Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Er það fréttnæmt?

Held að það séu afar fáir í Samfylkingunni sem ekki styðja Jóhönnu, bæði sem formanns og forsætisráðherraefni. Mér hefði hinsvegar þótt fréttnæmt ef hann hefði ekki stutt hana.


mbl.is Dagur styður Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugvísindaþing

Hugvísindaþing er hafið. Þar er margt áhugavert á dagskrá. Ætla að skreppa á morgun og hlusta á nokkur erindi. Hvet sem flesta til að skoða dagskrána. Lenti í gær í skemmtilegri samræðu um hugmyndir Mary Wollstonekraft, eins fyrsta femínistans. Bæði anarkistar og sósíalistar vilja eigna sér hana. Hún er eins og Lilja sem allir vildu kveðið hafa. En eru það ekki örlög margra frumkvöðla og hugsuða?  Hef áður minnst lítillega á hana, en kannski eiga uppeldishugmyndir hennar alveg skilið eins og eitt blogg frá mér. Til dæmis hugmyndir hennar um hlutverk og mikilvægi jafningjahópsins.


Hring eftir hring

kvikur hrafn

Ég rakst á alveg hreint frábæra bók um daginn. Höfundurinn, hún Elfa Lilja Gísladóttir gefur hana út sjálf og lét ekki prenta nema 500 eintök. Þannig að það er um að gera að tryggja sér eintak sem fyrst. Bókin er þessleg að hver leikskóli verður að eignast sitt eintak og allir metnaðarfullir  leikskólakennarar líka. Hún á að vera hluti að þeim verkfærum sem við tökum með okkur á milli staða. 

Þegar ég var 1. árs nemi 1984 á Hlíðarenda byrjaði ég að safna í mína söng-, ljóða- og þulumöppu. Elstu blöðin eru ljósrituð á svona glansandi svartslettan ljósritunarpappír. Sumt er handskrifað og annað ljósritað á betri vélar seinna. Ég hef alla tíða verið þakklát fyrir safnið mitt og í það hefur bæst með árunum. Í dag er mappan dregin fram þegar Sturla kemur hér í heimsókn og ég þarf að rifja upp leikskólalögin og textana. Það er alveg ótrúlegt hvað lögin sitja lengi í manni. Sumar þulur kann ég líka jafnvel núna og þá. Enda þulur ávallt verið í miklu uppáhaldi hjá mér.  

Þar sem ég vann lengstum höfðum við þann háttinn á, að hún Systa leikskólakennari sem bæði var lagviss og kunni að lesa nótur, söng inn á spólur fyrir okkur. Svo hlustuðum við í kaffitímunum og pikkuðum upp laglínuna. Bókin hennar Elfu byggir að hluta á sömu hugmynd. Lögin eru öll spiluð á píanó svo fólk geti pikkað upp laglínur. 

Ég bað Elfu um að senda mér upplýsingar um bókina og fékk meðfylgjandi skjal sem ég hvet sem flesta til að kynna sér. Mikill metnaður er lagður í allan frágang bókarinnar. Hún er yfirgripsmikill og byggir á mikilli fjölbreytni.  Ég hvet sem flesta leikskólakennara að bóka sig á námskeið og kaupa bókina. Það ætla ég að gera.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Horfum til himins

Ég er alin upp við að horfa til himins og skyggnast eftir fuglum, helst áttum við að bera á þá kennsl, sama átti við grjót og plöntur, sífellt að horfa ofan í jörðina. Á æskuheimilinu var alltaf til góður sjónauki og þegar við áttum bíl var hann staðsettur í honum. Sjálf hef ég ómælda ánægju að skoða fugla, plöntur og steina. Ég geri mitt besta til að koma þeim áhuga yfir til næstu kynslóðar og held mér takist bara ágætlega upp. Undanfarið hef ég líka verið að leika mér að því að mála fugla, aðallega samt krumma, hann er nefnilega í svo miklu uppáhaldi hjá Sturlu og ég fór að mála fyrir hann krummamyndir.

Vefur eins og vefurinn á Djúpavogi er frábær kennslutæki bæði fyrir fullorðna og börn, hann spilar líka svo einstaklega vel saman með vefnum um fugla Íslands. Að lokum ég er óendalega þakklát því góða fólki sem hefur lagt tíma og vinnu í að koma þessum vefum saman fyrir mig og þig.


mbl.is Fuglavefur hlaut Frumkvöðulinn 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framfaraskref hjá borginni

Á tímum góðæris í samfélaginu ríkti kreppa í leikskólum landsins. Kreppa sem byggði á því að varla fékkst fólk til að vinna þar. Leikskólinn varð miðstöð nútíma farandverkamanna sem komu og fóru eftir hentugleika. Það starfsfólk lleikskóla sem myndaði hryggjarstykkið í starfinu var oft orðið ansi langþreytt þegar að sumri kom, það fólk hefði gjarnan þegið sumarlokun. Hvað þá börnin sem máttu búa við óstöðugleika starfsfólks vetur og sumar. Á tíma góðærisins áttu allir að þjóna viðskiptalífinu. Líka börnin. Í mörg ár hefur félag leikskólakennara hvatt til þess að leikskólum landsins sé lokað hluta sumarsins. Við það myndist tiltekin upphafs og lokapunktur í starfinu, að sumarlokun þjóni leikskólanum og starfsemi hans.

Þegar Reykjarvíkurlistinn tók upp á því á sínum tíma að hafa opið sumarlangt í Reykjavík var ég ein þeirra sem var mjög ósátt, m.a. vegna þess að leikskólarnir fengu engar hækkanir í fjárhagsáætlun til að halda úti sumaropnum. Okkur var sagt fullum fetum að þetta kostaði ekkert. En auðvitað kostaði þetta heilmikið og hafðu verulega áhrif til verri vegar á rekstur margra leikskóla. Nú er lokun leið til sparnaðar.

Mér finnst samt merkilegast að fréttin er alfarið skrifuð út frá þeirri hugmynd að leikskólinn sé fyrst og fremst þjónustufyrirtæki. Meira að segja fyrirsögnin endurspeglar það mat. Hún er skrifuð eins og sumarlokun nú sé neikvæð þróun. Þar er ég aldeilis ósammála. Ég tel þetta vera framfaraskref hjá borginni og vona að sem flest önnur sveitarfélög fari sömu leið.


mbl.is Þurfa að laga sig að sumarlokun leikskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Taka sig af markaði

Það er orðið ósköp langt síðan ég hef bloggað, ég hef meira segja velt fyrir mér að loka blogginu mínu alfarið. Taka það af markaði eins og sagt er í fjármálaheiminum. Svo staldra ég við  og ákveð að bíða aðeins sjá hvort skrif-andinn fari nú ekki að gagntaka mig á ný. Það er ekki eins og ekki sé úr nógu að velja til að hafa skoðun á og fjalla um.

Pólitíkin hefur verið afar fjörug. En samt valdið mér vonbrigðum. Ég átti von á að fleiri og sterkari kandídatar gæfu kost á sér hjá Samfó hér í Reykjavík. Finnst hábölvað að þurfa yfirhöfuð að kjósa í Reykjavík norður. Velti fyrir mér hvort ég neyðist kannski til að skila auðu (svo get ég náttúrlega strikað út ansi marga hef í gegn um tíðina stundum gert það svona til að friða samviskuna). Það er slæm tilfinning að geta ekki talað fyrir flokknum sínum. Það er slæm tilfinning að hafa varið hann út yfir gröf og dauða í haust, viljað gefa honum tækifæri en uppgövta svo að það var misnotað. Það er slæm tilfinning að sitja uppi með.

Já, það er hægt að blogga um pólitíkina. Nú stendur Samfylkingin frammi fyrir formannavali. Margir sjá Dag sem framtíðarforingja ég er ekki eins viss. Þessa daga tel ég að best færi á því að Jóhanna gefi kost á sér. Hún á mitt atkvæði sem er nú nokkuð sagt. Ég á það nefnilega til að vera nokkuð pólitískt langrækinn og átti lengi erfitt með að fyrirgefa Jóhönnu það sem ég kalla aðför að leikskólanum. Það var fyrir langa löngu um 1990. Held reyndar að hún hafi bara haft svona slæma ráðgjafa. En út í þá sögu ætla ég ekki að fara hér.     

Svo gæti ég bloggað um Sturlu, hann er auðvitað ekkert nema frábær. Ég skrapp á bókamarkaðinn um daginn og keypti nokkrar bækur handa barninu. Meðal þess alfræðibók um ránfugla ætluð 8 -11 ára lesendum. Eins og ég vissi er hún þegar í uppáhaldi hjá 18 mánaða barninu. Hann flettir henni fram og til baka og bendir á alla fuglana. Hann sýnir mér hvernig á að gera kló og grípur um handarbakið á mér. Málið er að hann er gagntekinn af fuglum, sérstaklega krummum og bendir á þá hvar sem hann sér þá. Í bókum, úti í náttúrunni, ég ákvað að ýta undir þetta áhugamál hans. Kenna honum að skoða bækur með þessum uppáhaldsdýrum hans, fuglum.  Það er líka til skemmtilegur vefur með fuglum Íslands, myndum og myndbandsbrotum, við skoðum hann stundum. Það er gaman að segja frá að hann kemur með stóru bókina um ránfuglana sem hann getur varla haldið á, til okkar og segir, lesa.   

Um helgina fórum við Lilló með Sturlu í fertugsafmæli, þar var spilað á fiðlu. Fyrst spiluðu litlu frændur hans fallega á fiðlurnar sínar og svo tóku proffarnir við. Systir og mágur hennar mágkonu minnar. Sturla sat flötum beinum á gólfinu og hlustaði á þau með öllum líkamanum. Svo klappaði hann eftir hvert lag. Hann var líka svo heppinn að þau leyfðu honum að strjúka fiðluboganum eftir strengjunum.

Hann er á skemmtilegum aldri drengurinn svo nóg væri hægt að blogga um það (ég held náttúrulega að öll börn séu á skemmtilegum aldri en það er annað mál). 

Ég hef líka verið í símenntunarprógrammi síðustu vikurnar, tekið þátt í að skipuleggja nýjan leikskóla sem er að opna. Ég hef lært mikið að því góða fólki og bíð spennt eftir að fá að fylgjast með því þróa starfið sitt næstu vikurnar.  

Jæja ætli það sé ekki gott að enda hér, taka inn þriðja skammtinn af fúkkalyfjunum og ofnæmislyfjunum jafnvel koma sér í koju.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband