Að axla ábyrgð?

Björgvin segir af sér, ákveður seint um síðir að axla sitt og láta þær stofnanir sem undir hann féllu axla sitt. Kannski að hann hafi með þessu móti ætlað sér að höggva á ákveðinn hnút, gefa fordæmi sem hinn stjórnarflokkurinn verður að skoða. En hver eru viðbrögðin, margir eru ánægðir með að loksins höndli einhver ábyrgðina. Þeir sem skrifuðu við mitt síðasta blogg um að en sæti fólkið í fjármálaeftirlitinu og þess vegna m.a. bæri að mótmæla, þeir sem kölluðu á siðbót, þeir ættu að fagna. En reyndin virðist vera sú að það fólk fagnar almennt ekki. 

Frá mörgum þeirra heyrist nú, yfirklór, of seint, klækjabragð, rotta sem yfirgefur sökkvandi skip. En ef afsögnin kom of seint, hún sé álitin yfirklór hvers vegna þá að að mótmæla? Væntanlega á það sama við um seðlabankafólkið og Árna Matt?  Ef það fer frá núna skiptir það engu máli? Það læðist að manni sá grunur að sumu þessu fólki þætti betra eða jafnvel best að ríkisstjórnin héldi velli óbreytt fram að kosningum, að þeir í hjarta sínu kysu að engar breytingar yrði í bönkunum og eftirlitstofnunum fram að kosningum. Með því gæfist sá hrísvöndur sem sumir vildu glaðir beita í kosningarbaráttunni og eftir á væri hægt að slá sig til riddara. 

Með afsögn sinni slær Björgvin þetta vopn úr höndum þessa fólks. Væntanlega vissi hann að viðtökurnar við afsögninni yrðu þær sem orðið er, þær hafa varla komið honum á óvart. Ég leit á það sem sigur mótmælenda að ríkisstjórnin boðaði til kosninga í maí. Ég áleit að með því væri stjórnin í raun fallin, þó svo að hún stæði tæknilega. Viðbrögð margra mótmælenda komu mér á óvart, það var eins og ekkert hefði gerst. Enginn sigur. Ég spáði því að í framhaldið af boðun kosninga mundi einhverjir ráðherrar og stjórnir eftirlitsstofnana verða vikið. Það er komið fram - en enn er ekki hægt að fagna sigri ekki einu sinni áfangasigri. Ég held að sumum hugnist best að allt sé óbreytt fram að kosningum, vegna þess einfaldlega að það þjóni þeirra flokkslegu og pólitísku hagsmunum.  

Ég er ein þeirra sem hef gagnrýnt hversu þjóðfélag okkar og menning er gegnsýrt þöggun og gagnrýnisleysi. Hversu lítið úthald virðist vera til að fylgja málum eftir í umræðu. Við berum oft fyrir okkur að við séum orðin leið á umfjölluninni. Við nennum iðulega ekki að taka þátt í upplýstri umræðu og ef einhver gagnrýnir er hann neikvæður já eða að baki búa illar hvatir. Slík viðhorf til umræðu eru í raun atlaga að lýðræðinu. Í skjóli þeirra hefur gagnrýnin umræða varla átt sér stað.  Umræða þar sem spurt er um grunngildi, umræða þar sem lagt er við hlustir, umræða þar sem allir eiga sinn rétt. Umræða sem er í raun mannréttindi og nauðsynlegt skilyrði lýðræðis.

Í gær var kallað á siðbót kerfisins og samfélagsins. Sannarlega tek ég undir það ákall, en siðbótin byrjar í eigin hjarta.

Og áfram mun ég bera mína appelsínugulu slæðu, og á þann hátt láta vita að ég krefst breytinga.


mbl.is Jón Sigurðsson: Afsögn Björgvins kom ekki á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þetta er seint, já, en hey... hvað á maður að gera nú?  Hann fer.

Ásgrímur Hartmannsson, 25.1.2009 kl. 16:23

2 identicon

Ég er einn þeirra sem ekki hef verið að æsa mig mikið yfir ástandinu tel að það sé nóg að stjórnmálaskoðun mín sé sú sama og annara landsmanna sem ég kalla "Framsóknarmensku".  Eina sem ég vil að við næstu kosningar hafi stjórnmalálaflokkarnir þann kjark að skera 6 efstu menn af síðasta framboðslista af og þegar nýtt þing kemur saman og mynduð verði ný stjórn verði allir ráðuneytis og skrifstofustjórar látnir fara þannig að það komi nýtt upphaf.

Hvað stjórnarskrána varðar þá er hún í raun mjög góð það þarf bara fara eftir henni.

Að lokum ein létt spurning til mótmælenda, afhverju er ekki krafist að hreinsað verði jafnframt út úr ASÍ og BSRB ekki er að sjá að þess sambönd hafi verið að verja heimilin í landinu, hugsi frekar um lífeyrissjóðina, skítt með lýðinn

Allinn (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 16:27

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta er óendanlega betra en ekki.

- En það er sárt að sjá að Björgvin skyldi ekki gera þetta strax í byrjun nóvember þ.e. að axla pólitíska ábyrgð af stöðu sinni, sem ekki var þá neinskonar viðurkenning um beina sök. Í þess stað vísaði Björgvin til þess að niðurstaða rannsóknanefndar ætti að liggja fyrir í nóvember og þá sæist hver væri „sekur“ og hver ekki.

- Málið var bara allan tíman að það vantaði að sýna Sjálfstæðisflokknum, Seðalbankastjóra og þjóðinni að Samfylkingin axlaði ábyrgð og um leið að hún krefðist þess að aðrir gerðu það líka - þess vegna varð Björgvin að segja af sér ekki seinna en í nóvember, og aldrei seinna en áður en ríkisstjórnin væri loks sammál um kosningar. - Það er of seint núna þegar ljóst er að hann er í mesta lagi að fórna 3ja - 4ra mánaða ráðherralaunum og hlunnindum og ríkisstjórnin er í raun fallin hver sem svo stjórnar fram að kosningum.

Engu verður bjargað með þessari afsögn nema agnarbroti af andliti og pólitískum ferli Björgvins - hann á nú möguleika á innkomu áfram sem ekki hafði verið annars.

- Ég er samt ánægður með þetta skref.

- Krafa almennings er bara löngu komin langt fram úr þessu, nú vill fólk hreinsa allt út, alla þingmenn og ráðherra og fá nýtt stjórnskipulag því það reyndist ófært um að taka á hverjum einasta þætti málsins þar á meðal að knýja menn sættu ábyrgð til afsagna - færa þá útúr þeim virkjum þar sem þeir sátu og sitja enn við að verja stöðu sína og mögulega að eyða gögnum gegn sjálfum sér.

- Fyrst hefði brottrekstur Davíðs gert mikið gagn einn og sér en í hans stað kaus Geir að skýla honum og þar með að taka þungann af ábyrgð Davíðs á sig og ríkisstjórnina, ISG sneri til baka með kröfu sína um afsögn Davíðs og Samfylkingin setti ekki stjórnarsamstarfið í hættu til að fylgja kröfunni eftir, lét gabbast af óljósu loforði um að Sjálfstæðisflokkur tæki ESB á dagskrá, - þar með tók Samfylking á sínar herðar ábyrgð Davíðs, Geirs og sjálfstæðisflokksins en hefur auk þess ekki nýtt tímann vel,

þá kom í ljós að ISG hafði haldið sl sumar fundi með Davíð, Geir og Árna Matt um ískyggilegar horfur í bankamálunum - en hún hvorki upplýsti viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar né krafðist þess að hann sæti fundina - það er alvarlegasta yfirsjón stjórnálamanns sem ég veit um í þessu máli. - Af sömu ástæðu sat hún uppi með málið í fanginu veik í NY þegar það dundi yfir og enginn Samfylkingaráðherra var inni í því sem á undan hafði gerst og ekki einu sinni að ráðuneyti hennar gæti tekið á því því það kemur ekkert nálægt bankamálum, - og því var enginn ráðherra, þingmanna eða varaformaður Samfylkingarinnar í stöðu til að taka upplýsta afstöðu - Seðalbankinn fékk frítt spil - og allt hrundi.

