Hrekur Bónus litlu búðina úr hverfinu?

Í kvöld skrapp ég í búðina, til kaupmannsins á horninu. Það var ólga í loftinu, ég skynjaði hana um leið og ég kom inn. Það var nokkuð mannmargt í búðinni, fólk úr hverfinu mínu. Sumum var mikið niður fyrir. Það hefur nefnilega  frést að Bónus sé að flytja í næstu götu, í hús Iðnaðarmannafélagsins á Hallveigarstíg. Í búðinni frétti ég að Jói í Bónus hafi sést taka út húsnæðið, arkitekt Bónus hafi verið þar á ferð og að Bónus sé búið að segja upp húsnæðinu í Kjörgarði.  "Og hvað eigum við að gera? Geta íbúðarsamtökin ekki beitt sér? Hvað með aukna umferð og bílastæðavandræði?" Um þetta var rætt, já, fólkinu úr hverfinu var mikið niður fyrir.

Kaupmaðurinn á horninu hefur þjónað okkur dyggilega í öll þessi ár. Þar er opið frá 10-10/362, fólk er í reikning og það rabbar saman í búðinni, það rabbar við afgreiðslufólkið. Búðin okkar er litla félagsmiðstöðin í hverfinu. En getur hún lifað með Bónus í 2 mínútna fjarlægð? Ég vona það, ég mun halda áfram að versla þar og það munu margir aðrir gera. Við þurfum litlar búðir í hverfið okkar, búðir eins og kaupmanninn á horninu sem gefa lífinu í borginni lit, skapar fjölbreytileika í mannlífið. Ég fer stundum í Bónus, kaupi oft magnvörur þar, en megnið kaupum við hjá kaupmanninum á horninu.  Ég vona að okkur gefist áfram tækifæri til þess. Einn viðskiptavinurinn sagði eitthvað á þá leið að það væri næstum eins gott fyrir kaupmennina að hætta strax eins og að láta murka hægt úr sér lífið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

því miður hugsa ég að það sé ekki hægt að reka litla matvöruverslun við hliðina á Bónus. Það er ekki hægt að keppa við verð þar. Hér í hverfinu hjá mér á Teigunum lokaði matvöruverslunin á Gullteig fyrir nokkru, ég hugsa að það hafi verið samkeppnin við 10-11 verslunina í lágmúla sem er opin allan sólarhringinn sem hafi gert útslagið. Samt er 10-11 með hátt verð. Flestir verða að spara og það að versla í lágvöruverslunum eins og Bónus er liður í því.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 24.9.2008 kl. 05:50

2 Smámynd: Bjarni Baukur

Það togast á í grein Kristínar hér að ofan hagsýni og væntumþykja fyrir kaupmanninum á horninu. Hverfiskaupmaðurinn á allt gott skilið,- en sennilega mun Bónusverslun auka mikið við vöruúrval í hverfinu og svo er nú einu sinni Bónus,- með lægsta vöruverðið ! Það er stór hópur af öldruðum sem búa þarna og býst ég við að fyrir þá sé lágt vöruverð mikil búbót. Það er ókurteisi að segja: Einn viðskiptavinurinn sagði eitthvað á þá leið að það væri næstum eins gott fyrir kaupmennina að hætta strax eins og að láta murka hægt úr sér lífið.

Þetta er mikil rangfærsla á staðreyndum að segja: murka lífið úr kaupmanninum ! Ja svei Kristín, svona segir maður ekki !

Bjarni Baukur, 24.9.2008 kl. 10:09

3 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Það er ekki ókurteisi að segja að einhverjum finnist þetta.  Þetta er lýsing á upplifun, ekki staðreynd. En það er sjálfsagt rétt hjá þér að þegar að valið stendur um budduna og væntumþykjuna þá mun buddan ráð för. Sérstaklega þegar vöruverð fer hækkandi. Í Bretlandi las ég einhverstaðar að mikill samdráttur væri um þessar mundir í sölu á lífrænt ræktuðu, vegna þess að það er dýrara og fólk þarf að halda utan um budduna.  Hins vegar held ég að kaupmaðurinn minn á horninu sé ekkert sérstaklega dýr. Alla vega ekki nálægt því eins dýr og 10-11 sem er hér niður í bæ.  

Kristín Dýrfjörð, 24.9.2008 kl. 11:14

4 identicon

Þingholt er svo ofboðslega dýr búð að það er eiginlega ekki hægt að versla þar. Ég myndi fagna tilkomu Bónusverslunar. Myndi þýða að maður þyrfti ekki eilíflega að setjast upp í bíl til að afla nauðsynja.

Egill (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 12:46

5 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Ég held að það sé afstætt hvað er dýrt. Ég t.d. (og segir náttúrlega mest um mig) á það til að kaupa ýmislegt þegar ég fer í hinar ýmsu stórverslanir sem ég hef enga þörf fyrir. Hluti sem eiga jafnvel til að daga uppi í eldhússkápunum. Hins vegar kaup ég nákvæmlega það sem ég þarf, fer á tveimur jafnfljótum og það er opið fram eftir kvöldi þegar ég skrepp í Þingholt. þegar uppi er staðið er þetta þess vegna álíka fyrir mig. Vel að merkja við erum líka bara tvö í heimili, sjálfsagt hugsaði ég öðruvísi ef hér væri marga munna að metta.

Kristín Dýrfjörð, 24.9.2008 kl. 13:10

6 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

ps. þegar ég var lítill átti ég heima í Blesugrófinni, þar var kaupmaður í lítilli búð á A-götunni. Þegar ein fyrsta lágvöruverslun landsins Kaupgarður (fyrir þá sem ekki muna seldi hann í stórum einingum) opnaði á neðri hæðinni í Axis á Smiðjuveginum lagðist kaupmennska af í Blesugrófinni. Kaupgarður flutti seinna í stærra og betra húsnæði upp í Engihjalla, (minnir mig). En kaupmennska hefur aldrei náð fótfestu í Blesugrófinni eftir þetta. Ég held reyndar að það hafi verið margar ástæður þess að kaupmennska lagðist af í hverfinu, fleiri stórar verslanir nær hverfinu hafi bara verið hluti málsins. Það sama held ég að eigi við hér í Þingholtunum. Eins og ég sagði í upphafi þá er þetta líka spurning um fjölbreytileika sem ég held að við viljum flest hafa.   

Kristín Dýrfjörð, 24.9.2008 kl. 13:56

7 identicon

Ég held að það bara um tvennt að velja í þessari stöðu.  Annars vegar að búa við ástand þar sem við höfum kaupmanninn á horninu.  Hann verður með persónulega þjónustu en að sama skapi hátt verðlag.  Hins vegar eitthvað í líkingu við Bónus þar sem þjónustan er sama og engin, en vöruverð tiltölulega lágt.  Sambýli þessara tveggja verslunartegunda gengur ekki.  Annað verður að víkja.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 15:28

8 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Og vitum við þá ekki öll hvert stefnir?

Kristín Dýrfjörð, 24.9.2008 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband