Virðing og lýðræði - þjóðfundur

Ég er gæfurík manneskja, mér hefur auðnast að vera með fólki sem mér finnst vænt um, finna að ég tilheyri hóp og að ég haft möguleika til að hafa áhrif á umhverfi mitt. Hluti gæfu minnar hefur fólgist í að starfa með eða í tengslum við yngstu samborgarana síðustu 30 ár. Þessum sem við segjum á tyllidögum að eigi að erfa landið. Þessum sem við segjum að við séum að búa í haginn fyrir. Á Íslandi er löng hefð fyrir umræðu um lýðræði, við höldum því fram að lýðræðislegar áherslur einkenni samfélagið og við erum dugleg að halda fram lýðræðislegu hlutverki skólanna okkar. Þessu til áréttingar bendum við á að í lögum er tekið fram að skólar skuli stuðli að því að undirbúa börnin fyrir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Hin opinber áhersla er til staðar. Margir hafa hinsvegar velt upp hvernig skólar geti kennt lýðræði og hvort það sé yfirhöfuð hægt. Til að geta svarað því, verður fólk fyrst að skilgreina hvað það eigi við með lýðræði, í hverju felst það. Flest okkar þekkjum þessa skilgreiningu sem byggist á því að meirihlutinn ráði í skjóli þess að vera meirihluti. En þegar við hugsum aðeins dýpra, komumst við að því að svo einföld getur skilgreiningin á lýðræði ekki verið. Ef við hugsum um það þá fylgja lýðræðinu önnur gildi. Meðal þeirra má nefna hugtök, eins og virðing, þátttaka, ábyrgð og hlustun svo einhver séu nefnd.  

Hugtök sem eru ákaflega mikilvæg öllum sem starfa með yngstu borgurunum. Í raun má segja að þetta séu grunnhugtök alls starfs með börnum. Í hverju felst að virðing í starfi með börnum? Virðing fyrir skoðunum barna, virðing fyrir fjölskyldulífi þeirra, virðing fyrir tíma þeirra, rými og verkum eru á meðal þátt sem hægt er að nefna. Ég er sannfærð um að til að skólar geti sagst vinna á lýðræðisgrunni verði allt starf þeirra að vera gegnsýrt virðingu. Þess vegna getur virðing ekki verið einkamál skóla. Hún er grundvallaratriði í lífi hverrar manneskju. Það sem við viljum öll upplifa. Að virðing sé borin fyrir okkur.

Að hlusta og rökræða  

Í leikskólum verðum við að vera tilbúin til að hlusta og rökræða við börnin. Það er að segja ef við í raun ætlum að sýna þeim virðingu. Við verðum að vera tilbúin til að hafa skoðanaskipti við þau. Hvernig á barn annars að læra að ígrunda og standa með sjálfu sér, ef aldrei er rætt við það. Hvernig á barn að geta þroskað hæfileika sína til að hugsa ef við hugsum helst allt fyrir það. Ef við veljum alla kosti fyrir það.  Eða setjum þeim svo afmarkaða kosti að þeir krefjast ekki ígrundunnar

 Þjóðfundurinn 

Hvers vegna vel ég að ræða þetta hér og nú? Það er vegna þess að ég tel að hugmyndin um Þjóðfundinn sem halda á í Laugardagshöllinni þann 14. nóvember byggist á þessum sömu gildum og við viljum hafa í heiðri í starfi með börnum. Hugmyndin byggist á að til að vera  þátttakandi í endurreisn samfélagsins verði að veita þjóðinni tækifæri til að bera ábyrgð á mögulegum lausnunum. Með Þjóðfundinum fáum við tækifæri til að hugsa saman fram til nýrra hugmynda, til þess að gera upp hvað það er sem skiptir okkur öll máli. Hvaða gildi, hvernig samfélag við viljum skila áfram til barna okkar og barnabarna.  Kannski er það svo að Þjóðfundurinn er þegar upp er staðið, fyrst og fremst fyrir börnin okkar og barnabörn. Með honum fáum við tækifæri til að sýna þeim virðingu í verki. Ég vona innilega að börnin okkar fái sömu möguleika og ég fékk, til að tilheyra og til að hafa áhrif á umhverfi mitt, að gæfa mín verði líka gæfa þeirra.

 

Birt í Morgunblaðinu þann 31. október 2009  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband