9.4.2008 | 00:47
Hvort er áhugaverðara brúnkugæi eða klárir krakkar?
Einu sinni reyndi ég að selja fjölmiðlamanni á ríkissjónvarpinu þá hugmynd að mæta með myndarvélar í vísindasmiðju sem við settum upp fyrir leikskólabörn í Háskólanum á Akureyri. Sjá öll þau frábæru verkefni sem börn geta tekist á við ef þeim eru skapaðar aðstæður. Ég reyndi að draga upp fallega mynd, sýndi myndir frá sambærilegum atburðum og hvað eina. Á móti fékk ég alltaf spurninguna, "já en þú skilur að það verður að vera fréttapunktur í þessu". "Hver er fréttapunkturinn?" Ég í einfeldni minni benti á að um 15 til 17 þúsund börn séu á leikskólaaldri og að þau eigi um 30 þúsund foreldra og 60 þúsund afa og ömmur sem vildu örugglega sjá hvers börn eru megnug. Að þarna væri myndrænt efni sem kæmi sér vel á milli atriða, sérstaklega þar sem þetta var kosningarvor og fólk kannski þreytt á endalausri pólitík. Nei ekki um að ræða.
Sem betur fer eru ekki allt fjölmiðlafólk jafn einsýnt og bæði ríkisútvarpið og sjónvarpsfréttastöð á Akureyri gerðu smiðjunni góð skil. Ástæða þess að ég rifja þetta upp er Kastljós mánudagskvöldsins, þar sem við fengum að fylgjast með degi í lífi karlmanns. Þeir þættir í lífi hans sem mér fundust áhugaverðastir þ.e. hvernig hann fellir saman hlutverk sitt sem sérkennari og "líkamsræktartónlistarbrúnkugæi", hvort og hvernig annað styður hitt eða hafi haft áhrif á hann sem manneskju, var ekki til umræðu. Við fengum hinsvegar að sjá hann fara í sturtu, tannbursta sig og bera á sig brúnkukrem. Nú spyr ég eins og ég var spurð: "Hver var fréttapunkturinn í þessu?".
Hér má sjá lítið myndband sem ég gerði fyrir erlenda gesti af slíkri smiðju, börn á Iðavelli syngja undir. En í fyrra gáfu þau út disk með leikskólanum til að fjármagna kaup á hljóðkerfi fyrir hann.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 09:57 | Facebook
Athugasemdir
Góð spurning. Þessi heimsókn til brúnkugæjans var alveg ágætis afþreyingarefni, en hefur akkúrat ekkert upplýsingagildi fyrir almenning, frekar en "séð og heyrt" sem margir lesa og Samúel í gamla daga.
Ég er ekki að fordæma svona efni, en afþreyingar sjónarmið ræður kannski of miklu í efnisvali í sjónvarpi á Íslandi.
Jón Halldór Guðmundsson, 9.4.2008 kl. 10:53
Dóttir min var einmitt í hópnum sem söng inn á þennan disk, Iðavallarokk. Hún og tvær vinkonur hennar tóku Popplag í G dúr. Heimir Ingimars. á skilið mikið hrós fyrir alla þá tónlistatvinnu sem hann var með þau í. En stelpn mín og fleiri af hennar deild komu svo í heimsókn s.l. haust eftir að þau voru byrjuð í skóla og voru með vinnusmiðju fyrir norrænu ráðstefnuna sem var haldinn hérna.Mikið var ég stolt af þeim öllum.
Anna Guðný , 9.4.2008 kl. 23:26
Anna Guðný þú mátt sannarlega vera stolt, þau eru flott. Ég kom nokkuð oft í heimsókn í fyrravor og krakkarnir sungu stundum fyrir mig. Ég kom m.a. daginn eftir útgáfutónleikana og fékk einkatónleika og keypti auðvitað disk.
Jón Halldór og Halldór Björn, Það getur vel verið að brúnkugæjar séu ágætt sjónvarpsefni fyrir einhverja - en "pontið" er að það eru viðfangsefni barna líka. Fyrstu skrefin á Skjá einum ná að hluta því sem þú ert að ræða um og sannarlega á Skjár einn þakkir skilið fyrir þann þátt. Hann á eftir að vera heimild um ýmislegt í lífi yngstu barnanna þegar fram í sækir.
Kristín Dýrfjörð, 9.4.2008 kl. 23:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.