Eru "krullubörn" framtíðarbörn - það halda sumir Danir

Hver man ekki eftir auglýsingunni sópa, sópa, sópa, sópa, sem sýndi “landsliðið” í krullu sópa öllum hindrunum úr vegi krullunnar. Í Danmörku hafa leikskólakennarar áhyggjur að því að þetta sé  að verða aðalverkefni foreldra í uppeldinu. Sópa öllum hindrunum úr vegi barna sinna. En afleiðingin eru börn sem aldrei hafa þurft að takast á við hindranir og varla áskoranir. Börn sem ekki kunna að bregðast við ef vandamál og ágreiningur kemur upp. Þetta er meðal þess sem rætt var í dag á ótrúlega skemmtilegri ráðstefnu sem ég er á hér í Stokkhólmi ásamt Guðrúnu Öldu samkennara mínum.

Aðrar áhyggjur fram hafa komið eru að leikskólakennarar séu svo uppteknir af því að “hlusta” á börnin að það hafi leitt til að þeir “láti” börnin stjórna öllu sem þau vilja í starfinu. Við sáum dæmi þar sem slíkt hafði gerst, þar sem börnin fundu leið framhjá því að vinna að verkinu sem ákveðið hafði verið. Þetta gerðist af því að leikskólakennararnir “gleymdu” því að þeir eru samverkamenn sem bera jafnframt ábyrgð á þeim námstækifærum sem eiga að vera til staðar í leikskólanum. Okkur fannst börnin vera klár að nota hugmyndir leikskólakennarana lítillega upp á punt inn í sitt verkefni, svona til að leikskólakennurunum fyndist þeir hafa haft eitthvað að segja. Þetta er merkilegt verkefni sem leiddi okkur fram til spurninga eins og; hvað það merki að hlusta á börn, hversu langt á að ganga í lýðræðisátt og hvort það sé í raun lýðræði sem birtast í svona starfsháttum. Amalia Gambetti frá Reggio Emilia, var einstaklega dugleg að leiða hópinn í sameiginlegri ígrundun og samræðu í dag.

Fyrirkomulag ráðstefnunnar er að hvert land fær 45 mínútur til að kynna sitt verkefni og svo eru aðrar 45 mínútur í beinu framhaldi sem fara í að ræða verkefnið. Hér er enginn í því hlutverki að segja þetta er flott hjá ykkur, vá, vá. Heldur hvað voruð þið að hugsa, hvað lærðuð þið, hvað lærðuð börnin, samfélagið, foreldrarnir af verkinu, hvernig var hhugmyndafræðileg undirstaða þess. Hvaða tilgátur settu börnin fram, en þið...    

 

Á morgun fáum við Guðrún Alda tækifæri til þess að kynna okkar verkefni og fá á það gagnrýni, við bíðum spenntar. Svo erum við búin að vera að funda um mögulega sýningu frá Reggio Emilia á verkum barna og starfsfólks árið 2010. Margir muna enn eftir sýningunni sem var á Kjarvalsstöðum 1988. Hér er annars kalt og snjór og þykkar peysur hafa komið sér vel.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Talið um "krullubörnin" minnir mig nokkuð á grein sem ég las hérlendan (Kanadískan) sálfræðing.  Hann hafði starfað sem námsráðgjafi í framhaldsskóla í mörg ár.

Hann hélt því fram að hjá unglingum væru tvær mismunandi "týpur" algengastar.

Önnur væri sú sem varla væri fær um að taka nokkra ákvörðun, þar sem þeim hefði varla verið treyst til eins né neins, og þau biðu eftir því að einhver ákveddi fyrir þau, ýtti þeim af stað og svo framvegis.

Hin væri þeir unglingar sem stykkju hugsunarlítið eða laust af stað og hugsuðu lítt á áður en ákvarðanir væru teknar, fullviss um að ef eitthvað færi úrskeiðis, þá kæmi einhver fullorðinn og leysti vandamálin.

Hann tók það fram í greininni að vissulega væri um nokkra einföldun að ræða, en þessar "týpur" yrði æ algengari.

G. Tómas Gunnarsson, 29.3.2008 kl. 01:15

2 Smámynd: Ásgerður

Mikið er merkilegt að lesa þetta, hafði ekki spáð í þetta svona. En það er örugglega mikið til í þessu.

Ég lenti í því með minn son (sem er 11 ára), að það voru 6 strákar sem réðust á hann í frímínútum og héldu honum niðri, spörkuðu í andlit og höfuð og fl,,,,sem betur fer fór þetta betur en á horfðist, en skólinn hafði samband við foreldra allra drengjanna og lét vita hvað hefði gerst, og mæltist til að þeir myndu allir biðjast fyrirgefningar á þessu við strákinn minn,,og það helst yfir helgina (þetta gerðist á föstudegi).

Það hafði EITT foreldri samband við mig (hún á reyndar tvo drengi sem tóku þátt í þessu), en ekkert af hinum hefur svo mikið sem hringt til að vita hvernig drengurinn hefur það, og hvað þá látið drengina sína bera nokkra ábyrgð á því sem þeir gerðu.

Það sem ég sit uppi með núna er það að sonur minn skilur ekki af hverju hann þarf alltaf að fara og biðjast fyrirgefningar, þegar hann gerir eitthvað,,en aðrir gera það ekki við hann.

Þarna vantar eitthvað mikið upp á að börn þurfi að bera nokkra ábyrgð á neinu. En ég held nú bara áfram mínu striki og fer fram á að minn sleppi ekki svona vel,,,enda tel ég það ekki gott fyrir neinn.

Fyrirgefðu langlokuna , góða skemmtun á ráðstefnunni.

Ásgerður , 29.3.2008 kl. 09:25

3 identicon

Þetta er eitthvað sem ég kannast við úr íslenskum leikskólum. Ég verð sérstaklega var við þetta af því ég er sérkennari. Foreldrar vilja sumir að leikskólinn losi sig við "erfiðu" börnin svo þau séu ekki fyrir þeirra. Það er mun algengara í dag en bara fyrir fimm árum að börn geti ekki tekið því að tapa t.d. í spilum. Ég hef verið að kenna því um að heima hjá þeim fái þau alltaf að vinna.
Ofgnógt er eitthvað sem er að hrjá íslensk leikskólabörn í dag. Þau eiga allt of mikið að öllu og bera enga virðingu fyrir neinu. "Við kaupum bara nýtt".
Þetta er greinilega skemmtileg ráðstefna sem þú ert á, góða skemmtun og gangi ykkur vel með ykkar þátt.
Kveðja,
Fjóla

Fjóla Þorvaldsdóttir (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 10:05

4 identicon

Já þetta er merkilegt - hvaðan skildi þetta koma? - þetta að geta ekki tekist á við erfiðleika, reyna að gera gott úr öllu? Velti því fyrir mér. Að hlusta og sjá er ekki alltaf það sama og að hlusta og sjá - á hvað er hlustað og hvernig er unnið úr því sem hlustað er á, hvað sér kennarinn? hvað sér foreldrið? er það endilega það sama? hvernig tala leikskólinn og foreldrar saman? - hvað er gert með það? hvað heyrði hinn fullorðni?

Góða skemmtun áfram vona að innleggið ykkar hafi vakið upp spurningar og þið fengið gagnlega umræðu í framhaldinu -

Heyrumst á mánudaginn - búin að senda viðmiðin inn á rétta staða ættu að koma inn á síðun á mánudaginn - skilaðu kveðju til Önnu Lindu

Síta (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 18:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband