Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
28.1.2009 | 04:01
Dagur gleði og anna og auðvitað Sturlu
Þetta er búinn að vera merkilegur dagur í dag. Bæði fyrir mig persónulega og svo auðvitað þjóðina. Undafarna daga hef ég ekki getað stillt mig um að blogga um stjórnmál. Verður að segjast að ég hef oftast og yfirleitt á þeim miklar skoðanir. En nú ætla ég að blogga um daginn minn. Hann var kapphlaup við tímann, ég þurfti að ganga frá og senda frá mér minn hluta af stórri umsókn í Evrópusamstarfsverkefni. Skrúfaði niður í fréttum og svaraði varla síma.
Rétt um fjögur kom svo tengdadóttir mín með snáðann Sturlu í heimsókn, amma föst við tölvuna enn á náttfötum meira að segja. Íris hafði sótt Sturlu aðeins of snemma á leikskólann, hann var enn í útiveru þegar hún kom og var ekki par ánægður að vera tekinn úr henni. Hún ákvað því að gera það sem honum finnst svo gaman, að skreppa með hann niður á tjörn og skoða fuglana þar. Afi var kallaður úr sinni tölvu til að fara með þeim, en ég hélt áfram að vera límd við mína. Það stóðst að þegar þau komu til baka, ýtti ég á send takkann. Út til hins evrópska verkefnastjóra fór umsóknin. Við það var sem þungu fargi af mér létt og ég ákvað að leika við minn litla mann.
Hér í Miðstrætinu eigum við ljósaborð sem hann fær að leika sér við. Þar eru þessa daga m.a stórir og miklir pappahólkar sem hann leikur sér við að stafla upp og setja upp á armana. Hann lék sér að þessu góða stund og hló og hló og hló. Afinn vildi náttúrlega endilega ná upptöku af hlátri piltsins til að leika sér með við lagasmíði. Sturla fékk því að fara niður með afa. Hann er reyndar mjög áhugasamur um neðri hæðin, fær sjaldnast að vera þar en er búinn að átta sig á að þar er afi oftast þegar hann kemur í heimsókn. Þegar Sturla kemur fer hann því að hliðinu og galar AFA, AFA. Lögin sem afi er búinn að vera að leika sér að gera með Sturlu sínum má finna í tónspilaranum hér á síðunni, litlum börnum finnst þau sérlega skemmtileg. Alveg satt.
Í miðjum klíðum hringdi í mig vinkona og vildi hitta mig á kaffihúsi sem ég vild náttúrlega alveg gera. Þegar ég var komin í kápuna, hljóp litli maðurinn til mín og upp í fang. Þegar afi kom og spurði hvort hann vildi ekki koma til sín. Leit hann bara undan og hélt sér fast. Á endanum varð að rífa hann hágrátandi úr fanginu á mér. Þetta er nú merkisatburður því að þetta er í fyrsta sinn sem hann velur mig fram yfir afa. En skýringin er nú sennilega frekar einföld. Við förum nefnilega oft í gönguferðir upp í búð ég og Sturla þegar hann er hér. Erum lengi á leiðinni og hann fær að kíkja fyrir hvert horn og gægjast inn í alla garða. Litlu fæturnir eru oft lengi að fara stutta vegalengd. Svo eins og önnur vinkona mín sagði í kvöld, "nú bara beitt á hann leikskólatrixum, kannt þitt fag enn Kristín".
Ég náði á kaffihúsið og sat þar og spjallaði um allt og ekkert, en mest fagið við vinkonu mína. Reyndar var ég líka að segja henni frá skemmtilega heimspekikvöldinu sem ég var þátttakandi í, í gærkvöldi. Þar sem ræddar voru hugmyndir þeirra Hardt og Negri sem og Deleuze. Skemmtilegar pælingar sem ég hlakka til að halda áfram að taka þátt í. En Hardt og Negri eru á leiðinni hingað í vor og ég hlakka mikið til að heyra í þeim.
Á leiðinni heim kom ég við í MM og keypti mér bók, bara vegna þess að einn kaflinn heiti Ekki vera upptekinn við að finna lausnir á vandamálum, heldur við það að finna ný tækifæri. Hentar mér þessa daga þar sem ég þurfti að taka erfiða prívat faglega ákvörðun, en það er annað mál. Svo keypti ég mér leikfang, bolta sem stækkar og minnkar, er bara fyrir mig og Sturlu kannski.
Þegar heim kom leit ég inn á feisbókina og sá að vinur Sturlu sonar míns átti 25 ára afmæli í dag. Er búin að vera minna mig alla vikuna á að gleyma því ekki. Hann býr í útlöndum en þar sem mér finnst nú mikið vænt um piltinn vildi ég gera eitthvað til að gleðja hann. Ákvað því að fara og gramsa í gömlum myndum og vita hvort ég sæi ekki myndir frá því að þeir voru stráklingar og unglingar. Þetta varð hin skemmtilegasta leit og ég rifjaði upp margar góðar stundir. Ákvað svo að skanna ekki bara þessa einu eða tvær af þeim vinunum heldur að skanna inn heilan helling og setja í albúm á fésbókinni, þar sem ég er vinkona margra vina Sturlu. Svona til að vinahópurinn gæti skemmt sér. Ræddi líka við fleiri vinkonur mínar í síma (svona á meðan ég skannaði). Þetta varð á endanum ákaflega vel heppnaður dagur og ekki var verra að Tottenham vann og karlpeningar fjölskyldunnar eru með vel klístrað bros sem fer ekki af næstu daga komnir í 13 sæti og ekki alveg við fallið.
Á morgun bíða mín ný tækifæri, ný verk, meðal annars að hitta stelpurnar á Stekkjarási og fara yfir það sem gera þarf fyrir starfsþróunardag SARE á föstudaginn. En þá ætla 200 leikskólakennarar og annað starfsfólk leikskóla sem starfa í anda Reggio Emilia að hittast og taka saman þátt í ævintýrinu eina sanna. Þar sem við ætlum að skiptast á reynslu og hugmyndum. Ætlum að vera upptekin af þeim tækifærum sem bíða okkar, sem við kannski þurfum að uppgötva í sameiningu.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 04:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.1.2009 | 19:26
Stærstur hluti þjóðarinnar treystir Jóhönnu
Ný ríkisstjórn og nýtt fólk í ráðuneytin er niðurstaða dagsins. Meira segja er á einhverjum bloggum búið að útdeila ráðuneytum. VG í menntamál, VG í heilbrigðismál, VG í fjármál. Ráðherralistinn er líka kominn hjá þeim sömu. Ég held að hjá meginhluta þjóðarinnar sé Jóhanna sá stjórnmálamaður sem óumdeildust. Hún á hug og trú þjóðarinnar.
Nú veit maður ekki hvað Ingibjörg Sólrún er að hugsa varðandi formennsku í Samfylkingunni en víst er að ef hún hefur hugsað sé að stíga af þeim stokki, þá er Jóhanna ekki á hliðarlínunni. Því má segja að hún ógni engum vonarpening, drottningum eða kóngum. þannig er Jóhanna sá kostur sem hentar öllum. En ég spái slag um alla vega varaformannsembætti Samfylkingarinnar. Ingibjörgu Sólrúnu óska ég góðs bata og sendi henni hlýjar hugsanir.
Ég var sammála Ögmundi á Stöð 2 áðan þegar hann sagði við þurfum að íhuga og koma okkur saman um það sem sameinar en ekki það sem sundrar. Og björgunaraðgerðir til handa fyrirtækjum og heimilum er efst á þeim lista. Hann nefndi líka erlenda sérfræðinga sem æskilegt væri að kalla í. Ef rétt er að hann sé nefndur við eitthvað ráðuneytið er enn ein staðan kominn upp í samfélaginu. Hann verður þá að segja af sér sem formaður BSRB. Nú veit ég ekki hvort hann vegur meira að vera formaður eða ráðherra í stuttri starfsstjórn. En prinsippmaðurinn Ögmundur á sjálfsagt ekki erfitt með að velja.
Hvað sem öðru líður verður næsti sólahringur afar spennandi. Sjálfsagt á meira eftir að leka út um ráðherralista ekki að þeir skipti öllu máli á þessari stundu. Ætli málefnaskráin og leiðir til uppbyggingar séu ekki mikilvægari.
Ný ríkisstjórn í kortunum? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 13:34
Að vera í takt við tímann
Getur verið að sjálfstæðismenn hafa ekki hlustað á samfélagið undanfarnar vikur? Hafi ekki hlustað á kröfuna um að skoða viðteknar skilgreiningar sem hér hafa tíðkast á lýðræði. Að þeir hafi ekki heyrt umræðuna um að lýðræði sé meira en að meirihlutinn ráði í krafti stærðar sinnar, lýðræði sé líka að hlusta, skoða og taka tillit til annarra sjónarmiða. Lýðræði byggi á gagnrýninni umræðu, virðingu og tillitsemi. Það er ótrúlegt að forsætisráðherra hafi sagt að þeir sem eru í stærsta flokknum eiga að ráða mest. Við gáfum eftir við ríkisstjórnarmyndun að að hafa fleiri ráðherra. Þetta hlýtur að flokkast undir afar einfalda skilgreiningu á lýðræðinu og langt frá því að vera viðunandi. Að vitna svo í stjórnarsáttmála sem er löngu orðinn úreldur kórónaði allt. Þetta er svona álíka gáfulegt fyrir sjálfstæðisflokkinn og að ætla sér að byggja kosningarbaráttu á að vitna í gamla samninga og eigin gjörðir í kosningarbaráttunni. Hreykja sér af síðustu 17 árum.
Stjórnarsamstarfi lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2009 | 16:06
Að axla ábyrgð?
Björgvin segir af sér, ákveður seint um síðir að axla sitt og láta þær stofnanir sem undir hann féllu axla sitt. Kannski að hann hafi með þessu móti ætlað sér að höggva á ákveðinn hnút, gefa fordæmi sem hinn stjórnarflokkurinn verður að skoða. En hver eru viðbrögðin, margir eru ánægðir með að loksins höndli einhver ábyrgðina. Þeir sem skrifuðu við mitt síðasta blogg um að en sæti fólkið í fjármálaeftirlitinu og þess vegna m.a. bæri að mótmæla, þeir sem kölluðu á siðbót, þeir ættu að fagna. En reyndin virðist vera sú að það fólk fagnar almennt ekki.
Frá mörgum þeirra heyrist nú, yfirklór, of seint, klækjabragð, rotta sem yfirgefur sökkvandi skip. En ef afsögnin kom of seint, hún sé álitin yfirklór hvers vegna þá að að mótmæla? Væntanlega á það sama við um seðlabankafólkið og Árna Matt? Ef það fer frá núna skiptir það engu máli? Það læðist að manni sá grunur að sumu þessu fólki þætti betra eða jafnvel best að ríkisstjórnin héldi velli óbreytt fram að kosningum, að þeir í hjarta sínu kysu að engar breytingar yrði í bönkunum og eftirlitstofnunum fram að kosningum. Með því gæfist sá hrísvöndur sem sumir vildu glaðir beita í kosningarbaráttunni og eftir á væri hægt að slá sig til riddara.
Með afsögn sinni slær Björgvin þetta vopn úr höndum þessa fólks. Væntanlega vissi hann að viðtökurnar við afsögninni yrðu þær sem orðið er, þær hafa varla komið honum á óvart. Ég leit á það sem sigur mótmælenda að ríkisstjórnin boðaði til kosninga í maí. Ég áleit að með því væri stjórnin í raun fallin, þó svo að hún stæði tæknilega. Viðbrögð margra mótmælenda komu mér á óvart, það var eins og ekkert hefði gerst. Enginn sigur. Ég spáði því að í framhaldið af boðun kosninga mundi einhverjir ráðherrar og stjórnir eftirlitsstofnana verða vikið. Það er komið fram - en enn er ekki hægt að fagna sigri ekki einu sinni áfangasigri. Ég held að sumum hugnist best að allt sé óbreytt fram að kosningum, vegna þess einfaldlega að það þjóni þeirra flokkslegu og pólitísku hagsmunum.
Ég er ein þeirra sem hef gagnrýnt hversu þjóðfélag okkar og menning er gegnsýrt þöggun og gagnrýnisleysi. Hversu lítið úthald virðist vera til að fylgja málum eftir í umræðu. Við berum oft fyrir okkur að við séum orðin leið á umfjölluninni. Við nennum iðulega ekki að taka þátt í upplýstri umræðu og ef einhver gagnrýnir er hann neikvæður já eða að baki búa illar hvatir. Slík viðhorf til umræðu eru í raun atlaga að lýðræðinu. Í skjóli þeirra hefur gagnrýnin umræða varla átt sér stað. Umræða þar sem spurt er um grunngildi, umræða þar sem lagt er við hlustir, umræða þar sem allir eiga sinn rétt. Umræða sem er í raun mannréttindi og nauðsynlegt skilyrði lýðræðis.
Í gær var kallað á siðbót kerfisins og samfélagsins. Sannarlega tek ég undir það ákall, en siðbótin byrjar í eigin hjarta.
Og áfram mun ég bera mína appelsínugulu slæðu, og á þann hátt láta vita að ég krefst breytinga.
Jón Sigurðsson: Afsögn Björgvins kom ekki á óvart | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.1.2009 | 14:13
Orka mótmælenda í nýjan farveg
Ég er ein þeirra sem hef staðið við Alþingishúsið og tekið þátt í friðsamlegum mótmælum. Nú er ljóst að mótmælendur hafa unnið áfangasigur, það er búið að ná fram kosningum og setja niður kjördag. Ríksisstjórnin er í raun fallin. Það er dagljóst að miklar breytingar eru framundan á ríkisstjórninni, því miður af verri orsökum en mótmælum.
Hvað gerist nú á meðal mótmælenda? Sjálf mun ég ekki vera þátttakandi meira. Nú tel ég að mótmælendur verði að finna orku sinni annan farveg. Þeir verða að fara að vinna að þeim framboðum sem þeir vilja styðja eða koma á. Sýna í verki að mótmælin voru ekki til þess eins að mótmæla heldur til að stuðla að breytingum. Til þess er tækifæri nú. Nú ættu mótmælin að breytast í kosningafundi. Kosningarfundi sem byggja á virkni þátttakenda en ekki viðtöku eins og því miður hefur verið raunin.
Ég á von á því að meðal síðustu verka núverandi stjórnar verði að hreinsa út úr ýmsum banka og eftirlitsstofnunum. Vegna þess einfaldlega að framtíð flokka þeirra byggir á því.
Að lokum óska ég þeim Ingibjörgu og Geir góðs og skjóts bata.
22.1.2009 | 03:28
Í þjóðleikhúskjallaranum
Ég fór á fundinn í leikhúskjallaranum í kvöld. þegar ég nálgaðist leikhúsið heyrði ég óminn af mótmælunum. Hverfisgata var full og sundið að Landsbókasafninu líka. Ég stakk mér í gegn um hópinn og fékk að fara inn. Þar mættu mér lögreglumenn í fullum klæðum. Eftir fundinn heyrði ég að stjórn Reykjavíkurdeildarinnar hefði beðið þá að fara. Þeir færðu sig efst í bílastæðahúsið á móti þar sem þeir gátu haft yfirsýn. Þetta var góður fundur og mikill hugur í fólki. Ég þekkti mikið að fólki þarna. Flokksfólki sem hefur fylgt Samfylkingunni að máli frá upphafi. Þarna voru líka fulltrúar úr sveitarfélögunum í kring. Í gamla daga fót ég oft í leikhúskjallarann, það var fleira fólk þar nú en ég hef áður séð á þeim stað, stappað.
Á fundinum mælti enginn ríkisstjórnarsamstarfinu bót. Skildu kannski að það hefði verið nauðsynlegt að gefa stjórninni sjéns í haust en sáu hins vegar ekki þann árangur sem stefnt hefði verið að. Nú væri þessi tími tilrauna búinn. Þingmennirnir okkar voru líka beðnir um að íhuga því að sleppa að fara í framboð næst, vera svo kurteisir að draga sig í hlé. Rætt var um að sjálfsögðu yrði að vera prófakjör, enda annað varla lýðræðislegt.
Í upphafi fundarins komu nokkrir unglingar inn og vildu hleypa upp fundinum. Veit ekki hvers vegna, vegna þess að ég taldi hann einmitt áfanga að því sem mótmælin hafa stefnt að, koma á breytingum, stuðla að nýjum kosningum. Virkja lýðræðisleg öfl. Eftir smá stund fóru flestir unglingarnir, hinir sem eftir voru ákváðu að hlusta. Notuðu pottana sína til að klappa með þeim með okkur hinum. Inni, fundum við lykt af reyk fyrir utan og við heyrðum óminn af pottaglamrinu og trumbuslættinum.
Á fundinum var okkur boðið að fara út um brunaútganga, svona til að þurfa ekki inn í þvögu mótmælenda. Nei, nei, sagði fólkið við förum út um þar sem við komum inn. Við erum stolt af okkar flokki og okkar verkum. Út gengum við stolt.
Eftir að út var komið þá stóð ég fyrir neðan tröppurnar þegar Ásgeir las upp ályktun fundarins. Mótmælendur létu ganga til hans gjallarhorn. Sumir ætluðu að hrópa hann niður, hinir ussuðu á þá. Gefið manninum hljóð. Ungur anarkisti dró frá andlitinu og tók upp símann sinn. hringi í mömmu og sagði; "mamma þú verður að heyra þetta. Við erum búin að vinna". Og svo hélt hann símanum upp í átt að gjallarhorninu. Ég var líka spurð af ungum mótmælendum hvað þetta þýddi, "væri ríkisstjórnin fallin?" "Nei ekki enn - en afleiðingin verður fall hennar" sagði ég. "Það gerist næstu daga úr þessu" sagði ég. Það var hátíðarstemming fyrir utan og flestir fögnuðu saman. Nú veit ég ekki hvernig einhverjum gat dottið í hug að Samfylkingarfélag Reykjavíkur gæti eitt og sér slitið stjórnarsamstarfinu en það er ljóst að þetta var með fjölmennari fundum, þarna voru þingmenn að hlusta. Þetta var og er baklandið þeirra og þeir fengu mjög skýr skilaboð. Skilaboð sem þeir geta ekki horft framhjá.
Hinn almenni samfylkingarfélagi vill út úr þessu bandalagi dáðaleysis.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.1.2009 | 03:23
Dagur leikskólans 6. febrúar
Í tilefni Dags leikskólans, þann 6 febrúar í fyrra skrifaði ég grein í Fréttablaðið, ég ákvað að setja hana hér inn (svona eins og hún leit út á lokasprettinum hjá mér í fyrra). Ég hef annars verið afar löt við bloggið lengi. Ekki að af nógu er að taka. Er reyndar búin að ákveða að skrifa um upplifun mína af myndinni um sólskinsdrenginn Kela. En hér er greinin sem bar það merkilega nafn Leika mér.
Leika mér
Hvað varstu að gera í leikskólanum í dag? Þetta er spurning sem heyrist daglega á þúsundum heimila í landinu. Margir hafa líka fengið svarið hér að ofan, leika mér. Í dag, 6. febrúar, hefur Félag leikskólakennara ákveðið að tileinka börnum og málefnum þeirra. Dagurinn er hátíðisdagur okkar leikskólakennara vegna þess að við stofnuðum stéttar- og fagfélagið okkar fyrir tæpum 60 árum á þessum degi.
(mfs) Leikurinn ávallt í fyrirrúmi
Sumt hefur breyst og annað ekki frá þeim tíma sem leikskólar voru fyrst starfræktir á Íslandi. Frá upphafi hefur áhersla á leik barna einkennt starfið. Leikurinn hefur verið bæði markmið og leið leikskólastarfsins. Meðal annars vegna vissu frumkvöðlanna um að börn hafi innri þörf fyrir að leika sér og að í gegn um leikinn þroskist þau. Við sem trúum á gildi leiksins lítum ekki á hann sem afþreyingu, heldur teljum við hann mikilvægt og mótandi afl í lífi okkar flestra. Í leikskólanum er leikumhverfi og efniviður skipulagður þannig að börn læra m.a. um jafn ólíka þætti og vináttu, samhug, menningu, samstarf, læsi, stærðfræði og náttúrufræði. Oftast er þetta allt samþætt í leik.
