Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011
10.2.2011 | 14:39
Allt miðar að bestu lausn, sagði prófessor Altunga
VG hafnar sameiningaráformum í borginni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.2.2011 | 11:00
Blóðið drýpur
Í gamla daga lærði ég söguna af því að þegar kóngar skreppi frá, þá dansi mýsnar. Nú er veisla hjá músum landsins. Daglega berast alvarlega fréttir af aðför að skólakerfinu. Það er vel þekkt að grafa óþægilegar fréttir í öðrum meira ræddum. Nú sýnist mér litlu sveitarfélögin gera þetta.
Í október 2008 var ég erlendis á ráðstefnu um skólamál. Ég bar ekki höfuðið hátt, mest spurð um hrunið og íslensku glæpamennina í bönkum landsins. Ég gat þó sagt að þær raddir væru sterkastar í samfélaginu að hlúð yrði að börnunum okkar, fólk virtist almennt sammála um að standa vörð um menntunina. Það var þá.
Nú eru rúm tvö ár liðin og börnin komin undir hnífinn. Sveitarfélög í skjóli stóra bróður í Reykjavík álykta, möndla og framkvæma.
Það er eitt að skera niður stjórnun eins og verið er að gera í borginni, það er slæmt og getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir faglegt og daglegt starf leikskólanna. Hins vegar verður að segja að það er enn nú alvarlega þegar fer saman niðurskurður í stjórnun og ný viðmið um mönnun leikskóla eins og nú er boðað í Vestmannaeyjum.
Í fundargerð bæjarstjórnar er bókað
*að sameina rekstur leikskóla*hækkun leikskólagjalda um 5%*hætta niðurgreiðslu vegna þjónustu dagmæðra*að leggja niður stöðu leikskólafulltrúa*að færa inntöku barna alfarið upp í 24 mánaða og fækka þar með leikskólaplássum*að víkka út viðmið barngilda á leikskólumbbbb
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 11:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.2.2011 | 12:24
Pólitísk og söguleg greining
Enginn vill hverfa til þess tíma þegar börn fengu hálfan dag í leikskóla og hinn helminginn leysti ömmur eða dagmæður eða .... einhver. Það var meira að segja til orðatiltæki fyrir tímann í hádeginu þegar allir voru að svissa, fyrir hádegisbörnin á leið til dagmömmu og eftirhádegis börnin á leið í leikskólann. Það var rætt um þjóðflutningana miklu. Hagfræðistofnun Háskólans var fengin til að reikna hvað þetta var þjóðhagslega óhagkvæmt. Smá skref voru tekin í átt til úrbóta, þar til kom að Reykjavíkurlistanum sem ákvað að stíga skrefið til fulls og afnema tvöfalda kerfið.
Öllum foreldrum var nú boðið upp á heilsdagsleikskóla. Og kerfið óx hratt, bæði var mikið byggt og að hluta til vegna þess að vistunartími barna fór á skömmum tíma næstum úr böndum. Kerfið óx mun hraðar en tók að mennta fólk til að vinna í því. Svo kom góðærið og þá hófst alvöru kreppa leikskólanna. Eitt af því sem borgin gerði var að borga það sem kallast neysluhlé, með því var reynt að halda í það fólk sem fyrir var í leikskólanum og kannski gefa þeim færi á að ná í nýtt. Þetta var uppbót fyrir lálaunastéttirnar í leikskólanum.
Einn angi gamla kerfisins var að á lóðum um allan bæ voru byggðir leikskólar hlið við hlið, Lækjaborg og Laugaborg, Sunnuborg og Holtaborg, Hagaborg og Ægisborg. Annar var fyrir börn einstæðra foreldra og námsmanna hinn þar voru börnin allan daginn og hinn var hálfsdagsleikskóli fyrir börn gifta fólksins.
Þess vegna er það nú sem skólar eru því sem næst á sömu lóðinni og þess vegna er kannski ekkert endilega skrýtið að einhverjum hafi dottið í hug að það væri skynsamlegt að leggja þá saman, gera úr þeim eina einingu og spara. Það virðast nokkuð augljósir kostir. Meira segja fyrir kreppu var farið að örla á þeirri umræðu.
Kreppan
Svo kom kreppan og það þurfti að spara, ekkert fé til að halda úti starfinu, ekkert fé til framkvæmda, hvað er til ráða?
Raunar má segja að vandamálið sé tvíþætt, annarsvegar er það kostnaðurinn af kerfinu eins og það er, gatið sem þarf að fylla vegna niðurskurðar og hins vegar eru það yngstu börnin sem bíða á handfangi leikskólanna.
Þegar pólitíkusar lögðust yfir málið virðist sem nokkur atriði hafi staðið upp úr. Atriði sem e.t.v. virðast ekki galin við fyrstu sýn, en eru kannski eins miklar draumalausnir þegar að er gáð. Vel að merkja pólitíkusarnir segja að þeir ætli að verja launin í leikskólunum, þannig að einhverra annarra ráða varð að leita, og þá duttu þeir niður á alla vega sameiningalausnir, sumar alveg galnar. Ljóst er að með því að fækka stjórnendum verulega má ná fram nokkrum sparnaði.
Fyrst er þetta með sameiningarnar. Hefði nú fólk aðeins setið á sér og valið að ræða þær, bara á milli skóla á sama skólastigi þá hugsa ég að það hefði verið aðeins meiri ró yfir mannskapnum. Þó enginn hefði verið glaður með þá ákvörðun þá hefði fólk skilið sumar sameiningar, sérstaklega ef til þeirra hefði verið vandað og settur með stuðningur í anda breytingarstjórnunar. En nei, með opnun í lögum sem borgin velur að túlka eftir sínu höfði (eins og sveitarfélögin mörg), þá ákvað hún að skella saman leik- og grunnskólum. Ekki vegna þess að það ætti að fara af stað með þróunarverkefni, heldur af því að víða í grunnskólum er töluvert pláss sem er illa nýtt. Ef farið er með elstu börn leikskólans inn í grunnskólann (í nafni einhvers sem snjallir spunameistarar hefðu fundið upp) er auðvitað hægt að leysa hitt vandamál borgarinnar, nefnilega yngstu börnin, (sem er auðvitað líka ábyrgð okkar allra, ætla ekki að halda öðru fram), með því er tekinn kúfur af leikskólanum og þá er hægt að taka inn litlu börnin sem bíða. Viðkomandi leikskólar yrðu þá í reynd meira og minna ungbarnaskólar eða yngri deilda leikskólar.
Ég skil þetta sjónarmið og ég skil þessa pælingu sérstaklega vegna þess að ég er ein þeirra sem er fylgjandi því að mjög ung börn sæki leikskóla. Í dag gafst mér smá færi á að skoða fermetratölu í nokkrum grunnskólum og deila í með nemendafjölda en það er sú aðferð sem notuð er til að ákveða fjölda barna í leikskóla. Ef leikskóli er t.d. 590 fermetrar er pláss í honum fyrir um 90 börn (gæti hlaupið til eða frá um nokkur börn eftir hvort leikskóinn er gamall eða nýr). Þegar ég notaði mælistikuna á nokkra þá grunnskóla þar sem hafa komið fram hugmyndir um sameiningu við leikskóla kemur ákveðið mynstur í ljós.
Fermetrar í grunnskólum og sameining grunnskóla
Skólarnir sem hugmynd er um að sameina leikskólum eru með töluvert fleiri fermetra á nema en aðrir skólar. Fyrir nokkrum árum var meðaltal fermetra á nemanda í grunnskóla borgarinnar um 12. Þessir skólar eru allir nokkuð yfir það - eða gætu verið það með smá tilfærslum og sameiningum við aðra grunnskóla.
Það má nefnilega ekki gleyma í umræðunni að það stendur líka til að sameina og leggja niður grunnskóla. Það virðist hafa verið röng ákvörðun hjá borginni fyrst eftir yfirtöku grunnskólans á sínum tíma að byggja marga litla grunnskóla. Þessir skólar virðast margir eiga í erfiðleikum með að bjóða nemendum sínum upp á gott og vel útfært nám í dag, sérstaklega í hverfum sem eru að eldast og börnum að fækka í. Með því að stækka skólana (með því að leggja niður aðra nálæga) gefast fleiri tækifæri til að bjóða nemum upp á fjölbreytt nám. Sem eru vissulega gild skólarök.
Dýrt vannýtt húsnæði
En horfum aftur á skólana sem eru með yfirdrifið rými sem borgin hefur sannarlega fjárfest í og vill nýta börnum sínum til góðs. Auðvitað liggur það í augum upp að það er kostur að færa leikskólabörnin þangað á meðan kúfurinn er. En það liggur e.t.v. ekki alveg eins í augum upp fyrir leikskólafólk að því þurfi að fylgja að leikskólinn og grunnskólinn verði sameinaðir. Getur ekki alveg eins verið lausn að leigja leikskólanum tímabundið húsnæði grunnskólans og gera honum þannig kleift að halda elstu deildunum og mæta þörfinni fyrir rými fyrir elstu börn leikskólans (ja eða ungabörnin). Það kemur nefnilega að því að grunnskólarnir þurfa rýmið sitt aftur, þessir árgangar eiga nefnilega líka eftir að fara í grunnskóla. Þá verður fjárhagsástand samfélagsins vonandi orðið svo gott að framkvæmdir verða hafnar aftur á vegum t.d. borgarinnar. Með því að leigja leikskólanum hluta grunnskólanna er líka verið að stuðla að því að hægt sé að byggja skemmtilega brú sem getur e.t.v. seinna leitt til sameiningar skólastiganna. En í guðanna bænum geymið það þangað til að það er sannarlega ekki kreppuúrræði heldur metnaðarfullt tilrauna- og þróunarstarf.
Uppsagnir
Út um allan bæ eru leikskólastjórar að velta stöðu sinni fyrir sér, Það er ljóst að ekki verður farið í allar þær tillögur sem fyrir liggja, einfaldlega vegna þess að sumir skólar hafa fengið fleira en eina og tvær tillögur sem ganga í mismunandi áttir. Ég hef hins vegar velt fyrir mér hvað gerist ef haldið verður áfram með sameiningarnar og þeim haldið til streitu (sem ég heyri að margir leikskólastjórar reikna fullkomlega með, eru farnir að taka til á skrifstofunum og í tölvunni). Hvað þá?
Er jafnræði fólgið í að segja öllum leikskólastjórum upp?
Segjum sem svo að ákveðið verði að fara út í 40 (af um 78 leikskólum) sameiningar leikskóla- stjórum fækkað um 20. Þá verða stöður þessara 20 auglýstar og þeim gert að keppa innbyrðis. Eingöngu vegna þess að þeir eru svo "óheppnir" að vera í vitlausum skólum, hinir eru hólpnir. Eftir að hafa velt málinu fyrir mér er ég að velta fyrir mér hvort ekki sé þá meira jafnræði hjá borginni að segja hreinlega öllum sínum leikskólastjórum upp. Þá sitja allir við sama borð án tillits til þess hvort sameining er í spilunum eða ekki. Það væri líka hægt að binda umsóknir/eða ferlið þannig að leikskólastjórar sem eru starfandi gangi fyrir í þau störf sem auglýst verða. Þá væri hægt að horfa á farsæla og reynda leikskólastjóra - án þess endilega að fylgja þeirri kröfu sem nú er gerð til framhaldsnáms í stjórnun. Ég held t.d. ekki að leikskólastjórar vilji endilega sækja um sína gömlu skóla. Það er oft einmitt gott í breytingarferli og sameiningarferli að fá nýjan stjóra (þó það sé auðvitað ekki algilt frekar en annað). Sjálf hef ég reynslu af því að sameina leikskóla í Reykjavíkurborg og get fullyrt að það getur tekið á og oft ríkir tortryggni í þeim skóla sem er "lagður undir" í garð þeirra sem fyrir eru. Telja viðkomandi stjórnanda vera "þeirra" hinna.
Sjálfsagt eru margir og kannski flestir, ósammála mér, telja að með þessu sé verið að hætta öllu leikskólastarfi í borginni í hættu. Bæði starfsfólk og foreldrar yrðu væntanleg mjög órólegir. EN það er heldur engin að segja að farsælir stjórar fengju ekki "sína" skóla sem þeir hafa e.t.v. lagt blóð svita og tár í við uppbyggingu. En jafnræðið yrði sannarlega meira.
Að lokum hér má sjá tölur um fermetra í nokkrum grunnskólum borgarinnar, meðal annars nokkurra þeirra sem komu fyrir í tillögum borgarinnar. Fermetratalan er miðuð við nemendafjölda í desember 2009.
Austurbæjarskóli | 12 | Húsaskóli | 16 |
Breiðholtsskóli | 14 | Hvassaleitisskóli | 20 |
Foldaskóli | 21 | Langholtsskóli | 13 |
Fossvogsskóli | 13 | Laugarnesskóli | 9 |
Grandaskóli | 17 | Vesturbæjar | 11 |
Háteigsskóli | 12 | Laugalækjarskóli | 19 |
Þróun fjölgunar 1 árs barna í Reykjvík (um 300 barna munur)
Þróun fjölgunar 1árs barna á landsvísu
Ég hef ekkert fjallað um heildsdagsskólann af hreinum þekkingarskorti á þeim aðstæðum sem þar eru fyrir hendi. En átta mig á að þar er líklega verið að leggja í miklar tilfærslur líka.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.2.2011 | 18:21
Fleira af áhrifum samreksturs skólastiga
Í gær las ég skýrslu Sambands sveitarfélaga um sameiningu grunn og leikskóla frá því í fyrra. Þar kemur margt þarft fram sem ber að huga að. t.d. kemur í ljós að þá störfuðu 21 (+1 síðan og kannski fleiri) samreknir, leik- og grunnskólar (leikskólum hefur því fækkað samsvarandi og jafnvel meira því í einhverjum tilfellum fóru tveir leikskólar í samrekstur). Ég skoðaði heimasíður allra þessara skóla og/eða sveitarfélaga og út frá því fæ ég að í 21 tilviki sé skólastjórinn, grunnskólakennari í grunninn og í 10 tilvikum karl. Ekkert kemur fram á heimasíðunum við fyrstu yfirsýn um að viðkomandi hafi kennsluréttindi á báðum skólastigum í dag. Í skýrslunni kemur fram að mismunandi hafi verið hvort að sveitarfélög hafi auglýst stöðurnar við sameiningu. Í eftirfarandi töflu getur að líta svör sveitarfélaganna.
Helmingur sveitarfélaga auglýsti ekki stöðu skólastjóra samrekins skóla, sex sveitarfélög auglýstu stöðuna ýmist í dagblöðum á landsvísu, á vef KÍ eða á vef sveitarfélagsins (sjá töflu 9). Tafla 9. Auglýsing skólastjórastöðu | |||
Fjöldi sveitarfélaga | Hlutfall | ||
Alls | 18 | 100,0 | |
Staðan auglýst* | 6 | 33,3 | |
Staðan ekki auglýst | 9 | 50,0 | |
Ekki svarað | 3 | 16,7 | |
*Auglýst var í Morgunblaði, Fréttablaði, vef KÍ eða heimasíðum sveitarfélaga. |
Þetta eru einkar áhugaverðar upplýsingar í ljósi þess að einungis einn skólastjórinn í samrekstrarforminu er leikskólakennari. Í fæstum tilfellum gafst þeim tækifæri til að sækja um og fá sig metinn í starfið.
Það kemur líka fram í skýrslunni að einungis eitt sveitarfélag hafi gert kröfu um kennsluréttindi á báðum skólastigum og að skólastjórinn hafi það. Því má álykta að það sé sá stjóri sem er leikskólakennari í grunninn.
Launakjör, það er nokkuð mismunandi hvort skólastjórar hafi fengið launahækkun vegna samrekstursins en 15 hafa fengið uppbót og fimm svara ekki. Skólastjórum er heimilt að veita millistjórnendum hækkun vegna samreksturs, milli 2- 5 launaflokka (vel að merkja þá eru minni munur á milli launaflokka hjá leikskólakennurum en grunnskólakennurum). 11 sveitarfélög nýttu ekki heimilda og 4 hækkuðu laun millistjórnenda í leikskólum, eitt minkaði kennsluskyldu aðstoðarskólastjóra.
Beðið var um að nefna kosti og galla. Flestir kostir snéru að faglegum ávinning s.s. samvinnu og samhæfingu og svo sparnaði rekstri. Meðal galla er nefnt:
Helsti gallinn er lítil þekking skólastjóra á leikskólastarfi og er það stór galli. Því funkera deildarstjórar sem skólastjórar í faglegu starfi og skólastjóri sér í raun bara um rekstrarleg og starfsmannamál. En mikil aukning er í samvinnu á milli skólastiga sem ég hef talað fyrir í nokkurn tíma en við þessa breytingu komst loksins hreyfing þar á. Mikið er um gagnkvæmar heimsóknir og einnig fluttist barn um mitt ár á milli skólastiga, sem ég tel stóran kost ef barnið er tilbúið á allan hátt. |
Í umræðunni eins og hún er núna skiptir máli að upplýsingar séu aðgengilegar fyrir alla. Að hægt sé að læra af því sem vel er gert og forðast það sem illa er gert. Mér finnst það umhugsunarvert að sveitarfélög hafi ekki auglýst stöðurnar og að einungis í einu tilfelli sé LEIKSKÓLAKENNARI skólastjóri yfir samreknum/sameiginlegum skóla. Og það í skóla sem er einungis ætlaður börnum upp að 9 ára.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2011 | 15:21
Sameining eða samrekstur?
Ég staldraði aðeins við heiti starfshópsins sem er að vinna að umfangsmestu breytingu á íslenska skólakerfinu frá því grunnskólinn var færður til sveitarfélaga. Um þá tilfærslu hafa verið skrifaðar skýrslur bæði það sem vel var gert og það sem miður fór.
Heiti starfshópsins er: Starfshópur um greiningu tækifæra til endurskipulagningar og sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, með fjárhagslegan og faglegan ávinning í huga.
Það er hugtakið sameining sem ég er að velta fyrir mér. Hvað merkir að sameina leikskóla, tvo eða þrjá eða grunnskóla og leikskóla. Hvaða vinnubrögð eru líklegt að fylgt verði við það módel. Sameining felur í sé að það er verið að leggja niður skóla og stofna nýjan skóla, undir nýju nafni á grunni þeirra sem fyrir voru. Samrekstur krefst ekki eins afgerandi vinnubragða. Þar er verið að reka saman í samlagi ólíkar stofnanir til að njóta ákveðinna áhrifa sem stækkun og fækkun í yfirstjórn getur haft í för með sér.
Sameining
Segjum svo að ætlunin sé að sameina leikskólana Gleðiborg (80 börn), Gestaborg (80 börn) og grunnskólann, Vonarskóla (245 börn). Hvert er ferlið?
1. Ákvörðun tekin um sameiningu.
2. Í henni felst að allir ofangreindir skólar eru formlega lagðir niður í núverandi mynd. Öllu starfsfólki, kennurum, stjórnendum og öðru starfsfólki er sagt upp starfi.
3. Nýr stjórnandi ráðinn - hann fær væntanlega að ákveða ýmislegt í tilhögun starfsmannamála. Hann ræður fólk til starfa hjá hinni nýju stofnun.
4. Grunnskólakennarar eiga allflestir biðlaunarétt - til að hann fari ekki að tikka er þeim boðið endurráðning - með nýjan ráðningarsamning.
Hægt er að segja flestum leikskólakennurum upp með 3ja mánaða fyrirvara, sumir eiga 4 mánaða rétt og örfáir 5 mánaða rétt. Örfáir með biðlaunarétt.
5. Það er nýs stjórnanda að ráða inn allt starfsfólkið upp á nýtt og veita í stöður, raða mynstrinu saman.
6. Í skólunum starfa síðan leik og grunnskólakennarar hlið við hlið með afar ólíkan samning og rétt. Hvernig verða þau mál höndluð? Hvernig verður undirbúningstímum beggja stétta t.d. háttað. Hvað með frí og skipulagsdaga? T.d. þar sem leikskólabörnin verða færð inn í grunnskólana? Nú er það svo í leikskólum að leikskólakennarar gefa eftir kjarasamningsvarðann undirbúningstíma sinn (4 tímar á viku) ef undirmönnun er í leikskólanum. Kannski er komið að því að slík vinnubrögð verða lög niður? Kontakt tími leikskólakennara sem starfar í 40 stundir ætti að vera 32,5 tími með börnum (kaffitími 35 mín á dag reiknaðar inn). Verður þessi tími nú virtur samsvarandi því sem gert er í grunnskólum?
Ef leikskóli er sameinaður grunnskóla er mér sagt að ráðningasamningur grunnskólastjóra ráði (þannig sé það t.a.m. í eina leik- og grunnskóla borgarinnar Dalskóla), það þýðir að laun stjórnandans hækka miðað við fjölda barna.
Ef leikskóli er samrekinn grunnskóla hækka laun skólastjóra grunnskólans sem tekur verkefnið að sér samkvæmt samkomulagi skólastjórafélags Íslands við samband sveitarfélaga um 3 launflokka ef leikskólabörnin eru 30 eða fleiri. Í því samkomulagi er ekki ljóst hvort að leikskólabörnin teljast líka með í fjölgun barna þannig ef tveir leikskólar bætast við grunnskóli með t.d 245 nemendum hækka laun grunnskólastjórans um réttar 80.000 krónur.
Sparnaður dæmi A = Laun tveggja leikskólastjóra og stjórnunarhlutfall eins til tveggja aðstoðarskólastjóra.
Gróflega má áætla að með uppsögn og niðurlagningu starfa 30 leikskólastjóra sparist um 140 - 180 milljónir er þá miðað við laun og launatengd gjöld. Ég vil fara að sjá þessar tölur frá borginni. Það er ekkert hægt að ræða Í ALVÖRU fyrir en tölurnar liggja fyrir.
Hvað þarf að vera til staðar?
En fleira þarf að liggja fyrir en upplýsingar um raunverulegan sparnað, m.a. starfslýsingar og skipurit. Á það er einmitt minnst í samkomulagi milli KÍ við Samband íslenskra sveitarfélaga sem Reykjavík er aðili að. Þar er tekið fram að áður en að samrekstri/sameiningu kemur verði að skoða nokkur atriði.
Áður en hafist er handa við undirbúning samreksturs skóla er nauðsynlegt að skilgreina, hvaða ávinningi stefnt er að. Þegar ákvörðun er tekin um samrekstur er mikilvægt að hafa gott samráð við foreldra og starfsmenn skólanna m.a. í gegnum skólaráð grunnskóla og foreldraráð leikskóla.
Sveitarstjórn/rekstraraðili skal tryggja að við ákvarðanatöku um samrekstur skóla liggi fyrir áætlun um skipulag samrekstursins og markmið.
Vakin er athygli á þeirri meginreglu að auglýsa skuli laus störf. Áður en störf stjórnenda eru auglýst þurfa að liggja fyrir skipurit samrekins skóla og starfslýsingar stjórnenda.
Til að tryggja skilvirka stjórnun er mikilvægt að hlutverk og ábyrgðarsvið allra stjórnenda séu skilgreind, þá er átt við skólastjóra og millistjórnendur.
Það er ljóst að það er að mörgu að huga varðandi sameiningarmál. Og það er nokkuð skýrt að sameining og samrekstur er ekki það sama. Mismunandi vinnuferlar ættu að fara í gang eftir hvort að formið er samrekstur eða sameining. Ein ástæða sem ég hef heyrt um sameiningu grunn og leikskóla hér í borginni sé að víða sé töluvert mikið grunnskólahúsnæði ónotað, jafnvel heilu álmurnar. Í stað þess að bjóða leikskólum þá til afnota tímabundið er farin sú leið að sameina. Rannsóknir í Noregi þar sem elstu börn leikskólans voru færð inn í grunnskóla með sínum kennurum hræða. Leikskólamenningin og störf leikskólakennaranna voru jaðarstörf í skólunum. Smá saman, þurrkuðust sérkenni leikskólastarfsins út og kennslan í yngstu bekkjunum líktist því sem grunnskólinn hafði áður gert. Sporin hræða. Reyndar má líka líta til skýrsla hérlendis um forskólabekkina gömlu. Það sama gerðist þar.
Hættan er fyrir hendi og það er þeirra sem hafa trú á aðferðum leikskólans að standa vörð. Vel meinandi skólastjóri í einum og einum skóla er ekki nóg. Hér er fyrst og fremst verið að tala um kerfisbreytingu og stærstu hugmyndafræðilegu breytinguna sem alla vega leikskólakerfið hefur gengið í gegn um í áratugi. Því þarf vel að vanda.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.2.2011 | 02:17
Fram á brúnina - í góðri trú
Í góðri trú. Stundum hefur fólk samþykkt og gert hluti sem annars gætu orkað tvímælis, í góðri trú. Í dag stendur leikskólakennarastéttin frammi fyrir að hafa tekið þátt í að móta breytingu á lögum um leikskóla þar sem kveðið var á um samrekstur leik- og grunnskóla.
Í góðri trú og kannski vegna þess að að Félag leikskólakennara vildi ekki standa í vegi fyrir að í litlum, fámennum sveitarfélögum hreinlega, væru skapaðar aðstæður til skólahalds sem sveitarfélögin réðu við. En með því sem virðist í pípunum núna er verið að draga leikskólastarf fram á brún hengiflugs.
Krafa um lagabreytingu - vegna fámennrar sveitarfélaga
Fyrir breytinguna var ólöglegt að leggja leikskóla undir grunnskóla eða sameina þessi tvö skólastig undir sama stjórnanda. Fram að því var hægt að sameina húsnæði en ekki stjórnunina. Í lögum um leikskóla voru mjög sterk ákvæði þess efnis að stjórnun leikskóla ætti að vera í höndum leikskólakennara og í grunnskólalögum voru sambærileg ákvæði um að stjórnun ætti að vera í höndum grunnskólakennara. Þetta ákvæði setti ýmis fámenn en að sama skapi metnaðarfull sveitarfélög í klemmu. Sveitarfélög sem vildu halda bjóða bestu mögulegu menntun fyrir börnin sín.
Lög um leikskóla og heimildarákvæðið
Fulltrúar leikskólakennara í nefnd um leikskólalög höfðu á þessu skilning og samþykktu því í góðri trú væntanlega breytingu á lögum sem heimiluðu samrekstur skóla á báðum skólastigum. Strax var tekið fram að ákvæðið væri heimildarákvæði og fyrst og fremst ætlað fámennum sveitarfélögum til að þau gætu staðið undir menntunarskyldu sinni, í greinargerð með lögunum er líka sérstaklega tekið fram að þetta eigi ekki að gera með það að markmiði að búa til fjölmenna skóla með einum stjórnenda. Það skal tekið fram að við samningu frumvarpsins var víðtækt samráð og um það nokkur sátt. En í greinagerðinni segir:
Mikilvægt er að við ákvörðun um samrekstur, hvort sem er tveggja eða fleiri leikskóla eða leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla ráði staðbundnar aðstæður og fagleg sem rekstrarleg sjónarmið enda er þessi breyting einkum hugsuð fyrir þau sveitarfélög sem m.a. vegna fámennis gætu betur hagað sínu skólahaldi, rekstrarlega og faglega, með samrekstrarformi. Með ákvæðinu er einnig verið að opna fyrir fjölbreytni, sveigjanleika og þróun í skólastarfi í þágu barna en ekki til samreksturs stórra fjölmennra skóla né heldur sameiningar marga skóla undir einum skólastjóra.
(Úr greinargerð með frumvarpi til laga um leikskóla þingskj. 321, leturbreyting mín)
Mér finnst sérstaklega mikilvægt að benda á síðustu setninguna um að sameiningar og samrekstur eigi að vera í þágu barna, en ekki til að samreka marga stóra skóla undir einum stjóra.
Í góðri trú. Lögin eru ekki gömul voru samþykkt 2008 en hafa þegar haft afleiðingar sem ekki varð séð fyrir. Í litlum sveitarfélögum gerðist það sem vænt var, skólar voru sameinaðir. Því miður verð ég að segja að flestir hafa verið sameinaðir undir stjórn grunnskólastjóranna.
Afleiðingar
Nýlega ræddi ég við leikskólakennara í sveitarfélagi þar sem slík sameining hafði átt sér stað. Leikskólastjórinn fyrrverandi er nú deildarstjóri en sér áfram um allflest sem hún sá áður um sem leikskólastjóri. Nokkur atriði höfðu þó verið sett í hendur skrifstofu skólanna (sem er auðvitað frábært) en daglega stjórnun heldur hún áfram um. Auðvitað á miklu lægri launum. Nú veit ég ekki hvernig kjarasamningum grunnskólastjóra er háttað en mér segir hugur að með því að bæta við leikskólanum hafi viðkomandi fengið ágætis launahækkun. Því má velta fyrr sér fjárhagslegum ávinningi. Í öðru sveitarfélagi sem ég heyrði af er búið að segja upp leikskólastjóranum og það á að færa leikskólann undir grunnskóla sveitarfélagsins. Leikskólakennarinn er eini starfsmaður leikskólans sem var með tilskylda menntun og vegna þess að í litlum leikskólum hafa leikskólastjórar vinnuskyldu á deild er verið að svipta börnin einu fagmanneskjunni á staðnum. Auðvitað verður við slík tækifæri að spyrja um ákvæði laganna sem kveður á um FAGLEGAN sem REKSTRARLEGAN grundvöll slíkra sameininga.
Fjölgun karlkyns leikskólastjóra - er hún raunveruleg?
Karlkyns leikskólakennari rak augun í töluverða fjölgun karlkyns stjórnenda leikskóla. Hann sem taldi sig hafa ágætis yfirsýn um karlmenn í stéttinni áttaði sig ekki alveg á þessum tölum þangað til að það rann upp fyrir honum að nú eru karlkynsskólastjóra grunnskóla taldir sem leikskólastjórar í opinberum tölum. Því leikskólinn heldur áfram að vera til sem sjálfstæð stofnun stjórnsýslulega, þetta er nefnilega ákvæði um samrekstur en ekki sameiningu. Í kjölfarið var Hagstofunni skrifað og hún beðin að greina leikskóla eftir rekstrarformi í árlegum skýrslum sínum. Í lögunum er kveðið á að um stjórnandinn þurfi að hafa kennsluréttindi á öðru skólastiginu helst báðum. En ef stöðurnar eru ekki auglýstar heldur lagðar undir grunnskólastjórana eins og raunin hefur verið víða, hafa mentaðarfullir leikskólakennarar ekki tækifæri til að láta reyna á ákvæðið.
Sjokk félagsmálaráðherra
Í gær var sagt frá í fréttum að grunnskólakennarinn og félagsmálaráðherrann og samflokksmaður minn, Guðbjartur Hannessonhonum hefði dauðbrugðið við lestur skýrslu um jafnréttismál. Með þeirri sinu sem verið er að leggja eld í er verið að vega að jafnréttismálum í landinu. Á meðal leikskólakennara hefur eftirsókn í stjórnunarstöður verið eina leið leikskólakennara til að hækka laun sín. Ef um 120 stjórnendur í Reykjavík einni missa störf sín eru það 120 tækifærum færra.
Leikritið Samráð
Menntaráð sendi út í haust tilkynningu um nefnd sem ætti að skoða faglega og rekstrarlega forsendur sameiningar. Margir leikskólastjórar lásu fyrst um þess nefnd í fjölmiðlum, það gleymdist nefnilega að senda þeim póst þegar hann var sendur á fjölmiðlana. Auðvitað starfa hjá borginni flinkir lögfræðingar og þeir væntanlega búnir að lesa lögin og greinargerðina með athygli, þeir sáu að til þess að sameiningar standist heimildarákvæðið verða þær að vera á faglegum forsendum og þess vegna var sett upp leikrit. Leikritið heitir að mér virðist SAMRÁÐ. Það var fenginn leikstjóri og svo var settur upp spuni. Nú er frumsýning og hún boðar ekki gott.
Krafa um reglugerð
Með lögum um leikskóla voru boðaðar alla vega reglugerðir m.a. um húnsæðismál, börn og rekstur. Ég sakna hinsvegar einnar reglugerðar enn, þeirrar sem ég tel að hefði átt að setja og beri að setja, reglugerð um samrekstur og forsendur samreksturs leik- og grunnskóla. Með slíkri reglugerð ætti menntamálaráðuneytið auðveldar með yfirsýn og hefði jafnvel einhverja stjórn á málum. Að rík sveitarfélög sem kunna að fara í kring um lagakróka verði gert erfiðara fyrir. Ég kalla eftir slíkri reglugerð, ekki seinna en í næstu viku.
Í reglugerð um leikskóla er kveðið á um hvað eigi að vera til staðar t.d. húsnæðislega, nú velti ég fyrir mér, hvort að með sameiningu skóla í Reykjavík undir einn stjóra og samrekstur við grunnskóla. Er þá nóg að viðkomandi þættir séu til staðar í einu húsi einingarinnar? Er þetta leið til þess að skjóta sér undan ákvæðum? Mér finnst að það verði að skoða sameiningar í þessu ljósi.
Er ekki á móti breytingum - ef þær eru faglegar
Eins og ég hef áður sagt og mun segja áfram ég er ekki á móti tiltekt og að hlutir séu skoðaðir, jafnvel að breytingar séu gerðar, ef þær eru gerðar á faglegum forsendum fyrst og fremst. En ekki að hugsanlegur sparnaður, sem ég reyndar efast um, sé fyrst og fremst látinn ráða för. Ég sem skattborgari krefst líka að sjá tölur, ekki bara um hvað það sé ódýrt að leggja niður svona eins og 120 stjórnendastöður, heldur hvað þeir sem bæta við sig hækka. Ég við sjá raunverulegar tölur. T.d. hlýtur það að krefjast fleiri funda utan vinnutíma að samhæfa skólastarf í mörgum byggingum (ef faglegur ávinningur er raunverulegt markmið), slíkt kostar peningar. Einn starfsmannafundur getur t.d. hlaupið á hundruð þúsundum í stórum skólum. Er það reiknað með?
Það er nokkuð ljóst að það er langt þar til að leikskólakennarar treysta sér í breytingar á starfsumhverfi og að gera heiðursmannasamkomulag við hið opinbera. Hugtakið í góðri trú verður nefnilega að gilda báðum megin við borðið.
Af hverju kemur mér málið við?
Ég er skattborgari í Reykjavík, ég var leikskólastjóri í Reykjavík í á tíunda ár, mér kemur málið við. En þó að þessi skrif fjalli um Reykjavík er málið ekki bundið við hana. Hins vegar hefur það verið svo í málum leikskólans að Reykjavík hefur rutt brautina, fyrir hina. Þess vegna snertir umræðan í Reykjavík alla.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 03:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2011 | 22:14
Hænuhausar í Kastljósinu
Leikskólastjórar stóðu sína plikt í dag, brostu og brostu, brostu til barna og brostu til foreldra, brostu í gegn um tárin sem féllu innra með þeim. Tár yfir örlögum leikskólanna og eigin starfsöryggi. Í fréttum kom fram að tugir leikskólastjóra hefðu fengið bréf um fyrirhugaðar sameiningar. Það merkir að tvöfallt fleiri stjórnendur leikskóla fá uppsagnarbréf, bæði leikskólastjórar og aðstoðarleikskólastjórar. Aðeins helmingurinn verður ráðinn aftur. Þetta er slíkt högg á leikskólastarf að fordæmalaust er. En hvað gerir nú sjónvarp okkar landsmanna í fréttaskýringaþætti sínum. Finnst þeim þetta fréttnæmt?, fyrir utan litla frétt þar sem rætt var við formann menntaráðs sem vel að merkja komst upp með að segja ekki neitt. Ekkert. Svo beið ég eftir Kastljósinu. Fréttamat Kastljóssins er að mikilvægasta samfélagsmálið séu LANDNÁMSHÆNUR. Já ég endurtek, LANDNÁMSHÆNUR.
Samráð menntaráðs
Formaður menntaráðs ræddi um hvað samráðið um breytingarnar hafi verið sérdeilis vel útfært? Sérdeilis vel útfært. Jú það er alveg rétt að það hægt að kalla í fólk, en það er ekki víst að þeir sem kölluðu hafi líka verið að hlusta. Slík var alla vega skynjun margra leikskólastjóra sem hafa tjáð sig á fésinu og í samtölum. Formaður vitnar í rannsóknir "Samkvæmt rannsóknum komi í ljós að breytingar á borð við þessar sem sé verið að fara í núna hafi ekki áhrif á þjónustuna við börnin. Það telji foreldrar." Nú veit ég ekki síðan hvenær foreldrar hafa verið taldir besta mælikvarðinn um gæði leikskóla. Meira segja er því haldið fram í Bandaríkjunum að foreldrar sem eru með börn í leikskólum sem eru lélegir viðurkenni það síst af öllum, vegna þess einfaldlega að ef þú viðurkennir að skóli barnsins sé lélegur, hlýturðu að verða að gera eitthvað í því. En ég vil gjarnan lesa þessar rannsóknir sem formaðurinn bendir á, fá að leggja á þær mitt mat. Hins vegar vil ég vita hvað fagfólk segir um gæðin. Ég vil sjá þær rannsóknir.
Aftur að landnámshænum og því hvað sé fréttnæmt
Kastljósið valdi á Degi leikskólans ekki að fjalla á jákvæðan hátt um, leikskólamál (eins og stuttmyndakeppni leikskólanna), t.d. að sýna mynd þaðan, það er nefnilega ekki fréttapunktur í því. Kastljósið fjallaði ekki heldur um að tugir stjórnenda leik- og væntanlega einhverra grunnskóla og frístundaheimila hafi verið sagt að starfið þeirra væri í lausu lofti og þeir ættu líklega von á uppsagnarbréfi á næstunni. Það er enginn fréttapunktur í því. Auðvitað er meiri fréttapunktur í tarnatúlum, landnámshænum og jafnvel öspum á Laugarveginum en leikskólastarfi í landinu. Hænuhausar á Húsatóftum eru sannarlega meira fréttaefni en börn þessa lands.
Auðvitað er ekki fréttnæmt að það kerfi sem við höfum byggt upp af metnaði sé jafnvel rifið í tætlur á einu kjörtímabili. Að afleiðing fjármálahrunsins sé sannarlega að koma niður á börnum þessa lands. Og sannarlega skulu þeir sem aldrei var boðið til veislunnar, borga fyrir hana.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
4.2.2011 | 00:59
Kveikjum eld, kveikjum eld,
Ég skrifaði í dag lítið sætt blogg um dag leikskólans. Svo opnaði ég fésbókina og las status eftir status hjá brúnaþungum og áhyggjufullum leikskólastjórum í Reykjavík. Þeir fengu víst bréf í dag þar sem þeim var sagt að þeim yrði að öllum líkindum, kannski sagt upp á næstunni. Svo mættu þeir að öllum líkindum, kannski, sækja um starfið sitt aftur og bæta við sig starfi kollega í næsta og þarnæsta skóla, ja fyrir utan næsta grunnskóla. Eitthvað í þá átt lásu alla vega margir stjórar bréfið.
Þung undiralda
Það var þungi, kvíði og áhyggjur í umræðum stjóranna. Auðvitað getur verið að einstaka skóli sé óhagkvæm rekstareining bæði fjárhagslega og faglega og auðvitað má taka til allstaðar. En að senda bréf sem þetta lagðist ekki vel í þá sem fengu. Þar er víst vísað í rannsóknir sem segja að svona breyting dragi ekki úr ánægju foreldra og ánægju með faglegt starf. Enginn virtist þó búin að fá þær rannsóknir í hendur til að geta lagt sjálfstætt mat á gögnin sem byggt er á.
Vakandi og sofandi
Nú hef ég ekki talað við neinn þessara stjóra öðruvísi en á fésinu. En ég verð að viðurkenna að um mig fór léttur hrollur. Leikskólakennarar hafa verið vakandi og sofandi yfir velferð barna og velferð leikskólakerfisins. þeir hafa staðið einna best vörð um fjárhagsáætlanir. Fyrir nokkrum árum þegar beðið var um uppástungur um sparnaðarleiðir fundu þeir raunhæfar sparnaðarleiðir. Þegar ég var ung og nýbyrjuð í starfi læstu sumir stjórarnir allan pappír (líka wc-pappír) og litina, inni svo við "stúlkurnar" værum nú ekki að bruðla. Vakandi og sofandi. Nýting á endurnýtanlegum efnivið hefur ávallt fylgt leikskólanum og starfsfólki hans. Það hefur verið útsjónasamt að kreista minnst 110 aura úr hverri krónu helst 120 aura. Sennilega hafa allflestir leikskólastjórarnir verið þyngdar sinnar virði í gulli. Lengst af láglaunaðir.
Uppsagnir 1986
Þegar ég var nýútskrifuð árið 1986 var staða samninga leikskólakennara ömurleg. Við höfðum ekki sjálfstæðan verkfallsrétt vorum í stéttarfélögum með öðru starfsfólki á sveitarstjórnarstiginu. Við Í Reykjavík sögðum allar upp þann 30. nóvember 1986. 1. maí 1987 átti uppsögn okkar að taka gildi. Borgin rann á rassinn og samdi við okkur um; deildarstjóra, að við borguðum ekki fyrir að borða með börnum, undirbúningstíma, útiföt og fleira kom þá, man ekki hvort að föst yfirvinna á stjóranna kom líka inn. Samstaðan skilaði okkur árangri. Þegar ég las þungu áhyggjufullu orð stjóranna í dag, hugsaði ég til samstöðu stéttarinnar þá og hverju hún fékk áorkað.
Samstaða og varðstaða um leikskólann
Ég hugsaði líka til samstöðu stéttarinnar þegar nokkrum árum seinna átti að færa okkur frá menntamálaráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins, við áttum að verða félagslegt úrræði en ekki menntastofnun, átök í þingi, átök í ríkisstjórn, við samstilltar, við á þingpöllum, við að ræða við pólitíkusa. Við aðgerðarsinnar sem fengum foreldra og samfélagið í lið með okkur. Við sem stóðum uppi með ný lög um leikskólann. Við sem í kjölfarið fengum leikskólann viðurkenndan sem fyrsta skólastig þjóðarinnar.
Saman hefur stéttin staðið í gegn um súrt og sætt, saman getur hún staðið vörð um leikskólana.
En það skal alveg viðurkennast um mig fer hrollur. Mér finnst ég vera að horfa á aðför að leikskólastarfi í landinu. Því allir eldar byrja með litlum neista og því miður virðist borgin mín og mitt fólk þar alveg tilbúið til að halda á eldspýtustokknum.
Hjá borginni virðist uppáhaldslagið vera, Kveikjum eld, kveikjum eld. En það er vert að minna á að þeir sem kveikja eldana ná ekki alltaf að stjórna bálinu.
Óska svo okkur öllum til hamingju með daginn í dag, dag leikskólans.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 01:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.2.2011 | 15:48
Dagur leikskólans
Á morgun föstudag er ætlunin að halda upp á dag leikskólans. Flestir leikskólar gera sér á einhvern hátt dagamun. Sýningar, foreldrakaffi, gönguferðir og allt mögulegt annað verður í gangi í tengslum dag leikskólans.
Félög leikskólakennara stóðu fyrir stuttmyndasamkeppni og bárust yfir 50 myndbönd í hana. Á morgun verða úrslitin gerð kunn við hátíðlega athöfn í Bíó Paradísó.
Dagurinn er hugsaður til að vekja athygli á því námi sem á sér stað í leikskólum landsins. 6. febrúar varð fyrir valinu vegna þess að hann hefur sérstaka merkingu fyrir leikskólakennara, þá stofnuðu þær nefnilega sitt fyrsta fag- og stéttarfélag árið 1950.
Það hefur lengst af verið eitt af meginhlutverkum leikskólakennarastéttarinnar að standa vörð um hagsmuni barna. Til að gera það er mikilvægt að sýna fram á það mikla og góða starf sem fer fram í leikskólum landsins.
Til hamingju með daginn.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)