23.4.2007 | 02:03
Sagan af Zouk
Veturinn 2002 til 2003 bjuggum við hjónin í Seattle. Til að upplýsa fjölskyldu og vini um hagi okkar skrifaði ég mörg og löng bréf um líf okkar. Um fólkið sem við hittum og staðina sem við heimsóttum. Eitt bréfið fjallaði um kynni okkar af Zouk (Súk). Ég var að finna þessi bréf í tölvunni og ákvað að gefa vinum og kunningjum færi á að rifja upp söguna af Zouk en þar sem hún er í lengra lagi ætla ég að skipta henni.
Sagan af Zouk
fyrsti hluti
Hver er Zouk? Hann er tæplega fimmtugur, grannur, dökkhærður og hann gaf okkur sófann, sófann sem ég segi ykkur frá seinna. Zouk vinnur með Pétri hjá vatnsveitunni hér í Seattle, búin að gera það í mörg ár. Hann er tvígiftur, skildi við fyrri konuna fyrir fleiri árum en hægt er að muna. Vandamálið með hana var að hún var á kaf í neyslu, held að hún haldi sig bara við þetta löglega núna, þetta sem ég ekki man hvað heitir í bili. Efnið sem læknar gefa heróínsjúklingum hérna. Fyrri konan býr víst hér undir brúm sem eru algengt athvarf þeirra heimilislausu. Jæja Zouk og fyrri konan áttu saman son sem er þetta 23 -24 ára. Fyrir 12 13 árum gifti Zouk sig aftur, núverandi eiginkona (Lisa) er hjúkka sem er búin að vera með í bakinu í nokkur ár og hefur ekki getað unnið. Hún situr heima alla daga djúpt ofan í layzy boy og horfir á kristilega þætti í sjónvarpinu. Þegar Zouk kemur heim þarf hann svo að hjúkra konunni og sjá um heimilið er mér sagt.
Já, til að þið skiljið Zouk þá verðið þið að vita að hann tilheyrir einhverri kirkju hér sem ég ekki þekki, en þetta er mikið rík kirkja. Svo rík að hún er risastór og hefur keypt nærliggjandi iðnaðarlóð undir bílastæði, svo fer strætó á milli bílastæðisins og kirkjunnar. Það er víst ætíð prédikað fyrir fullu húsi. Hér er það þannig að allar kirkjur eru í samkeppni um kúnna. Þannig eru þær voða duglegar að auglýsa sig og gera allt sem hægt er til að halda í þá kúnna sem þær ná í. Lofa eilífri himnavist og mikilli blessun í þetta líf. Og svo eru kirkjurnar líka duglegar að fara fram á tíund og gott betur.
Í kirkjunni um daginn var sérstök prédikun um gildi tíundarinnar, til hvers hún væri og að hún væri guði þóknanleg, væri biblíuleg. Einhver spurði prédikarann hvernig það væri ef maður gæfi meira en tíund hvað þá? Hann var fljótur að svara og sagði að þá nyti fólk bara meiri blessunar og það hlytu nú allir að vilja. Eitt er morgunljóst að það er hægt að kaupa sér kirkjulega velþóknun, líka í lúterskunni, alla vega hérna í landinu sem allir trúa að njóti meiri guðblessunar en önnur lönd. Þar sem aðskilnaður ríkis og kirkju er algjör en hver einasti pólitíkus líkur ræðu sinni á Guð blessi Ameríku.
En snúum okkur aftur að Zouk, þegar Lisa konan hans vann fulla vinnu þá gáfu þau hjónin fimmtánund af laununum sínum, vildu náttúrulega tryggja sér góða himnavist og upplit í kirkjunni. Eftir að Lisa veiktist hafa þau af einhverri ástæðu ekki treyst sér til að gefa minna en áður, svo upp undir helmingur að launum hans Zouk sem eru ekki há, fara til kirkjunnar. Til að geta þetta verður Zouk að lifa sparlega. Í vinnunni spyr hann vinnufélaganna hvort ekki sé afgangur að nestinu þeirra. Þannig gerir Pétur alltaf ráð fyrir meira nesti en hann þarf til að aumingja Zouk svelti ekki. Í þessi 15 ár hefur hann víst aldrei mætt nestaður. Svo fer hann í stórmarkaðina og snakkar á sýnishornum. Um daginn mætti hann með dós af grænum baunum í nesti, en þegar einhver heimisleysingi betlaði, gaf hann dósina og spurði svo Pétur hvað hann væri með í nesti fyrir þá. Fötin kaupir hann víst öll í Godwill - sem er nú reyndar líka ein af mínum uppáhaldssjoppum hér í borg.
Þegar Zouk fer með börnin út að borða fer fjölskyldan í Costco (sem er svona risabónusbúð) þar er alltaf verið að gefa matarprufur að smakka. Allt sem er heima hjá Zouk hefur hann fengið gefið frá öðrum, fólkinu í söfnuðinum. Það er nefnilega synd að kaupa nýtt þegar hægt er að fá notað.
Zouk kemur víst úr svolítið brotinni fjölskyldu. Hann á þrjá bræður og er víst sá eini sem talar við þá alla. Seinast þegar við fréttum fór hann t.d. að redda bróður sínum í Kaliforníu. Bróðirinn hafði víst greinst HIV jákvæður, hann ákvað þá að selja húsið sitt og ávaxta peningana þannig að hann ætti fyrir meðferð. Auðvitað fór Zouk að hjálpa honum, mála húsið og selja. Næsta sem við fréttum þá er Zouk alveg í öngum sínum, bróðirinn kominn í fangelsi búin að vera að svindla fé út úr elskhugum sínum og jafnvel líka verið laus höndin á þá. Kom víst í ljós að hann var að deita fleiri en einn og tvo á sama tíma og það kann víst aldrei góðri lukku að stýra. Og til að kóróna allt þá hótar sá sem keypti húsið að beita dagsektum ef hann ekki tæmdi það. Svo Zouk þurfti að drífa sig niður eftir að bjarga bróður, hjálpa honum úr fangelsi og tæma húsið. Hinir bræðurnir hristu hausinn og sögðu þetta ekki koma sér við. En svona er Zouk. Jæja bróðir hans í Kaliforníu var svo þakklátur fyrir hjálpina að hann sagðist vilja launa Zouk og gaf honum um 250 þúsund til að setja inn á háskólasjóð barnanna. Nema þegar Lisa ætlaði að leysa út tékkann var þetta auðvitað gúmmítékki. Já, er þetta ekki dæmigert fyrir Zouk.
Seinna ætla ég að segja ykkur af því þegar tendapabbi hans sálfræðingurinn sparkaði í hann í jólaboðinu og fleiri sögur af Zouk
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.