Ef litið er á sameiginlega þætti í daglegu starfi flestra leikskóla án tillits til stefnu eða strauma, má glögglega sjá þau námstækifæri sem í þeim felast. Einn þessara þátta er útiveran aðalsmerki flestra íslenskra leikskóla.
mfs) Námstækifæri sem felast í útiveru
Leikskólar leggja almennt mikla áherslu á útiveru. Bæði vegna þess að hún er hluti af menningu okkar, en ekki síst vegna þess að útivera gefur ótal tækifæri til að nema og þroskast. Má þar fyrst nefna aukið þol og liðleika; börn hlaupa, hjóla, hrópa, moka og róla. Þau læra að standa á öðrum fæti, hoppa í parís og fara í hópleiki. Þetta eru allt atriði sem hafa áhrif á úthald og leikni. Í útiveru æfa börn sig um leið í gildum lýðræðisins. Þau vinna saman að því að skapa eigin reglur og leiki og hjálpast að. Stundum þurfa börnin að hugga félaga sem hefur dottið á sprettinum, eða komast að samkomulagi um hver eigi að fá að hjóla næst á þríhjólinu.Þau leika það sem hæst stendur í lífi þeirra þá stundina, hvort sem það er leðurblökumaðurinn, gæludýrabúðin eða fjölskyldan. Í útiveru er kennd náttúrufræði; bent á ský og skýjafar, hegðun og áhrif vindsins skoðuð og hitastigið metið, kannað hvernig áhrif rigningin hefur á jarðveg og plöntur, hvernig sumt dregur í sig vatn á meðan annað hrindir því frá. Það er fylgst með hvernig sumarið kemur á eftir vorinu og hvernig líf túnfífilsins breytist frá því að vera lítill knúppur til þess að verða bifukolla. Þannig eru börn að læra að raða, flokka, að para saman, telja, setja í tímaröð og margt fleira.
(mfs) Hin vísindalega aðferð
Námstækifærin í leikskólanum til að læra um samvinnu, um samkennd, vináttu, menningu, stærðfræði, náttúrfræði, bernskulæsi eru óteljandi á hverjum degi, líka í útiverunni. Það skiptir hins vegar máli að sá sem skipuleggur starfið kunni að leiða börnin að námstækifærunum, hann hafi þekkingu á hvað hann er að gera. Hjálpi börnunum að orða verkefnin, fái börnunum verkfæri til að spá fyrir um og setja fram eigin tilgátur og sannreyna þær. Hvers vegna myndast pollar á lóðinni? Hvert fara pollarnir? Hvað þarf margar fötur af sandi til að fylla stóra holu sem fimm krakkar hafa mokað? Hvað getur einn krakki rólað hátt? Uppeldisfræðileg skráning er meðal þeirra verkfæra sem leikskólakennarar nota til að gera námið í leikskólanum sýnilegt og áþreifanlegt. Hún getur falist í því að skrá tilgátur barnanna og í framhaldinu að ákveða næstu skref. Eða t.d. því að taka ljósmyndir af námsferlum barnanna. Með skráningum er foreldrum og samfélaginu öllu opnaður skjár inn í leikskólann og hugarheim barna.
(mfs) Hvers vegna að verða leikskólakennari?
Fyrir rúmum aldarfjórðungi stóð ég frammi fyrir því að ákveða hvað ég vildi nema eftir stúdentspróf. Í boði voru fjölbreyttir möguleikar. Ég valdi að verða leikskólakennari vegna þess að í leikskólanum er hver dagur nýr dagur, með nýjum áskorunum. Þar sem ávallt eru ný og spennandi tækifæri til sköpunar, þróunar og náms. Ég hef alla tíð verið stolt af vali mínu. Stolt yfir að vera leikskólakennari.
Höfundur er leikskólakennari og lektor við Háskólann á Akureyri