2.5.2008 | 20:52
Listahátíð í Reykjavík - Vísindamiðja
Leikur, listir, náttúruvísindi - góð blanda. Það fannst okkur (mér, Guðrúnu Öldu og Örnu Valsdóttur) kennurum við leikskólabrautina á Akureyri þegar við fyrir átta árum funduðum á Öngulstöðum í Eyjafirði um nýja námskrá fyrir bæði kennaradeildina og leikskólabrautina.
Eitt af því sem okkur langaði að prófa og þróa, var að tengja saman listir, náttúruvísindi og leik. Arna sem á þessum tíma kenndi listir við brautina hafði áður unnið á leikskóla. Þar komst hún að því að margt er sameiginlegt í rannsóknum barna og tilraunum og nálgun listamanna. Hún sá ótal snertifleti leikskólastarfs og lista. Bæði hugmyndafræði og leiðir. Við sem höfðum unnið með skapandi starf - skapandi hugsun í leikskólum eins lengi og við höfðum unnið í leikskólum, höfum auðvitað aldrei skilið hvernig allir sjá ekki þessi tengsl. Tengsl sem okkur finnst svo augljós.
Við kennaradeildina starfar líka prófessor í eðlisfræði, Axel Björnsson og við vildum hann í lið með okkur. Ég held að ég móðgi Axel ekkert þó ég segi að í upphafi var hann tregur í taumi. En eftir miklar samræður sá hann gildi þess sem við vildum gera. Á endanum varð hann einn okkar helsti stuðningsaðili. Meðal þess sem við skoðum bæði með augum "vísindanna" og "listanna" eru fyrirbæri eins og stærðir, litir, lögun, hljóð, kraftar, rafmagn og fleira og fleira.
Í upphafi kenndum við hver í sínu lagi og nemarnir settu saman verkefni þar sem sviðin snertust. Mitt hlutverk var að halda leikskólafókus og rannsóknaraðferðum leikskólans á lofti.
Með árunum hefur samstarfið þróast og undanfarin ár hafa fjögura ára börn af leikskólanum Iðavelli á Akureyri komið upp í háskóla í eðlisfræðistofuna. Nemarnir hafa þá verið búnir að undirbúa ýmsar tilraunir sem þeir hafa áður gert með Axel og framkvæma þær með börnunum.
Enn lengra gengum við þegar nemarnir skipulögðu opið hús fyrir ákveðna leikskóla á Akureyri þar sem börn og starfsfólk fengu tækifæri til að takast á við fjölbreyttar tilraunir. Í vetur fórum við þá leið að verkefnin og hluti af kennslunni fóru alfarið fram á Iðavelli. Bæði á yngri og eldri deildum.
Frá upphafi höfum við lagt áherslu á að nemarnir geri uppeldisfræðilega skráningu á ferlinu, haldi ferlibók og skili skýrslum sem eru byggðar á framkvæmd og fræðum. Fræðilegi þátturinn er bæði uppeldisfræðilegur og raunvísindalegur, en nemarnir tengja verkefni sín líka starfi og hugmyndafræði listamanna (Ólafur Elíasson og Leonardo daVinci eru báðir vinsælir). Undafarin ár hafa nemarnir skilað öllum verkum til mín í formi heimasíðna. Nú stendur líka til að stækka áfangann um eina einingu og tengja við fleiri þætti. Aðallega er ætlunin að huga betur að notkun ýmiskonar tölvubúnaðar en líka styrkja ýmislegt sem fyrir er.
Þessi tilraun sem á upphaf sitt að rekja til Öngulstaða fékk strax nafnið vísindasmiðja. Síðan hafa liðið mörg ár og við kennt námskeiðið undir þessu nafni. Myndir geta áhugasamir litið hér til hliðar undir myndaalbúm.
Í dag flétti ég í gegn um dagskrá listahátíðar og hvað sé ég, í Listasafni Reykjavíkur verður boðið upp á VÍSINDASMIÐJU fyrir börn. Ég gladdist í hjarta mín, hugtakið okkar frá Öngulstöðum hefur náð inn í samfélagið.
Læt hér fylgja með sem skrá, fyrirlestur sem ég flutti um vísindasmiðju á málþingi KHÍ fyrir nokkrum árum.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 23:58 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.