3.2.2009 | 02:44
Nú þarf að skipta út liði
Á frægum fundi í Þjóðleikhúskjallaranum kom fram skýr krafa um endurnýjun í forystusveit Samfylkingarinnar. Þar var þeim tilmælum beint til núverandi þingmanna flokksins að gera okkur flokksfólki, þann greiða að draga sig í hlé. Kröfuna bar upp ung kona, eftir að hún lauk máli sínu klappaði allur salurinn mikið og ákaft. Mér er sagt að þeir sem sátu nálægt þingönnum hafi séð að á þá runnu tvær grímur. Í augum flokksfólksins eru þeir samábyrgir fyrir aðgerðarleysinu, þeir voru meðvirkir og gleymdu því hlutverki sínu sem snýr að gagnrýninni umræðu og upplýsingarskyldu.
Drattast til stjórnarslita
Þrátt fyrir Samfylkingin hafi á endanum drattast til að slíta stjórnarsamstarfinu held ég að krafan standi enn. Ég segi drattast, ég var nefnilega ein þeirra sem vildi gefa flokknum og samstarfinu sjéns í haust. Fannst ekki skynsamlegt að skipta út forystusveitinni á ögurstund. Því miður brást ríkisstjórnin mér eins og mörgum öðrum. Í stað þess að við fólkið í landinu værum upplýst, fengum við upplýsingar erlendis frá. Það var óþægileg myndin sem við höfum flest af gjörsamlega vanhæfu stjórnkerfi og fólki sem ekki virtist geta tekið á málum. Þegar sýnt var að ekkert var að gerast var ekki annað hægt en að slíta þessu lánlausa sambandi.
Enn eru að berast upplýsingar um svínaríið sem viðgengist hefur hér á landi. Í okkar nafni og á okkar ábyrgð, án þess að við vissum.
Endurnýjun
Nú fáum við tækifæri til að endurnýja forystufólkið. Á listum Samfylkingarinnar í vor vil ég sjá ný andlit, ekki bara ungt fólk, heldur fólk á öllum aldri. Ég vil lista sem endurspegla samfélagið okkar. Mér hefur stundum fundist gæta hroka gangvart menntun þeirra sem á Alþingi eru og eru í ráðherraembættum. Ég get því miður ekki sagt að mér finnist það hafa skipt máli að hafa haft lögfræðinga og hagfræðing í forsætisráðuneytinu, sýnist þeir ekkert hafa staðið sig betur en dýralæknirinn í fjármálaráðuneytinu. Ég vara við þessari oftrú á menntun. Menntun er góð en eðlisgreind og reynsla eru líka mikils virði.
Prófkjör
Ég vil fá prófkjör með ströngum reglum um auglýsingar og kostnað. Þannig að lýðræðislega verði öllum gert kleift að taka þátt. Að jafnvel þó fólk hafi ekki sterka hópa á bak við sig hafi það möguleika til að koma sér á framfæri. Þannig held ég að lýðræðinu verði best borgið. Ég hef áður sagt og segi enn að ef fólk verði síðan uppvíst að því að fara á svig við þær ströngu reglur sem setja á, á miskunnarlaust að henda því af lista. Því á hinu nýja Íslandi viljum við að siðbótin verði raunveruleg og nái inn í innstu kjarna allra flokka.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heyr, heyr ég er sammála þér.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 3.2.2009 kl. 02:50
Þurfum endurnýjun.
Jón Halldór Guðmundsson, 3.2.2009 kl. 08:48
Sammála. Þetta fólk á að biðjast afsökunar og fara frá - þau mega áfram vera í flokknum og hjálpa til en eiga að halda sig frá framboðslistum og embættum.
En ef þau er svo vitlaus að bjóða sig fram þá verður tekið á móti þeim með viðeigandi hætti.
Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 11:03
Ef eitthvað er þá ertu of lin gagnvart flokknum þínum, Kristín. Krafan um lýðræðislegt prófkjör verður að vera sterk og almennir flokksmenn verða að bindast samtökum um að bera hana fram við forystuna.
Af því þú ert svo dugleg á fésbókinni legg ég til að þú sammælist með jábræðrum og -systrum í að stofna fésbókarklúbb um átak á þessu sviði. Í alvöru. Lýðræði og siðbót.
Friðrik Þór Guðmundsson, 3.2.2009 kl. 13:39
En Friðrik; hvað er svona lýðræðislegt við galopin prófkjör?
Mér hefur sýnst þau henta best þeim sem hafa aðgang að félagaskrám heilu íþróttafélögunum eða hafa heilu bæjarfélögin á bak við sig (sbr. Vestmannaeyingana og Siglfirðingana). Einnig þeim sem eru af efnafólki, eru ríkir að öðrum ástæðum eða eiga auðvelt með að afla fjár hjá efnamönnum. Er það þannig fólk sem við viljum fá til valda?
Þú veist það kannski Friðrik að prófkjörin fyrir síðustu alþingiskosningar voru að kosta þátttakendur (þá sem hafa gefið út reikninga, en það eru alls ekki allir, hvað þá að menn hafi verið tilbúnir að tilgreina hverjir styrktu þá) frá einni og upp í margar milljónir króna. Ég sé bara ekkert lýðræðislegt við prófkjör sem ganga þannig fyrir sig.
Mér finnst það heldur ekki lýðræðislegt að fólk sem ekki ætlar sér að kjósa einhvern flokk geti komist upp með að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við flokk, taka þátt í að velja frambjóðendur hans og fara svo um vorið og kjósa einhvern allt annan flokk. Í sumum tilfellum hafa menn ekki einu sinni þurft að skrifa undir slíka yfirlýsingu.
Það er allt annað og miklu lýðræðislegra að fólk geti raðað á lista flokks um leið og það merkir við hann í kjörklefanum. Ég vona að einhver slík regla verði niðurstaðan og gildi í næstu kosningum.
Ingibjörg Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 15:33
"...hvað er svona lýðræðislegt við galopin prófkjör?"
Ég spyr á móti: Hvað er svona lýðræðislegt við uppstillingu eða of lokuð prófkjör? Ég viðurkenni fúslega að það eru gallar við galopin prófkjör og er ekki endilega að boða þau. Vitaskuld væri best að röðun á lista geti farið sem mest fram á kosningunum sjálfum með persónukjöri (en um það var ég ekki að fjalla).
Hvað fjárútlát varðar er það vissulega sumum auðveldara en öðrum að kynna sig. En um það má smíða reglur og eins hitt; agítera fyrir því að of mikil fjárútlát séu talin það neikvæð að það eigi að fæla atkvæði frá. Enda á peningaaustur ekki að ráða því hvernig fólk kýs í prófkjöri heldur málefnin. Þú sem Samfylkingarmanneskja ert þannig áreiðanlega á varðbergi gagnvart auðmönnum sem ausa fé í prófkjöri, ekki satt?
Að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu ætti að vera nóg. Það er ekki hægt að miða við að menn efni ekki slíkt "loforð". Að leyfa fólki að taka þátt í prófkjöri gegn slíkri yfirlýsingu er líklegra til að "festa" það fólk en hitt að meina því þátttöku. "Gróðinn" er því að mínu mati vel umfram "tapið", fyrir utan að vera lýðræðislegra.
Aftur á móti er lágmark að hafa prófkjör sem bundið er við flokksfélaga - verst af öllu er að hafa uppstillingarnefnd. Ég geri ekki ráð fyrir því að þú sért að boða slíkt.
Friðrik Þór Guðmundsson, 4.2.2009 kl. 17:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.