Kveikjum eld, kveikjum eld,

Ég skrifaði í dag lítið sætt blogg um dag leikskólans. Svo opnaði ég fésbókina og las status eftir status hjá brúnaþungum og áhyggjufullum leikskólastjórum í Reykjavík. Þeir fengu víst bréf í dag þar sem þeim var sagt að þeim yrði að öllum líkindum, kannski sagt upp á næstunni. Svo mættu þeir að öllum líkindum, kannski, sækja um starfið sitt aftur og bæta við sig starfi kollega í næsta og þarnæsta skóla, ja fyrir utan næsta grunnskóla. Eitthvað í þá átt lásu alla vega margir stjórar bréfið.

Þung undiralda 

Það var þungi, kvíði og áhyggjur í umræðum stjóranna. Auðvitað getur verið að einstaka skóli sé óhagkvæm rekstareining bæði fjárhagslega og faglega og auðvitað má taka til allstaðar. En að senda bréf sem þetta lagðist ekki vel í þá sem fengu.  Þar er víst vísað í rannsóknir sem segja að svona breyting dragi ekki úr ánægju foreldra og ánægju með faglegt starf. Enginn virtist þó búin að fá þær rannsóknir í hendur til að geta lagt sjálfstætt mat á gögnin sem byggt er á.

Vakandi og sofandi 

Nú hef ég ekki talað við neinn þessara stjóra öðruvísi en á fésinu. En ég verð að viðurkenna að um mig fór léttur hrollur. Leikskólakennarar hafa verið vakandi og sofandi yfir velferð barna og velferð leikskólakerfisins. þeir hafa staðið einna best vörð um fjárhagsáætlanir. Fyrir nokkrum árum þegar beðið var um uppástungur um sparnaðarleiðir fundu þeir raunhæfar sparnaðarleiðir.  Þegar ég var ung og nýbyrjuð í starfi læstu sumir stjórarnir allan pappír (líka wc-pappír) og litina, inni svo við "stúlkurnar" værum nú ekki að bruðla. Vakandi og sofandi. Nýting á endurnýtanlegum efnivið hefur ávallt fylgt leikskólanum og starfsfólki hans. Það hefur verið útsjónasamt að kreista minnst 110 aura úr hverri krónu helst 120 aura.  Sennilega hafa allflestir leikskólastjórarnir verið þyngdar sinnar virði í gulli. Lengst af láglaunaðir.  

Uppsagnir 1986 

Þegar ég var nýútskrifuð árið 1986 var staða samninga leikskólakennara ömurleg. Við höfðum ekki sjálfstæðan verkfallsrétt vorum í stéttarfélögum með öðru starfsfólki á sveitarstjórnarstiginu. Við Í Reykjavík sögðum allar upp þann 30. nóvember 1986. 1. maí 1987 átti uppsögn okkar að taka gildi. Borgin rann á rassinn og samdi við okkur um; deildarstjóra, að við borguðum ekki fyrir að borða með börnum, undirbúningstíma, útiföt og fleira kom þá, man ekki hvort að föst yfirvinna á stjóranna kom líka inn. Samstaðan skilaði okkur árangri. Þegar ég las þungu áhyggjufullu orð stjóranna í dag, hugsaði ég til samstöðu stéttarinnar þá og hverju hún fékk áorkað.

Samstaða og varðstaða um leikskólann  

Ég hugsaði líka til samstöðu stéttarinnar þegar nokkrum árum seinna átti að færa okkur frá menntamálaráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins, við áttum að verða félagslegt úrræði en ekki menntastofnun, átök í þingi, átök í ríkisstjórn, við samstilltar, við á þingpöllum, við að ræða við pólitíkusa. Við aðgerðarsinnar sem fengum foreldra og samfélagið í lið með okkur. Við sem stóðum uppi með ný lög um leikskólann. Við sem í kjölfarið fengum leikskólann viðurkenndan sem fyrsta skólastig þjóðarinnar.

Saman hefur stéttin staðið í gegn um súrt og sætt, saman getur hún staðið vörð um leikskólana.

En það skal alveg viðurkennast um mig fer hrollur. Mér finnst ég vera að horfa á aðför að leikskólastarfi í landinu. Því allir eldar byrja með litlum neista og því miður virðist borgin mín og mitt fólk þar alveg tilbúið til að halda á eldspýtustokknum. 

Hjá borginni virðist uppáhaldslagið vera, Kveikjum eld, kveikjum eld. En það er vert að minna á að þeir sem kveikja eldana ná ekki alltaf að stjórna bálinu. 

Óska svo okkur öllum til hamingju með daginn í dag, dag leikskólans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessu góðu grein, Kristín.

Pétur Matthíasson (IP-tala skráð) 4.2.2011 kl. 20:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband