Pottarnir í fjölskyldunni, matarstand og silfrað jólatré

Jólaundirbúningur gengur nokkuð vel. Búin að kaupa jólagjafir og mat. Við Lilló fórum í garðinn í dag og gerðum fínt á leiðinu hans Sturlu og afanna beggja sem hann hvílir á milli. það var mikið af fólki í garðinum og allir spjölluðu við alla.  

Ég er enn að drepast úr þessari flensu, með verk í lungunum og þróttleysi sem því fylgir. Ég held ég neyðist til að heimsækja læknavaktina aftur og fá ný og sterkari lyf.

Við fórum í matarleiðangur og ég vona að ég hafi ekki gleymt neinu stórkostlegu. Hér verður bæði þríréttað og þrír aðalréttir. Við erum svo dyntótt fjölskylda og á jólunum finnst mér að allir eigi að fá það sem þeim finnst best. Svo hér verður naut, lamb og grænmetisréttur í aðalrétt, klassísk súpa í forrétt, frómas og risalamande í eftirrétt. Fyrir utan kaffið og konfektið.

Lilló er búinn að draga fram jólatréð sem er ættað frá Bandaríkjunum orðið rúmlega fimmtíu ára gamalt. Þetta er jólatréð sem var á hans æskuheimili, alveg silfrað og aldrei skreytt með öðru en rauðum kúlum. Það gerum við líka. Ég held að þetta sé hallærislegasta tré sem til er, en samtímis svo ótrúlega flott og margar minningar við það bundnar. Tréð er enn í upprunalega kassanum og hver grein í sínum upprunalega pappír.  Þegar ég verð búin að setja það upp, skal ég skella inn mynd af því.

Pabbi og mamma komu áðan að sækja stóra pottinn sinn. Þetta er 30 lítra potturinn, ég á einn 10 lítra en hann er of lítil fyrir stórveislur, 30 lítra potturinn kemur sér vel fyrir minni fjölskylduboðin, en  ef veislan á að vera stór þá þarf að leita í enn annað eldhús í fjölskyldunni og þá er dreginn fram 50 lítra stálpotturinn. Hef eldað nokkrum sinnum í honum síðasta árið.

Annars á ég eftir að hugsa stöffinguna í kalkúnann, þarf að gera hana á morgun. Kalkúninn er fyrir þá sem ekki borða hangikjöt í jólaboðinu hjá pabba og mömmu á jóladag. Mér skyldist á mömmu áðan að hún gerði ráð fyrir 34 í mat og svo litlu bönunum sem enn eru á brjósti. Það þurfti 30 lítra pottinn til að sjóða hangikjötið ofan í okkar öll. Sagðist vera búin að öllu nema baka partana, en okkur finnst þeir alveg ómissandi.

 

Miðað við mína eldamennsku á aðfangadag held ég að ég verði að sleppa því að fara á rand og hitta familíuna.  

 

Að lokum óska ég öllum nær og fjær gleðilegra jóla, árs og friðar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Innlit til að óska þér og þínum gleði og gæfuríkra jóla. Hafið það sem allra best um hátíðarnar. Kær kveðja úr norðrinu

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 23.12.2007 kl. 21:02

2 Smámynd: svarta

Með von um að þú sért enn við tölvuna vil ég óska þér gleðilegra jóla. Einnig var ég að velta fyrir mér hvort þú gætir aðeins reddað mér fyrir horn. 7 ára dóttir mín vill endilega fá að vita afhverju laufabrauð heitir laufabrauð. Hún er á þessum aldri að það er ekki hægt að ljúga einhverju í hana :) Og nú ætlum við þrjú, ég, stelpan og litli Mundi minn að æfa smá tónlist fyrir jólamöndluna. Foreldrar mínir koma í graut í hádeginu og við ætlum að vera með skemmtiatriði. Bóndinn er á Indlandi og við sjáum hann ekki nema í sólahring áður en hann fer til USA og svo í annan sólarhring áður en hann tekur aðra törn á Tælandi og Indlandi. Vildi að hann væri frekar sjómaður. Þeir fá betur borgað :)

svarta, 24.12.2007 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband