Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Pottaskefill

Pottaskefill er í sjokki, hann veit sem er að Stúfur er vinsæll og erfitt að slá því við. En að Stúfur hafi fengið að setja sjálfan Icesave í skóinn hjá þjóðinni, á því átti hann ekki von. Hann er sí svona að vona að allir séu orðnir svo leiðir á umræðunni að hún verði bara nett þögguð að einn sólarhringur af Icesave dugi þjóðinni. Hún nenni ekki þessu böggi meir. Vilji eitthvað léttara að ræða svona eins og gúrmemat og já jafnvel bara venjulegan hafragraut.

Eins og alþjóð veit er Pottaskefill afar áhugasamur um alla eldamennsku. Hefur sótt ýmsa fræga skóla og dreymir um Michelin stjörnu eða heila stjörnuþoku. Það meira að segja þó hann hafi verið rekinn úr öllum kokkaskólum fyrir stórfellt hirðuleysi og skort á bragðskini. Þrátt fyrir þessa smá misfellur á ferlinum fylgist hann vel með og hefur skoðun á öllu sem viðkemur mat. Hann er  t.d. afhuga verksmiðjubúskap af öllu tagi og gekk á árinu til liðs við slow food og slow living hreyfingarnar. Hann er reyndar alveg sannfærður um að allt þetta sló dót sé mjög í anda jólasveina og lifnaðarhátta þeirra í gegnum aldirnar, hann er líka ánægður með að slow hreyfingin hafnar ekki tækninni, annars yrði hann að hafna þeim. Hann er nefnilega oggu tækninörd. Elskar öll hjálpartæki ... eldhússins, þrátt fyrir að vera líka aðal böðull þeirra í Grýluhelli.

Pottaskefill er mikill áhugamaður um næringaruppeldi barna. Hann hefur miklar áhyggjur af vondum og óætum mat í leik- og grunnskólum. Finnst það undarlegur sparnaður. En hvað veit hann svo sem er bara jólasveinn. Hann hefur boðist til að mæta í skóla og kenna fólki eldamennsku. Hann er sérlega flinkur í naglasúpum og naglaréttum af ýmsu tagi. Grýla fussar reyndar og sveiar yfir matnum, segir hann of bragðgóðan og ekki nógu úldinn. En eins og alþjóð veit er ýldulykt er í hennar nefi eins og besta ilmvatn.

Annars er það af Pottaskefli að frétta að á árinu stal hann eldhúsinu í Orkuveitunni, var búinn að lesa svo mikið um hvað það væri stórkostlegt. Sérstaklega fannst honum tilkomumikið að fá vélar sem þvo grænmeti, honum finnst nefnilega fátt leiðinlegra en að þvo grænmeti með bursta. Þegar hann eldar fyrir fjölskylduna í Grýluhelli er hann ekkert að spá í fínheit, enda alinn upp á að lidt skidt skader ikke. Það var uppáhaldssetning Leppalúða á matmálstímum en aðallega þegar rætt var um uppvaskið. Jólasveinarnir voru aldir upp við að það væri nóg að þrífa leirtauið svona einu sinni á ári. Það er arfleið Leppalúða, Grýlu dugir einu sinni á áratug. Af eldhúsgræjunum úr Orkuveitunni er það að frétta að þær eru allar í drasli, því þó Pottaskefil dreymi stóra drauma fylgir getan ekki alveg og tækin fínu kunni hann lítið á þegar upp var staðið.

  

Sá fimmti, Pottaskefill,
var skrítið kuldastrá.
- Þegar börnin fengu skófir
hann barði dyrnar á.

Þau ruku' upp, til að gá að
hvort gestur væri á ferð.
Þá flýtti 'ann sér að pottinum
og fékk sér góðan verð.


Þvörusleikir

Þá er komið að fjórða sveininum honum Þvörusleiki. Hann er sérlega elskur að allskonar sleifum, hvort sem þær eru notaðar í bakstur eða matargerð. Í fyrra fréttist að hann velti fyrir sér að keppa í 100 metra hlaupi á ólympíuleikum jólasveina (boðhlaup er hans grein). Hann er sannfærður um að hann hlaupi jólasveina hraðast en hann er líka góður í fleiru er bæði hraðlyginn og fljúgandi mælskur.

Þar sem það er bísna langt í næstu ólympíuleikuleika hefur hann hugsað sér að reyna sig við annarskonar íþróttir. Þrætubókalist er gömul og virt íþróttagrein í tröllaheimi sem á vel við hann Þvörusleiki. Þessi forna list hefur reyndar smitast inn í mannheim og Þvörusleikir veit fyrir víst að af nægu er að taka. Hann er t.d. mikið að velta fyrir sér umsókn um stöðu í Háskólanum (hann var líka að pæla í Alþingi en fílaði ekki alþingsimenn, "svooo hugmyndasnauðir, ræða það sama og í fyrra og hittifyrra og").

Þvörusleikir hefur sér til tröllslegrar gleði komist að því að í háskólanum er þrætubókalistinn ofar öllum öðrum listum. Og sá sem er bestur í að vega mann og annan með orðum er sá sem heldur lengst út.  Þvörusleikir skortir ekki seiglu, er þrautseigari en flestir og nokkuð öruggur um getu sína í háskólaumhverfinu. Hann hefur það sem til þarf, bara það hvað hann hefur hætt sér nálægt Grýlu og pottum hennar í áranna rás er til marks um það. Vitandi hvað henni er annt um sleifarnar en stela þeim samt er til marks um bæði fíldirfsku og þraustseigju. Upp í Háskóla veltir sumt andans fólk fyrir sér hvort Þvörusleikir hafi ratað snemma til byggða í ár og notað sínar löngu sleifar til að ýta á sent takka hjá merkasta háskólafólki. Finnst það líklegasta skýringin á þrætum og þvælum jafnvel vælum sem birtist á vefmiðlum landsmanna. Haft er fyrir satt að sumar deildir fagni mjög áhuga Þvörusleikis á meðan aðrar hamra að háskólinn sé að falla jólasveinum í hendur.  

Sá fjórði, Þvörusleikir,
var fjarskalega mjór.
Og ósköp varð hann glaður,
þegar eldabuskan fór.

Þá þaut hann eins og elding
og þvöruna greip,
og hélt með báðum höndum,
því hún var stundum sleip.


Stúfur

Í kvöld leggur Stúfur af stað til byggða. Hann er eins og þjóð veit frekar smávaxinn af jólasveini að vera. Hann vill meina að hann hafi búið við vont atlæti hjá henni Grýlu. Hún lítið sinnt honum og nært. Hann huggar sig við gleðst yfir að vera einn vinsælasti jólasveininn og skellihlær upp í opið geðið á bræðrunum þegar öfundin sækir þá heim. Þeir eru nefnilega ekkert auðveldir þessir bræður, endalaust að kíta og mikil samkeppni þeirra á milli. Til eru margar sögur af stríðni Stúfs og vandræðum sem hann hefur lent í vegna hennar.  

Jólasveinar þurfa krafta til að sinna störfum sínum og er fólk beðið um að elda mat á pönnum í kvöld og helst brenna hann svolítið við. Stúfur nefnilega elskar að naga það sem festist við pönnurnar. Annars hefur hann sést við einstaka gasgrill sem eigendur hafa ekki þrifið frá í sumar. Hann tekur grindurnar úr og nagar þær og sýgur. Ef fólk er að rekast á grillgrindur á gangstéttum og í görðum getur það þakkað það honum Stúf.

Annars er Stúfur þakklátur fyrir þessa amerísku viðbót, grillmenninguna sem hann kallar reyndar útieldhús. Hann hefur líka frétt að margir skólar ástundi eitthvað sem nefnist útiskóli, útinám og því fylgir útistofa. Oft eru í þessum stofum eldstæði. Stúfur hefur sést sniglast í kring um þessar stofur. Sumum börnum til gleði en önnur eru hálfskelkuð. Finnst hann  ófrýnilegur kappinn.

Stúfur hét sá þriðji
stubburinn sá.
Hann krækti sér í pönnu,
þegar kostur var á.

Hann hljóp með hana í burtu
og hirti agnirnar,
sem brunnu stundum fastar
við barminn hér og þar.

(Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum)


Sögur af fjallafólki

Á sama tíma í fyrra var ég að leysa af í leikskóla. Eitt af verkum mínum var að skrifa á heimasíðu leikskólans. Í leikskólum eru staðgóð þekking á háttum og siðum jólasveina alveg nauðsynleg. Í fyrra var það mitt hlutverk að skrifa daglegan pistill um fjallabræður og helstu afreksverk þeirra. Til að geta fjallað um þá er nauðsynlegt að afla sér staðgóðrar þekkingar á jólasveinum. Lesa jólasveinatíðindi og jafnvel hætta sér í Grýluhelli. Þar sem ég er ekki að staðaldri í leikskólanum ákvað ég að blogga um sveinana. Maður verður víst að halda sér við. 

Hvaða undirstöðuþekking er þetta sem er nauðsynleg? Í fyrsta lag verður maður að vita hvað kauðar heita, í hvaða röð þeir koma, hver áhugamál þeirra eru og svo framvegis. Alveg eins og í öðru starfi í leikskólum verður maður að reyna að bera kennsl á styrkleika drengjanna. Auðvitað væri gott ef þau skiptust á að mæta til byggða dætur og synir Grýlu og Leppalúða en þannig er það víst ekki enn. Sagan segir að þau eigi nokkuð af dætrum, þær heita meira að segja ekki ólíkum nöfnum og drengirnir. Ef til vill segi ég seinna sögu af stelpunum þeim sem sjaldan drifu sig á bæina heim. Það er líka alveg nauðsynlegt að kunna jólasveinakvæði Jóhannesar í Kötlum. Kvæðið er raunar Gagn og gaman okkar jólasveinaáhugafólks.

