurnýjuð, húsum illa viðhaldið og svo mætti lengi telja. Leikskólar sameinaðir. Næstum allt sem ekki er samningsbundið hefur verið skorið í burt. Samt er leikskólanum ætlað að sinna starfi sínu eins og ekkert hafi gerst, sinna metnaðarfullu uppeldisstarfi, gera nýjar skólanámskrár, vera framsæknir, fylgjast með nýungum og svo framvegis. En er það raunhæft? Hvaða viðurkenningu fá leikskólakennarar fyrir starfi sínu og mikilvægi þess?
Leikskólakennarar fá stundum klapp frá foreldrum og falleg bros, en klapp og bros borga ekki sífellt hærri kostnað við það að halda heimili og borga af reikningum. Bros borga ekki hækkandi leikskólagjöld eða afborgun af lánum. Bros duga þá skammt.
Afleiðingin er að fjöldi leikskólakennara hefur litið í austurátt þar sem þeirra bíða betur borguð störf og lægri kostnaður við að lifa. Á Norðurlöndum eru íslenskir leikskólakennarar eftirsóttir. Á litlu svæði í kring um Osló búa minnst 30 leikskólakennarar og í þann hóp bætist nokkuð reglulega.
Hluti af vandamáli leikskólans hefur verið skortur á leikskólakennurum. Krafan hefur verið að mennta fleiri leikskólakennara. En nú er það svo að við nýliðunin er í minnsta lagi. Hreinlega vegna þess mikla fjölda sem flytur úr landi árlega.
Ef ekki verða gerðir ásættanlegir samningar við leikskólakennara nú er ég hrædd um að straumurinn í austurveg eigi eftir að vera enn stríðari. Við erum þegar eins og hriplegt kerald. Afleiðingin í íslenskum leikskólum, minni metnaður og fagmennska. Meiri starfsmannavandamál, fleira fólk sem stoppar stutt við (það svo innan leikskólans að leikskólakennarar er sú stétt sem minnst hreyfir sig og stöðugleiki ríkir).
Þetta er óskemmtileg mynd sem hræðir.
10.8.2011 | 12:43
Verkfall leikskólakennara
Það eru margir sem hafa og munu á næstu dögum og vikum skrifa um mikilvægi leikskólans og þess starfs sem þar fer fram. Hversvegna það skiptir samfélagið máli að leikskólar séu til. Um það ætla ég ekki að skrifa nú. Ég ætla að fjalla um hvers vegna leikskólakennarar telja sig eiga inni hjá sínum viðsemjendum eitt stykki samning.
Leikskólakennarar hafa verið öflugir í kjarabaráttu, lengi. Með mikilli fylgni við eigin málstað hafði þeim tekist að ná því markmiði að standa launalega jafnfætis viðmiðunarstéttinni, grunnskólakennurum. Báðar kennarastéttirnar eru saman í stéttarfélagi og fátt sem réttlætir mun á launum og öðrum kjörum. Haustið 2008 höfðu grunnskólakennarar lokið sinni samningsgerð og fengið umsamda hækkanir. Leikskólakennarar voru hinsvegar með lausa samninga. Eins og alþjóð veit. voru þá um haustið allir samningar frystir (stöðugleikasáttmálinn). Nú þegar samningar eru aftur á borðinu eru leikskólakennarar því í raun samning á eftir viðmiðunarstétt sinni. Krafa leikskólakennara er að standa þeim aftur jafnfætis. Það má í raun segja að vegna þess að ekki var búið að semja haustið 2008 hafi leikskólakennarar sparað sveitarfélögum umfram það sem lagt var á ýmsar aðrar stéttir. Þá er ekki sá gríðarlegi niðurskurður sem verið hefur innan leikskólans meðtalinn.
Leikskólakennarar þurfa á stuðningi samfélagsins að halda næstu daga og vikur. Þeir þurfa skilning og samstöðu um að kröfur þeirra séu réttlátar og sanngjarnar.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)