"fyllibyttuhúsið"

Ég gladdist við að lesa grein í Mogganum í gær eftir pjakk úr götunni minni, hann Bolla Thoroddsen. Þar ræddi hann reynslu sína af að alast upp nánast í næsta húsi við gistiskýlið í Þingholtsstræti. Húsið sem hann og krakkarnir í hverfinu kölluðu fyllibyttuhúsið. En ekki í illsku.

Húsið í Þingholtsstræti og fólkið sem þar átti sinn næturstað var hluti af æsku þeirra og umhverfi. Sem er enn hluti af því umhverfi sem ég bý í og hef gert í tvo áratugi.  

Sonur minn upptvötaði hversu mikið öðruvísi Reykjavík hann var alin upp við þegar hann vann hjá ÍTR og þau fóru með krakkana úr úthverfunum niður í bæ - og hann sá þau börn upplifa í fyrsta sinn það sem var hluti af uppvexti hans. Hluti af því hlutskipti sem sumir búa við og við ræddum hér heima.   

Á endanum vil ég taka undir með Bolla hér höfum við aldrei orðið fyrir ónæði, því miður er staðreynd að það er fólk á götunni. Af ýmsum ástæðum sem samfélagið getur ekki alltaf ráðið við. En við getum eftir aðstæðum búið þessu fólki mannsæmandi athvarf.  Takk Bolli

 

Ps. Ræddi aðeins við son minn áðan og hann sagði, mamma það var einn galli á Farsótt (gistiheimilið gekk líka undir því nafni), þeir máttu ekki koma þar undir áhrifum en ef það var kalt þá brutu þeir smá af sér. Ég man sérstaklega eftir einum, sagði hann, algjör ljúflingur en hann gerði þetta oft. braut rúðu eða eitthvað og settist svo bara og beið eftir löggunni. Syni mínum finnst að Farsótt eigi að taka við fólki undir áhrifum.   

 

Af mbl.is 

Tækifæri íbúa við Njálsgötu

Bolli Thoroddsen skrifar um mótmæli íbúa Njálsgötu við staðsetningu heimilis fyrir heimilislausa

Bolli Thoroddsen
Bolli Thoroddsen
Bolli Thoroddsen skrifar um mótmæli íbúa Njálsgötu við staðsetningu heimilis fyrir heimilislausa: "Hér er tækifæri til að gera þjóðfélag okkar betra og líf tíu einstaklinga bærilegra."


ÍBÚAR við neðri hluta Njálsgötu safna nú undirskriftum til að mótmæla staðsetningu heimilis fyrir tíu heimilislausa við götuna. Heimili þar sem þeim verður gefið tækifæri til að eiga tryggan samastað í stað götunnar. Stað þar sem þeir, eins og við hin sem lánsamari erum, geta tekið á móti vinum og fjölskyldu, haft sín föt, sínar litlu eigur. Með öðrum orðum lifað með þeirri reisn sem mögulegt er við þeirra erfiðu aðstæður og vonandi náð sér út úr þeim m.a. með þessum stuðningi Reykjavíkurborgar og félagsmálaráðuneytis.

 

Áhyggjur íbúa við Njálsgötu

Íbúarnir hafa áhyggjur af hverfinu sínu og slíkar áhyggjur eru skiljanlegar, en ekki endilega réttmætar. Sjálfur ólst ég upp nánast við hlið gistiheimilis fyrir heimilislausa sem stendur við Þingholtsstræti. Gistiheimili fyrir þá allra verst settu í Reykjavík. Þetta hafði engin áhrif á okkar hverfi eða okkar götu. Öðru nær, við krakkarnir fengum þarna leiksvæði, lékum okkur í stórum garði hússins, sem var án girðingar. Við sáum þá sem þarna gistu þegar þeir komu á kvöldin og þegar þeir fóru til síns "heima", út á götuna aftur á morgnana. Aldrei í þau 15 ár sem ég bjó þarna varð ég var við nokkur óþægindi önnur en þau að það var sárt að sjá fólk sem hvergi átti heima. Fasteignaverð í nágrenni heimilisins við Þingholtsstræti er eitt það hæsta í Reykjavík og hverfið er mjög eftirsótt, einkum af ungu fólki.

 

Ef þetta væri faðir þinn eða bróðir?

Ég skora á þá sem nú mótmæla að setja sig í spor þessara manna og þeirra nánustu. Væri það ekki þá þeirra einlæg ósk að þeir ættu sér annan samastað en götuna? Ég skora á íbúana að styðja Reykjavíkurborg og formann velferðarráðs Jórunni Frímannsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þeirri viðleitni að skapa heimilislausum í Reykjavík mannsæmandi aðstæður.

 

Gefið heimilislausum tækifæri

Áður hafa komið upp mótmæli og ótti íbúa við hliðstæðar aðstæður í öðrum hverfum borgarinnar. Ótti sem síðan reyndist ástæðulaus og sátt ríkir í dag. Ég skora á íbúa við Njálsgötu að gefa þessum tíu karlmönnum þetta tækifæri. Nýta þetta atvik til að kenna börnum sínum mikilvægi samhjálpar í stað þess e.t.v. að hræða þau. Ég minnist þess ekki að hafa séð fréttir af því að heimilislausir áreittu börn. Reykjavíkurborg rekur fleiri heimili fyrir heimilislausa, sem hafa gefið góða raun. Það er mín einlæg skoðun að enginn í okkar þjóðfélagi eigi að vera heimilislaus. Þetta er lítið skref í þá átt. Ykkar framlag skiptir þar miklu og gefur öðrum gott fordæmi.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband