Hver yrkir leikskólahugmyndafræði á Ísalandi?

Þegar ég lít hingað heim á Íslands strendur og hugsa hver hefur haft viðlíka áhrif á leikskólastarf og frumkvöðlarnir sem ég minnist á í síðasta bloggi, koma fáir upp í hugann. Sennilega er það Steingrímur Arason sem stendur upp úr, jafnvel að hluta óverðskuldað. Því sannarlega voru það konur sem ruddu brautina að stofnun Sumargjafar en vikju svo til hliðar fyrir Steingrími. Áhrif á mig persónulega, auðvitað Bryndís Zoëga, ekki vegna þess að ég hafi verið barn hjá henni, ekki vegna þess að ég hafi starfað með henni, heldur fyrir okkar fyrsta fund á sandkassabrún á Vesturgöturóló þegar ég var að sleikja sautjánda árið. Að sjálfsögðu eiga Þórhildur, Ída, Gyða, Svandís og Valborg sinn sess í leikskólasögunni. En það voru fleiri sem ruddu brautina, um flestar hefur lítið verið skrifað og saga þeirra því að mestu fallið í gleymsku. Því miður. Mér finnst líka leitt að játa að ég sé engan hugmyndafræðilegan arftaka hérlendis. Með arftaka á ég nefnilega ekki bara við fólk sem gerir, heldur líka fólk sem yrkir, yrkir hugmyndafræði. Fólk sem fjallar á þann hátt um leikskólastarf og hugmyndafræði að það framkalli AHA viðbrögð hjá mér. Sem veitir mér nýja sýn á leikskólastarf, opnar áður óþekktar gáttir sem setur málefni barna á einhvern hátt í nýtt alþjóðlegt og/eða félagslegt samhengi. Einhver gæti spurt hvað um þær sem halda uppi merkjum kynjaskipts starfs, heilsuleikskóla, eða jafnvel þær sem voru frumkvöðlar í að innleiða valkerfi í íslenska leikskóla – ég verð að hryggja viðkomandi með að óumdeilanlega hafa þær konur haft gríðarmikil áhrif hérlendis en ég flokka þær ekki undir þá sem yrkja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Varð að stinga inn nefinu fyrir kvitt, kveðju og knús frá Essex

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 9.7.2007 kl. 21:57

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

knús til baka - lít á þitt blogg á eftir, knú knús

Kristín Dýrfjörð, 9.7.2007 kl. 22:34

3 identicon

Sæl Kristín.

Veit ekki hvort ég er þér sammála, en veit samt ekki nema að þetta sé rétt sem þú segir.  Svo er alltaf spurning hvort það þurfi að finna hjólið upp, má ekki bara nota það sem búið er að finna upp og reyna að gera það vel.  Kannski er ástæðan sú sem þú nefnir í blogginu sem á eftir kom, að þú sért komin langt frá vettvangnum. Kannski er ástæðan samfélagsleg. Ég hef undanfarin ár verið að hugsa um það hversu félaglegar og uppeldislegar aðstæður barna hafa breyst síðustu ár. Í dag finn ég að börnin sem ég umgengst þurfa mun meira á því að halda að fá að tala við mig, leita öryggis og hlýju hjá mér. Þau spyrja spurninga sem börn fengu svör við heima hjá sér fyrir 10 árum. Þau eru að tala fátæklegri íslensku og það vekur orðið athygli ef þau nota mörg orð um sama hlut, eins og það var nú algengt hér áður. Stundum skilja þau ekki "einfalt" mál. Orðaforða sem við kennararnir höfum notað í gegnum árin.
Menning þeirra hefur breyst mikið. Það væri gott rannsóknarefni á hvern hátt menningin breytist. Núna má segja að menning þeirra verði að mestu til í leikskólanum því þau dvelja þar mest allan vökutíma sinn. Þau upplifa veröld sem leikskólinn heldur að þeim, lítið þar fyrir utan. Þau fara mjög lítið nema með leikskólanum.
Ég hef verið svo lánsöm að mest allan minn feril hef ég unnið í skólum þar sem vel er skipað af fagfólki og gott starf farið þar fram. Það eru margir skólar að gera góða hluti, en hafa lítinn tíma til þess að gera sig þekkjanlega. Svo kunnum við það sennilega ekki almennilega, það væri ráð að kenna það í grunnmenntun kennara að markaðssetja starfið. Eins og þú nefnir þá eru til undantekningar.
Veit ekki alveg hvar við erum stödd með leikskólann, hef sterklega á tilfinningunni að miklar breytingar séu í nánd. Verður fróðlegt að sjá hvað kemur með nýrri Aðalnámskrá. Stundum hef ég miklar áhyggjur af því hveru misjöfn gæðin eru á milli skóla á þessu mikilvægasta skólastigi barnsins. Reyni svo að hrista þessar áhyggjur af mér í kjölfar kannanna þar sem foreldrar eru jafn ánægðir með leikskólann hvort sem þar eru fagmenntaðir kennarar eða ekki. 
Nú er ég komin út af sporinu og hætti hér.

Kær kveðja,
Fjóla

P.s. bölvað vesen að senda athugasemd í þessu bloggkerfi

Fjóla Þorvalds. (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 20:32

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

En ef það er rétt sem þú segir og ég efa ekki - er þá ekki enn mikilvægara að viðurkenna þó þann heim sem börnin búa við heima - ekki útiloka hann eins og leikskólanum hættir við að gera. Ég held ekki að við þurfum endilega að finna hjólið, en kannski væri ekkert slæmt fyrir okkur að skoða þau hjól og þekkja betur sem aðrir hafa fundið upp. Líta á að það sem aðrir hafa hugsað og skoða. Einhvertíma hef ég heyrt að Hollendingar séu snillingar í að taka uppfinningar og hugmyndir annarra og pakka þeim inn í neytendavænan búning - þeir finna ekki hjólið en þeir pæla í hvernig er best að nýta möguleika þess þannig að við fáum sem mest út úr því. Kannski er það, það sem við þurfum að gera.

Ég hef líka áhyggjur af langri viðveru barna - en hún er hluta til af neyð held ég (hluta hópsins sem verður að vinna langan  dag til að láta enda ná saman) og hluta til af því sem einhver nefndi við mig nýlega sem græðgisvæðingu samfélagsins. Vegna þess að við verðum að eiga allt og gera allt, verðum við að vinna og vinna og þá verða auðvitað aðrir að sjá um blessuð börnin fyrir okkur á meðan.

Ég veit ekki hverju ný Aðalnámskrá breytir - ef hún verður á þá vegu að grunnskólamiða starfið hef ég áhyggjur. Ég er t.d. algjörlega ósátt við tilskipun FL um hugtakanotkun í leikskólanum og tel hana vera lið í að draga úr stolti leikskólakennara. Ég persónulega hef ákveðið að taka ekki tillit til hennar. Vona sannarlega að aðalnámskrá verði ekki í takt við þau viðhorf sem þar koma fram.

PS. Stundum held ég að ég sé alls ekki komin nógu langt frá vettvanginum - með því á ég við að í samræðum við leikskólakennara og leikskólastjóra finnst mér stundum alltof lítið hafa breyst frá því að ég var þar við störf. Ég vildi stundum óska að vettvangurinn væri komin lengra frá mér - væri búin að keyra langt fram úr mér.

Kristín Dýrfjörð, 10.7.2007 kl. 22:22

5 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

ps. Og takk Fjóla fyrir að nenna að lesa mig og að skiptast á skoðunum við mig.

Kristín Dýrfjörð, 10.7.2007 kl. 22:23

6 identicon

Mikið rétt hjá þér við verðum að viðurkenna í meira mæli tilveru bana á heimavígstöðum og taka tillit til aðstæðna þeirra. Við erum sennilega á krossgötum hvað það varðar. Þegar ég byrjaði var starf mitt hugsað sem viðbót við það uppeldi sem fram fór heima, en í dag virðist þetta að vera að snúast við. Það er ekki bara neyslan sem veldur langri dvöl barna, það er ákveðin fyrring í gangi. Ungir foreldrar fara á hvert sjálfsstyrkingarnámskeiðið á fætur öðru þar sem þeim er sagt að "taka frá tíma fyrir sig". Svo núna er blessuðum börnunum komið í pössun hjá ömmu aðra hvora helgi. Ég átti spjall við eina vinkonu mína 5 ára um daginn þar sem hún lýsti þessu fyrirkomulagi fyrir mér. Ég spurði hvort það hefði ekki verið gaman hjá ömmu, sá fyrir mér eitthvað sem ég held að ég myndi gera ef ég væri amma. Jú, jú var svarið ég fékk að fara með ömmu í vinnuna, hún þurfti að klára eitthvað í tölvunni. Svo fórum við heim og þá þurfti amma að klára að læra í tölvunni. Og hvað gerðir þú þá? Ég lék mér að öllu gamla dótinu hennar ömmu, það er svo skemmtilegt. Pabbi og frænka áttu þetta dót þegar þau voru lítil.
Ég fór að hugsa að kannski væri ég svona amma líka ef ég væri amma í dag. Hef verið í skóla og oft í tölvunni. Bara eins gott að vera ekki orðin amma.
Það eru blikur á loft í þá átt sem þú nefnir að gera leikskólann "meiri skóla". Nú á að fara að skilgreina kennslutíma og gæslutíma. Börnin verða nemendur. Segjum við þá nemendurnir eiga að fara í hvíld, hvar er snuð nemandans, ertu búin að skipta á öllum nemendunum.  Held að við verðum að skilgreina líka hversu ung börn geta verið nemendur. Þetta er alveg ferlega ópersónulegt. Hvað með  umhyggju, hlýu og ástúð, eitthvað sem börn í dag þurfa mest á að halda. Undirstaða þess að þau læri eitthvað í leikskólanum.

Farin út í góða veðrið.

Fjóla Þorvalds (IP-tala skráð) 11.7.2007 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband