4.4.2008 | 17:27
Á leið til Reggio Emilia
Í lok næstu viku er ég að fara til borgarinnar Reggio Emilia á alþjóðlega ráðstefnu og námsferð. Í dag hitti ég ferðafélaga mína frá Reykjavíkurborg og var ásamt Guðrúnu Öldu með kynningu á ýmsum sem snýr að Reggio Emilia fyrir þá. Fjölluðum við m.a. um borgina, hvar er best að kaupa parmessan (sem er upprunninn þaðan) og á hvaða kaffihúsi vertinn er alltaf fullur. En líka um samstarf leikskólafólksins og pólitíkusana, um aðferðina sem hefur verið þróðuð þar til að gera nám barna sýnilegt. Um fjölbreytileika og þá sýn sem þar ríkir til barna og náms þeirra.
Við Guðrún Alda tókum með okkur sameiginlegt bókasafn okkar um starf í anda Reggio Emila, þetta voru nokkrir tugir bóka á ýmsum tungumálum. Sú elsta rúmlega 20 ára gömul, nýjasta útgefin 2008. Við ræddum um skipulag leikskólanna í Reggio Emilia, um fjölda starfsmanna og fyrirkomulega deildastarfs, um kaffitíma starfsfólks og um það að þar eru engir leikskólastjórar, en þar eru pedagógistur og atelíeristur. Þ.e. fólk sem hefur sérstaka þekkingu á uppeldisfræði og listum. Það vinnur mjög náið með leikskólakennurunum að því að þróa starfið og þær hugmyndir sem eru uppi hverju sinni. Skoðar og rýnir í skráningar og hvernig hægt er að nýta þær til frekari þróunar.
Í Reggioferðinni núna verða um 15 manns frá Reykjavík, flestir leikskólastjórar sem eru að vinna í anda Reggio Emilia, það verða 5 leikskólakennarar frá leikskólanum Stekkjarási í Hafnarfirði og leikskólaráðgjafi þaðan, og svo verða nokkrir kennarar við Myndlistaskóla Reykjavíkur. En Myndlistaskólinn hefur verið í heilmiklu samstarfi við Leikskólasvið Reykjavíkurborgar.
Sennilega hefur ekki stærri hópur farið héðan frá því að leikskólakennaranemar úr gamla Fóstruskólanum fóru þangað í útskriftarferðir, síðast sennilega 1987. En á þeim tíma var nokkuð auðvelt að heimsækja borgina og leikskólana. Það breyttist með auknum áhuga skólafólks allstaðar úr heiminum. Í dag heimsækja Reggio fleiri þúsund leikskólakennarar og fræðimenn á hverju ári.
Ferðin núna er sérstök fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta sinn sem Ísland fær að senda sérstakan hóp í eigin nafni, vonandi verður framhald þar á.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 17:35 | Facebook
Athugasemdir
Góða ferð til RE
Síta (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 09:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.