6.7.2007 | 00:29
Bakkus bróðir býr víða
Ég er búin að búa í miðborg Reykjavíkur í 25 ár, ég er allan þann tíma búin að búa í næsta nágrenni við Farsóttarhúsið í Þingholtstræti. Þar sem börnin mín upplifðu nábýli við Bakkus, en þau þurftu því miður ekkert svo langt til þess, Bakkus bróðir er nefnilega í fjölda íslenskra fjölskyldna, minni meðtalinni.
En hluti af því að ala börn upp hér í miðbænum (sem við völdum) er að kenna þeim á umhverfið, við sem hér búum kennum börnunum okkar á bíla sem ekki virða hámarkshraða, við kennum þeim að fara ekki inn hjá ókunnugum, við fræðum þau um barnaperra og við kennum þeim á það sem finnst í moldinni og í blómabeðum, þ.m.t. sprautur. Það eru meira en 20 ár síðan ég átti slíka samræðu fyrst við syni mína. En ég átti hana og við ræddum þetta fram og til baka.
Systir mín sem býr í sómakæru úthverfi taldi sig ekki á sama tíma þurfa að ræða þessi mál við sín börn - hún bjó jú í Kópavoginum - en hvar skyldu sprautir hafa fundist - nema á skólalóðinni í þessu líka fína hverfi - Þar höfðu foreldrar ekki talið á þeim tíma ástæðu til að ræða þessi mál. Þau áttu nefnilega ekki heima í miðbænum.
Ég var leikskólastjóri í 10 ár - eitt af því sem er gert í mörgum leikskólum, bæði í betri og "verri" hverfum borgarinnar er að yfirfara lóðirnar á morgnana - m.a. til að leita af sprautum og öðru sem þar á ekki heima.
Í Bretlandi hafa menn nú áhyggjur af því að hafa vafið börn svo inn í bómull að þau beri ekki kennsl á hættur í umhverfinu, kunni ekki að meta hana. Þetta leiði til hluta af þeirri áhættuhegðunar sem nú er uppi. Ég veit ekki hvort það sama eigi við um okkur en að halda það að sprautur finnist bara nálægt heimilum útgangsfólks og heimilisleysinga er hættulegt sakleysi.
Ég held að ég hafi lesið einhverstaðar að í Sviss hafi yfirvöld boðið fíklum öruggum stað til að sprauta sig á og hreinar nálar - þetta hafi dregið mjög úr þessum fylgifiskum neyslunnar og úr lifrabólgutilfellum, sem ég las áðan í Morgunblaðinu að hafi fjölgað umtalsvert á síðasta ári.
(Upphaflega bloggði ég þetta sem svar við athugsemd á blogginu "Bakkus bíll og börn fara ekki saman"
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.