Stekkjastaur 

Í nótt sem leið kom fyrsti sveinninn til byggða, Stekkjastaur heitir hann. Hefur margoft verið tekinn fyrir við tilraunir til innbrots í MS og Baulu hér sunnan heiða. Hann reyndi einu sinni að ráða sig til starfa hjá mjólkursamlaginu á Sauðárkróki, var fljótt rekinn vegna þess að mjólkin rýrnaði svo á hans vakt og hann fitnaði víst líka einhver ósköp. Fötin sprungu öll utan af honum. Um tíma var hann settur í að tappa undanrennu á fernur, merkilegt frá að segja þá var víst enginn rýrnun þar.    

Stekkjastaur hefur horft af áhuga á allar fréttir frá Össuri um gervifætur, hann er sérstakur áhugamaður um hlauparann, Oscar Pistorius og afrek hans. Stekkjastaur hefur velt fyrir sér hvort mjólkurstuldur í fjósum landsins bænda verði ekki auðveldari ef hann ætti par af slíkum fótum (hann er löngu búin að gefast upp á ærmjólk). Sveinki hefur víst mikið hugleitt að panta sér tíma hjá Össur en hefur ekki enn látið verða af þvi. Hinsvegar stal hann frá þeim fótum fyrir nokkrum árum á ferð sinni um borgina. Þeir passa ekki alveg og þess vegna er hann enn soldið valtur á fótunum.

Giljagaur 

Bróðir hans, sá sem kemur í nótt heitir Giljagaur, hann er líka fyrir mjólkurvörur (eins og þeir bræður fleiri), hann er hinsvegar ekkert fyrir mjólkina sjálfa, vill fá froðu og svo hefur hann hin síðari ár vanið sig á jógúrtát. Helst vill hann það vel sætt með ekta sykri. Hann er glöggur á fólk og kann þá list að fá það  til að tala saman og skemmtilegast finnst honum þegar það fer í hár saman. Einstaka sinnum skýtur hann inn lykilspurningum (eða nefnir það sem er heitast í umræðunni í það skiptið og ég skal segja ykkur að hann hefur úr nógu að velja þessa daga, fullt af eldfimu umræðuefni). Það er segin saga fólkið verður mjög upptekið hvert af öðru (og aðallega sjálfu sér), fer í kapp við að koma sínum sjónarmiðum að og steinhættir að veita umhverfinu eftirtekt. Giljagaur bíður færis og þegar samræðan er orðin verulega heit skýst gaurinn beint í ísskápinn og ryksugar hann. Hann skilur þó allt grænmeti eftir, hefur ekki mikla list á því. Hann lætur sig svo hverfa og hlær tröllslega að liðinu sem talar og talar, hlustar ekkert en er rúið inn að skinni á meðan. Grýla segir að þeir bræður Stekkjastaur og Giljagaur eigi að segja bræðrum sínum sem á eftir koma frá ástandi þjóðmála. Það er víst til að þeir geti sagt rétta brandara. Í ár hrista þeir víst soldið hausinn.  

Jóhannes úr Kötlum samdi kvæðið um sveinana sem margir foreldrar fara með börnum sínum. Ljóðið  byrjar ´"Segja vil ég sögu af sveinunum þeim sem brugðu sér hér forðum á bæina heim.   

Þeir uppi á fjöllum sáust,
- eins og margur veit, -
í langri halarófu
á leið niður í sveit.

Grýla var þeirra móðir
og gaf þeim tröllamjólk,
en pabbinn Leppalúði,
- það var leiðindafólk

Stekkjastaur kom fyrstur,
Stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
Og lék á bóndans fé

Hann vildi sjúga ærnar,
-þá varð þeim ekki um sel,
Því greyið hafði staurfætur,
-það gekk nú ekki vel.

Giljagaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
- Hann skreið ofan úr gili
og skauzt í fjósið inn.

Hann faldi sig í básunum
og froðunni stal,
meðan fjósakonan átti
við fjósamanninn tal.


Er leikskólinn sólkerfi, reikistjarna eða tungl?

Um erindi sem ég hélt á Þjóðarspegli í október 2011


Í erindinu leitaðist ég við að skoða hugmyndafræðilegan uppruna leikskólans og rýna í hvernig  mismunandi hugmyndafræði hefur náð ítökum  á leikskólasamfélaginu og smám saman tekist að verða þar ráðandi. M.a. líkti ég grunnskólanum við hugmyndafræðilegt svarthol sem allt sogaði til sín. Ég velti fyrir mér hvort leikskólinn sé kominn inn í svartholið eða ... Meðfylgjandi viðhengi er greinin sem ég skrifaði og birtist í Þjóðarspegli XII. Í Þjóðarspegli er að finna fjölda áhugaverðra greina.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband