6.2.2011 | 02:17
Fram á brúnina - í góðri trú
Í góðri trú. Stundum hefur fólk samþykkt og gert hluti sem annars gætu orkað tvímælis, í góðri trú. Í dag stendur leikskólakennarastéttin frammi fyrir að hafa tekið þátt í að móta breytingu á lögum um leikskóla þar sem kveðið var á um samrekstur leik- og grunnskóla.
Í góðri trú og kannski vegna þess að að Félag leikskólakennara vildi ekki standa í vegi fyrir að í litlum, fámennum sveitarfélögum hreinlega, væru skapaðar aðstæður til skólahalds sem sveitarfélögin réðu við. En með því sem virðist í pípunum núna er verið að draga leikskólastarf fram á brún hengiflugs.
Krafa um lagabreytingu - vegna fámennrar sveitarfélaga
Fyrir breytinguna var ólöglegt að leggja leikskóla undir grunnskóla eða sameina þessi tvö skólastig undir sama stjórnanda. Fram að því var hægt að sameina húsnæði en ekki stjórnunina. Í lögum um leikskóla voru mjög sterk ákvæði þess efnis að stjórnun leikskóla ætti að vera í höndum leikskólakennara og í grunnskólalögum voru sambærileg ákvæði um að stjórnun ætti að vera í höndum grunnskólakennara. Þetta ákvæði setti ýmis fámenn en að sama skapi metnaðarfull sveitarfélög í klemmu. Sveitarfélög sem vildu halda bjóða bestu mögulegu menntun fyrir börnin sín.
Lög um leikskóla og heimildarákvæðið
Fulltrúar leikskólakennara í nefnd um leikskólalög höfðu á þessu skilning og samþykktu því í góðri trú væntanlega breytingu á lögum sem heimiluðu samrekstur skóla á báðum skólastigum. Strax var tekið fram að ákvæðið væri heimildarákvæði og fyrst og fremst ætlað fámennum sveitarfélögum til að þau gætu staðið undir menntunarskyldu sinni, í greinargerð með lögunum er líka sérstaklega tekið fram að þetta eigi ekki að gera með það að markmiði að búa til fjölmenna skóla með einum stjórnenda. Það skal tekið fram að við samningu frumvarpsins var víðtækt samráð og um það nokkur sátt. En í greinagerðinni segir:
Mikilvægt er að við ákvörðun um samrekstur, hvort sem er tveggja eða fleiri leikskóla eða leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla ráði staðbundnar aðstæður og fagleg sem rekstrarleg sjónarmið enda er þessi breyting einkum hugsuð fyrir þau sveitarfélög sem m.a. vegna fámennis gætu betur hagað sínu skólahaldi, rekstrarlega og faglega, með samrekstrarformi. Með ákvæðinu er einnig verið að opna fyrir fjölbreytni, sveigjanleika og þróun í skólastarfi í þágu barna en ekki til samreksturs stórra fjölmennra skóla né heldur sameiningar marga skóla undir einum skólastjóra.
(Úr greinargerð með frumvarpi til laga um leikskóla þingskj. 321, leturbreyting mín)
Mér finnst sérstaklega mikilvægt að benda á síðustu setninguna um að sameiningar og samrekstur eigi að vera í þágu barna, en ekki til að samreka marga stóra skóla undir einum stjóra.
Í góðri trú. Lögin eru ekki gömul voru samþykkt 2008 en hafa þegar haft afleiðingar sem ekki varð séð fyrir. Í litlum sveitarfélögum gerðist það sem vænt var, skólar voru sameinaðir. Því miður verð ég að segja að flestir hafa verið sameinaðir undir stjórn grunnskólastjóranna.
Afleiðingar
Nýlega ræddi ég við leikskólakennara í sveitarfélagi þar sem slík sameining hafði átt sér stað. Leikskólastjórinn fyrrverandi er nú deildarstjóri en sér áfram um allflest sem hún sá áður um sem leikskólastjóri. Nokkur atriði höfðu þó verið sett í hendur skrifstofu skólanna (sem er auðvitað frábært) en daglega stjórnun heldur hún áfram um. Auðvitað á miklu lægri launum. Nú veit ég ekki hvernig kjarasamningum grunnskólastjóra er háttað en mér segir hugur að með því að bæta við leikskólanum hafi viðkomandi fengið ágætis launahækkun. Því má velta fyrr sér fjárhagslegum ávinningi. Í öðru sveitarfélagi sem ég heyrði af er búið að segja upp leikskólastjóranum og það á að færa leikskólann undir grunnskóla sveitarfélagsins. Leikskólakennarinn er eini starfsmaður leikskólans sem var með tilskylda menntun og vegna þess að í litlum leikskólum hafa leikskólastjórar vinnuskyldu á deild er verið að svipta börnin einu fagmanneskjunni á staðnum. Auðvitað verður við slík tækifæri að spyrja um ákvæði laganna sem kveður á um FAGLEGAN sem REKSTRARLEGAN grundvöll slíkra sameininga.
Fjölgun karlkyns leikskólastjóra - er hún raunveruleg?
Karlkyns leikskólakennari rak augun í töluverða fjölgun karlkyns stjórnenda leikskóla. Hann sem taldi sig hafa ágætis yfirsýn um karlmenn í stéttinni áttaði sig ekki alveg á þessum tölum þangað til að það rann upp fyrir honum að nú eru karlkynsskólastjóra grunnskóla taldir sem leikskólastjórar í opinberum tölum. Því leikskólinn heldur áfram að vera til sem sjálfstæð stofnun stjórnsýslulega, þetta er nefnilega ákvæði um samrekstur en ekki sameiningu. Í kjölfarið var Hagstofunni skrifað og hún beðin að greina leikskóla eftir rekstrarformi í árlegum skýrslum sínum. Í lögunum er kveðið á að um stjórnandinn þurfi að hafa kennsluréttindi á öðru skólastiginu helst báðum. En ef stöðurnar eru ekki auglýstar heldur lagðar undir grunnskólastjórana eins og raunin hefur verið víða, hafa mentaðarfullir leikskólakennarar ekki tækifæri til að láta reyna á ákvæðið.
Sjokk félagsmálaráðherra
Í gær var sagt frá í fréttum að grunnskólakennarinn og félagsmálaráðherrann og samflokksmaður minn, Guðbjartur Hannessonhonum hefði dauðbrugðið við lestur skýrslu um jafnréttismál. Með þeirri sinu sem verið er að leggja eld í er verið að vega að jafnréttismálum í landinu. Á meðal leikskólakennara hefur eftirsókn í stjórnunarstöður verið eina leið leikskólakennara til að hækka laun sín. Ef um 120 stjórnendur í Reykjavík einni missa störf sín eru það 120 tækifærum færra.
Leikritið Samráð
Menntaráð sendi út í haust tilkynningu um nefnd sem ætti að skoða faglega og rekstrarlega forsendur sameiningar. Margir leikskólastjórar lásu fyrst um þess nefnd í fjölmiðlum, það gleymdist nefnilega að senda þeim póst þegar hann var sendur á fjölmiðlana. Auðvitað starfa hjá borginni flinkir lögfræðingar og þeir væntanlega búnir að lesa lögin og greinargerðina með athygli, þeir sáu að til þess að sameiningar standist heimildarákvæðið verða þær að vera á faglegum forsendum og þess vegna var sett upp leikrit. Leikritið heitir að mér virðist SAMRÁÐ. Það var fenginn leikstjóri og svo var settur upp spuni. Nú er frumsýning og hún boðar ekki gott.
Krafa um reglugerð
Með lögum um leikskóla voru boðaðar alla vega reglugerðir m.a. um húnsæðismál, börn og rekstur. Ég sakna hinsvegar einnar reglugerðar enn, þeirrar sem ég tel að hefði átt að setja og beri að setja, reglugerð um samrekstur og forsendur samreksturs leik- og grunnskóla. Með slíkri reglugerð ætti menntamálaráðuneytið auðveldar með yfirsýn og hefði jafnvel einhverja stjórn á málum. Að rík sveitarfélög sem kunna að fara í kring um lagakróka verði gert erfiðara fyrir. Ég kalla eftir slíkri reglugerð, ekki seinna en í næstu viku.
Í reglugerð um leikskóla er kveðið á um hvað eigi að vera til staðar t.d. húsnæðislega, nú velti ég fyrir mér, hvort að með sameiningu skóla í Reykjavík undir einn stjóra og samrekstur við grunnskóla. Er þá nóg að viðkomandi þættir séu til staðar í einu húsi einingarinnar? Er þetta leið til þess að skjóta sér undan ákvæðum? Mér finnst að það verði að skoða sameiningar í þessu ljósi.
Er ekki á móti breytingum - ef þær eru faglegar
Eins og ég hef áður sagt og mun segja áfram ég er ekki á móti tiltekt og að hlutir séu skoðaðir, jafnvel að breytingar séu gerðar, ef þær eru gerðar á faglegum forsendum fyrst og fremst. En ekki að hugsanlegur sparnaður, sem ég reyndar efast um, sé fyrst og fremst látinn ráða för. Ég sem skattborgari krefst líka að sjá tölur, ekki bara um hvað það sé ódýrt að leggja niður svona eins og 120 stjórnendastöður, heldur hvað þeir sem bæta við sig hækka. Ég við sjá raunverulegar tölur. T.d. hlýtur það að krefjast fleiri funda utan vinnutíma að samhæfa skólastarf í mörgum byggingum (ef faglegur ávinningur er raunverulegt markmið), slíkt kostar peningar. Einn starfsmannafundur getur t.d. hlaupið á hundruð þúsundum í stórum skólum. Er það reiknað með?
Það er nokkuð ljóst að það er langt þar til að leikskólakennarar treysta sér í breytingar á starfsumhverfi og að gera heiðursmannasamkomulag við hið opinbera. Hugtakið í góðri trú verður nefnilega að gilda báðum megin við borðið.
Af hverju kemur mér málið við?
Ég er skattborgari í Reykjavík, ég var leikskólastjóri í Reykjavík í á tíunda ár, mér kemur málið við. En þó að þessi skrif fjalli um Reykjavík er málið ekki bundið við hana. Hins vegar hefur það verið svo í málum leikskólans að Reykjavík hefur rutt brautina, fyrir hina. Þess vegna snertir umræðan í Reykjavík alla.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 03:59 | Facebook
Athugasemdir
Frábær grein hjá þér Kristín.
Elín Erna Steinarsdóttir, 7.2.2011 kl. 17:43
Góð grein og þörf að vekja athygli á þessari lagabreytingu og afleiðingum hennar.
Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir, 8.2.2011 kl. 17:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.