Lasin að flytja fyrirlestur - og skemmtilegar minningar

þá er dagur að kveldi kominn, ég búin að flytja minn fyrirlestur og hlusta á ýmsa aðra mjög svo áhugaverða. Í morgun vaknaði ég með hita og kvef, en ætli það sé með okkur fyrirlesara eins og þá leikara sem ég fetaði í fótspor að; the show must go on. Ráðstefnan fór nefnilega fram í Borgarleikhúsinu og ég fékk að stíga á stóra sviðið. Rástefnan var aðallega á vegum Leikskólasviðs Reykjavíkuren í samstarfi við RannUng, Rannsóknarstofnun í menntunarfræðum ungra barna. Það var því við hæfi að umgjörðin var borgarinnar.

Binna í Borgarleikhúsinu annaðist vel um mig og, ég fékk soðið vatn til að þamba eða dreypa á þegar hóstaköstin sóttu á mig. Við Binna erum skólasystur frá menntaskólaárum, að hennar sið voru allar veitingar ótrúlega flottar. Ég rifjaði upp fyrsta matarboðið sem ég hélt sjálf fyrir um 30 árum. Binna hjálpaði til við eldamennskuna. Við elduðum nautahakk kryddað með lauksúpu og við það bætt hrísgrjónum, þessum herlegheitum slengdum við ofan á pitsubotna sem við að sjálfsögðum bökuðum og settum tómatsósu á botninn, yfir allt skelltum við svo vænum skammti að osti. Mig minnir að þetta hafi nú bara þótt ágætt í okkar vinahóp.  Og öðruvísi pitsur fengu drengirnir mínir ekki í mörg ár. Þeim fannst þær reyndar vandræðalegar og vildu alls ekki bjóða upp á svoleiðis pitsur í afmælum.

Ég var pínu stressuð yfir heilsunni og hafði áhyggjur að því að vera ekki sá fyrirlesari sem ég venjulega er. Við þær aðstæður verð ég að viðurkenna að mér fannst ágætt að vera búin að skrifa allan fyrirlesturinn. Frá orði til orðs, heil fimm þúsund stykki. Mér tókst þetta held ég nokkur veginn skammlaust. Einn og einn sem þekkir vel til mín, söknuðu þess að ég færi ekki inn á milli meira út fyrir efnið. Það væri ég. Öðrum fannst ég vera svo ótrúlega vel skipulögð. Já, svona getur sami atburðurinn virkað mismunandi á fólk.

Sjálfri fannst mér fyrirlestrar þeirra Jóhönnu Einarsdóttur prófessors við KHÍ og Önnu Magneu Hreinsdóttur, doktorsnema og leikskólafulltrúa í Garðabæ áhugaverðastir. Mér fannst ýmislegt sláandi sem þar kom fram, um viðhorf barna til leikskólans. Atriði sem mér finnst okkur leikskólakennurum bera skylda til að ræða betur, kryfja og leita nýrra leiða. Í fyrirlestrum þeirra gáfu þær röddum barna hljóm um viðhorf þeirra og líðan í leikskólanum. Börn eru nösk á þau viðhorf sem þau finna gangvart sér, þau eru nösk á okkur sem kennara og þær væntingar sem þau gera til okkar, annarra barna og umhverfisins. Það er líka ljóst að ákveðin viðfangsefni eiga hug þeirra meira en önnur. Ég hlakka mjög til að lesa doktorsritgerð Önnu Magneu og vona að hún hristi svolítið upp í okkur. Umboðsmaður barna Margrét María Sigurðardóttir var ráðstefnustjóri og tókst það vel. Hún bað okkur öll sem í pontu komum að rifja upp skemmtilegar æskuminningar. Flest tengdum við þær leik, frelsi og því að geta átt stund og stað fyrir okkur. Sjálfsagt hafa ráðstefnugestir flestir farið að rifja upp eigin æsku. Rifja upp það sem skipti þá máli.

Eftir að hafa lagst á mitt græna eyra og sofnað í klukkutíma ákvað ég að ég væri nógu heilsuhraust til að fara út að borða með aðstandendum ráðastefnunnar og fyrirlesurum. Við áttum ánægjulega kvöldstund þar sem margt var krufið og skemmtilegar sögur sagðar.

Að lokum þakka ég Leikskólasviði Reykjavíkur og samstarfsaðila RannUng fyrir að standa fyrir ráðstefnunni og auðvitað sérstaklega fyrir að bjóð mér að tala.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband