15.7.2008 | 13:11
Framtíðarspá Naisbitt frá 1984 (Megatrends)
Við erum að drukkna í bókum. Ég er í skýjaveðrinu að reyna að koma skikki á fagbókasafn mitt sem hefur verið á fjórum stöðum í íbúðinni og á skrifstofunni minni fyrir norðan. Ekki nóg með það heldur er ég óforbetranlegur pappírssafnari og á ýmsa pappíra sem ég hef sankað að mér í yfir 30 ár. Núna er ég að gera tilraun til að sameina fagbækur á aðallega einn stað í íbúðinni. Til þess að þetta sé unnt erum við að færa fram og til baka allar aðrar bækur, til dæmis barnabókina Berjabít og Megatrends, framtíðarspá John Naisbitt frá 1984 sem var við hlið bók Philip Roth, The breast. Þegar ég var barn og átti að taka til, byrjaði ég alltaf í bókahillunni og stoppaði þar, systur minni til mikilla leiðinda (við áttum saman herbergi). Sé að ég er ekki alveg laus við þennan ósóma enn. Renndi mér í gegn um Naisbitt og ákvað að leyfa þeim sem nenna að lesa færslun "njóta" stikkorða úr bók hans.
En Naisbitt skilgreindi í bókinni 10 helstu meginviðfangsefni 21. aldar, hann taldi að breyting yrði frá:
Iðnvæddum samfélögum til þekkingarsamfélaga - hann segir í upphafi kaflans vera hissa á hvað margir bandaríkjamenn hafni því að samfélagið sé að breytast yfir í þekkingarsamfélag, sérstaklega þegar að hans mati það sé ekki lengur spurning um hvort og hvenær, í raun hafi þessi breyting þegar verið raunveruleiki 1982. Í vor skrifaði einn neminn minn í framhaldsnámi ritgerð um þekkingarstjórnun í leikskóla. Þekkingarstjórnun er þegar rótgróin stefna í stjórnun.
Þvingaðri tækni til hátækni/persónulegri tækni- Með iðnbyltingunni jókst þörf fólks fyrir samskipti. Naisbitt tekur sem dæmi að þegar iðnbyltinginni náði hámarki sínu í Bandaríkjunum hafi aldrei fleira verkafólk verið í stéttarfélögum. Það þurfti á því að halda að auka félagleg samskipti sín vegna þess m.a. að vinnan varð síflett vélrænni. Hann bendir á að samfara tilkonu sjónvarps hafi líka orðið til alla vega hópmeðferðaáætlanir. Með aukinni hátækni eykst þörf mannsins til að skapa sé samskiptavettvang þar sem hann getur átt í persónulegum samskiptum. Hann telur líka að við hvert nýtt skref sem við tökum til hátækni - tökum við annað skref til að auka samskipti á milli okkar en það sé ekki alltaf víst að við höldum í við tæknina. Naisbitt telur að maðurinn verði að reyna að finna jafnvægi á milli tækninnar og mannhelginnar.
Ps. hann hefur reyndar áhyggjur af því að i öllum æðibunuganginum við að mennta hátæknifólkið, gleymum við að mennta fólk til að byggja og sjá um kerfin.
Landshagkerfum - til alþjóðavæðingar- Hér fer Naisbitt yfir völlinn hann spáir því að Bandaríkjamenn eigi eftir að dragast enn meira aftur úr. Staða þeirra sem fjárhagslegt ofurveldi sé ekki bara að hrynja heldur í raun að hluta hrunið. Þjóðir eins og Singapore, Suður Kórea, Brasilía og Kína sæki á. Hann bendir á að markaðurinn eigin eftir að breytast - tekur sem dæmi af samsetningu bíla, þar sem einstakir hlutar þeirra séu eru framleiddir á mörgum stöðum og settir saman á enn öðrum stöðum. Ein helsta undirstaða virkni alþjóðahagkerfisins telur hann vera gervitungl og hraða þess sem upplýsingar geta ferðast um heiminn.
Skammtímahugsun - til langtímahugsunnar- Hér gagnrýnir Naisbitt þá áráttu bandarískra viðskiptajöfra að gera helst skammtímaáætlanir, allt til að láta næsta ársfjórðung líka betur út á pappírum (svona eins og Enron). Hann telur reyndar að þarna sé að glitta í breytingu alla vega sumir Bandaríkjamenn séu að átta sig á mikilvægi þess að gera langtímaáætlanir. Naisbitt er sérlega umhugað um áhrif skammtíma áætlana á umhverfið. Þegar fólk hugsi sífellt í stutttíma áætlunum sé það ekki að horfa á vistkerfi mannsins, það verði að breytast. Naisbitt segir versnandi lífskjör almennings megi að hluta rekja til slæmra stjórnenda í Bandaríkjunum. Hann segir að þeir reyni að þvo hendur sínar, en raunin sé að vegna þess hversu þeir eru uppteknir af skammtímagróða og magnmælanlegum breytum standi þjóðin frammi fyrir verri lífsskilyrðum.
Hann gerir svo nokkra úttekt á því sem nefnt hefur verið Law of the Situation og er kennt við Mary Parker Follett og gengur úr á að fyrirtæki geri sér grein fyrir, fyrir hvað þau standa. Sem dæmi þá sannfærði hún gluggatjaldafyrirtæki árið 1904 um að það væri fyrirtæki sem sérhæfði sig í að stjórna birtu, við það margfölduðust möguleikar þess. Naisbitt tekur hinsvegar sem dæmi af fyrirtæki sem ekki gerði sér grein fyrir þessu, bandarísku járnbrautirnar, þær hafi talið sig ódauðlegar og ekki haft vit á að skilgreina sig í ljósi breyttra samgöngu og vöruflutningahátta.
Miðstýringu til valddreifingar- Hér kemur heill kafli um gæði þess sem ég kýs að nefna nýfrjálshyggja. Þar sem ég var að klára í gær að skrifa heila ritgerð um efnið er ég ekki í skapi til að blogga um sama efni akkúrat núna. Ja nema til að segja að hann bendir á að til að ein forsenda valddreifingar séu sterk svæðabundin stjórnvöld og raunveruleg þátttaka þeirra sem búa á hverju stað. Og að orkuvandamál, verði til þess að knýja fólk til breytinga. Knýja fólk til breyttra lífshátta. (sem við sáum í gær í frétt um samdrátt í kortaviðskiptum í fyrsta sinn í fleiri ár hérlendis). (Og þetta með glókal lókal, hugmyndafræðina, sem meðal annars slow living movement er byggt á).
Naisbitt bendir á að það sé í raun í andstöðu við hugmyndafræði lýðræðis að hafa sterka leiðtoga, slíkt sé ef eitthvað er frekar merki um slæma stöðu þess, einu skiptin sem Bandaríkin hafi haft þörf fyrir sterka leiðtoga hafi verið þegar þjóðin kaus Lincoln og Roswelt annars hafi forsetar eftir á verið Æi hvað heitir ann aftur...
Stofnanahjálp til sjálfshjálpar- við berum sjálf ábyrgð á okkur og lífsháttum okkar, megrun, hlaup, líkamsræktarmyndbönd, við hættum að treyst á yfirvöld með allt, svo sem eins og skóla, einkaskólar verða algengari, heimaskólun, nágrannagæsla, samfélagsáætlanir, safnaðastarf. Fólk treystir meira á sjálfgreiningar varðandi sjúkdóma. Fleiri bækur um holla lífshætti og um mataræði sjást í hillum bókabúða er hluti af því sem Naisbitt telur til.
Fulltrúalýðræði til þáttökulýðræðis - minni þátttaka í kosningum, í starfi stjórnmálaflokka, meiri þátttaka í grasrótarsamtökum. Þeir sem verða fyrir áhrifum af tilteknum ákvörðunum verða að koma að ákvörðunarferlinu, hvort sem okkur líkar betur eða verr segir Naisbitt þá hefur hugmyndafræði þátttökulýðræðis seytlað inn í grunn gildismat okkar. Hann bendir á að þátttökulýðræði hafi gjörbreytt ásýnd sveitarstjórnamál í Bandaríkjunum þar sem kosið er um alla vega tillögur sem snerta fólk í byggðarlögum beinni kosningu. Upp úr 1970 vað sprengja í slíkum kosningum og hafa þær ekkert minnkað. En hann bendir á að áhrifin hafi náð lengra en til sveitarstjórnarmál, og á þá við til fyrirtækja. Hann spáir reyndar í kjölfarið dauða tveggja flokka kerfisins í Bandaríkjunum vegna þess að sífellt færri finna sér samastað innan þeirra (Sennilega tekur það lengri tíma en aldarfjórðung að ganga frá jafnrótrónu kerfi alla vega er það enn til staðar).
Síðan fjallar Naisbitt nokkuð ítarlega um áhrif þessara hugmyndafræði á fyrirtækin og stjórnun þeirra. hvernig starfsfólk fer að seilast til meiri áhrifa á vinnustöðum. Það eru fjórir þættir sem hann sér sem verða til þess að lýðræði á vinnustöðum eigi eftir að aukast, þeir eru; neytandinn og áhrif hans, þörfin eftir utanaðkomandi fólki í stjórnir fyrirtækja, meiri virkni hlutafjáreigenda (eins og Vilhjálms Bjarnasonar hérlendis) og sterkari lög um réttindin starfsfólks.
Síðan rekur Naisbitt hvernig byltingar verða frá grasrótinni og upp en ekki öfugt. Þar sé aflið. En líka vegna þess að tíðarandinn sé réttur, þegar fer saman persónuleg og pólitísks gildi þá er tími breytinga. Hann lokar kaflanum á að segja að nýi leiðtoginn sé sá gerir hluti mögulega ekki sá sem gefur fyrirskipanir.
Píramídastjórnun til tengslaneta.- Bandaríkjamaður setti fram kenningu Y ( kenning McGregor um mannauðstjórnun) en í Bandaríkjunum vakti hún mesta athygli í bókum og tímaritum á meðan að Japanir nýttu sér hana og fluttu aftur inn til Bandaríkjanna í formi vara sem kepptu við og sköruðu fram úr framleiðslu Bandaríkjamanna. Tengslanet gera möguleg samskipti á milli fólks þvert á á hópa, nokkuð sem píramídastjórnun getur ekki. Þess vegar eru tengslanet árangursrík samskiptatæki, styrkur þeirra flest í fljótlegri miðlun upplýsinga. Tengslanet verða til þegar fólk leitast við að breyta samfélögum, á sjötta áratugnum má rekja hreyfingar eins og friðar-, kvenfrelsis-og umhverfishreyfingar til tengslaneta. Á vinnustöðum verða áhrifin breytt stjórnunarmunstur, píramídinn lætur undan og fólk fer að hafa fleiri en einn yfirmann sem dæmi; gæðaráð og nefndir hafa eftirlit með framleiðslunni, skrifstofur víkja fyrir opnum vinnurýmum, fyrirtæki munu leita til utanaðkomandi til stjórnunar, klæðnaður verður óformlegri, fólk verður hvatt til umræðu og skoðanaskipta, allir eru hvattir til að leggja sitt að mörkum og koma með nýjar áskoranir. Síðan tekur Naisbitt dæmið af tveimur fyrirtækjum, Intel og HP. (Bæði til í dag og annað meira að segja í fréttum áðan).
Norðri til suðurs - hér ræðir Naisbitt aðallega um aukin áhrif suðurríkjanna (ekki biblíubeltis eingöngu) á efnahagslíf í Bandaríkjunum.
Annað hvort/ eða - hér ræðir hann um breytt gildismat, fólk þurfi ekki að vera annað hvort eða. Það geti hver og einn verið margt. Eitt útilokar ekki lengur annað. Hann ræðir mikið um breytta samsetningu fjölskyldna og m.a. áhrif þess á vinnumarkaðinn.
Í skilgreiningum Naisbitt á meginstraumum 21. aldar sá hann ekki fyrir svonefnt "wild card" eða jóker sem 11. september 2001 er. Hann sá ekki fyrir skiptingu heimsins á milli trúarhópa og hann hafnar því að forseti Bandaríkjanna hafi raunveruleg áhrif. Eftir að hafa lesið hrollvekjandi lýsingar á gulum ljósum Bush forseta og eftir að hafa búið í Bandaríkjunum veturinn sem innrásin var gerð í Írak veit ég ekki hversu rétt hann hefur fyrir sér. Margt annað sem fram kemur í bókinni stenst hinsvegar ágætlega tímans tönn, nú þarf ég auðvitað að verða mér úti um nýrri útgáfur og sjá hvernig heimsmynd hans hefur breyst. (og bæta þar með við enn einni tilgangslausri bókinni).
Ætli sé ekki best að snúa sér að skúringum...
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:58 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.