31.10.2009 | 12:38
Virðing og lýðræði - þjóðfundur
Hugtök sem eru ákaflega mikilvæg öllum sem starfa með yngstu borgurunum. Í raun má segja að þetta séu grunnhugtök alls starfs með börnum. Í hverju felst að virðing í starfi með börnum? Virðing fyrir skoðunum barna, virðing fyrir fjölskyldulífi þeirra, virðing fyrir tíma þeirra, rými og verkum eru á meðal þátt sem hægt er að nefna. Ég er sannfærð um að til að skólar geti sagst vinna á lýðræðisgrunni verði allt starf þeirra að vera gegnsýrt virðingu. Þess vegna getur virðing ekki verið einkamál skóla. Hún er grundvallaratriði í lífi hverrar manneskju. Það sem við viljum öll upplifa. Að virðing sé borin fyrir okkur.
Að hlusta og rökræða
Í leikskólum verðum við að vera tilbúin til að hlusta og rökræða við börnin. Það er að segja ef við í raun ætlum að sýna þeim virðingu. Við verðum að vera tilbúin til að hafa skoðanaskipti við þau. Hvernig á barn annars að læra að ígrunda og standa með sjálfu sér, ef aldrei er rætt við það. Hvernig á barn að geta þroskað hæfileika sína til að hugsa ef við hugsum helst allt fyrir það. Ef við veljum alla kosti fyrir það. Eða setjum þeim svo afmarkaða kosti að þeir krefjast ekki ígrundunnar
Þjóðfundurinn
Hvers vegna vel ég að ræða þetta hér og nú? Það er vegna þess að ég tel að hugmyndin um Þjóðfundinn sem halda á í Laugardagshöllinni þann 14. nóvember byggist á þessum sömu gildum og við viljum hafa í heiðri í starfi með börnum. Hugmyndin byggist á að til að vera þátttakandi í endurreisn samfélagsins verði að veita þjóðinni tækifæri til að bera ábyrgð á mögulegum lausnunum. Með Þjóðfundinum fáum við tækifæri til að hugsa saman fram til nýrra hugmynda, til þess að gera upp hvað það er sem skiptir okkur öll máli. Hvaða gildi, hvernig samfélag við viljum skila áfram til barna okkar og barnabarna. Kannski er það svo að Þjóðfundurinn er þegar upp er staðið, fyrst og fremst fyrir börnin okkar og barnabörn. Með honum fáum við tækifæri til að sýna þeim virðingu í verki. Ég vona innilega að börnin okkar fái sömu möguleika og ég fékk, til að tilheyra og til að hafa áhrif á umhverfi mitt, að gæfa mín verði líka gæfa þeirra.
Birt í Morgunblaðinu þann 31. október 2009
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 13:57 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.