12.4.2008 | 20:44
ReMída: Skapandi efnisveita - starf í anda sjálfbærar þróunar
Það eru tvær vikur síðan við opnuðum á skráningar á ReMída ráðstefnuna og þegar eru sumar smiðjur að fyllast. Við sem stöndum að ráðstefnunni (SARE) erum mjög ánægð með skráninguna. En hámarksfjöldi eru 250 þátttakendur. Við teljum að ráðstefna sem þessi höfði til mjög víðs hóps starfsfólk, leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og allra annarra sem hafa áhuga á skapandi starfi og endurnýjanlegum efnivið. Hún er hæfileg blanda fyrirlestra og smiðja. Og smiðjunum er gefin góður tími.
Í smiðjum taka saman höndum leikskólakennarar og listamenn og vinna skapandi með efnivið sem annars fer oftast forgörðum. Ég tel þetta vera einstakt tækifæri til að kynnast fjölbreyttum vinnubrögðum og hugmyndum. Tækifæri til að nota m.a. ýmis verkfæri sem margir eru stressaðir yfir. Ég verð líka að viðurkenna að mér finnst leiðinlegt að geta ekki tekið þátt í smiðjum vegna þess að ég held utan um eina sjálf. Hefði viljað fara á þær flestar, en kannski næst ef við gerum eitthvað þessu líkt aftur.
Þar sem ég verð líklega að mestu utan þjónustusvæðis tölvunnar næstu viku ákvað ég að nota tækifærið og láta upplýsingar um ráðstefnuna standa efst á blogginu mínu.
ReMida skapandi efnisveita
Ráðstefna á vegum SARE haldin í
Kennaraháskóla Íslands, Skriðu þann 28.maí 2008
00 09:00 | |
Mæting - afhending gagna - kaffisopi | |
09:00 09:15 | |
Setning | |
09:15 12:00 | |
Fyrirlestrar í Skriðu. | |
09:15 09:40 | |
Karen Eskesen Sögulegt yfirlit um ReMidur og Reggio Netværk, aðkomu sveitafélagsins. | |
09:45 10:45 | |
Rita Willum Hugmyndafræðin á bak við ReMidu efnisveitur. Hvað er ReMida? Afhverju að vera með ReMidu? | |
Rita og Karen munu tala á ensku | |
10:45 11:15 | |
Kaffipása | |
11:15 12:00 | |
Georg Hollander Hringur Lífsins |
SMIÐJUR EFTIR HÁDEGI
Heiti: Fótanuddtæki fæst gefins - gegn því að vera sótt!
Lýsing: Að nýta gamalt dót úr geymslunni. Þessi vinna snýst um að hafa bæði augu og eyru opin í okkar daglega lífi. Að vera tilbúin að föndra með allan þann endurnýtanlega efnivið sem berst. Bæði frá okkur sjálfum, foreldrum og fyrirtækjum. Stundum þarf bara örlitla viðleitni frá kennurum til að byrja með og allt í einu verður eitthvað skemmtilegt til hjá krökkunum úr ólíklegasta dóti.
Smiðjustjóri: Arnar Yngvarsson, leikskólakennari leikskólanum Iðavelli Akureyri.
Heiti: Hringur Lífsins
Lýsing: Unnið verður í skapandi smíðaverkefnum eftir innblástur hvers og eins. Hráefnið er náttúrulegt og manngert í bland. Undiraldan er ef til vil einhverskonar verkleg spuna-umræða um samvist náttúrunnar og hátækni, markaðshyggju og grasrótarsamfélags, neysluvara og endurvinnslu. Afraksturinn verða væntanlega einlæg og persónuleg sköpunarverk. Verk sem færa smiðnum og áhorfendum gleði og nýjar víddir á upplifun sína á tilveruna - eða bara einstakur smíðagripur.
Smiðjustjóri:George Hollanders, þúsundþjalasmiður, leikfangasmiðjan Stubbur, Öldu Eyjafjarðarsveit
Heiti: Stelpan sem át allt þar til út úr henni valt.
Lýsing: Vísindasmiðja með ívafi íslenskra ævintýra. Að byggja sögusvið, að hafa hugrekki til að leika þar, að njóta þess að skapa, skoða og skynja.
Smiðjustjóri: Kristín Dýrfjörð, lektor við Háskólann á Akureyri.
Heiti: Hvað er þetta? Hvað viltu að þetta sé?
Lýsing: Ég kom til Íslands 1989 frá Cape Town, Suður Afriku, ætlaði að vera í hálft ár, en hef verið hér siðan. Fyrstu sex árin bjó ég á Ísafirði, og flutti svo til Hafnarfjarðar. Ég útskrifast frá Háskólanum á Akureyri 2006 með B.ed í leikskólafræði. Lokaritgerð mín fjallaði um listameðferð og sköpun í leikskólum. Frjáls sköpun hefur ávallt höfðað til mín og því ákvað ég að fara á námskeið í Remidu, til Danmerkur í febrúar s.l.
Ég starfa sem fagstjóri í myndlist í leikskólanum Stekkjarási í Hafnarfirði, þar sem unnið er í anda Reggio Emilia. Starfið mitt felst m.a. í því að hafa umsjón og skipuleggja myndlistarkennslu og frjálsa sköpun, í samráði við deildarstjóra og aðra kennara. Ég hef umsjón með myndlistastofum leikskólans, sé um þann efnivið sem keyptur er inn, safna endurnýtanlegum efnivið frá fyrirtækjum og foreldrum sem nýtist okkur í sköpun. Einnig má geta þess að á Stekkjarási höfum við komið okkur upp eins konar Remidu sem sum börn kalla Töfraherbergi því þar leynast ýmiskonar fjársjóðir. http://www.leikskolinn.is/stekkjaras/
Smiðjustjóri:Michelle Sonia Horne, leikskólakennari, leikskólanum Stekkjarás Hafnarfirði.
Heiti: Hringrás
Lýsing: Hugmyndavinna fyrst. Þátttakendur fá hlut sem þeir pæla í og síðan látnir útfæra hann í stærra rými. (ferlið kvikmyndað).
Smiðjustjóri: Hildigunnur Birgisdóttir myndlistamaður, Arndís Gísladóttir myndlistarmaður og starfsmaður leikskólans Sæborgar Reykjavík.
Heiti: Grænar endur
Lýsing: Skapandi endurvinnsla, flöskur, greinar,vírar, við og þið.
Smiðjustjóri: Halla Dögg Önnudóttir og Edda Ýr Garðarsdóttir myndlistamenn, leikskólanum Sæborg Reykjavík.
Heiti: Endurreisn hlutanna
Lýsing: Að stökkbreyta hlutum. Hlutir verða endurunnir, endurbættir, endurmetnir og endurreistir
Smiðjustjóri: Ilmur María Stefánsdóttir, myndlistamaður.
Heiti: Drasl og Drama
Lýsing: Samskipti hlutanna skoðað, unnið í nokkrum hópum. Ferlið verður kvikmyndað.
Smiðjustjórar: Steingrímur Eyfjörð og Daði Guðbjörnsson, myndlistamenn
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 20:46 | Facebook
Athugasemdir
Sæl og blessuð !
Það er mikil tilhlökkun í mér -
Ég óska þér/ykkur sem haldið utan um ráðstefnuna innilega til hamingju með hana.
Ég ákvað að hafa skipulagsdag í leikskólanum þennan dag til að allir starfsmennirnir hefðu tök á að upplifa ReMidu/efnisveitu á sinn hátt. Við erum komin með ,vísir, af ReMidu í leikskólanum og hlökkum mikið til að taka hana í noktun, eftir ráðstefnuna.
Enn og aftur til hamingju - sjáumst og GLEÐILEGT SUMAR (Er í bústaðnum mínum í Brekkuskógi og það snjóar, snjóar og snjóar, allt á kafi, eins og sagt er). He-he, segi samt aftur GELÐILEGT SUMAR.
Kveðja, Edda leikskólastjóri í Fögrubrekku!!!
Edda Valsdóttir (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 11:42
Takk Edda hlakka til að sjá ykkur, ég er komin til Reggio eftir langt ferðalag, sit hér á hótelinu, búin að borð með hópnum. Við verðum 24 hér frá Íslandi. Jæja best að koma sér í rúmið. Skrifa meira seinna.
ps. Hér er 16 stiga hiti seint að kveldi, enginn jólasnjór.
Kristín Dýrfjörð, 13.4.2008 kl. 21:51
Innilega til hamingju með að vera stödd í Reggio!!! Við hérna eftirsitjandi Reggioaðdáendur sendum ykkur góða strauma og hlökkum til að fá að heyra frá þessari ferð og reiknum með að það þurfi nú ekki að kreista upplýsingarnar úr ykkur
Sérstakar kveðjur til Önnu Báru að sjálfsögðu
Ásta
Ásta Kristín Svavarsdóttir (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 20:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.