17.12.2008 | 02:35
Að vera með athyglisbrest er að vera víðhugull
Vinkona mín hélt erindi í haust á vegum menntavísindasviðs HÍ. Þar kynnti hún nýtt hugtak sem hún hefur hugsað mikið um. Vinkona mín Arna Valsdóttir er myndlistarkona með víðan bakgrunn í listum, hún er líka kennari og móðir. Hún hefur mikið pælt í hvað felist í að vera skapandi að vera fær um skapandi hugsun. Í gærkvöldi vorum við að ræða þetta hugðarefni og ég spurði um fyrirlesturinn hennar í haust. Hún sagði mér að í anda þess að horfa á styrkleika okkar allra sé hugtakið ahyglisbrestur eitur í hennar beinum, með því er einblínt á neikvæðar hliðar einstaklingsins. Hún vill að við tölum um víðhygli, að viðkomandi hafi hæfileika til að tengja saman gríðarlega ólíkar hugmyndir, haft margt undir í einu. Við ræðum aldrei um að þá sem ekki búa yfir víðhygli sem þröngsýna, við segjum þá hafa góða einbeitingu. Ég er búin að hugsa heilmikið um þetta samtal okkar og ég held að ef okkur tekst að breyta því hvernig við horfum á athyglisbrest, ef okkur tekst að taka upp hugtak sem gefur til kynna jákvæðar afleiðingar að í stað þess að einblína á þær neikvæðu þá má vera að þau börn sem eru víðhugul mæti annarskonar viðmóti í skólum og samfélagi. Arna, takk fyrir þetta nýja hugtak.
Flokkur: Menntun og skóli | Facebook
Athugasemdir
Víðhygli, athyglisvert orð. Ég er haldin víðhygli, og tvö af börnunum mínum 6.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.12.2008 kl. 02:49
Og hvort líst þér betur á að vera víðhugul (eða vera haldin víðhygli) eða með athyglisbrest?
Kristín Dýrfjörð, 17.12.2008 kl. 03:02
Mér líst miklu betur á víðhyglina
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.12.2008 kl. 03:18
frábært hugtak! Ég ætla að reyna að temja mér að tala um víðhygli í stað athyglisbrests - og reyna að muna það þegar ég ræði við einstaklinga sem eru með dreifða hugsun
Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 06:58
Þetta er frábært svo ekki sé meira sagt. Nú er ég allt í einu komin með "status" á brestinn minn og öll mín börn. Þau fóru þrátt fyrir allt í háskólanám án þess að vita um "víðhygli"sína. Voru öll greind á fullorðinsárum sem og undirrituð...Held að þetta sé meira en frábært. Dæmi: Ég var spurð út í þetta í gærkvöldi og ein lýsing mín var einmitt að ég gæti hlustað á fólk tala en sé það ekki athyglivert missi ég áhugann en get samt haldið þræði svona nokkurn veginn. Takk fyrir þetta
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 07:23
Vá ég er svo sammála. Við erum hæfileikar okkar - ekki það sem við erum ekki hæf við að vera.
Ég held að fólk með ADHD komist ílla áfram vegna þess að þeir eru að reyna að standa undir því hvað aðrir vilja að þeir séu.
Ég fjalla um þetta á námskeiðum mínum að ná því besta fram með ADHD.
Takk fyrir þetta
Sigríður Jónsdóttir, 17.12.2008 kl. 09:56
Mikið er gott að það er komið fram jákvætt hugtak yfir það sem hrjáir svo marga.
Það að vera víðhugull er ágætt og jákvætt hugtak til að lýsa einu mesta meini mannkyns.
Eitt mesta mein mannkynsins er að vera ómeðvitað það að hugurinn er aðeins lítill hluti þeirrar heildar sem felst í því að vera manneskja.
Flestir halda að hugurinn sé hið eina sem knýi manneskjuna. Hugurinn er stórhættulegur þegar hann tekur völdin.
Ert þú við völd eða hugur þinn?
Greppur Torfason (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 13:10
Góðan daginn!
Mikið gleður mig að lesa þetta! Ég fékk þessa greiningu fyrir nokkrum árum og hef alla tíð síðan sagt með stolti: ég er með ADHD en þetta alíslenska orð er betra.
Takk fyrir þetta!
Sigrún sem er stolt af því að vera víðhugul
Sigrún jónsdóttir (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 14:40
Ég kalla það nú varla mein að vera víðhugull frekar en bara athugull. Fólk er bara svo ólíkt. Ég las einu sinni athyglisverða tilgátu um að menn væru mismunandi að uppruna. Sumir eru með veiðimannaeðli og aðrir eru með bændaeðli. Þeir sem voru veiðimenn höfðu ýmislegt til brunns að bera sem gerði þá að enn betri veiðimönnum. Þeir voru fljótir að bregðast við ef þeir sáu bráð og skutu án þess að íhuga málin of lengi því þá væri bráðin farin og þeir voru viðbragðssnöggir ef hættulegt dýr nálgaðis. Hinir voru bændur með eðli sem hentaði þeim og þeirra lifnaðarháttum. Þeir þurftu að vera þolinmóðir og bíða eftir uppskerunni, íhuga kostina og þannig.
Kenningin er sem sagt sú að veiðimenn passa ekki vel í bændasamfélagi því þeir hafa ekki biðlundina og myndu rífa upp kartöflugrösin og kíkja undir á hverjum degi og skemma uppskeruna. Þannig passa víhugarnir ekki inní bændasamfélag nútímans.
Bergljót B Guðmundsdóttir, 17.12.2008 kl. 15:06
Hvar væri mannkynið ef þessa víðhygli hefði nú skort ? Gott innlegg hjá þér og margar góðar athugasemdir Leonardo Da Vinci eflaust líka með víðhygli á sínum tíma ? Kolumbus ? Þeir sem lögðu upp í leit að Vínlandi, eflaust ofvirkir líka ? En nú er ráðið Rítalín frá Dr. Vítalín, kannski betra bara að spila á Mandólín og drekka bara Appelsín, Kristín.
Máni Ragnar Svansson, 17.12.2008 kl. 16:07
Góð hugmynd!
Valgerður Halldórsdóttir, 17.12.2008 kl. 20:05
Frábær hugmynd ! Framvegis ætla ég að segjast vera VÍÐHUGULL en ekki með athyglisbresti .
Brynjar Jóhannsson, 17.12.2008 kl. 20:31
Enn bý ég ekki svo vel að hafa verið "greind" með eitt eða neitt. Þó þykja mér þessar pælingar afar áhugaverðar, eins og flest er lýtur að dásamlegum völundarhúsum mannshugans.
Er hins vegar með einstaklega lágan "leiðindaþröskuld" -og því kannski haldin víðhygli, sem er þá bara hið besta mál -eða hvað ?
Hildur Helga Sigurðardóttir, 17.12.2008 kl. 21:12
Þetta er nefnilega það, sniðug hugmynd - það er meinið. Hugurinn að réttlæta ofstarfsemi sína og gefa henni sniðugt orð. Það er miklu dýpri greind í hverri manneskju en hugurinn getur nokkru sinni framkallað. Hugurinn er bara sniðugt leikfang sem, því miður, tekur oftast völdin. Þetta fyrirbrigði er líka kallað ómeðvitund.
Greppur Torfason (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 23:31
Þeir sem vilja þakka, ekki þakka mér, þakkirnar á hún Arna vinkona mín Valsdóttir sem er skapandi kona á mörgum sviðum.
Kristín Dýrfjörð, 17.12.2008 kl. 23:33
Mikið hvað ég þekki þetta... hér áður með hann son minn...
það var um leið og það var farið að skoða þetta jákvæða að allt fór á betri veg...
Bara ótrúlegt hvað allt breyttist þá ... En auðvita eigum við að fá kennara í samstarf með okkur sem foreldrum og sjá það jákvæða og nota hrósið óspart það er bara málið... Þá verður þetta allt annað líf ... Og tala ég af reynslu..
kærleikskveðja til þín og þinna Kristín mín ... frá okkur hér í Esbjerg Dóra
Dóra, 17.12.2008 kl. 23:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.