Ef farið hefði verið er að réttum og siðlegum vinnulagsreglum gæti hrunið samt hafa dunið yfir nákvæmlega eins  - en það hefði ekki gert Samfylkinguna og Björgin að kjánum í augum þjóðarinnar og þá hefði í reynd verið ljóst að allt var gert sem hægt var af hennar hálfu.

Jafnvel yfirlýsingar Björgvins í kjölfarið voru allar ógiltar með ákvörðunum „óþekktra“ annarra. T.d. loforð hans til starfsmanna Landsbankans um að allir héldu launum sínum nema þeir fáu sem hefðu verð á ofurlaunum - það var ógilt nokkrum dögum seinna, og svo margendurtekið loforð hans til þjóðarinnar um að allt yrði uppi á borðum opið og gegnsætt - það hefur ekki einu sinni verið reynt að gera það. Þvert á móti er öllu haldið undir borðum skítugu og ógagnsæju. - Annað hvort hefur hann ekki breytt loforðum sínum til okkar í bein og afdráttarlaus fyrirmæli til þeirra sem undir hann heyra og svo fylgt þeim svo eftir af festu, eða þá að menn hafa virt þau að vettugi og hann ekki gert neitt við því heldur.

- En afsögn hans er samt mikilvægt skref nú - bara svo agnasmátt fyrst það kom ekki í tíma miðað við hve mikla þýðingu það hefði haft á réttum tíma ekki seinna en í nóvember sl..

Helgi Jóhann Hauksson, 25.1.2009 kl. 17:06

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Allinn, þjóðin á valdið og felur fulltrúum sínum að fara með það með kosningu þingmanna, og treystir þeim fyrir því að gæta þess og fylgjast með meðferð þess, hafa eftirlit með þeim sem eiga að framkvæma það þ.e. ríkisstjórn og ríkisstofnanir sem undir ráðuneyti heyra.

Öll önnur félög eru bara eigin sinna félagsmanna sem þar koma saman og þeir félagsmenn verða að gæta sinna hagsmuna innan sinna félaga. 

ASÍ og BSRB hefur auk þess ekkert að gera með hrun bankaerfisins, gjaldeyrisskortinn og þá þúsundir milljarða sem bankakerfið fékk að sólunda og gefa beint og óbeint einkavinum.  

ASÍ og BSRB hefur heldur ekkert að gera með að ákveða hvernig og hverjir eiga að borga þessar skuldir.  - Eða vart neitt varðandi þessi mál.

EN jafnvel þó svo væri á þjóðin í heild ekki kröfu á þá, við eigum beinar krörfur á okkar fulltrúa þingmennina sem setja lög og ráðherran stjórna landinu og á allt sem heyrir undir þá og ríkið þar með Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og nú bankana en ekki með sama hætti á aðra.

Helgi Jóhann Hauksson, 25.1.2009 kl. 17:21

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Betra er seint en aldrei, lifi eldhúsáhaldabyltingin   Næstur út er Davíð og hans hirð

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.1.2009 kl. 01:37

6 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Sammála þér Kristín. Þeir sem krefjast afsagnar eiga svo ekki bara að svara afsögninni með skætingi. Ef afsögn er orðin of sein, þá hættum við að krefjast hennar, eða hvað?

Helgi er að benda á mjög athyglisverð atriði um það hvernig þetta gat allt farið svona illa þegar bankarnir hrundu. Stjórnkerfið var ekki undir það búið. Og - Samfylkingin var ekki undir það búin. Þar er við alla forystu hennar að sakast, ekki bara einstaka ráðamenn. Samfylkingin heyrði viðvörunarorðin, en brást ekki við þeim. Þess vegna fengu Sjálfstæðismenn frítt spil til að klúðra fyrstu viðbrögðum við bankahruninu gjörsamlega. Samfylkingin þarf að sanna erindi sitt í ríkisstjórn, með því að móta aðgerðaáætlun til endurreisnar þjóðfélagsins, en ekki bara sanna að hún sé traustur vinur formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Soffía Sigurðardóttir, 26.1.2009 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband