15.8.2011 | 22:24
Pólitíkusar fela sig í pilsföldum embættismanna
Stundum velti ég fyrir mér hver það er sem stjórnar í alvörunni. Það er ekki alltaf augljóst. Ég hef t.d. komist að því að fólk í ráðuneytum virðist vera afar valdamikið, miklu valdameira en margur pólitíkusinn. Og ef það kýs að misnota aðstöðu sína þá er til lítils að ybba gogg fyrir þá sem fyrir verða. Ég í barnaskap mínum hélt einhvernvegin að svoleiðis Ísland myndi hverfa eftir hrunið. Ástæða þess að ég skrifa þetta núna er að ég ákvað að skoða hver sæti í samninganefnd sveitarfélaganna við leikskólakennara. Þegar ég gúgglaði (leitaði í bókinni sem á að hafa öll svörin), þá fann ég þetta.
Stjórn sambandsins skipar fimm manna kjaramálanefnd, sem er stjórn og kjarasviði til ráðgjafar í vinnumarkaðsmálum, kjarasamningagerð og við undirbúning kjarastefnu og samningsmarkmiða Sambands íslenskra sveitarfélaga. Kjaramálanefndin er skipuð tveim stjórnarmönnum og þrem sérfræðingum sveitarfélaganna í kjara- og starfsmannamálum. Auk þess sitja sérfræðingar kjarasviðs fundi nefndarinnar. Sviðsstjóri kjarasviðs stjórnar fundum nefndarinnar.
Þetta merkir á mannamáli að þeir sem öllu ráða eru embættismenn og skrifstofufólk. Pólitíkusar virðast hafa náð að þvo hendur sínar af því að bera ábyrgð á samningum og samningsmarkmiðum. Ef valdamiklir pólitíkusar eru spurðir um samningana, yppa þeir öxlum og segja, þetta er á valdi Kjarasviðs, þeir sjá um þetta. Og þetta kjarasvið virkar svolítið eins og einskinsmannsland, menntað einveldi sem er samansett af starfsfólki sambandsins og sérfræðingum sveitarfélaganna. HVAR eru þeir sem eiga að bera PÓLITÍSKA ÁBYRGÐ? Hvar eru þeirra völd og þeirra nöfn?
Hörður félagi minn birti á sínu bloggi myndir af því fólki sem er í stjórn sambandsins, hann benti réttilega á að verkfall er afar persónulegt, það er persónulegt fyrir þá sem eru tilbúnir að leggja niður störf og vera án tekna í langan tíma til að berjast fyrir tilveru sinni, það er persónulegt fyrir foreldra og börn sem ekki fá að mæta í leikskólann sinn, það er persónulegt fyrir atvinnurekendur sem verða að redda málum og redda á næstunni og síðast en ekki síst ætti það að vera persónulegt fyrir pólitíkusa. En sennilega er of langt í næstu kosningar til að það sé raunin og á meðan þeir hafa fína pilsfalda embættismanna til að fela sig í.
Ég tel það vera skyldu þeirra sem fara með völd í umboði okkar kjósenda að gera sitt besta til að semja við leikskólakennara. Hættið að fela ykkur á bak við exelskjöl embættismannanna og sjáið til þess að það verði samið. Það þarf pólitískan vilja og nú er tækifæri til að sýna að þið hafið hann.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 22:25 | Facebook
Athugasemdir
Það er frekar nýtilkomið að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga fari með umboð til að gera kjarasamninga. Fram til október á síðasta ári var sérstök launanefnd innan sambandsins sem fór með þessi mál en hún var lögð niður í fyrrahaust og umboðið fært beint til stjórnarmannanna.
Hörður Svavarsson (IP-tala skráð) 19.8.2011 kl. 21:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.