16.11.2008 | 14:34
Þegar einar dyr lokast ...
Nýlega var vinkonu minni, sérfræðingi í leikskólamálum sagt upp starfi sem leikskólarágjafi hjá borginni. Vinkona mín er reyndar með mikla reynslu í breytingastjórnun, meistaraprófsverkefnið hennar fjallaði um börn og áföll, en hún var ein þeirra sem fór vestur á Flateyri strax í kjölfar snjóflóðsins til að koma leikskólanum þar aftur af stað. Vinkona mín byggði upp leikskólakennaranám við Háskólann á Akureyri en ákvað að láta af því starfi m.a. til að gerast leikskólaráðgjafi hjá Reykjavíkurborg. Hún hefur líka verið leikskólastjóri, verkefnastjóri í breytingarferli og fengist við ótal önnur störf innan leikskólans og utan.
Eitt af því sem Reykjarvíkurlistinn gerði var að færa ýmsa þjónustu nær borgurunum m.a. með því að færa ýmis störf út í þjónustumiðstöðvar. Eitt það fyrsta sem núverandi leikskólaráð ákvað, var að snúa þeirri ákvörðun. Þau lentu hinsvegar í smávandræðum, stöðugildum leikskólaráðgjafa hafði fjölgað út í hverfum. Einungis 4 af 6 ráðgjafar fengu því störf hjá leikskólasviði. Vinkonu minni sem er reyndar líka fyrrum formaður stéttarfélags leikskólakennara var reyndar boðið að hafa umsjón með dagmæðrum, það var talið sambærileg starf við að vera faglegur ráðgjafi við leikskólastarf. Vinkona mín sem er afar metnaðarfull fyrir hönd leikskólans taldi svo ekki vera og þar fyrir utan fáránlegt að nota hennar yfirgripsmiklu sérfræðiþekkingu á þennan hátt. Hún afþakkaði því boðið pent og ákvað að láta reyna á þá lífskoðun sína að þegar einar dyr lokast, opnist aðrar.
Nýlega var auglýst útboð í rekstur nýs leikskóla í Kópavogi. Vinkona mín ákvað að sækja um. Hún ákvað að þar væri tækifæri til að byggja upp, til að láta reyna á þá aðferðafræði sem hún trúir á. En meðal þess sem hún hefur lagt stund á er nám í leikskólaráðgjöf og starfsmannaþróun í Stokkhólmi. Hún sá að þarna hefði hún tækifæri til að koma hugmyndum sínum í verk og vinna á stað þar sem fjölbreytt reynsla hennar kemur að góðum notum. Á fimmtudag samþykkti Bæjarráð Kópavogs að hún væri einmitt manneskjan sem þeir vildu að sæi um rekstur nýja leikskólans. Þar skaut hún aftur fyrir sig, Ariel ehf, Skólum ehf og Hjalla ehf sem öll sóttu um sama skóla.
Ég óska vinkonu minni, Guðrúnu Öldu Harðardóttur til hamingju með verkefnið og hlakka til að fylgjast með skólastarfinu á komandi árum. Leikskólastarf sem er rekið undir kjörorðunum, frumkvöðlar en ekki fylgjendur.
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:57 | Facebook
Athugasemdir
Það verður örugglega gaman að vinna í þessum leikskóla. Flott væri að hafa þarna líka Örnu Vals (en ég var afar ósátt þegar hún fór frá HA). Flottar konur báðar tvær.
Kær kveðja frá fyrverandi nemenda ykkar
Sóley Valdimarsdóttir, 16.11.2008 kl. 15:02
Frábært hjá Guðrúnu Öldu. Þetta verður eflaust mjög framsækinn leikskóli og spennandi að fylgjast með uppbygginunni . Verð að segja að ég er mjög leið yfir að hafa misst hana frá rvk. og fæ kjánahroll fyrir hönd yfirmanna hjá Reyijavíkurborg fyrir að hafa komið svona fram við hana.
Bergljót B Guðmundsdóttir, 16.11.2008 kl. 15:24
Frábærar fréttir. Kveðjur á báða bæi, þinn og Guðrúnar Öldu
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 21:34
Undan hverju er verið að kvarta hér? Konan fær tækifæri til að nýta menntun sína, endurnýja sjálfa sig, kynnast nýjum aðstæðum og láta reyna á lífsskoðun. Mér sýnist kúrfa hennar bara stefna upp á við.
Ragnhildur (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 11:13
já mamma er engin venjuleg kona !
Æðislegt að hún geti nú nýtt alla sína þekkingu og allar sínar frábæru hugmyndir í þessum nýja leikskóla. Mér finnst bara erfitt að vera svona laaangt í burtu og geta ekki verið með "puttana" í þessu öllu :D
En reyndar kemur hún hingað reglulega núna á meðan hún er í náminu, þá get ég kannski skipt mér smá afog lagt inn nokkrar hugmyndir...
kveðja til þín Kristín
Anna Linda Nesheim, 17.11.2008 kl. 17:10
Var einhver að kvarta? En er ekki lagi að segja frá t.d. vinnubrögðum og viðhorfum sem birtust í því "tilboði" sem hún fékk. Eins og ég sagði þá ákvað hún frekar en að láta bjóða sér starf sem er örugglega gott starf fyrir þá sem á því hafa áhuga og fyrir því metnað að leita á önnur mið. Er líka viss um að hún hafði mikinn metnað fyrir starfi leikskólaráðgjafa og sá þar mörg spennandi verkefni framundan. Verkefni þar sem hennar menntun og reynsla hefðu nýst mörgum vel. Og auðvitað veltir maður fyrir sér hvort það sé ekki missir fyrir leikskóla borgarinnar að hafa ekki ráðgjafa sem hefur einmitt sérhæft sig í börnum og áföllum á þessum síðustu tímum.
Kristín Dýrfjörð, 18.11.2008 kl. 10:35
Flottar fréttir Guðrún Alda á sannarlega eftir að gera góða hluti og verður nú ekki bara gotta að búa í Kópavogi það verður örugglega Best.
Margrét (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 12:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.