7.6.2007 | 00:53
Flugvöllurinn - ?
Ég er ein þeirra sem nota flugið á milli Reykjavíkur og Akureyrar töluvert. Ég skil þess vegna rök þeirra sem vilja hafa völlinn í Reykjavík. Það hefur komið nokkrum sinnum fyrir að fljúga hefur þurft á Keflavík á sl. árum, það þýddi margra tíma ferð og ég er ekki að ýkja. Ef flugumferð verður flutt suðureftir er það lámarksskilyrði að það verði búið að byggja samgöngutækin á milli Reykjavíkur og Keflavíkur fyrirfram. Annars er hætt við að slíkt loforð gleymdist hjá fjárveitingarvaldinu. Þetta verða að vera almenningssamgöngur - því varla er vilji til að auka umferð einkabíla á Reykjanesbraut eða í gegn um þau bæjarfélög sem á leiðinni eru. Það verður líka að tryggja að flutningur þýði ekki mæting klukkutíma fyrir flug suðurfrá. Með því að blanda saman öllum gerðum að flugumferð er hætt við að flugvélar þurfi að bíða oftar á brautarenda eftir leyfi til að taka af stað eða lenda. Ef slíkt verður raunin suðurfrá þá lengist allur ferðatími og það gengur að innanlandsfluginu dauðu. Ef einhver heldur því fram að það gerist ekki þá er ekki lengra en nokkrar vikur að vél í áætlunarflugi í Rvk þurfti að bíða eftir leyfi til að taka á loft vegna innkomu einkaþotu. Þetta seinkaði áætlunarfluginu um 30 mínútur. Hvernig liti þetta úr á miklu stærri velli?
Einhvertíma var ég á fundi í Samfylkingunni hér í Reykjavík þar sem fólk taldi (í alvöru) að þeir einir væru að nota flugið sem væru á leið til útlanda. Fæst af mínu samferðafólki eru slíkir ferðalangar. Mikið er af fólki sem er að sinna allavega erindum á báðum stöðum. Reyndar hlæ ég stundum af því að á mánudagsmorgnum er meirihluti þeirra sem fara norður karlar á óræðum aldri með tölvutöskur. Það endurspeglar sennilega viðskiptalífið hversu fáar konur eru þá á ferð. Á sunnudagskvöldum ferðast ég oft með hálfri vél af börnum sem eru að koma heim eftir mömmu eða pabbahelgi. Ég hef þá orðið vitni af kostulegum samræðum barna sem eiga það eitt sameiginlegt að ferðast með umslag um hálsinn en eru orðin alvanir viðskiptavinir.
Ég bý í miðborg Reykjavíkur og verð þar af leiðandi mikið vör við flugið þekki orðið hljóðið í ákveðnum vélum, fæ í magann í hvert sinn sem þyrlurnar koma inn á afbrigðilegum tímum. Ég hef líka veitt því eftirtekt að umferð á einkaþotum hefur aukist og þær eru að verða kraftmeiri. Sennilega munu það efnafólk sem á þessar þotur standa með landsbyggðarfólki í að halda vellinum. Það er nefnilega lítið gagn í að kaupa vél sem getur verið einhverjum mínútum fljótari í för yfir úthafið ef viðkomandi þarf svo að vera stökk á Reykjanesbrautinni eða á hringtorgum í Hafnarfirði.
Ég hef ekki fullmótað mér skoðun á byggð á flugvallarsvæðinu eða hversu dýrmætt byggingarland þarna er. Kannski vegna þess að með sömu rökum er hægt að segja að það sé vitleysa að vera að reyna að halda í Elliðaárnar (sem ég ólst upp við), þetta sé fínt svæði, sprungulaust og skjólgott. Eða Öskjuhlíðin, eða Hljómskálagarðurinn eða Klambratúnið allt er þetta fyrirtaks byggingarland sem ég vil ekki að verði byggt á. Mér finnst gott þegar ég keyri niður Bústaðarveg á móti vestri að sjá út yfir sjóinn og á góðum dögum sjá jökulinn. Mér finnst gott að sjá vítt, kannski vegna þess að þegar ég lít út um stofugluggann sé ég næsta garð og næsta hús. En þegar ég fer um borgina mína sé ég svo miklu meira.
Ekki eining innan Samfylkingar um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.