12.8.2011 | 14:16
Bros borga ekki reikninga
Hluti af því sem stundum er nefnt krísustjórnun er að draga upp mögulegar myndir þess sem getur gerst. Í þetta sinn ætla ég að leika mér aðeins með mögulegar afleiðingar þess ef kjarasamningur við leikskólakennara verður slæmur.
Eins og staðan er í dag er ljóst að leikskólinn hefur farið illa út úr hruninu. Mikið hefur dregið saman í öllum fjárveitingum, fé til afleysinga (veikinda starfsfólks) hefur verið skorið niður, símenntun sett á klaka, fé til að kaupa efnivið eins og leikföng, litir (allt efni til skapandi starfs) spil og þessháttar hefur verið skorið við nögl. Fé til matarinnkaupa staðið í stað á meðan allt hækkar. Tæki eru ekki endurnýjuð, húsum illa viðhaldið og svo mætti lengi telja. Leikskólar sameinaðir. Næstum allt sem ekki er samningsbundið hefur verið skorið í burt. Samt er leikskólanum ætlað að sinna starfi sínu eins og ekkert hafi gerst, sinna metnaðarfullu uppeldisstarfi, gera nýjar skólanámskrár, vera framsæknir, fylgjast með nýungum og svo framvegis. En er það raunhæft? Hvaða viðurkenningu fá leikskólakennarar fyrir starfi sínu og mikilvægi þess?
Leikskólakennarar fá stundum klapp frá foreldrum og falleg bros, en klapp og bros borga ekki sífellt hærri kostnað við það að halda heimili og borga af reikningum. Bros borga ekki hækkandi leikskólagjöld eða afborgun af lánum. Bros duga þá skammt.
Afleiðingin er að fjöldi leikskólakennara hefur litið í austurátt þar sem þeirra bíða betur borguð störf og lægri kostnaður við að lifa. Á Norðurlöndum eru íslenskir leikskólakennarar eftirsóttir. Á litlu svæði í kring um Osló búa minnst 30 leikskólakennarar og í þann hóp bætist nokkuð reglulega.
Hluti af vandamáli leikskólans hefur verið skortur á leikskólakennurum. Krafan hefur verið að mennta fleiri leikskólakennara. En nú er það svo að við nýliðunin er í minnsta lagi. Hreinlega vegna þess mikla fjölda sem flytur úr landi árlega.
Ef ekki verða gerðir ásættanlegir samningar við leikskólakennara nú er ég hrædd um að straumurinn í austurveg eigi eftir að vera enn stríðari. Við erum þegar eins og hriplegt kerald. Afleiðingin í íslenskum leikskólum, minni metnaður og fagmennska. Meiri starfsmannavandamál, fleira fólk sem stoppar stutt við (það svo innan leikskólans að leikskólakennarar er sú stétt sem minnst hreyfir sig og stöðugleiki ríkir).
Þetta er óskemmtileg mynd sem hræðir.
Flokkur: Menntun og skóli | Facebook
Athugasemdir
Kristín nú erum við ekki sammála um leiðir um lausnir í þjóðmálum, en við erum sammála um að efla fagmennsku í leikskólastarfi og að vel sé staðið að þessum aldurshópi.
Hér í Kópavogi ákvað nýr meirihluti það að verða eitt af sinum lykilmálum, að skerða kjör starfsmanna leikskólanna, m.a. með því að taka af að starfsmenn leikskólanna fengju hagstæðari kjör fyrir börn sín á leiksólunum. Oddviti Samfylkingarinnar Guðríður Arnardóttir kom þá fram með hótun, þar sem gefið væri í skyn að þessi hlunnindi hefði mátt túlka sem launakjör og það sem hún efaðist um að þau hefðu verið gefin upp til skatts, væri í spilunum að láta rannsaka það nánar. Hvað finnst þér um þessi vinnubrögð, samflokksaðila þíns?
Hér í Kópavogi var greitt til þeirra sem völdu þá leið að vera heima með börnum sínum. Þessar greiðslur voru lagðar af, í stað þess að skera niður í kerfinu. Þetta þýðir að skortur verður á leikskólaplássum og ekki fyrirséð hvernig þeirri þörf verður sinnt. Hvað finnst þér um þessa ráðstöfun?
Í kreppunni eru gjöld barnafjölskylnda stórhækkuð bæði hvað varðar leikskóla og vegna skóladagheimila, í stað þess að skera niður á öðrum sviðum sem var mögulegt. Hvað finnst þér um þessa ráðstöfun?
Sigurður Þorsteinsson, 13.8.2011 kl. 00:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.